Mannspekilækningar (anthroposophic medicine) eru viðbótarlækningar sem vinna út frá hugmyndafræði Rudolf Steiner (1861-1925) með heildrænni sýn á mannveruna. Viðhorf mannspekinnar bætir sálarlegri sýn við hefðbundna læknisfræði og er sú sýn notuð við greiningu og meðferð. Þessi nálgun er notuð af læknum og hjúkrunarfræðingum víða um heim sem kjósa að samtvinna hefðbundnar lækningar og hjúkrun. Viðbótarmeðferðir, þar sem sú sýn ríkir að einstaklingurinn er ekki eingöngu líkami heldur er hlúð að sál og anda hvers og eins þegar meðferð er beitt.
Í anda R. Steiner, þá líta mannspekilækningar svo á að mannveran, náttúran og alheimurinn séu samofin. Horft er m.a. á mannveruna út frá fjórum þáttum: efnislíkama, lífslíkama (ether), sálarlíkama (astral) og einstaklingseðlinu eða sjálfinu. Þetta er skoðað sem ein heild þar sem hver þáttur hefur áhrif á annan. Fjórþætting mannsins samtvinnast einnig í gegnum þrjá ákveðna krafta sem eru grunnur tjáningar sálarinnar. Í tauga- og skynfærakerfi
(hugsun og meðvitund), efnaskipta-og útlimakerfi (endurnýjun og vilji) og í miðlægu rytmisku kerfi (tilfinningin) sem jafnvægisstillir hin kerfin tvö. Í heilbrigði vinna öll kerfin á viðeigandi hátt, stað og tíma. Ef jafnvægi raskast á milli kerfanna þá birtist það í formi veikinda og eru þá meðferðir notaðar sem vinna að því að ná fram jafnvægi. Í flestum ytri meðferðum er stuðst við plönturíkið og þann heilunarmátt sem plönturnar hafa. Plönturíkið er gríðarstórt og Íslendingar þekkja vel notkun plantna í aldanna rás til lækninga. Í mannspekilækningum er önnur sýn ríkjandi sem tekur mið af skoðun plöntunnar skv. Goethe (1749-1832). Þar er litið inn í heim plöntunnar, án þess að hafa fyrirfram ákveðnar skoðanir á því sem mætir þér.
Með opnum hug, vilja og áhuga á að skynja plöntuna, bæði hið sýnilega og ósýnilega þá mætir þér ný sýn og skynjunin nær yfir hina 4 líkama (efnis-, lífs- og sálarlíkama og einstaklingseðlið) og það samsvarar sýninni á mannveruna. Þar birtist einnig að hægt er, út frá þrískiptingu, að líta á plöntuna sem lyf. Hún hefur rót, stöngul/lauf, og ávöxt/blóm, rétt eins og mannveran hefur út frá sjónarhorni mannspekinnar, tauga-og skynfærakerfi, efnaskipta-og útlimakerfi og rytmiskt kerfi. Maðurinn hefur í sér í raun öfuga plöntu.
Rótarhlutar plöntunnar samsvara höfði mannsins, plantan rótartengir sig til jarðar en maðurinn tengir sínar rætur upp, til andans. Ferlar laufsins samsvara öllum þáttum miðlæga, rytmiska kerfisins okkar. Öndun og súrefnisupptaka blóðsins samsvarar mjög náið plöntuferlum í ljóstillífun sem á sér stað í laufunum. Ferlar blómsins, með hliðsjón af varma og fjölgunar, tengjast efnaskipta svæði mannsins. Það er sérstaklega litið til þrí-og fjórskiptingar við notkun á plöntunni í lækningaskyni t.d. er piparrót notuð fyrir kvef, lauf nettlu eru notuð fyrir blóðrásarkerfið og blóm kamillu fyrir ójafnvægi í efnaskiptakerfinu.
Með því að nota plöntur í ytri meðferðir, t.d.. fótaböð, bakstra á kvið og brjóstkassa eða í hrynjanda stroku (rythmical einreibung) þá er unnið að því að ná jafnvægi aftur í mannverunni. Meðferðir með plöntum gefa mjúka mætingu sem hreyfir við ferlum en ögra ekki. Ytri meðferðir eru engin nýlunda og hægt er að beita þeim m.a. til verkjastillingar, slökunar, örvunar, endurnýjunar og til að græða. Þær vekja oft á tíðum sterkari skynjun einstaklingsins ekki síst vegna áhrifa á varma, kulda og snertingar.
Mannlegi þátturinn er ríkulegur og er meðferð með heilandi gæðum snertingar á líkamlegu, andlegu og sálarlegu sviði nauðsynlegur hluti. Sem dæmi um meðferð hjúkrunarfræðinga sem vinna út frá mannspekilækningum þá er hrynjandi stroku (rythmical einreibung) beitt, en það er óhefðbundið nuddform þar sem unnið er mjög ákveðið með olíur sem gerðar eru að mestu leyti úr plöntum. Formin sem handarhreyfingarnar móta í strokunni fylgja byggingu og virkni hvers líkamsparts, en hreyfingarnar fylgja einnig tveimur formum, beinni línu og hring. Hver hreyfing stýrist af gæðum hrynjanda, öndunar og varma.
Með mýkt og flæði renna hreyfingar handanna yfir líkamann og styðja með því innri sátt og vellíðan. Unnið er beint með líkamann og lífsorku mannverunnar. Innri brunnar eru endurnýjaðir af lífsorku sem styður þar með endurnýjun líkamskrafta. Sálarlíkaminn og sjálfið eða einstaklingseðlið okkar, svara einnig þessari meðferð með því að endurnýja áhuga sinn til að vinna, á heildstæðan hátt, um allan líkamann. Á heildina eru áhrifin að styðja bæði við meðvitaða lífsferla og undirmeðvitund okkar. Mýkt aðferðarinnar gefur rými fyrir persónulega svörun skjólstæðingsins. Hrynjandi stroka vinnur sjálfstætt en við meðferðina þá er móttækileiki húðarinnar aukinn fyrir þeim olíum sem bornar eru á. Meðferðin er því í raun hvati annarrar meðferðar.
Stroka á framhandlegg.
Sýn mannspekilækninga á fullt erindi til nútímamannsins og lifnaðarhátta hans. Þegar unnið er með ytri meðferðarform þá er einnig unnið út frá heildrænni sýn á einstaklingnum með það fyrir augum að gera honum kleift að skilja það sem hann er að takast á við heilsufarslega. Að ná að líta á erfiðleika eða veikindi sín sem hluta af þroskaferli sínu og þar af leiðandi styrkja hann til þess að taka þátt í uppbyggingu sinni og bera ábyrgð á eigin heilsu.
Höfundur:
Sigríður Þorbergsdóttir – Stroka.is
Hjúkrunarfræðingur B.sc., diploma í mannspekihjúkrun
Flokkar:Meðferðir