Læknir varar við kukli

Í fréttum Stöðvar 2 í kvöld (4.12.2013 ) var viðtal við lækni sem varar okkur við kukli. Þegar hann var spurður nánar um  hvaða kukl hann hefði í huga, kom fram að hann teldi það vera Höfuðbeina- og spjaldhryggjarjöfnun og Hómópatíu. Það er mjög viðkvæmt þegar einhver kastar grjóti úr glerhúsi, því það getur hitt hann sjálfan fyrir. Ég hef aldrei heyrt um að þessar svokölluðu kuklgreinar, sem hér að ofan eru nefndar slíku nafni, hafi valdið nokkrum manni tjóni. Hins vegar hef ég heyrt margar sögur um að aðfarir lækna hafi ekki endað eins og til var stofnað.

Ég fer ekkert nánar út í þá hlið málsins, en vil beina athygli manna að nokkrum atriðum sem varða þetta mál, og ekki mega liggja í þagnargildi, þegar maður úr glerhúsi hendir fyrsta steininum.

Höfuðbeina- og spjaldhryggjarmeðferð

Samkvæmt Vísindavefnum (www.visindavefur.is) þá mun Dr. William Sutherland (1873-1954) hafa verið fyrstur til að átta sig á þessu kerfi, sem samanstendur af beinum höfuðs, hryggjar, spjaldhryggs og mjaðma, öllum himnum heila og mænu, ásamt þeim líffærum sem tengjast framleiðslu og frárennsli heila- og mænuvökva. Kom hann fram með kenningar um að hægt væri að hreyfa höfuðbeinin og hafa þannig áhrif á starfsemi heila og heilatauga. Þessi meðferð nefnist á ensku ,,croniosacral therapy“. Hvað þessi meðferð hefur með kukl að gera er mér hulin ráðgáta.

Hómópatía

Frægt er að Englandsdrottning er mikill aðdáandi hómópatíu og notar þær mikið. Þó hefur hún aðgang að færustu læknum sem landið hefur upp á að bjóða. Ætlar okkar læknir að banna drottningunni að njóta þeirra aðferða sem hún hefur mesta trú á að virki fyrir sig? Það væri ekki gott innlegg í hugsanagang fólks á okkar tímum, þegar almenningur krefst heilsufrelsis og fá að njóta þeirra lækninga sem hver og einn kýs.

Það verður umræddur læknir að gera sér ljóst, að þær aðferðir sem hann kallar kukl, hafa ekki verið til vandræða, nema síður sé, og eiga fullt tilkall til að vera frjálsar meðal frjálsra manna.

Það er augljóst að læknirinn er að vernda starf sitt, þegar hann heggur á báðar hliðar.

Það ætti hann ekki að gera, vegna þess að hann bætir ekki heilsu nokkurs manns, með því að útiloka einhvern hóp frá því að leita sér hjálpar, þar sem hann telur sig geta fengið hana.

Læknar gegn læknum

Svo eru það starfsbræður umrædds læknis. Það er fjöldi lækna sem eru ekki sáttir og skrifa ekki undir núverandi meðferðarmáta læknasamfélagsins. Mjög margir telja það ranga nálgun gegn sjúkdómum að gefa lyf við mismunandi sjúkdómseinkennum og segja frekar, að sjúkdómar séu samtal líkamans við eiganda sinn, og það þurfi að túlka þetta samtal. Það sé í raun einhver grundvallarvandi sem veldur sjúkdómum, til dæmis rangur lífsstíll, rangt mataræði, vannært tilfinningalíf, að líkaminn sé eyddur frá báðum endum og sé að gefast upp. og fleira og fleira.

Ekki getur læknirinn sakað starfsbræður um skottulækningar, og ekki getur hann sagt að aðeins hans nálgun á lækningu, sé hin eina rétta. Vegna þess að það eru margar aðferðir sem geta læknað fólk. Sumir eru einfaldlega í þörf fyrir góða hvíld, útiveru, hreint loft, hreint vatn og heilbrigðan nærandi og uppbyggjandi mat. Allt er þetta meðferð í lækningu sjúkra og ekkert af því getur umræddur læknir kallað skottulækningar.

Ég ráðlegg læknum að fara sér hægt og sýna heldur víðsýni heldur en þröngsýni

Það er lífsnauðsyn fyrir fólkið, sem læknarnir hafa lagt eyð að því að hjálpa, að vera opnir fyrir öllum þeim leiðum sem koma sjúklingunum til heilsu.

Höfundur: Sigurður HerlufsenFlokkar:Greinar og viðtöl

Flokkar/Tögg, , ,

%d bloggers like this: