Dáleiðsla – Hugleiðsla

Þegar kemur að hugtökunum, sem snerta ,,hugar-hluta“ okkar sjálfra, verður fátt um samlíkingar eða tilvitnanir í daglega umsýslan og störf. Það er einfaldlega ekki við neitt handfast að miða. ,,Leiðsla“ verður eina íslenska orðið, sem hugsanlega gefur nokkra hugmynd um það, hvað er átt við. Þó er notkun þessa orðs misskilningur í þessu tilfelli. Hugurinn er hinn leyndi hluti okkar á þann eina veg, að nánast er unnt að komast hjá því á langri æfi að hugsa neitt útí það, hvað hugurinn er í raun og veru. Hann virkar samt! Hugurinn er einhvern veginn svo sjálfsagður, að við hugsum lítið sem ekkert út í það, að án hans værum við ekkert.

Égið okkar vantaði þá að vísu þetta tjáningarverkfæri, en meira getum við ekki vitað. Þetta er ekki nein þversögn í sjálfu sér, heldur hluti af flóknum og óbreytanlegum tilvistarpakka. Okkar eigin tilvistarpakka. Samt sem áður tengist hugurinn meginhluta tilvistar okkar beint. En er það látlaust og raunar sjálfsagt fyrirbæri eða tæki, a.m.k. í tilvist á yfirborði reikistjörnu eins og okkar, að við erum okkur eingöngu meðvituð um, að við notum hugann sem aðalskynfæri okkar, ef við leggjum okkur sérstaklega eftir því og þá einmitt og auðvitað með aðstoð sama skynfæris?

En atburðarásin á reikistjörnuyfirborðinu og líkamsþarfirnar koma það ótt og títt inn í meðvitund okkar, að við setjum það venjulega í síðasta sæti að vera að pæla í undirstöðu okkar sjálfra: eigin huga og eigin hugarveröld, hugarumhverfi. Ef við förum næst að aðallíffæri líkamans, sem tengist hugsun almennt, heilanum. Þá er hann samsettur úr tveim einingum, hægri og vinstri. Nú vinna hægra og vinstra heilahvel okkar venjulega ekki saman. Sumir segja jafnvel, að vinstra heilahvelið, sem hefur með efnislegt umhverfi okkar og ,,staðreyndir“ að gera, taki oft völdin af hægra heilahvelinu eða ,,gabbi“ það. En hægra heilahvelið er nánasta tenging okkar við svokallaða undirmeðvitund okkar. Undirmeðvitundin geymir ógrynni vitneskju á sviði tilfinninga og reynslufyrirbæra okkar, sem við oft á tíðum vinnum aldrei úr til fullnustu. Því er haldið fram að 90% af starfsemi heilans fari fram í hægra heilahvelinu. Sem sé nánast ómeðvitað. Einn annar munur á heilahvelunum er sá, að þau vinna ekki með sömu tíðni og eru þess vegna oftast ótengd, a.m.k. í svokallaðri dagvitund.

Enda má telja að slíkt fyrirkomulag sé bráðnauðsynlegt fyrir venjulega lífsafkomu tengda hraðri atburðarás reikistjörnuyfirborðsins. Með tiltölulega nýrri hljóðtækni er þó nú um stundir, unnt að láta heilahvelin vinna í samhljómi, sem veldur því, að stjórnun okkar á Beta, Alfa, Þeta og Delta tíðnum heilans getur orðið mun fullkomnari. Ef t.d. hugleiðsla er aðferð til þess að læra að stjórna þessum tíðnum heilans og venjulega tekur það 30 ára ástundun að læra þá hugheilatækni þá er nú komin fram hljóðtækni, sem sparar okkur þessi 30 ár! Þetta er svipað og að spara sér sporin með því að kaupa sér flugfar.

Hemi-Sync google, færir mann eitt skref nær þessari hljóðtækni. Þrátt fyrir alla okkar vitneskju um þessháttar mælieiningar, erum við öll að mörgu leyti samt ,,úlfabörn“. Heilaþvegin af menningu okkar, snemma á jarðvistarferlinum. Í skóla lærðum við m.a., að skynfæri mannsins væru fimm: sjón, heyrn, ilman, smekkur og tilfinning. En það gleymdist að leggja áherslu á það við okkur, að voldugasta skynfærið er hugurinn, sem tengir þetta allt saman og gerir okkur öllum kleyft að nota þessi fimm hrein-líkamlegu skynfæri okkur til gagns. Vitaskuld hefur menning okkar tíma gert hugann að rannsóknarefni sínu. En samt hefur henni ekki enn tekist að greina á milli þess meginþáttar, sem er mismunurinn á milli heila og huga.

En þessi meginþáttur skiptir öllu máli fyrir okkur, ef við ætlum að láta þessa núverandi ,,tilraun okkar í mannheimum“ verða okkur sjálfum að nokkru gagni. Það er að segja, okkur eilífu sjálfum. Ekki er unnt að neita því, að venjuleg skilgreining okkar á sjálfum okkur, miðast við það ,,ástand“ sem við erum í ,,núna“, þ.e. íbúar eða notendur líkama, sem hannaður er fyrir tilvist á yfirborði reikistjörnu. Hins vegar er það mjög erfitt, frá þessu sama ástandi, að fá yfirsýn yfir alla þá möguleika, sem okkur standa til boða sem vitsmunaverur.

Venjulega er það ekki fyrr en á síðasta hluta slíks ,,æviskeiðs í mannheimum“ í kjölfar töluvert flókinnar reynslu tengda ,,líkama okkar“, að okkur fer að ljást sýn, sem vísar ,,innávið“, burtu frá hraðri atburðarás reikistjörnuyfirborðsins. Þetta er þó ekki sjálfgefið. Margir nota huga sinn einmitt til þess eins að afneita öllu þessu, allt fram til síðasta dags. En slík einhliða skoðun á okkur sjálfum, þ.e. eingöngu sem tækis til þess að skilgreina stöðugt óteljandi hluti umhverfis líkama okkar, leiðir markvisst af sér huglægar þrengingar. Einkum og sérílagi eftir að skrokkurinn fer að gefa sig og líkamsorkan snar minnkar.

Huglægt verðum við þá ,,fangar“ okkar eigin hrakandi líkama. Því það er ekki gerlegt að kúpla hugar-hluta okkar algerlega frá líkams-hluta okkar. En þar með, erum við komin í vítahring tilvistar, sem snýst einvörðungu um ,,líkama okkar“ og ,,líkamslíðan“ okkar. Þetta sem við teljum nú vera ,,raunveruleikann“ og vísindin hallast einmitt sterklega að, er svipað og eigin lýsing á lífi kafara væri, sem starfar langt undir yfirborði sjávar, ef hann þekkti ekkert til mannlegs lífs í lofthjúpi jarðar. Í mannheimum. Þegar betur er að gáð og sú þekking er nú fremur auðfengin, þökk sé umræddri, hreinni hljóðtækni frá litlu þorpi í Bandaríkjunum er raunverulegur hugarheimur okkar svo mörgum sinnum stærri, magnaðri og byltingarkenndari, en okkar vel þekkta reikistjörnutilvera, að hugurinn hlýtur þar með að teljast til ,,aðallíffæris“ okkar, burtséð frá öllum líkamsútgáfum, efnislegum eður ei. Hvað snertir heilunarmátt þessa fyrirbæris okkar og þar komum við nánar inn á beint líkamlegt gagn af huganum, sem enn er lítið þekkt þá getur sama hljóðtækni, raunar eftir töluverð ástundun eða þjálfun hugans í gegnum heilann, skilað okkur hreinni og klárri líkamsheilun. Markvisst nota ég ekki orðið ,,lækning“ hér, þar sem landslög banna slíkt.

En skoðum næst þetta fyrirbæri okkar sjálfs, nokkuð nánar, í gegnum dáleiðsluna, sem er okkur öllum töm, þó ekki sé af eigin reynslu, endilega. Það tókst fremur illa til með nafngiftina: ,,hypnosis“ og um leið þýðingu þess orðs yfir í ,,dáleiðslu“. Breski augnlæknirinn, James Braid (1795- 1860), notaði þetta orð yfir þessa gagnlegu aðferð í sínum ,,praxís“ í kringum árið 1843. Reyndar hét þetta fyrst: ,,neurohypnosis“. Aðferð, sem kemur mjög sérstakri tengingu á milli heilahvelanna. Braid vissi sem var, að gríska orðið ,,hypnose“ þýðir svefn.

En svo vildi til, að með nýyrðinu lýsti hann einkum ytri einkennum sjúklinga sinna, en ekki því sem var raunverulega að gerast. En það sem gerist við dáleiðslu, er þótt undarlegt megi teljast, framköllun æðra stigs eftirtektar viðkomandi á huglægu sviði, sem framkallar síðan þá líkamlegu afslöppun útávið, sem við þekkjum svo vel. Tilveruorka umræddrar manneskju fer sem sé í annað verk. Seinna meir sá Braid eftir þessari nafngift, vegna þess að ,,svefn“ gefur ranga hugmynd um það sem dáleiðsla framkallar. Ef grannt er skoðað, gæti þetta fyrirbæri vel nefnst ,,athygliskerping“ eða ,,fókusering“ í stað ,,dáleiðslu“. Það sem villir nokkuð fyrir í þessu sambandi, er það að stig dáleiðslu eru mjög mörg og mismunandi. Sem dæmi getur tölvu og sjónvarpsgláp kallað fram létta dáleiðslu, sömuleiðis bíómyndir, leikhúsuppfærslur eða annað, sem ,,gleypir“ alla athygli okkar.

Dæmi um það eru reglubundnar mynd-endurtekningar eða aðrar tíðnir, sem berast skynfærunum fimm. Brotna línan á þjóðveginum að nóttu til er gott dæmi um varhugaverða dáleiðslu, sem getur valdið slysi. Margir fleiri merkismenn og konur koma við sögu dáleiðslunnar: Mesmer, Liébelaut, Bernheim, Guillaume-Benjamin og Charcot. Sálgreiningaraðferð Freuds er ekkert annað en létt dáleiðsla, en hann veigraði sér við að nefna hana svo, vegna þess, að hann treysti sér ekki vel til þess að dáleiða fólk. Við dáleiðslu lækkar tíðni heilastarfseminnar frá Beta-bylgjum yfir í Alfa-bylgjur.

Undirmeðvitundin nær nú yfirtökunum yfir vinstra heilahvelinu líka og góður dávaldur getur forritað undirmeðvitundina uppá nýtt sé þess þörf. Mun erfiðara er þó að ná fram Þeta-heilabylgjum með dáleiðslu. Það sem nefnt er ,,compulsive behavior“ eða þvingunarhegðun og við erum öll meira eða minna háð, þó að við tökum ekki eftir nema sjúklegustu tilfellunum, snertir forrit sem er starfandi í undirmeðvitund okkar og við höfum oftast nær búið til sjálf. Slík hegðun er oft á mörkum geðveiki, alla vega utanfrá séð. Úlfabörnin geta gefið okkur þó nokkra vitneskju um þvingunarhegðun og heilaþvott frá unga aldri manneskjanna.

Í þeim tilfellum, sem náðst hefur að skrá efnislega hegðunarmynstur slíkra undantekningarmannvera, kemur í ljós, að unnt er, að vissu marki, að kenna slíkum mannverum aftur ,,guðsorð og góða siði“, en aldrei er unnt að breyta ávönum þeirra, t.d. dæmis í sambandi við inntöku á mat eða siði kringum það að ganga örna sinna. Og það er þetta síðasta, sem gerir það að verkum, að þessir einstaklingar ná aldrei inní samfélag manna. Það eina, sem getur komið í veg fyrir þvingunarhegðun og aðra rang-starfsemi heila og huga, er eingöngu meiri þekking á ,,fyrirbærinu manneskja“.

Þekking, sem enn er ekki fyrir hendi, hvorki innan vísindanna né sem almenningseign. Mannskepnunni hefur reynst það mjög flókið viðfangsefni að rannsaka sjálfa sig! Bæði er þar um að kenna mismunandi heimspekilegum viðhorfum, eins og flókinni tenginu milli heila og huga og síðan hinu, að undirmeðvitund okkar er ásetin alls konar áunnum ,,fóbíum“, sem við ráðum lítið við. Svo virðist, að öryggisleysi okkar í tilverunni, sé aðalhvati þess, að við viljum í raun ekki kafa dýpra ofan í þessa sálma, en bara ,,lifa lífinu“ eins og það kemur okkur einfaldast fyrir. Til viðbótar við allt þetta kemur svo fyrirbærið: ,,hópsálin við“. Þannig virka stórir eða smáir hópar fólks saman sem ein heild.

Fólk dáleiðist saman og hvert af öðru, oft með hörmulegum afleiðingum. Fjölda-sálfræði eða ,,massa-sálfræði“ er svo einn angi þess sama þ.e. hvernig við skilgreinum og meðtökum ýmis fyrirbæri sameiginlega. Gott dæmi um þetta eru viðhorf okkar til peninga. Enda þótt þeir séu hreinn og klár tilbúningur manna, eru peningar samt sem áður eins nálægt svokölluðum raunveruleika og nokkuð getur komist. Í reikistjörnuveruleika okkar er athygli okkar stöðugt beint að eigin heilsu. Ekki vegna þess að heilsan sé mál málanna í sjálfu sér, enda færa veikindi okkur oft meiri skilning á tilverunni, heldur vegna hins,að við ætluðum einmitt að fara að gera ,,þetta eða hitt“ og slæm líðan getur einfaldlega komið í veg fyrir það. Gott andlegt jafnvægi er ekki síður viðurkennt sem bráðnauðsynlegt.

En einmitt hér er falinn mjög stór ókannaður eigin hluti okkar, sem er okkur auðvitað meira eða minna hulinn. Já, það má vel fullyrða, að við eigum það eftir, að gerast raunverulegir landkönnuðir á þessu víðfeðma sviði ennþá. Þá verður aðalspurning hvers einstaklings sennilega þessi: Hver er ég í raun og sannleika? Enn ein útgáfa á manneskjunni felst svo í því viðhorfi, sem fullyrðir, að við séum öll raunverulega dáleidd dags daglega og það sé ekki fyrr en við vöknum upp aftur frá þessari endalausu dáleiðslu, að við getum farið að skilja okkur sjálf og tilveruna. Má vera að eitthvað sé til í þessu. Skáldið orðaði það á þessa lund: ,,við erum öll betlarar við eigin hallardyr“.

Á allra síðustu árum er mikið farið að nota hugtakið ,,umhverfi“. Vistumhverfi er eitt slíkt fyrirbæri, þar sem gildir að viðhalda þeim þáttum reikistjörnunnar, sem a.m.k.tryggja viðhald lífsins. Sem afleiðing af því, sem hér hefur verið sagt að framan, má allt eins vel koma í ljós, að við lifum einnig í öðru ekki veigaminna, en ósýnilegu umhverfi, sem e.t.v. má nefna vitsumhverfið eða hugarumhverfið. Þar sem við erum öll hugsandi verur og hugsunin er undirstaða alls, búum við þetta hugarumhverfi til saman. Hugarumhverfið eða ,,the mental environment“ er raunverulegt og þar erum við öll þátttakendur saman. Það er t.d. grunnurinn að öllu því sem gerist í vistumhverfi reikistjörnunnar, því án hugsunar gerist ekkert mannlegt.

Því er allt eins vænlegt að byrja á því að hreinsa til í hugarumhverfinu, áður en hafist er handa við að breyta stórum og afgerandi viðhorfum, eins og t.d. í umhverfismálum. Með öðrum orðum: Umhverfismengunin, hvort sem hún á sér stað innan eða utan við hin líkamlegu okkur, byrjar í hugarumhverfinu. Mér hefur fundist þessa sýn vanta inn í núverandi umræðu sem tengist hugsanlegum veðurfarsbreytingum á reikistjörnunni okkar. Ef við sjáum ekki alla þætti tilveru okkar og skiljum ekki hvernig þeir tengjast saman, getur svo farið, að við byggjum skoðanir okkar á misskilningi, eða jafnvel hreinum egóisma, sem við viljum svo ekki viðurkenna. Þá hefst afneitunarferillinn, sem hefur gert ófreskjur úr bestu manneskjum í gegnum tíðina. Hvers vegna er það svona erfitt að viðurkenna fullkomnun eigin verundar, en vaða áfram vegna eigin forrits í undirmeðvitundinni, í nafni einhvers ísmans eða hópdáleiddra trúhreyfinga, sköpunarverkinu til skapraunar?

Höfundur: Einar Þorsteinn Ásgeirsson  árið 2008Flokkar:Hugur og sál

%d bloggers like this: