Áhrif rafgeislunar

Valdemar Gísli Valdemarsson rafeindavirkjameistari hélt fyrirlestur í Norræna húsinu um rafmengun á 40 ára afmæli Heilsuhringsins þann 12. maí 2018.

DSC_0391

Fyrirlesari hefur kynnt sér rannsóknir á áhrifum rafgeislunar á fólk og fénað og stundað mælingar á geislun í nærri 25 ár. Reynslan af þessu hefur ótvírætt sýnt fram á að húsasótt getur tengst rafmagni og frágangi húsa. Hinsvegar hefur reynst erfitt að setja fingurinn nákvæmlega á það hvað veldur. Það er ekki hægt að fullyrða að rafsegulsvið sem slíkt valdi húsasótt. Frekar er um að ræða samverkandi þætti rafsviðs, rafsegulsviðs, ónógra jarðbindinga og misviðkvæmni íbúa.

Undanfarin 15 ár hefur fyrirlesari gert grein fyrir nálgun sinni á námskeiðum með fagmönnum á rafiðnsviði hjá Rafiðnaðarskólanum og rafvirkjar í síauknum mæli farið að skoða þessi mál og taka þau alvarlega.

Húsasótt er oftast vanlíðan tengd tilteknu húsi eða vinnustað. Einkenni geta verið ýmiss en algengt er að heyra um þreytu, höfuðverk, magavelgju eins og kvíða, verki í vöðvum og liðum og þá er fátt upptalið. Einkenni byrja að koma fram þegar komið er í það hús sem hefur sóttina. Margir kannast við mygluvandamál og fylgja slíkum húsum oft nefrennsli, hósti og slímmyndun, hiti og beinverkir jafnvel eins og um flensu sé að ræða. Hægt er að greina mygluna með þar til gerðum búnaði og vel þekkt hvaða ráðstafanir er hægt að grípa til. Varðandi rafmengun þá horfir málið öðruvísi við. Rafmengun sést ekki, hún er lyktarlaus og bragðlaus og við höfum ekkert skilningarvit sem nemur hana. Það þarf mælitæki til. Miklar vangaveltur hafa verið um tengsl milli rafsegulsviðs og krabbameins og liggur ekki nein endanleg niðurstaða fyrir í því máli. Rannsóknir hafa sýnt tengsl milli rafsegulsviðs og hvítblæðis í börnum en aðrar rannsóknir sýna ekki slík tengsl.

Geislun frá rafmagni getur verið tvennskonar. Annarsvegar er um að ræða geislun frá spennu og er þá um að ræða rafsvið með mælieininguna Volt á metra en hinsvegar er um að ræða rafsegulsvið og þá er það geislun frá rafstraum sem hefur mælieininguna Tesla.

Sögur hafa flogið um þjóðfélagið um stórhættuleg rafsegulsvið hér og þar og tengt við ýmiskonar kvilla en oftar en ekki eru engar mælingar á bak við slíkar fullyrðingar. Það er hinsvegar ljóst að margoft hefur verið sýnt fram á betri líðan dýra og manna eftir bætt jarðsambönd og lagfæringar á rafkerfum og þá gjarnan talað um lækkun á rafsegulsviði. Það er hinsvegar ekki endilega fótur fyrir því að rafsegulsvið hafi verið vandamálið í upphafi. Málið er etv pínu flóknara. Undirritaður hefur kynnt sér margar sagnir og við skrif bókarinnar „Rafsegulsvið! Hætta eða hugarvíl?“ eru sagnir skoðaðar og rætt við þá sem hlut áttu að máli til að fá gleggri mynd á hvaða sviðstyrk var um að ræða og einnig hvaða svið.

Það eru til fjöldi dæma um merkileg fyrirbæri sem tengjast rafmagni. Laxeldisstöðin Silfurlax á Núpi í Ölfusi var á sínum tíma í basli með eldi laxaseyða. Afföll voru 60 – 80% sem var einsdæmi hér á landi. Ekki tókst að finna neina skýringu á þessum fyrirbæri en mikið var rannsakað. Orsökin var offjölgun einfrumungs sem kallast Costia og safnaðist fyrir í tálknum laxaseyðana og kæfði þau. Það merkilega var að Costia átti alls ekki að geta þrifist í vatninu sem notað var í kerin. Brynjólfur Snorrason var fengin til að skoða málið og rak hann strax augun í að jarðsamböndum var ábótavant.

Við lagfæringar á jarðskautum féllu afföllin niður í 6% á mjög skömmum tíma. Síðar gerðu Júlíus B. Kristinsson framkvæmdastjóri Silfurlax og Brynjólfur Snorrason merkilega tilraun. Stöðin var komin í þrot og engin seyði í kerjum. Þeir fengu 50 þúsund laxaseyði og dreifðu þeim jafnt í sex ker. Eftir nokkurra vikna talningu á afföllum kom glöggt í ljós að afföllin voru um 6%. Á ákveðnum tímapunkti settu þeir planka yfir hluta kerjana og á plankana settu þeir ýmiss raftæki eins og tölvur, sjónvörp og eldhústæki. Þannig fengu 3 kerjanna slík tæki yfir sig en ekki hin þrjú. Þau áttu að gefa samanburðarniðurstöðu.

Eftir að tækjunum var stungið í samband byrjuðu seyðin að drepast og innan skamms voru afföllin farin að nálgast 60%. Það var greinilegt að afföllin byrjuðu að aukast við að setja tækin í samband. Það vakti þó furðu að afföllin komu fram í öllum kerjunum, ekki bara þeim sem tækin voru yfir. Nánar má lesa um þetta mál og fleiri í bókinni Rafsegulsvið! Hætta eða hugarvíl? (frítt eintak á vital.is).

Það verður að segja að það rafkerfi sem mest er notað hér á landi 3ja fasa 400V er með þeim ósköpum gert að rafstraumur (rekstrarstraumur) getur þvælst um jarðbindingar og farið í sökkulskaut húsa, járnabindingu, ofnakerfi og blöndunartæki. Það er með ólíkindum að þetta sé gert því stór hluti rekstrarstraums fær að fljóta eftir óskilgreindum leiðum jarðbindinga. Þegar flökkustraumar fara af stað þá verða einnig til segulsvið sem hafa mun meiri dreifingu en gott þykir og geta þeir valdið háum rafsegulgildum inni á heimilum og fyrirtækjum. Myndin sýnir rafstraum sem flæðir um blöndunartæki baðkars og er straumurinn þar 1,2 Amper. Vegna jarðbindinga fylgir þessu lítil spenna og engin hætta á raflosti.

2017-07-24 18.16.52

Undirritaður hefur mælt rafsegulsvið í heimahúsum upp að 3000nT í svefnherbergjum, í rúmi og barnaherbergjum. Þá er ekki verið að mæla við upptökin heldur á þeim stöðum sem fólk dvelur eða sefur. Skynsamleg varúðarmörk rafsegulsviðs eru oftast 100nT en opinber viðmiðunarmörk eru 100.000 nT. Tengsl við barnahvítblæði hefur komið fram við sviðstyrk ofan við 200nT og rafsegulsvið að styrkleika 600nT truflar virkni melatonins gagnvart krabbameinsmyndun. Það hefur verið rannsakað í háskólum gagnvart brjóstakrabbameinsgeninu MCF7 og rannsóknin endurtekin amk 7 sinnum með sömu niðurstöðu. Í einni rannsókn var sýnt fram á að virkni melatonins byrjaði að skerðast við 200nT. Þessum rannsóknum var einnig beint að virkni lyfsins Tamoxifens og voru sömu niðurstöður þar. MCF7 genið er tengt brjóstakrabbameini.

hús

Það eru margir sem vilja njóta vafans gagnvart rafsegulsviði og öðrum mögulega heilsuspillandi þáttum. Það má bæta því við hér að tengsl hafa fundist milli krabbameins og neyslu á rauðu kjöti, áfengisneyslu og tóbaksneyslu svo eitthvað sé nefnt og þegar heilbrigðisyfirvöld áhættumeta þessa þætti þá hafa þau litlar áhyggjur af rafsegulsviði. Það er hinsvegar oft á tíðum frekar lítið mál að minnka rafsegulsvið inn í íbúðum og húsum verulega og ætti að mati undirritaðs að fela þær lausnir í hönnun húsa. Myndin sýnir skjáskot út glæru fyrirlesturs. Þarna er hús sem er tengt við rafveitu í annan endann og hitaveitu í hinn endann. Flökkustraumur þvælist frá rafmagnsinntaki og út í hitaveiturör og veldur sterku sviði innan dyra. Þetta mætti laga með ráðstöfunum og sú sem reynist flestum vel er uppsetning á svokölluðum Straumbeinir sem Rafal ehf framleiðir. Þetta er einstakt tæki og getur stöðvað flökkustrauma um hús án þess að trufla snertispennuvörnina sem er mjög mikilvægt að sé í lagi.

Rafmagnsnotkun hefur verið að breytast undanfarin ár. Spennubreytar sem fella húsarafspennu úr 230V niður í lægri vinnuspennur eins og t.d. fyrir prentara, tölvur og hleðslutæki eru í dag mestmegnis í formi svokallaðra „Switching Mode“ tækni. Það þýðir að rafspenna upp á 50 rið – 230V frá rafkerfi er tekin inn í tækið og breytt strax í jafnstraum „DC“. Jafnstraumnum er síðan breytt í riðstraum aftur en núna á tíðni sem er mun hærri en rafkerfi hússins. Tækin vinna gjarnan á bilinu 30.000rið til 60.000rið. Þessar tíðnir smitast út á rafkerfið í formi truflana. Á meðan tækin eru í góðu lagi þá er ekki mikið um truflanir en þau geta bilað án þess að það komi fram gagnvart virkni tækissins. Bilunin felur í sér að truflanir aukast verulega og menga rafkerfi húsa með hátíðnipúlsum. Sumir fullyrða að þegar þetta gerist þá verði rafgeislunin mun hættulegri. Þetta er hinsvegar ekki auðvelt að mæla. Áhugamenn nota sérstaka mæla til að greina þessar truflanir er í dag eru ekki til opinberlega kvörðuð tæki sem t.d. rafveitur eða verkfræðistofur geta notað. Þar af leiðandi eru þessar truflanir ekki til – opinberlega! Þegar íbúð mælist með óeðlilega mikið af svona truflunum þá þarf að grípa til einhverra ráða. Ýmislegt er hægt að gera en best er að finna orsakavaldinn sem getur verið sparpera, hleðslutæki eða tölva svo eitthvað sé nefnt.

En það er á margt að líta þegar hugað er að tengslum húsasóttar og rafmengunar. Lokaverkefni tveggja nemenda í rafmagnsiðnfræði við Háskóla Reykjavíkur árið 2010 sýndi áhugaverða hlið á þessum málaflokk. Arnar Hólmarsson og Örn Sturluson unnu lokaverkefnið. Það byrjaði þannig að Arnar setti auka jarðskaut á einbýlishús. Ástæðan var sú að perur voru að springa í tíma og ótíma í húsinu. Við það að tengja skautið hættu perurnar að springa og liðu mánuðir áður en pera sprakk aftur. Það merkilega gerðist að íbúi í húsinu, húsmóðirin á staðnum fór að finna fyrir betri líðan. Svefninn batnaði til muna, verkir og þreyta hurfu. Enginn átti von á þessu en kennarinn vildi fá tvíblinda könnun á þetta og var sett upp tilraunarferli þar sem tekið var tímabil í að aftengja eða tengja skautið sem bætt hafði verið við. Það var ákvarðar hvern morgun með því að kasta upp tíkalli.

Húsmóðirin skrifaði stutta skýrslu um hvernig henni leið dagana sem tilraunaferlið stóð yfir. Í lok tímabilsins afhentu þau bæði kennaranum Kristni Sigurjónssyni skýrslurnar sem yfirfór þær til að skoða fylgni milli skautstengingar og líðanar. Í stuttu máli reyndist 100% fylgni. Alltaf þegar skautið var ótengt byrjaði húsmóðurinni að líða illa, verkir, svefntruflanir og þreyta byrjaði að banka upp á.
Þá hófst rannsókn á því hvað breyttist í húsinu við þessar tengingar. Lið sérfræðinga kom á staðinn til að mæla með slatta af mælitækjum og hugmyndum um hvað mögulega var að gerast. Niðurstaðan var eitt stórt núll. Engar breytingar greindust á rafsegulsviði, rafsviði né hátíðnitruflunum. Það verður þó að geta þess að engar mælingar voru gerðar á stöðurafsviði og nokkrum öðrum þáttum sem eftir á að hyggja hefðu mögulega sýnt einhverjar breytingar.

Þúsundir íslendinga hafa reynslu af jarðskautum. Brynjólfur Snorrason vakti athygli á mikilvægi þeirra í kring um 1983. Hann fór víða til að lagfæra rafkerfi húsa og bæta jarðskaut með oft á tíðum undraverðum árangri. Sá árangur hefur m.a. komið fram í skýrslu sem Háskólinn Akureyri lét gera um áhrif á sæeyraeldi. Sömu áhrifin komu fram í Silfurlax eins og áður hefur verið talað um og undirritaður hefur haft spurnir af fjölda tilfella þar sem rafvirkjar og leikmenn hafa upplifað breytingu á húsnæði sínu og líkamlegri líðan við að bæta jarðskaut.
Hinsvegar er ekki vitað hvers vegna þetta gerist.

Undirritaður hefur hent á loft kenningu um þetta sem skrifað var um í Bændablaðinu fyrrihluta ársins 2018. Hér má finna þessa grein. Kenningin snýst um að ef til vill er um upphleðslu stöðurafmagns að ræða. Kannski langsótt en þó rétt að skoða þennan möguleika. Ef horft er til þess hvernig hús eru byggð í dag þá eru flest sett á malarpúða og sökkull steyptur ofaná. Grús er sett allt í kring til að hindra að rakur jarðvegur liggi að húsinu. Hitaveiturör og kaldavatnsrör eru gjarnan úr plasti og eina jarðsambandi sem kemur er frá orkuveitu en þær jarðtengingar eru oft mjög óhreinar og bera með sér skít úr rafkerfinu sem liggur þá á jarðsambandi hússins. Jarðsambandið er tengt við járnabindingu og verður þá öll járnabindingin spennuhafandi með þessu skítuga jarðsambandi. Eina leiðin til að ná hreinu jarðsambandi er með því að setja sérskaut á húsið. Stafskaut sem er stöng, rekin niður í rakan jarðveg niður einn og hálfan metra og tengt við jörðina sem kemur frá rafveitu. Eins og áður hefur verið talað um er hætta á að rafmagnið frá rafveitunni fari að flæða um þetta skaut. Eins galið og það virðist vera þá eru sum rafkerfi gerð þannig að rekstrarstraumur getur flætt um jarðtengingar. Þá er nauðsynlegt að grípa til Straumbeinis sem áður hefur verið fjallað um.

Húsið fær betri jörð með slíku skauti. Sá möguleiki er fyrir hendi að það hindri upphleðslu stöðurafsviðs innan dyra. Kenningin er sú að ef húsið hleðst upp með jákvæðri hleðslu þá sogast neikvæðar jónir í lofti að veggjum og festast. Við það verður loft innandyra snautt af mínusjónum og þá er hætta á að sumir finni fyrir vanlíðan innandyra. Rannsóknir frá Ísrael og Sviss hafa sýnt líkamleg og andleg áhrif þegar jónajafnvægi raskast. Höfuðverkur, þreyta, bjúgmyndun og pirringur í skapi eru mjög algeng áhrif. Nánar má lesa um þetta í bókinni „Rafsegulsvið! Hætta eða hugavíl?“. Hús sem hafa slíka hleðsluröskun eru gjarnan með skyggð svæði í hornum og veggjum þar sem sót hefur sest á vegginn. Þegar hús er skoðað gagnvart húsasótt er þetta mikilvægt einkenni samhliða ló og rykmyndun á gólfi. Skjáskot af glæru sýnir þetta nokkurn veginn.

hús 2

Eitt hverfi á Íslandi er byggt með það í huga að rafmagnsfrágangurinn sé vistvænn. Það er Urriðaholt í Garðabæ. Notað er svokallað 5 víra kerfi sem tryggir að ekki fer rafstraumur í jarðbindingar. Jarðsambandið kemur frá aðveitustöð og eru notuð löng stafskaut til að fá gott samband. Það verður forvitnilegt að fylgjast með framvindu mála þar og æskilegt að gerðar verði rannsóknir á líðan íbúa þegar fram í sækir með önnur hverfi til samanburðar, hverfi þar sem rafkerfið er með hefðbundnum hætti.

Mý margar rannsóknir hafa verið gerðar á áhrifum rafsegulsviðs. Nýlega vakti Dr. Mercola athygli á rannsóknum Dr Paul Héraux, Ph.D hjá McGill háskólanum í Montreal. Héraux hefur komist að þeirri niðurstöðu að rafsegulsvið yfir 20nT sé farið að trufla efnaskipti frumna með þeim afleiðingum að oxun verður meiri en æskilegt telst. Þegar talað er um oxun er átt við sindurefnamyndun, uppsöfnun plús jóna innan frumuveggja sem gera það að verkum að líffræðileg virkni frumna skerðist. Því fylgir þreyta og slen en gjarnan ýmis konar vanlíðan. Þessi mörk sem Héraux er langt undir því sem áður hefur verið nefnt sem skynsamleg varúðarmörk. Fyrst þegar farið var að tala um varúðarmörk var 200nT valið, síðan hafa áhugamenn og fræðimenn sett varúðarmörkin niður í 100nT og nú er verið að greina áhrif við 20nT sem er 1/5 af 100nT. Það sem verra er – það er víða erfitt að ná rafsegulsviði svona langt niður.

Farsímageislun hefur gjarnan verið í umræðunni og margir haft áhyggjur af heilsufarsáhrifum. Árið 2009 var gerð rannsókn á áhrifum farsímaloftneta á íbúa í grenndinni. Rannsóknin var áhugaverð og hægt að lesa um hana hér. í stuttu máli var verið að gera könnun með loftnetin virk og síðan þegar þau voru fjarlægð. Niðurstöður voru merkilegar. 122 íbúar tóku þátt í rannsókninni. Mælingar sýndu að geislun utan við húsin var á bilinu 0,6V/m til 7,56V/m. (Ekki óalgengt að mæla 0,4 – 1V/m á heimilum á Reykjavíkursvæðinu og utan húss getur styrkurinn farið í 3V/m). Það er rétt að geta þess að þegar setið er við nettengdan farsíma, talað í eða unnið á spjald er geislunin gjarnan á bilinu 1V/m – 22V/m eftir nálægð við tækið.
Niðurstöður voru sláandi. Líðan íbúa lagaðist í flestum tilfellum við að loftnet voru fjarlægð. 21 einstaklingur talaði um þreytu fyrir en engin eftir að loftnetin fóru. Þetta má sjá nánar í töfluni hér fyrir neðan.tafla

Það er áhugavert að sjá línu númer tvö og þrjú þar sem talað er um augnverki, þurrk í augum og svo svefntruflanir. 14 kvarta undan óþægindum í augum meðan loftnetin eru virk en engin eftir að þau eru tekin niður.

Það er ekki hægt að sleppa því að fjalla aðeins um tengsl rafmengunar og myglu. Þetta er nokkuð sem myglufræðingarnir líta á sem bábilju en þekkingarskortur og fordómar eru þar eitthvað að þvælast fyrir. Brynjólfur Snorrason hefur rannsakað áhrif rafmengunar frá árinu 1974. Hann hefur sagt frá því að hann hafi rannsakað tengsl milli myglu og rafkerfa og fundið að í þeim húsum sem hafa hátt hlutfall yfirsveiflna inn á rafkerfi hússins eru líklegri en önnur til að verða myglunni að bráð. Sérstaklega bendir hann á tíðnina 150Hz sem er þriðja yfirsveifla af 50Hz. Ef sú spenna liggur á jarðsambandinu og þar af leiðandi á járnabindingu húsa þá fjölgar myglan sér meira en ella. Til að laga þetta þarf að taka til í rafkerfinu og setja góð jarðskaut. Rannsóknarstofa í Sviss vakti athygli á því fyrir nokkrum árum að mygla sem er útsett fyrir rafsegulgeislun eins og gerist inn á venjulegu skrifstofurými fjölgar sér mun hraðar en mygla sem ræktuð er í umhverfi einangruðu frá rafgeislun.

Fyrr á þessu ári tók undirritaður þátt í heilsuráðstefnu í Frankfurt. Þar kom fram sérfræðingur í einhverfu. Hann fór yfir tölur um aukningu á tilfellum einhverfu og sýndi að hægt er að tengja tölvuvæðinguna og vaxandi notkun þráðlausra neta við einhverfu.
Línuritið sýnir vaxandi aukningu á einhverfu og hvernig þróun hefur verið í tækninotkun. Þegar notkun á stórtölvum hefst þá er 1 af hverjum 5000 einstaklingum greindir með einhverfu en árið 2009 er það orðið 1 af 110. Spurning hvort takist að sanna þetta en það er hægara sagt en gert.

graf

Allt frá árinu 1979 hefur rannsóknar teymið Wertheimer Leeper skoðað tengsl milli rafmengunar og heilsufarskvilla. Þeir sýndu m.a. árið 1979 fram á möguleg tengsl milli búsetu við háspennulinur og hvítblæðis í börnum. Síðar meir fundur þeir sterka fylgni milli notkunar rafmagnshitateppa í rúmi og fósturláts hjá konum. Áður höfðu slík áhrif komið fram hjá konum sem unnu við tölvu á frumbernsku tölvutækninnar þegar skjáirnir geisluðu verulega mikið frá sér. Það snarminnkaði við tilkomu staðla sem gagngert voru settir til að minnka rafsegulsvið vegna hættu á heilsufarslega skaðlegum áhrifum. Varðandi rafmagnshitateppin vakti það athygli að fósturlát voru tíðari þegar norðar dró í Bandaríkjunum og má þá draga þá ályktun að þau kveiki oftar á sér og margfeldi tíma og geislunar sé hærri tala.

Rafbílavæðingin er í fullum gangi og rétt að nefna það að í mörgum tegundum þessara bíla er rafsegulsvið æði hátt. Undirritaður hefur ekki mælt nema örfáar sortir en það er greinilegt að þeir eru margir hverjir að gefa há svið. Í venjulegum bíl er rafsegulsvið á bilinu 300nT til 2300 eftir tegundum og árgerðum. Því tæknilega fullkomnari sem bíllinn er því hærra virðist rafsegulsviðið vera. Sviðið kemur frá rafstýringum ýmiskonar, háspennukefli og viftu miðstöðvar. í rafbílum er geislun frá lögnum milli rafhlöðu og áriðla sem breyta jafnstraum í riðstraum fyrir rafmótorana. Geislun hefur mælst á bilinu 800nT og vel yfir 10.000nT en þar sem sviðið er sterkast er það frekar staðbundið.

Kópavogur 15.5.2018
Valdemar Gísli Valdemarsson
rafeindavirkjameistariFlokkar:Rafmagn, Umhverfið

%d bloggers like this: