Rannsakar óhefðbundnar lækningaaðferðir

Sveinn Guðmundsson, doktorsnemi í mannfræði við Háskóla Íslands, leggur nú lokahönd á rannsókn sína á læknum og hjúkrunarfræðingum sem einnig beita óhefðbundnum lækningaaðferðum við störf sín. Niðurstöðurnar gefa til kynna að hluti hjúkrunarfræðinga og lækna á Íslandi hafi opinn huga gagnvart sambandi hugar og líkama.

 

Í BA-verkefni sínu í mannfræði skrifaði Sveinn um nýaldarfræði og í MA-verkefninu tók hann viðtöl við fólk sem vinnur við óhefðbundnar lækningar. „Það vakti athygli mína að meðal fólks sem starfaði við óhefðbundnar lækningar voru nokkrir hjúkrunarfræðingar og því ákvað ég að doktorsverkefnið yrði rannsókn á læknum og hjúkrunarfræðingum sem nota einnig óhefðbundnar aðferðir,“ segir hann.

 

Niðurstöður rannsóknarinnar sýna að hjúkrunarfræðingar eru óhræddari við gagnrýni á aðferðir sínar en læknarnir. Árið 2010 var til að mynda stofnuð fagdeild um viðbótarmeðferð í hjúkrun sem stuðlar að notkun annars konar meðferða sem rannsóknir hafa sýnt fram á að geta gagnast til viðbótar við hefðbundnar, til dæmis fyrir krabbameinssjúklinga. „Margir læknanna óttast að fá á sig þann stimpil að vera óvísindalegir og halda sig því alltaf innan ákveðins ramma. Þeir studdust því frekar við niðurstöður vísindalegra rannsókna í viðtölunum.“ Sveinn segir að fólkið í geirunum tveimur, óhefðbundnum og hefðbundnum lækningum, sé oft að ræða um sömu hlutina þó það noti sitt hvort tungumálið. Það sé hluti af ágreiningnum þó til staðar sé sameiginlegur grunnur. „Mig langar að skilja báða hópana. Það er ekki þannig að annar hafi rétt fyrir sér en hinn rangt. Þetta er miklu flóknara en svo.“

 

Læknarnir sem Sveinn ræddi við voru óviljugir að ávísa sjúklingum lyfjum þegar þeir vissu fyrir víst að aðrar aðferðir væru betri til langframa, eins og til dæmis lífsstílsbreytingar. „Til að koma óhefðbundnu aðferðunum að þurfa læknarnir að ná góðum tengslum við skjólstæðinga sína og það getur tekið tíma. Þeir þurfa að fá fólk til að skynja að þeir séu með þeim í þessu. Oft er mannekla á heilbrigðisstofnunum og frammi bíða margir svo ekki er alltaf tími til að mynda þessi tengsl.“

 

Stefna á vinnustaðnum, yfirmenn og viðhorf ræður því hvernig læknum og hjúkrunarfræðingum gengur að innleiða óhefðbundnar lækningaaðferðir. Margir hjúkrunarfræðinganna vinna við óhefðbundnar lækningar í hlutastarfi og eru með sína eigin stofu.

 

Óhefðbundnu aðferðirnar sem læknarnir og hjúkrunarfræðingarnir beita eru af ýmsum toga, til dæmis nálarstungur, dáleiðsla, slökunarnudd og samtal um lífssöguna. „Sumir viðmælendanna ræddu einnig um að streita hafi áhrif á vöðvabólgu og öllum var þeim samband hugar og líkama hugleikið. Nokkrir þeirra ráðleggja fólki að kynna sér jóga og hugleiðslu. Einn læknirinn ráðleggur stundum að lesa ákveðnar sjálfshjálparbækur til að ná stjórn á lífinu og breyta hegðunarmynstri.“

 

Sveinn segir breyttar áherslur þeirra lækna og hjúkrunarfræðinga sem hann ræddi við í takti við viðhorfsbreytingar almennt hér á Íslandi. „Með aukinni áherslu á heilbrigðan lífsstíl, jóga og hugleiðslu eru óhefðbundnar lækningar ekki eins langt úti á jaðrinum og áður. Það talar enginn lengur um fólk sem stundar jóga sem nýaldarhippa. Það er almennt talið hið eðlilegasta mál.“

 

Yfirleitt er orðið óhefðbundnar lækningar notað yfir hugtakið sem Sveinn rannsakar en hann segir marga ósátta við það heiti því það sé mjög ónákvæmt og nái yfir margar mjög ólíkar meðferðir. „Aðferðirnar eru óhefðbundnar miðað við það sem viðurkennt er í dag. Þó komu jurtalækningar fram á undan læknavísindunum. Það er því skilgreiningaratriði hvað er óhefðbundið og hvað ekki. Í Gíneu-Bissá er þetta til dæmis öfugt. Grasa- og andalækningar eru álitnar hefðbundnar en hitt óhefðbundið.“

Þetta viðtal skrifaði Dagný Hulda Erlendsdóttir það var birt á vef Fréttatímans þann 12. 6. 2014

dagnyhulda@frettatiminn.is

http://www.frettatiminn.is/frettir/rannsakar_ohefdbundnar_laekningaadferdir/



Flokkar:Ýmislegt

Flokkar/Tögg