Ný sýn á gamalt vandamál – Skjaldkirtilsvanvirkni Týpa 2

Fyrri hluti:  

Hvað eiga viðvarandi verkir, sykursýki, hjartasjúkdómar, tíðavandamál og kæfisvefn  sameiginlegt?

Góðar líkur er á að þetta safn ólíkra kvilla – auk bókstaflega tuga ef ekki hundruða annarra – bendi til óeðlilega lítillar skjaldkirtilsvirkni, en ekki þó endilega vegna lítillar framleiðlsu skjaldkirtilshormóna.  

Ef þú ert ein(n) þeirra sem þjáist af ýmisskonar vanlíðan og vanheilsu án þess að þar hafi fundist nein skýring á,  ættirðu að lesa áfram – e.t.v. er hana hér að finna.

unnamed

Með þessum orðum hefst grein úr tímaritinu Townsend Letter sem ég rakst á fyrir um þremur árum og fylgir hér á eftir örlítið stytt. Greinin er byggð á rannsóknum dr. Mark Starr, bandarísks læknis og bók hans um vanvirkni skjaldkirtils – sem hann kallar Faraldur Skjaldkirtilsvanvirkni Týpu 2 (Hypothyroidism Type 2: The Epidemic).

Grein þessi er einhver sú merkilegasta sem ég hef lesið um heilsutengd mál og ég hvet lesendur Heilsuhringsins til að gefa sér tíma til að kynna sér efni hennar því það snertir okkur öll.

Ég hef enn ekki orðið vör við að þær upplýsingar sem hér er að finna séu orðnar hluti af almennri vitneskju lækna né annarra meðferðaraðila – þó eru þessar upplýsingar ekki nýjar af nálinni. Viðtekna hugmyndin er hins vegar sú að um sé að ræða einangruð og fá tilfelli en ekki þann faraldur sem í raun virðist vera í gangi beint fyrir framan nefið á okkur. Þessi tegund skjaldkirtilsvanvirkni fer framhjá miklum meirihluta lækna og því fá fæstir sem af henni þjást viðeigandi meðferð. Stundum sjáum við ekki skóginn fyrir trjánum og það er einmitt þannig sem málin virðast vera hvað þetta varðar.

Sagt hefur verið að það taki um 30 ár að breyta rótgrónum hugmyndum innan læknisfræðinnar, en mér finnst við ekki hafa tíma né efni á slíku þó stundum geti verið gott að vera fastur fyrir.

Sú er ástæðan fyrir þýðingu minni á umræddri grein. Hún fjallar um nýja sýn á þetta löngu þekkta vandamál sem vanvirkur skjaldkirtill er og gamlar uppgötvanir sem búið er að dusta rykið af í tengslum við það.

Meðferðarúrræði eru þekkt og voru  notuð fyrr á tímum af þeim læknum sem þá störfuðu  og sé þeim beitt af fagaðilum á réttan hátt, er til þess að gera auðvelt að bæta úr vandanum. Það getur hreinlega þýtt nýtt líf fyrir þá einstaklinga sem í hlut eiga.
Sigríður Ævarsdóttir.

Grunnur að faraldri
Skjaldkirtillinn er fiðrildislagaður innkirtill staðsettur framan á hálsinum og framleiðir fjölmörg skyld hormón: thyroxin (einnig þekkt sem T4), liothyronine (einnig þekkt sem T3), T2 og T1. T4, þekktasta skjaldkirtilshormónið, hitar líkamann, hraðar efnaskiptum (fitu, eggjahvítu og kolvetna) og eykur hjartslátt.  T3, virkasta skjaldkirtilshormónið hitar einnig líkamann og eykur efnaskipti og hjartslátt. Þegar best lætur er virkni T4 einungis um fjórðungur af virkni T3 og í lifur, nýrum og öðrum líkamsfrumum er mestum hluta þess breytt í virkara formið T3. T2 örvar efnaskipti á meðan ein dýratilraun hefur sýnt að T1 kælir líkamann og hægir á hjartanu. Samvirkni allra fjögurra hormónanna er ekki enn að fullu þekkt.

Lítil skjaldkirtisstarfssemi, oft nefnd skjaldkirtilsvanvirkni eða latur skjaldkirtill, var fyrst skjalfest í London árið 1875. Samkvæmt mörgum áreiðanlegum heimildum, þjáist a.m.k. þriðjungur og uppí jafnvel helmingur bandarísku þjóðarinnar af mildri og allt að alvarlegri skjaldkirtilsvanvirkni.

Í bókinni Hypothyroidism Type 2, útskýrir dr. Starr muninn á skjaldkirtilsvanvirkni týpu 1 og týpu 2 á eftirfarandi  hátt:

* Skjaldkirtilsvanvirkni af týpu 1 (sú tegund vanvirkni sem flestir þekkja og algengast er að sé meðhöndluð – innskot þýðanda) orsakast af því að skjaldkirtillinn framleiðir ekki nægjanlegt magn hormóna til að viðhalda ,,eðlilegu” magni hormóna í blóði, en það er nauðsynlegt til að eðlilegt magn skjaldkirtilsörvandi hormóns (TSH) sé framleitt í heiladingli.

* Skjaldkirtilsvanvirkni af týpu 2 er hins vegar þannig að skjaldkirtillinn framleiðir ,,eðlilegt” magn hormóna, en frumur líkamans eru ófærar um að nýta sér það. Sumir sérfræðingar kalla þetta vantetu til að nýta hormónið (thyroid hormone resistance) (til samanburðar við insulin resistance í sykursýki).

Auðvelt er að greina týpu 1 með niðurstöðum úr blóðrannsóknum.  Hins vegar greina slíkar rannsóknir ekki týpu 2, þar sem þrátt fyrir að í blóðinu mælist nægjanlegt magn hormóna, eru frumurnar af ýmsum ástæðum ófærar um að nýta sér þá. Þar sem aðal vandamálið liggur  hjá frumunum sem nýta sér hormónið, þarf því aðra nálgun til greiningar og að vissu marki, við meðhöndlun skjaldkirtilsvanvirkni Týpu 2.

Þar sem mun fleira fólk þjáist af skjaldkirtilsvanvirkni týpu 2 en Týpu 1 og þar sem Týpa 2 er að miklu leyti bæði misskilin og vangreind, verður í þessari grein augum beint að Týpu 2, hvernig hún lýsir sér, bestu leiðum til sjúkdómsgreiningar og meðferð. Greinin byggir að miklu leyti á upplýsingum úr bók dr. Mark Starr sem áður hefur verið nefnd.

Dr. Starr fékk áhuga á viðfangsefninu af bæði persónulegum og faglegum ástæðum. Fyrir mörgum árum átti hann við að stríða þráláta verki, þreytu og ofnæmi, og þar sem hann fékk enga bót meina sinna þrátt fyrir að hafa leitað til sérfræðinga, hófst hann handa við að reyna að finna lækningu sjálfur. Í tengslum við atvinnu sína við að meðhöndla þúsundir einstaklinga, sem þjáðust af stöðugum langvinnum verkjum, uppgötvaði hann mynstur. Undirliggjandi ástæða eða meðvirkandi þáttur í vanheilsu þessa fólks var léleg skjaldkirtilsstarfssemi. Bókin er árangur rannsókna hans á skjaldkirtilsvanvirkni og meðferðum tengdum henni.

Endalaus veikindi

Flest fólk telur skjaldkirtilinn réttilega ábyrgan fyrir eðlilegum efnaskiptum, en þessi kirtill spilar lykilhlutverk í hundruðum  annarra aðgerða í líkamanum. Hér á eftir koma dæmi um nokkur þeirra einkenna og ástands sem framkallast getur, beint og óbeint vegna vanvirkni skjaldkirtilsins:
• Truflun á matarlyst (aukin eða minnkuð).
• Sjálfsónæmi, þ.m.t. ofnæmi, rauðir úlfar og gigtarsjúkdómar.
• Ólag á blóðsykri t.d sykursýki, blóðsykursfall eða sambland af hvorutveggja.
• Krabbamein, allar tegundir.
• Frávik tengd hjarta- og æðakerfi – þ.m.t. hátt kólesteról, lélegt blóðflæði, hraður hjartsláttur,   háþrýstingur og of lágur blóðþrýstingur (lágþrýstingur).
• Tannvandamál s.s. þrálátar sýkingar í tannholdi, rýrnun á tannholdi/gómum og TMJ (tannagníst sem leiðir til krónískrar bólgu og verkja í kjálkaliðamótum (temporomandibular joint).
• Þreyta og sinnuleysi.
• Ólag í meltingarvegi, þ.m.t. iðraólga (erting í þörmum) og léleg melting sem leiðir til
hægðatregðu og ólags á næringarupptöku.
• Ástand tengt hjarta og blóðrásarkerfi s.s. kransæðavandamál vegna æðakölkunar, óreglulegur hjartsláttur, óeðlilegur blóðþrýstingur (of hár eða of lágur), minnkuð afkastageta hjarta, veikleiki í hjartavöðvanum og hjartaáfall.
• Hæsi, erfiðleikar með að kyngja, bólgin og stækkuð tunga, kæfisvefn.
• Vanvirkni ónæmiskerfisins með þeim afleiðingum að aukning verður á sýkingum (þ.m.t. sveppasýkingu af völdum Candida albicans) í öllum hlutum líkamans.
• Andleg og tilfinningaleg vandamál, s.s. vitsmunalegir erfiðleikar og kvíði, þunglyndi, minnisleysi, geðhvarfasýki, geðrof og geðklofi.
• Rugl á efnaskiptum sem oftast leiðir til þyngdaraukningar en í einstöku tilfelli þyngdartaps.
• Truflanir tengdar vöðvum þ.m.t. skortur á samhæfingu, carpal tunnel heilkenni, vefjagigt og veikleiki.
• Taugaskaðar, þ.m.t. en ekki þó bundið við ástand í eyrum (heyrnarleysi, suð í eyra og svima), höfuðverkir og migreni, heila- og mænusigg (MS) og paresthesia (dofi og náladoði í taugum).
• Verkir í liðum og vöðvum, þ.m.t. liðagigt og vefjagigt.
• Minnkuð svitamyndun.
• Ólag tengt æxlunarfærum, þ.m.t. vansköpun, blöðrur í brjóstum og á eggjastokkum, legslímhimnuflakk, ófrjósemi og tíðavandamál.
• Óeðlilegt ástand öndunarfæra þ.m.t. asmi, lungnaþemba, lungnabólga og síendurteknar ennis – og kinnholusýkingar.
• Húðvandamál þ.m.t. fílapenslar, hármissir, graftarbólur, húðþurrkur, exem, ofsakláði og sóríasis.
• Þreyta og kæfisvefn.
• Hægari hreyfingar og talandi.
• Léleg uppbygging líkamsvefja og aflögun, ásamt minnkaðri getu til að lagfæra skemmda vefi – kemur fram í brothættum nöglum og hári, lélegum hárvexti (skalla), hrörnandi beinum (beinþynning), aflögun á beinum (scoliosis), þynningu eða vöntun á augnabrúnum (sérstaklega ytri þriðjungi þeirra).
• Ólag á hitatemprun;  óþol fyrir hita eða mikil viðkvæmni fyrir kulda, sérstaklega í útlimum.
• Vandamál tengd þvagrás t.d. blöðrubólga og nýrnabilun vegna rýrnunar og öramyndunar á nýrum.

Hvers vegna svona mörg mismunandi sjúkdómseinkenni ?

Hvernig er það mögulegt að vanvirkni eins lítils kirtils geti haft svo víðtæk áhrif á starfsemi sem ekki sýnist tengd hver annarri? Skoðum aðeins augljósustu áhrif vanvirks skjaldkirtils, sem er minnkun á efnaskiptum eggjahvítu, fitu og kolvetna. Þetta þýðir ekki aðeins ónógan flutning næringarefna inn í gegnum frumuhimnuna, heldur einnig árangurslítinn flutning úrgangsefna út úr frumunni. Eins og heildrænir meðferðaraðilar  vita vel getur ónóg næring og uppsöfnun á eiturefnum (án tillits til ástæðu) ýtt undir eða hreinlega orsakað hvaða ástand sem er, sem við köllum ,,sjúkdóma”. Því meira sem safnast upp af eiturefnum í frumunum, þeim mun viðkvæmari verður viðkomandi einstaklingur fyrir sýkingum og hrörnun. Það lítur út fyrir að hvatberar (orkukorn = örsmá eining í frumunni sem brennir orku og ber ábyrgð á um 90% af orkuframleiðslu hverrar frumu, sem vefir og líffæri þurfa til efnaskipta) – verði fyrir miklum áhrifum af vanvirkni skjaldkirtilsins. Starr skrifar:

,,Skjaldkirtilshormón eru ábyrg fyrir efnaskiptum okkar. Þegar skjaldkirtilshormón er gefið dýrum, stækka og fjölgar trilljónum hvatbera. Heildar yfirborð himna hvatberanna eykst nánast í beinu hlutfalli við aukningu á efnskiptahraða dýrsins. Í skólabók minni úr læknaskóla The Textbook of Medical Psysiology er að finna eftirfarandi fullyrðingu: ,,Það liggur nánast í augum uppi að aðal hlutverk thyroxin (skjaldkirtilshormóns) felist  einfaldlega í að auka fjölda og virkni hvatberanna.”

Hagkvæmt samspil er í gangi milli hvatberanna og skjaldkirtilshormónanna og verkar í báðar áttir. Aukið magn skjaldkirtilshormóna eykur ekki aðeins stærð og fjölda hvatberanna heldur virðist stökkbreyting hvatberanna að miklu leyti vera ábyrg fyrir efnaskiptavanvirkni á frumusviði (cellular level), með einkennum vanvirks skjaldkirtils …  Vöntun á hvatberum, svo og tilbúin eiturefni, skaða efnaskipti skjaldkirtilsins á frumusviðinu. Það þarf því ekki að koma á óvart að einkenni tengd galla í hvatberum eru þau sömu og einkenni vanvirks skjaldkirtils.

Ýmis eiturefni úr umhverfinu hafa áhrif á skjaldkirtilsefnaskipti og orsaka vanvirkni í  hvatberum. Þessi efni eru t.d. jarðolía (petrolium) og ýmis hliðarefni hennar; skordýraeitur, illgresiseitur og eitur sem sveppir gefa frá sér; þungmálmar m.a. kvikasilfur, arsenik, blý, ál, baríum og kadmíum;  lífræn leysiefni, þ.m.t. benzene, toulene, trichloroethylene og dichloromethane og ýmis fleiri. Fituleysanleg eiturefni dvelja í fitufrumum sem eru staðsettar undir húðinni og umhverfis innri líffæri. Í líkama kvenna, sem inniheldur að jafnaði meiri fitu en líkami karla, er þ.a.l. meira af eiturefnum og því má gera því skóna að þær þjáist frekar af vanvirkum skjaldkirtli en karlar. Tölfræðilegar niðurstöður staðfesta það og.

Galli í skjaldkirtilsviðtökum á yfirborði frumanna getur líkt og  stökkbreyting í hvatberum orsakað óeðlilegt ástand á skjaldkirtlinum. Að sögn dr. Starr geta afbrigðilegir og gallaðir skjaldkirtilsviðtakar komið í veg fyrir  að nægjanlegt magn hormóna – sem þó er nóg af í blóðinu, nái til hvatberanna og á aðra nauðsynlega staði t.d. til kjarna frumunnar. Í kjarnanum örva skjaldkirtilshormón nýmyndun eggjahvítu, gera erfðaefni virkt og ýmsa fleiri hluti. Þetta útskýrir hvers vegna svo margt fólk með vanvirknan skjaldkirtil er með klofnar neglur og hár og jafnvel galla í beinmyndun. Ef líkaminn getur ekki nýtt sér amínósýrur til að skapa nýjan eðlilegan vef, verða frumurnar ófullkomnar og orsaka óeðlilega byggingu.

unnamed (2)

Dæmigert bólgið andlit  – eftir meðhöndlun lagaðist ,,þrotinn” í andlitinu og áferð hársins einnig.
Source: Hertoghie, Eugene. The Practitioner. Jan. 1915, Vol XCIV, No. 1.
Reprinted with permission.

unnamed (1)

Fyrir og eftir meðferð með þurrkuðum skjaldkirtli.
Source:Allbut, T.C. A System of Medicine, London, Macmillan and Company, 1901. Reprinted with permission. (Note: Photo on the left has been cropped.)

Myxedema, sem þýðir uppsöfnun á mucin (slími), getur einnig átt sér stað þegar vefir ná ekki að vinna úr og  nýta sér skjaldkirtilshormón. (Myx er grískt orð yfir ,,mucin” og edema þýðir ,,bjúgur”). Mucin er myndað af  sykrum bundnum við eggjahvítu og er hluti af bandvef líkamans. (Bandvefurinn fóðrar blóðæðar, myndar taugaslíður, er hluti af bandvefsreifum utan um vöðva, og er í líffærum og kirtlum, í meltingarveginum og þvagrásinni og í slímhimnum öndunarvegarins þ.m.t. ennis og nefholum.) Frá  náttúrunnar hendi er hlaupkennt mucin þannig gert að það dregur í sig vatn og í eðlilegu magni er það ekki neitt vandamál. Í miklu magni, getur það hins vegar orsakað alvarleg vandamál hvar sem það safnast upp í bandvefnum. Meira en helmingur (55-60%) þeirra sem eru með vanvirkan skjaldkirtil, er með of mikið magn mucins og það safnast enn meira fyrir með hækkandi aldri. Staðreyndin er sú að á árum áður var læknisfræðilega hugtakið fyrir vanvirkan skjaldkirtil orðið myxedema.

unnamed (3)

Myxedema – gamla hugtakið yfir vanvirkan skjaldkirtil. Myndir af einstaklingum fyrir og eftir meðhöndlun.

Af því sem að framan er skrifað sést hvernig vanvirkur skjaldkirtill getur verið ábyrgur fyrir svo mörgum heilsufarsvandamálum sem í fyrstu virðast ekki tengjast hvert öðru. Einungis lítið dæmi eru hjartasjúkdómar, meltingarsjúkdómar, lifrarvanvirkni, rauðir úlfar, vöðvaverkir, taugaskemmdir, bólgur í ennis- og kinnholum, kæfisvefn (orsakaður af bólgum í barka og barkakýli). Einnig er vert að minnast á vandamál tengd kjálkaliðamótum TMJ. Þau fylgja oft vanvirkum skjaldkirtli vegna þess að samdráttur og slökun vöðva er of hæg. Vöðvakrampi er einnig algengur, svo og liðagigtar breytingar og vökvasöfnun í kringum liði.

Ónógt skjaldkirtilshormón á frumusviði hefur einnig neikvæð áhrif á aðra kirtla. ,,Án úrslitaáhrifa skjaldkirtilshormónanna er eðlilegur þroski og virkni annarra hormónakirtla ekki mögulegur”. Til að bæta upp fyrir veikleika eða léleg efnaskipti orsökuð af ónógum skjaldkirtilshormónum, ofgera aðrir líkamshlutar s.s. nýrnahettur og sympatíska taugakerfið sér. Tímabundið getur þetta komið fram sem örari hjartsláttur, ofvirkni, taugaspenna, skjálfti og eirðarleysi – þar til uppgjöf tekur við sem afleiðing þessa óeðlilega ástands. Í flestum tilfellum gerist það að þeir sem fyrir þessu verða lenda í því fari, að upplifa viðvarandi þreytu og veikleika í kjölfarið.

Við skoðun á listanum hér að framan yfir sjúkdómsástand sem orsakast beint af vanvirkni skjaldkirtilsins eða vegna óbeinna áhrifa, hafið þá í huga lélegt frásog vefja á skjaldkirtilshormóni, ofgnótt mucins og ónóga virkni annarra kirtla. Þetta þrennt getur útskýrt nær allar þessar sjúkdómamyndir.

Galli á rannsóknum

Stærstu mistök við greiningu vanvirks skjaldkirtils eru til kominn vegna þess hversu einhliða læknastéttin hefur lagt traust sitt á niðurstöður úr blóðrannsóknum og útilokað einkenni einstaklinganna. Þegar vanvirkur skjaldkirtill var fyrst uppgötvaður á 19. öld hlustuðu læknar á fólk sem átti við  vandamálið að stríða og byggðu meðferð sína á því sem þeir sáu og því sem sjúklingarnir sögðu þeim. Það eru mörg líkamleg einkenni sem fylgja vanvirkum skjaldkirtli, þ.á.m. uppblásið andlit og varir, hárlos, þurr og þrútin húð, óeðlilega hægar hreyfingar og talandi, hæsi, óþol fyrir kulda (manneskjan upplifir ekki aðeins hrollkulda, heldur eru hendur og fætur köld viðkomu).

Mark Starr skrifar að í upphafi tuttugustu aldarinnar hafi endanlegt próf á það hvort sjúklingur þjáðist af vanvirkum skjaldkirtli gengið útá hvernig viðbrögð hann sýndi við reynsluinntöku á skjaldkirtilshormónum. Staðfesting á greiningu vanvirks skjaldkirtils byggðist á bata eða lækningu á einkennum með inntöku hormónanna. Framfarir í mælingum skjaldkirtilshormóna í blóði urðu á þessum tíma, en því miður hefur þeim mistekist að bæta greiningu á skjaldkirtilsvanvirkni týpu 2.

Í dag er miklum meirihluta lækna kennt að kanna einungis blóðprufur sjúklinga sinna ef grunur er um vanvirkni skjaldkirtils. Ef prufurnar koma eðlilega út hefst leit að öðrum hugsanlegum ástæðum vandamálsins. Mikill meirihluti sjúklinga með vanvirkan skjaldkirtil mælist með eðlileg blóðgildi skjaldkirtilshormóna, því þessi blóðpróf greina ekki Týpu 2 af vanvirkum skjaldkirtli.  Óteljandi ný heilkenni, bæði andleg og líkamleg, hafa verið fundin upp í (gagnslausum) tilraunum til útskýringa þeim ógrynnum einkenna sem tengd eru vanvirkni skjaldkirtilsins.

unnamed (4)

14 ára gömul stúlka fyrir og eftir meðhöndlun v.vanvirks skjaldkirtils Týpu 2.
Source: Lisser, H. and Escamilla, R.F. Atlas of Clinical Endrocrinology: Including Text of Diagnosis and Treatment. C.V. Mosby Company, 1957.

Hversu kaldhæðið er það ekki – þó viðurkennt skuli að það komi ekki á óvart! – að með tæknivæðingu læknisfræðinnar, ásamt með einföldun mælinga á rannsóknarstofum og lyfjum framleiddum með efnasmíði, eru upplifun og einkenni einstaklingsins orðin í öðru sæti í röðinni hjá þeim sem meðhöndlar viðkomandi. Fagmenn í læknisfræði hafa ,,blindast af hollustu sinni við rannsóknarniðurstöður” segir Starr. Með því að skoða tímamótaverk (byggð á heilbrigðri skynsemi) frumkvöðla í læknisfræði – þ.m.t. Broda Barnes, Eugene Cohen, Jacques Hertoghe, Hermann Zondek, Hans Kraus og Lawrence Sonkin (hann stundaði nám með tveimur síðasttöldu) – brýtur Starr til mergjar nokkrar algengar rangtúlkanir um prófanir á skjaldkirtlinum. Algengasta blóðprófið, sem byggir á kenningu um TSH-skjaldkirtilshormóna afturverkun inniheldur einfaldan en stóran galla. Þar sem svo margir læknar reiða sig á þetta blóðpróf til að fá sjúkdómsgreiningu, er ástæða til að ræða það frekar.

Algengasta blóðprófið fyrir vanvirkan skjaldkirtil byggir á eftirfarandi fullyrðingum: Líkamsvefirnir flytja undirstúkunni í heilanum boð um að þá vanti skjaldkirtilshormón og hún sendir boðin áfram til heiladingulsins. Við þau boð seytir heiladingullinn efni sem örvar myndun skjaldkirtilshormóna (TSH), sem fær skjaldkirtilinn til að framleiða meira af hormónum. Þessi hormón berast síðan með blóðstraumnum til vefjanna. Virkni skjaldkirtilshormónanna á vefina veldur minnkun á skilaboðum frá þeim til heilans og minnkar kallið eftir skjaldkirtilshormónum og þá hættir heiladingullinn að seyta TSH.

Vandamálið við þessa uppsetningu dæmisins er að yfirleitt eru hvatberar í eitruðum  og gölluðum frumum ófærir um að flytja heilanum boð um þörf sína fyrir skjaldkirtilshormón, jafnvel þó það vanti sárlega í frumuna. Samkvæmt fjölmörgum rannsóknum er það í raun svo, að fólk með afbrigðilega hvatbera mældist  þrátt fyrir það með eðlilegt magn skjaldkirtilshormóna í blóði. Nútíma blóðpróf nema ekki skjaldkirtilsvanvirkni 2 ,,vegna þess að gildi skjaldkirtilshormóna (í blóðinu) getur verið eðlilegt, en er þó ekki nægjanlega hátt til að örva … gallaða hvatbera til að starfa eðlilega.” Né eru gildi skjaldkirtilshormóna í blóðinu nógu há til að hvetja viðtaka á frumunum  sem veita viðnám, til að taka við hormónum. Hvaða hluti frumunnar sem er getur verið flæktur í misheppnaða úrvinnslu og nýtingu skjaldkirtilshormóna. Eftir að hafa útvegað nákvæmt yfirlit af skriflegum gögnum um þessi mál segir Starr: ,,Það eru engar vísindalegar sannanir sem styðja fullyrðingar lækna um að TSH-próf nemi vanvirkni skjaldkirtils hjá miklum meirihluta sjúklinga. Gildi TSH (prófa) byggir (eingöngu)  á orðrómi og felur í sér þá rannsóknargalla sem ég hef nefnt. Því miður virðast fáir innan læknisfræðinnar hafa lesið þau skriflegu gögn sem liggja til grundvallar trúanleika TSH-prófanna – né hafa gert það af nægjanlegri rökvísi“.

Nauðsyn þess að skoða klínísk einkenni

Ég hef nú þegar nefnt fjölmörg klínísk merki skjaldkirtilsvanvirkni, t.d. þrota í andliti og á vörum, þynningu eða vöntun á hári, vöntun á ytri þriðjungi augnabrúna, bólgu í húð, vöntun á árvekni, hægan talanda, hæsi og kalda útlimi. Og að sjálfsögðu hina algengu þyngdaraukningu og tilhneygingu til krónískra sýkinga.

Það er til önnur mjög einföld skjaldkirtils mæling sem var þróuð af Broda Barnes, MD, PHD (hann lést 1988). Barnes sagði sjúklingum sínum að mæla líkamshitann hjá sér daglega áður en þeir færu á fætur, yfirleitt í viku tíma. Væri hitastigið að meðaltali undir 36,6°C (97.8°F), var viðkomandi álitinn með vanvirkan skjaldkirtil. Starr bendir á að þessi mæling sé ,,ekki óskeikul” – t.d. getur einstklingur með vanvirkan skjaldkirtil haft nær eðlilegt ,,grunnefnaskipta hitastig” og að ástæða hærra hitastigs en vænta má orsakaðist þá af krónískum bólgum í lungum eða annarsstaðar. Engu að síður er skjaldkirtilsmæling Barnes í flestum tilfellum áhrifaríkt og nákvæmt greiningartæki.

Ég bendi aftur á listann um afleiðingar vanvirks skjaldkirtils í byrjun greinarinnar. Nú ætti að vera orðið nokkuð ljóst að það er tiltölulega einfalt að koma auga  á vanvirkni hans, þegar maður veit eftir hverju maður á að leita. Eitt enn: Þekkt rannsókn birt í Journal of Clinical Endocrinology komst að því að sumt fólk með alvarlega lífefnafræðilega skjaldkirtilsvanvirkni sýndu einungis mild klínísk einkenni, á meðan aðrir með minniháttar lífefnafræðilegar breytingar sýndu alvarleg klínísk einkenni.

Endir 1.hluti.

Seinni hluta greinarinnar Skjaldkirtilsvanvirkni Týpa 2 er að finna hér : https://heilsuhringurinn.is/2011/10/31/skjaldkirtilsvanvirkni-typa-2/

Senda í tölvupóstFlokkar:Meðferðir

Flokkar/Tögg, , , , , , , , , , , , , , , ,

%d bloggers like this: