Músíkþerapía

Áhrif tónlistar
Ég keyri um í bílnum. Í útvarpinu kemur lag frá níunda áratugnum og í eitt augnablik verð ég unglingur aftur. Tilfinningar og minningar hellast yfir mig. Þegar ég fer út að skokka vel ég mér hressilega rokktónlist til að fá aukakraft og hvatningu. Þegar ég vil slaka á vel ég rólega og fallega tónlist. Í jarðaförum veljum við tónlist sem hjálpar okkur að minnast og syrgja. Líf okkar allra er umvafið og samtvinnað tónlist og hljóðum. Það er ekkert sem kemur á óvart. En það sem færri vita er að það er heil starfstétt sem byggir vinnu sína á þessum áhrifum sem tónlistin hefur á huga og líkama.

Byggir á gömlum grunni
Þessi áhrif eru ekki ný vísindi og finna má lýsingar og sögur úr elstu heimildum af þeim. Það var hinsvegar ekki fyrr en eftir seinni heimsstyrjöld sem músíkþerapían fór að þróast sem starfsgrein. Tónlistarfólk sem vann með stríðshrjáðum, geðsjúkum og fötluðum fór að nota tónlist til að reyna að hjálpa skjólstæðingum sínum. Þessir frumkvöðlar þróuðu síðan aðferðir sínar og fóru í kjölfarið að þjálfa og kenna. Í dag er músíkþerapía kennd í háskólum um allan heim. Miklar rannsóknir liggja til grundvallar starfinu og mastersgráðu þarf til að mega starfa og kalla sig músíkþerapista.

Brautryðjendur á Íslandi
Um 1970 tók fyrsti íslenski músíkþerapistinn, Eyjólfur Melsteð, til starfa á Kópavogshælinu. Síðan hafa fleiri músíkþerapistar útskrifast og starfað á Íslandi. Flestir hafa unnið með börnum og fötluðum en þó hafa músíkþerapistar unnið með alzheimersjúklingum, krabbameinssjúklingum, aðstandendum, fólki með sálræn vandamál og fleiri slíkum hópum. Einna lengst hefur Valgerður Jónsdóttir rekið Tónstofu Valgerðar þar sem hún hefur unnið brautryðjendastarf á Íslandi síðastliðin 30 ár. Félag músíkþerapista á Íslandi, FÍSMÚS, var stofnað árið 1997 og er í samstarfi við alþjóðleg músíkþerapíufélög.

En hvað gera svo músíkþerapistar?
Aðferðirnar eru eins ólíkar og skjólstæðingarnir. Músíkþerapistar hafa aðstoðað krabbameinssjúk börn og fíkla til að semja tónlist sem tjáir tilfinningar þeirra. Stundum nota þeir afspilaða tónlist til að ná fram áhrifum á líkama eða huga en einnig hljóðfæri og samspil. Algengt er að nota spunann sem orðalaus samskipti hvort sem það er til að þjálfa samskiptafærni barna á einhverfurófinu eða sem brú yfir í tilfinningar fullorðinna sem eru að vinna með sálræn eða tilfinningaleg vandamál. Söngurinn getur bæði verið tjáningarform og tenging við minningar. Þegar við syngjum streymir endorfín í líkamann og veitir okkur vellíðan. Enga kunnáttu þarf til að spila á hljóðfærin sem notuð eru í músíkþerapíu og því geta allir tekið þátt óháð getu eða þekkingu. Tónlistin er sniðin að þörfum og þroska skjólstæðingsins.

Upplifun
Tónlistin skapast af þeim sem hlustar á hana og fólk upplifir tónlist ekki endilega á sama hátt. Upplifunin er í tengslum við tíma og stað, menningu, uppeldi og félagslegt samhengi. Í músíkþerapíu er tónlistin ekki ákveðin framleiðsla sem passar öllum heldur lifandi fyrirbæri sem lagar sig að persónuleika og sálarástandi hlustendans, umhverfi og augnabliki.

Áhrifamáttur
Ég sit í miðjum hóp af fötluðum einstaklingum. Ein konan slær á trommu eins fast og hún getur, brosir og hlær. Önnur dillar sér í takt við tónlistina. Eldri maður slær varfærnislega á klukkuspil. Hvert og eitt spilar með á sínum forsendum. Tónlistin og samspilið örvar bæði líkama og huga og veitir okkur sem í hópnum spila gleði og vellíðan. Seinna um daginn hitti ég konu sem missti manninn sinn úr krabbameini. Með slökun og sérvalinni tónlist könnum við tilfinningar svo sem reiði og sorg. Hún rifjar upp sjúkdómsferlið, dánarstundina og missinn. Hún veltir fyrir sér hvernig framtíð bíði hennar og hvernig hún geti tekist á við lífið án eiginmannsins. Enn og aftur verð ég gáttuð yfir áhrifamætti og fjölbreytileika tónlistarinnar og gleðst yfir að fá að nota hana sem verkfæri til að hjálpa fólki til að líða betur.

Höfundur: Margrét Perla Kolka Leifsdóttir, músíkþerapisti MA, FAMI

 



Flokkar:Greinar

Flokkar/Tögg, , , , , , ,

%d bloggers like this: