Lengi hafa verið vangaveltur um það hvort myglusveppur sé duglegri við að fjölga sér í híbýlum manna í dag en á árum áður. Mygla er hluti af náttúrunni og umhverfi mannsins og líklegt má telja að mygla hafi verið algeng í torfbæjum Íslendinga hér fyrr á öldum. Nú virðist sem mygla sé orðin nokkurskonar farsótt þar sem myglusveppir myndast hratt þegar aðstæður leyfa og sá myglusveppur er ágengur.
Þegar myglusveppur telur sér hætta búin þá lætur hann frá sér eiturefni sem kallast „mycotoxin“. Margar tegundir sveppaeiturs eru meðal hættulegustu eiturefna sem fyrirfinnast í náttúrunni. Sé þetta eitur í híbýlum manna getur það valdið slappleika sem svipar til flensueinkenna, mikilli þreytu, útbrotum á húð, bólgu í munnholi, hálsi og á tungu, nefstíflu og nefrennsli og þegar eitrunin er viðvarandi bætast við verkir í vöðvum, liðum og höfði. Almennt mikil vanlíðan.
En hvers vegna virðist mygla vera meira vandamál í dag en fyrir tuttugu árum? Margar tilgátur hafa komið fram og meðal annars bent á hlýnandi veðurfar. Á Íslandi höfum við haft betri og hlýrri sumur undanfarin ár en oft áður og er kennt um hnattrænni hlýnun vegna koltvísýringsmengunar. Rakastig hefur líklega hækkað samhliða. Einnig er möguleiki á því að byggingartækni okkar sé eitthvað ábótavant en það verður þó að teljast hæpið. Frekar að óvandvirkni sé orðin of mikil þegar fjöldi húsa er byggður með sárafáum fagmenntuðum smiðum. Svo er einn möguleiki enn í stöðunni, möguleiki sem undirritaður hefur oft velt fyrir sér. Það er hvort rafsegulgeislun geti haft áhrif á vöxt myglusvepps. Fyrir nokkrum árum gerði undirritaður mælingar á húsi í Reykjavík. Heimsætan á heimilinu hafði fengið hvítblæði og grunur lék á að rafsegulsviði væri um að kenna. Í ljós kom að geislun frá stofnlögnum rafmagns var mjög há og var gripið til viðeigandi ráðstafanna til að lækka geislunina.
Húsbóndinn, faðir stúlkunnar, sagði mér nokkru seinna sögu sem mér fannst áhugaverð. Hann hafði oft tekið eftir því að þegar hann skildi eftir hálffulla kaffibolla í bílskúrnum hjá sér kom svo að bollunum nokkrum dögum seinna var þykk mygluskán ofan á kaffinu og bollinn ennþá hálf fullur af kaffi. Eftir þær aðgerðir sem gripið var til að eyða rafsegulsviði úr umhverfinu gerðist það að kaffibollarnir sem hann skildi eftir í skúrnum hættu að safna myglu.
Kaffið einfaldlega þornaði og myndaði svarta skán í botni bollans. Robert Becker rithöfundur og vísindamaður rannsakaði og skrifaði mikið um rafsegulgeislun og nefndi hann oft að frumur af ýmsum gerðum ættu það til að fjölga sér mun hraðar þar sem manngert rafsegulsvið var til staðar.
Nú hefur rithöfundurinn Kim Goldberg skrifað um áhugaverða rannsókn sem gerð var á ræktun myglu í Sviss. Þessari grein fylgir video þar sem Dr. Dietrich Klinghard læknir les undir og segir frá rannsókninni. Rannsóknin var einföld. Myglusveppur var ræktaður í keri sem hulið var vírneti. Vírnetið hleypti að ljósi og hafði ekki áhrif á raka en stöðvaði hinsvegar rafgeislun úr umhverfinu. Vöxtur og vaxtarhraði var mældur og skráður. Eftir ákveðinn tíma var netinu lyft frá og myglusveppurinn var opinn gagnvart rafsegulgeislun í umhverfinu. Við það jókst vaxtarhraði myglunnar allt að sexhundruðfalt og hún virtist mun vígalegri en áður. Myglan gaf frá sér meira af sveppaeitri sem bendir til að hún telji sig þurfa að verja sig gegn óvinum.
Þetta styður vangaveltur um það að mygla sé að verða vandamál vegna aukinnar rafmengunar ekki síður en óvandaðs frágangs bygginga. Þetta skýrir e.t.v. líka hvers vegna þarf svo lítinn raka vegna leka í byggingum til að mygla hreiðri um sig og verði beinlínis hættuleg. Nokkuð sem elstu menn muna ekki eftir að hafi verið í þvílíkum mæli sem er í dag. En hvaða rafmengun er í híbýlum sem gæti orsakað þessi ósköp? Það er fljótlegt að benda á þráðlaus internet sem eru á nánast öllum heimilum. Svo eru það DECT, þráðlausir símar. Bæði þessi kerfi eru stöðugt að senda frá sér rafsegulbylgjur hvort sem verið er að nota tækin eða ekki. Þetta er því linnulaust áreiti alla daga og nætur.
Ef við tökum sem dæmi myglu undir þökum þá má horfa til lýsingartískunnar sem hefur verið vinsæl undanfarin tuttugu ár að hafa halogen ljós innfelld í lofti íbúða. Þegar íbúðin er á einni hæð er þakið beint fyrir ofan ljósin. Ljósin skapa mikinn varma sem streymir upp undir þakið en stundum líka mikla rafsegulgeislun. Ef um 12V halogen ljós er að ræða þá er geislun á 30 – 60 kílóriða tíðni töluvert sterk vegna notkunar rafeindastraumbreyta. Það þarf einn straumbreytir á sirka þrjú ljós.
Í dag nota allir þessa tegund straumbreyta en þeir gefa frá sér háar tíðnir sem mynda útvarpsbylgjur og er geislunin vel mælanleg beint frá perunni og frá lögnum aftan við straumfestuna. Þessi geislun tegir sig upp í þakið. Þar sem notaðar eru flúrpípur gerist það sama. Það fer að vísu eftir gerðum lampa. Í dag eru flestir að nota flúrpípur af gerðinni T5. Þetta eru mjórri flúrpípur en áður voru notaðar og eiga það sameiginlegt að þurfa að nota rafeindastraumfestur til að virka.
Það gerir það að verkum að mjög sterk rafgeislun mælist frá þessum perum á tíðnisviðinu 30 –60kHz og ef margir lampar eru í rými þá hleðst þessi geislun á allar jarðtengingar og líklegt má telja að hafi áhrif á vöxt myglusvepps. Sparperur eru í sama flokki en frá þeim er mikil geislun á þessu sama tíðnisviði. Það sem meira er að margir nota sparperur í lömpum sem eru úr plasti og hleypur geislunin því í allar áttir. Ef notaðir eru lampar úr málmi og þeir ekki jarðtengdir verður geislunin mun meiri.
Það er því ljóst að af nógu er að taka ef skoða á áhrif rafgeislunar á vöxt myglu. Síaukið magn truflana og óhreininda í rafmagni getur valdið því að truflanir berist inn á vatnspípukerfi húsa og jafnvel járnabindingu og þá er hvatinn að myglugróðri kominn um allt húsið. Í fjarskiptum skiptir miklu máli að rafsegulbylgjurnar séu hreinar. Það þýðir að þær eru að mestu lausar við svokallaða yfirtóna og óbjagaðar.
Óvandaðir sendar hafa hærra hlutfall yfirtóna en vandaðir. Það má horfa á rafeindastraumfestur og sparperur sem fjarskiptasenda. Þessi tæki senda frá sér rafsegulbylgjur á tíðnisviðum sem ekki eru notuð til fjarskipta lengur en þar er ekkert verið að horfa í hreinleika geislunarinnar. Yfirtónar eru miklir, tíðnin óstöðug og er oft hægt að heyra truflanir frá þessum búnaði í útvarpi ef stillt er á AM bylgju. Þannig má hlusta eftir truflunum eða óhreinu rafmagni. Prófið að kveikja á litlu ferðaútvarpi, stilla á AM eða LW og bera það nálægt sparperu. Svo má fikta í stöðvarstillinum til að fá skýrari svörun en viðbúið er að ekkert heyrist nema suð og ýl. Þegar slökkt er á perunni breytist hljóðið.
Rannsóknin sem dr. Dietrich Klinghard læknir segir frá verður vonandi endurtekin fljótlega til að hægt sé að fá skýrari mynd á hvaða tíðnir það eru sem hafa mest áhrif og hvaða gerð geislunar. Þessi rannsókn undirstrikar mikilvægi þess að hús séu vel frá gengin í rafmagnslegu tilliti og mun betur en reglugerðir kveða á um í dag. Til dæmis eru jarðbindingar mjög mikilvægar og gríðarlega mikilvægt að hús fá gott jarðsamband. Það jarðsamband er gjarnan sótt í hitaveiturör, en hitaveitan er gríðarlega stórt net röra sem liggur í jörð um allt Stór-Reykjavíkursvæðið. Það gefur gott jarðsamband. Ef hitaveita til einstakra húsa er tekið inn með plaströrum þá fæst ekkert jarðsamband þar í gegn. Þá verður að setja sérskaut á húsin og tryggja þannig gott jarðsamband.
Það er hinsvegar ekkert í byggingarreglugerðum sem tryggir að þetta sé gert. Reglugerðir um frágang rafmagns segja til um að tengja skuli sökkulskaut á hús en það felur í sér að járnabinding húsa á að tengja við núll frá rafmagnsveitu. Þetta núll er í mörgum tilfellum hlaðið óhreinu rafmagni og því ekki heppilegt að fá þau rafmagnsóhreinindi í járnabindingu húsa. Steypustyrktarjárn húsa ná ekki góðu sambandi við jarðveg í kring um húsin sérstaklega þegar horft er til þess að gróf möl er bæði undir sökkli og við sökkul. Það er gert til að tryggja að raki liggi ekki að útveggjum. Engin rafleiðni fæst þar í gegn.
Reglugerðir um frágang rafmagns og byggingu mannvirkja er verulega gallaðar að þessu leyti. Þeir húseigendur sem vilja njóta vafans um áhrif frá óhreinu rafmagni þurfa því að setja upp skaut á sín hús. Reynslan og fræðin hafa kennt að bestu skautin eru svokölluð stafskaut. Það er málmstöng sem rekin er nokkra metra lóðrétt niður í jörð. Ef jarðvegur er ekki góður til jarðtenginga þá er betra að hafa skautin fleiri. Innanhúss er sett upp svokölluð jarðskinna og þar er allt jarðsamband hússins tengt í. Þá fær steypustyrktargrind hússins gott jarðsamband sem og núll viðkomandi orkuveitu.
Reynsla undirritaðs og margra þeirra sem starfað hafa á vettvangi rafmengunar undanfarna áratuga hefur sýnt að svona jarðsamband er gríðarlega mikilvægt fyrir heilsu og líðan íbúa. Helstu einkenni um lélegt jarðsamband er ló og rykmyndun innan húss en einnig sótmyndun á veggjum sem veldur því að myndir í málmrömmum skilja eftir sig far þegar þær eru teknar niður. Önnur einkenni er vanlíðan íbúa og er oft einn af hverjum fjórum íbúum sem finnst þeim líða betur annarstaðar en heima hjá sér. Jarðbindingar húsa er nokkuð sem þarf að komast í byggingarreglugerðir þannig að tryggt sé að allir njóti þess öryggis sem það felur í sér.
Valdemar Gísli Valdemarsson 05.06.2013
Flokkar:Rafmagn