Forvarnir með hjálp fjölvirkra náttúruefna

Fjölvirk náttúruefni eru efni sem er m.a. að finna í ýmsum lækningajurtum, grænmeti og kryddjurtum. Þessi fjölvirku náttúruefni geta virkað á mörg ensím og efnaferla í frumum líkamans og haft jákvæð eða jafnvel neikvæð áhrif á starfsemi þeirra. Í þessari grein verður einkum fjallað um notkun fjölvirkra náttúruefna úr lækningajurtum til að styrkja forvarnir gegn sjúkdómum sem erfitt er að glíma við svo sem krabbameinum, æðakölkun og heilabilun.  Túrmerik og ætihvönn eru dæmi um slíkar uppsprettur fjölvirkra náttúruefna en hér verður einkum fjallað um efni úr túrmerik. Hafa menn farið ýmsar leiðir í leit að leiðum til að fyrirbyggja sjúkdóma og jafnvel lækna þá þegar hefðbundnar lyfjameðferðir hafa ekki skilað tilætluðum árangri. Stundum hefur leitin skilað þeim árangri sem að var stefnt. Læknar eru tregir til að mæla með óhefðbundnum meðferðum og vilja eðlilega bíða eftir klínískum rannsóknum á gagnsemi slíkra meðferða. Klínískar rannsóknir taka oft langan tíma og eru verulega kostnaðarsamar. Margar óhefðbundnar meðferðir byggjast á notkun náttúruefna.

Áhugi lyfjafyrirtækja er yfirleitt lítill á náttúruefnum ef ekki er unnt að taka einkaleyfi á virku náttúruefnunum en lyfjaiðnaðurinn á upphaf sitt að rekja til notkunar á náttúruefnum úr lækningajurtum.

Eitt af þeim efnum sem mikið er rannsakað um þessar mundir er curcumin sem er í turmerik en það er einkum notað í kryddblönduna karrý. Túrmerik er unnið úr rótinni á Curcuma longa og er notað við matreiðslu og til lækninga í Suðaustur Asíu, Kína og Indlandi.  Kryddjurtir hafa verið notaðar til að styrkja forvarnir í baráttu við ýmsa sjúkdóma. Virka efnið í turmerik er curcumin og nokkur áþekk curcumin efni. Frásog eða upptaka curcumins í blóðið gengur hægt og curcumin brotnar einnig hratt niður í líkamanum og gefur því minni virkni en við var búist. Með því að nota samtímis svartan pipar þá dregur piperine sem kemur úr piparnum úr niðurbrotinu á curcumin og margfaldar frásog eða upptöku á curcumin og gerir það miklu virkara.

Rannsóknir sýna að curcumin og piperine eru skaðlaus efni sem virka gegn bólgum og ýmsum bólgutengdum sjúkdómum svo sem krabbameinum, heilabilun, æðakölkun o.fl. Sýnt hefur verið í fjölda klínískra rannsókna að turmerik og pipar eru örugg til neyslu enda hafa þau verið notuð um aldir sem krydd við matseld.

Curcumin og krabbamein

Curcumin hefur margvísleg áhrif á myndun og vöxt krabbameina. Curcumin getur hindrað myndun á krabbameinsfrumum úr normal frumum og getur einnig hindrað fjölgun á krabbameinsfrumum (heimild 1 ). Curcumin stuðlar að því að gölluðum frumum og þar með krabbameinsfrumum verði eytt, en það nefnist sjálfstýrður frumudauði. Curcumin hindrar einnig nýæðamyndun en þegar krabbameinsæxli vex þarf það að mynda nýjar æðar til að flytja næringu til æxlisins. Ef það tekst að hindra myndun á nýjum æðum í æxlinu þá getur það ekki vaxið og verður æxlið þá bara smá baun (heimild 1). Það er athyglisvert að áhrif curcumins sem er í túrmerik eru mjög svipuð og áhrif fúranókúmarin efna sem eru í ætihvannafræjum og þá í jurtaveiginni Angelicu sem framleidd er úr þessum fræjum. Einnig eru til staðar efni í hvannalaufi (SagaPro) sem hindrar vöxt á krabbameinsæxlum.

Curcumin og æðakölkun

Árið 2012 birtist yfirlitsgrein  frá háskóla í Montreal í Kanada um áhrif curcumins á hjarta- og æðasjúkdóma (heimild 2), á æðakölkun, ofstækkun hjarta (cardiac hypertrophy), háan blóðþrýsting o.fl. Æðakölkun er lýst sem sjúkdómi sem byrjar með þrálátum bólgum og  aukinni oxun eða þránun í æðaþeli og æðaveggjum. Framvinda sjúkdómsins innifelur aukna samloðun á blóðflögum, oxun eða þránun fituefna og myndun á æðakölkun sem þrengir æðarnar og getur dregið úr blóðflæði þegar mikið liggur við. Rannsóknir hafa sýnt að curcumin getur dregið  úr þeim breytingum sem leiða til æðakölkunar, getur verndað gegn bólgum, dregið úr sjúklegri oxun á kólesteróli og hindrað samloðun á blóðflögum og á þann máta dregið úr æðakölkun.

Hjartastækkun er aðlögun að auknu álagi á hjartað sem verður oft hjá íþróttamönnum en einnig hjá mönnum sem hafa fengið kransæðastíflu. Stækka þá starfhæfar hjartavöðvafrumur og þá einnig hjartað. Þessi stækkun hjartans hjá íþróttamönnum gengur til baka að verulegum hluta þegar þeir hætta keppnisíþróttum. Hjartastækkun eftir kransæðastíflu og skemmd á hjartavöðva getur hins vegar haldið áfram og leitt til hjartabilunar. Rannsóknir sýna að curcumin getur stöðvað slíka hjartastækkun og dregið úr hættu á hjartabilun (heimild 2). Vert er að geta þess að samskonar áhrif er að finna í ýmsum fúranókúmarín efnum sem eru í hvannafræjum (og í Angelicu).

Crcumin og heilabilun

Alzheimers sjúkdómur var skilgreindur 1907 af þýskum lækni, dr. Alois Alzheimer. Tölfræðin sýnir að um 10% einstaklinga eldri en 65 ára og um 50% þeirra sem eru eldri en 85 ára hafa Alzheimers sjúkdóm með tilheyrandi minnistapi og þverrandi lífsgæðum. Sjúkdómurinn tengist lífsstíl og öðrum þáttum svo sem öldrun, sykursýki, ofþyngd og hjarta- og æðasjúkdómum. Orsök sjúkdómsins er í raun ekki þekkt og engin lækning er við þessum sjúkdómi. Þekktasta kenningin er sú að prótein sem tengjast Alzheimers sjúkdómi hagi sér svipað og prion prótein sem valda kúariðu (mad cow disease), kindariðu og Creutzfeld-Jakob sjúkdómi í mönnum. Þessi Alzheimers prótein sem nefnast beta-amyloid peptid og tau protein taka afbrigðilegt form og þvinga önnur protein til að gera slíkt hið sama. Þessi prótein mynda klumpa og skaða taugafrumur og boðsendingar eftir þessum frumum.

Um miðja síðustu öld fóru vísindamenn á Vesturlöndum að rannsaka áhrif curcumins á ýmsa sjúkdóma og þá einnig á meðferð við taugasjúkdómum,  m.a. Alzheimers sjúkdómi, Parkinson sjúkdómi og heilaæxlum  (3). Vísindamenn telja að þessir sjúkdómar eigi það sameiginlegt að bólgur séu veigamiklar með auknum skemmdum á kjarnsýrum og próteinum og á fituefnum af völdum þránunar eða oxunar í heila (3). Telja þeir að gagnsemi curcumins við meðferð þessara sjúkdóma felist m.a. í margþættum áhrifum á ýmis boðefni og ensím sem koma við sögu. Curcumin er andoxunarefni sem dregur úr bólgum og skemmdum á fituefnum í frumuhimnum af völdum of mikillar oxunar í heilanum. Curcumin dregur úr uppsöfnun á beta-amyloid peptídum sem skaða taugafrumur og boðkerfi í heila o.m.fl.

Skert orkuvinnsla í heila Alzheimers sjúklinga getur einnig átt þátt í þessum sjúkdómi. Á síðari árum hefur komið fram sú tilgáta að skert orkuvinnsla úr sykri (glúkósa) í orkuverum heilans eigi þátt í Alzheimers sjúkdómi (sykursýki 3) en að ketónar, sem myndast við niðurbrot fituefna geti þjónað sem orkugjafar í heila í stað sykurs. Hafa menn kannað áhrif fituefna sem hafa einkum meðallangar fitusýrur, svo sem kókoshnetuolíu (heimild 4), og einnig ketona sem myndast við niðurbrot fitu, svo sem acetoacetate og beta hydroxy- butyrate.

Mikill áhugi er á notkun kókosolíu við meðferð á Alzheimers sjúkdómi en þessi olía er fáanleg í matvöruverslunum. Það var læknir að nafni Mary T. Newport sem meðhöndlaði eiginmann sinn með þessari olíu en hann var illa haldinn af Alzheimers sjúkdómi (4). Hefðbundnar meðferðir höfðu ekki skilað árangri. Kókosolía inniheldur caprylsýru sem er frekar stutt fitusýra sem er breytt í keton efni við niðurbrot sem getur þjónað sem eldsneyti í heilanum sem virðist ekki geta notað sykur til orkuvinnslu. Eftir nokkra mánuði batnaði ástand eiginmannsins verulega og hæfileiki til tjáningar og minnið batnaði einnig. Þessi meðferð hefur hjálpað mörgum sjúklingum með heilabilun en ekki öllum enda getur verið um að ræða fleiri tegundir af heilabilun.

Túrmerik jurtaseyði. Ef þið hafið hug á að prófa túrmerik jurtaseyði (þ.e. túrmerik og pipar ásamt engifer, sem er að finna á kryddhillum matvöruverslana) þá er hér ein ódýr uppskrift: Takið einn lítra af eplasafa (eða vatni) og hitið að suðu. Látið tvær teskeiðar af túrmerik dufti og eina teskeið af möluðum svörtum pipar út í vökvann ásamt ca. 2-3 gr. af niðursneiddu afhýddu engifer og hrærið vel. Hitið að suðumarki í 5-10 mín., kælið niður og síið svo í gegnum grisju. Látið síðan jurtaseyðið á glerflösku og drekkið 1 glas á dag í forvarnarskini en 3-4 glös ef hugað er að meðferð við sjúkdómi. Þessi drykkur fær bragð af engifer og bragðast ágætlega. Engin neikvæð áhrif hafa komið fram við neyslu og hafa margir sjúklingar haft mikið gagn af þessu seyði. Hafa sumir krabbameinssjúklingar jafnvel notað þetta seyði samhliða lyfjameðferð en ráðlegt er þá að gera það með vitund læknisins.

Heimildir.

1. Curcumin: a promising agent targeting cancer stem cells.  Zang S, Liu T, Shi J, Qiao L. Anticancer Agents Med Chem. 2014;14(6):787-792.

2. Cardiovascular Protection by Curcumin: Molecular Aspects. GeorgiaKapakos, Victoria Youreva and Ashok K. Srivastava. Ind. J. Biochem. & Biophysics. 2012;49:306-315.

3. Curcumin and its derivatives: their application in neuropharmacology and neuroscience in the 21st centurt. Lee WH, Loo CY, Beawy M, Luk F, Mason RS, Rohanizadeh R. Curr. Neuropharmacol. 2013; 11(4): 338-378.

4. Coconut oil dietary guidlines and suggestions. Mary T. Newport, 2009. http://www.coconutketones.com

Áður birt í Listin að lifa 2014.

Höfundur Sigmundur Guðbjarnason, Prófessor emeritus

 



Flokkar:Greinar og viðtöl, Kjörlækningar

%d