Þegar dregur fyrir sólu innra með þér – eða þínum.

Nú er haustið komið með enn meiri rigningu og roki, veðri sem við flest okkar fengum  alveg nóg af í sumar. Við viljum milt, gott og fallegt haustveður, já og gjarnan smá sól til að við getum notið haustlitanna enn betur. Við vitum sem er að brátt verða laufblöðin mun færri, fljótlega fer að dimma ótrúlega hratt og mörg okkar fara senn að telja dagana þangað til að birtir á ný í vor.

Svona er þetta með veðrið og árstíðirnar; haust – vetur – vor – sumar,  alltaf í grunninn sama hringrásin þó einstaka hlutar hennar líði mishratt. Það getur verið einstaklingsbundið hversu hratt okkur þykir tíminn líða, að sjálfsögðu er það ekki svo í raun og veru – en, það hvernig okkur líður innra með okkur hefur áhrif á það hvernig við skynjum líðandi stund.

Einmitt núna þegar veðurfræðingarnir vara við ofsaveðrum með litlum fyrirvara finnum við að sumarið og sólin hefur gengið okkur úr greipum, það er ekki bara komið haust heldur er vetur konungur að kíkja fyrir horn og kemur okkur í opna skjöldu – alltof snemma og alltof oft.  Okkur bregður við – en fáum engu ráðið.

Stundum er þessu svipað farið í daglegu lífi okkar. Allt í einu gerist eitthvað annaðhvort í kringum okkur – eða innra með okkur, eitthvað sem setur allt úr skorðum, eitthvað sem við viljum ekki að gerist en við fáum ekki rönd við reist, allt í einu hefur haustað snögglega í lífi okkar, allt í einu er skammdegið komið í huga okkar og okkur finnst sem það muni aldrei rofa til á ný. Allt er svart, allt er vonlaust. Þegar svona tilfinningar fara að gera vart við sig er þörf á að leita skýjarofa, leita  að smá glufum sem við getum hleypt sólargeislum inn um til að ylja okkur við.

Því miður er það nú svo að þegar dimmir í huga og hjarta þá dettur líka niður orkan og lífskrafturinn. Það þarf talsvert sjálfstraust, áræðni og þor til að leggja í að stíga út fyrir erfiðleikahringinn, taka fyrstu skrefin til að leita sólargeislanna. Það að taka upp símann og hringja til vinar og biðja um aðstoð getur verið óyfirstíganlega erfitt.  Það þarf líka kjark til að skoða ástæðurnar fyrir sívaxandi vanlíðan.  Hvers vegna eru allar þessar neikvæðu hugsanir að leita á hugann, nær stöðugt og alveg ósjálfrátt? Hvers vegna ég? Hvers vegna er þetta allt svo öfugsnúið?

Hugsanir eru einungis hugsanir, ekki endilega sannleikur. Sagt er að um 60.000 til 65.000 hugsanir fari almennt um huga vorn á hverjum sólarhring. Langflestar þessara hugsana eru tengdar ósjálfráða taugakerfinu og viðhalda taugaskilaboðum sem halda lífinu í okkur, hugsanir sem við gerum okkur engan veginn grein fyrir.  En það er annað með þessar neikvæðu en ósjálfráðu hugsanir sem eru algjörlega að gera útaf við okkur þegar dregur fyrir sólu í lífinu, þegar haustar alltof snemma eða skellur á með ofsaveðri þegar allt virðist vera í blóma og við teljum okkur hamingjusöm, heilbrigð og glöð.

Þegar dimmviðri sem þessi skella á er ágætt að skoða í rólegheitum hvenær þessar erfiðu hugsanir leita á hugann. Skrifaðu þær niður. Við hvaða aðstæður er það? Hvað varstu að gera skömmu áður? Hvernig líður þér tilfinningalega? Hvernig líður þér líkamlega? Hvað gerir þú við þessar aðstæður?

Fyllist þú kvíða? Kvíða gagnvart hverju? Hvaða rök hefur þú fyrir því að það sem þú ert kvíðinn fyrir – að það muni gerast? Hvaða rök hefur þú fyrir því að þessar neikvæðu hugsanir þínar eigi við einhver rök að styðjast? Það er eiginlega magnað hvað það eitt að vinna með hugsanir sínar á þennan hátt getur greitt úr margri flækjunni, leyst mörg vandamál hugans.

Þú lesandi góður sem ert svo lánsamur að upplifa gleði í hjarta og sérð sjálfur vel til sólar hvernig sem viðrar, er einhver sem stendur þér nærri sem gæti þurft á aðstoð þinni að hleypa meiri birtu og yl inn í lífið? Hafðu augun hjá þér og eyru þín bæði vel opin. Leitaðu eftir að sjá það sem stundum á ekki að sjást og heyra það sem ekki er sagt. Sýndu öðrum áhuga og kærleik. Veittu börnum þínum, maka og þínum nánustu skilyrðislausa ást. Lífið er til að njóta þess að okkur líði öllum vel. Leyfum okkur að blómstra í gegnum lífið og hjálpum fólkinu okkar til þess líka.

22.9. 2013

Höfundur: Jóna Björg Sætran, M.Ed., markþjálfi og HAM (hugræn atferlismeðferð) Námstækni ehf.    http://www.namstaekni.is  jona@namstaekni.is



Flokkar:Hugur og sál

Flokkar/Tögg, , ,

%d bloggers like this: