Einföld en áhrifarík hreinsun

Ég fæ reglulega fullt af fyrirspurnum um einhverja létta hreinsun. Eitthvað sem er einfalt, ekkert flókið og tekur ekki of langan tíma en er samt mjög virkt. Fyrir um 25 árum síðan var ég á jóganámskeiði í Svíþjóð og kynntist þar finnskum hjónum, hann læknir og hún hjúkrunarkona. Þau sögðu mér frá mjög einfaldri en áhrifaríkri hreinsun. Hún gengur út á að borða eingöngu grænmeti, spírur, möndlur, hnetur, fræ, þara, sítrónur eða lime, ferskar kryddjurtir, krydd og drekka jurtate og nýpressaða grænmetissafa í 3 – 30 daga, allt eftir því hvað fólk treystir sér til og hvaða tíma það hefur.

Þau voru bæði miklir ,sykurfíklar“ að eigin sögn og notuðu þessa hreinsun til að ,,afvatna“ sig með góðum árangri. Ég hef notað þessa hreinsun árlega síðan á jóganámskeiðinu forðum. Stundum tek ég viku, stundum 4 vikur og það hafa komið þeir tímar sem ég hef verið í 8 vikur á þessu mataræði. Mér finnst best að byrja annað hvort á fimmtudegi svo ég eigi helgina fyrir mér ef ég tek stuttu útgáfuna eða þegar ég er í fríi ef ég tek þá lengri. Ég lista upp fyrir ykkur hvað ráðlagt er að borða og drekka á meðan á þessari hreinsun stendur. Síðan fylgi ég eftir með dagsmatseðli og uppskriftum. Athugið að þó svo að þið allt í einu rankið við ykkur útí sjoppu búin að borða súkkulaðistykki eða….. þá er ekkert ónýtt. Þið bara blessið magann og takið ákvörðun um að halda áfram. Besta sem mér finnst fyrir minn kropp er að hér er eingöngu verið að borða mat með lágum sykurstuðli ásamt því að sleppa unnum kolvetnum.
Gangi ykkur sem allra best. Solla

Grænmeti:
Spergilkál (brokkolí)
Blómkál
Sellerí
Sellerírót
Steinseljurót
Rófur
Rauðrófur
Grasker
Gulrætur
Radísur
Hreðkur
Jicama
Sykurertur
Okra (lady fingers)
Sætar kartöflur
Vorlaukur
Kúrbítur
Eggaldin
Fennel
Spínat
Frisse
Kínakál
Grænkál
Hvítkál
Rauðkál
Rósakál
Jöklasalat
Eikarlauf
Lollo rosso
Klettasalat
Lambhagasalat
Grænt salat
Ýmislegt annað
grænt, bæði villt og
ræktað

Ósætir ávextir:
Tómatar
Agúrkur
Paprikur
Avókadó

Ávextir
Ungar kókoshnetur
(young coconut)
Gojiber
Sítróna
Límóna (lime)

Hnetur og fræ
Möndlur
Furuhnetur
Pekanhnetur
Kasjúhnetur
Valhnetur
Makadamíuhnetur
Pistasíur
Brasilíuhnetur
heslihnetur
Sesamfræ
Sólblómafræ
Graskerjafræ
Hörfræ
Chiafræ

Kryddjurtir
Basil
Kóríander
Steinselja
Dill
Graslaukur
Fáfnisgras (esdragon)
Sítrónumelissa
Mynta
Kerfill
Timian
Rosmarin
Oregano
Vatnakarsi og karsi
Limelauf
Sítrónugras og fleiri kryddjurtir

Annað
Söl
Nori þari
Wakame (marinkjarni)
Engiferrót
Hvítlaukur
Tamarisósa
Japönsk piparrót (wasabi duft)
Ólífuolía (kaldpressuð)
Kókosolía (kaldpressuð)
Hörfræolía (kaldpressuð)
Krydd – alls konar
Jurtate ýmiskonar
Grænt duft
Hveitigras
Vítamín

Dæmi um dags matseðil
Morgun:
1 hveitigrasaskot
1 vatnsglas (gott að kreista smá sítrónu útí)
1 bolli jurtate
1-2 glös grænn hristingur
Millimála snakk:
t.d. gulrætur – agúrkur – kirsuberjatómatar, möndlur o.fl
Hádegi:
matarmikið salat agúrkusneiðar m/pestó
Eftirmiðdagur
1 glas nýpressaður safi niðurskorið grænmeti
Kvöld
Súpa, norirúllur, 1 bolli jurtate

Grænn hristingur
1-2 hnefar spínat eða roma insalat eða annað grænt.
1/2 agúrka
1/2 limona eða sítróna
1/2 lárpera (avókadó)
2 cm biti engiferrót

Vatn – magn fer eftir því hvað þið viljið hafa hristinginn þykkan/þunnan. Byrjið á að setja agúrku í litlum bitum, limónu og smá vatn í blandarann og blandið. Bætið útí spínati eða romainsalati og engiferbita og blandið þar til orðið silkimjúkt, bætið vatni útí ef með þarf. Endið á að setja lárperuna útí og klárið að blanda.

Matarmikið salat fyrir 2
100 g blandað kál, t.d. grænkál, spínat, lambhagasalat, romain, klettasalat o.fl
10 kirsuberjatómatar
1-2 vorlaukar eða smá graslaukur
1/2 lárpera
50 g spergilkál
1-2 gulrætur
50 g blómkál.

marinering:
25 g furuhnetur
1/2 – 1 dl kaldpressuð ólífuolía
2-3 msk sítrónusafi
1 msk sinnep
1 msk tamarisósa (má sleppa og nota smá himalayasalt). Skolið og rífið/skerið kálið og setjið í skál, skerið kirsuberjatómatana í 2 og setjið útí, sneiðið vorlaukinn í þunna ská strimla og bætið útí, afhýðið og skerið avókadóið í bita og setjið útí. Skerið spergilkál og gulrætur og blómkál í passlega stóra bita og setjið í sér skál og hellið marineringunni yfir og látið standa í 10-15 mín Hellið spergilkálsblöndunni útí salatskálina og blandið öllu saman.
Marinering:
Setjið furuhnetur og ólífuolíu og sítrónusafa í blandara og blandið vel saman.

Gúrkusneiðar m/pestó
1/2 agúrka
vatnakarsi eða hundasúrur pestó.
Magnið á agúrkunni fer eftir því hve marga munna á að metta. Skerið agúrkuna í þunnar sneiðar og raðið á disk eða fat, setjið 1/2 tsk af pesto á miðjuna á gúrkunni og skreytið með hundasúru eða vatnakarsa. Bæði karsinn og súran vega upp vatnskennt bragðið á gúrkunni.

Pestó
70g furuhnetur, lagðar í bleyti í a.m.k. 30 mín
1 búnt basil (frá Lambhagaeða Engi og nota þá stönglana með því þeir eru svo safaríkir)
1 hvítlauksrif
1/4 tsk salt
1-2 msk sítrónusafi
1/2 tsk næringarger (má slepp en fæst í litlu heilsubúðinni á Klapparstíg)
1/2 dl kaldpressuð ólífuolía.

Hellið vatninu af furuhnetunum og setjið þær í matvinnsluvélina ásamt restinni af uppskriftinni, öllu nema olíunni. Látið vélina ganga og hellið olíunni rólega í mjórri bunu útí. Þetta geymist í um viku í loftþéttu íláti í ísskápnum.

Grænmetissúpa
1 rauð paprika, skorin í 2, steinhreinsuð og skorin í litla bita
1/2 agúrka, skorin í litla bita
1/2 kúrbítur, skorinn í litla bita
2 vorlaukar
2 msk steinselja
2 msk ferskur kóríander
1 hvítlauksrif
2 cm bútur engiferrót
safi úr 1/2 limónu
1-2 dl vatn (eftir því hvað þið viljið hafa súpuna þykka)
2 msk kaldpressuð olía, t.d. ólífuolía, kókosolía eða hörfræolía
1 tsk ljóst miso (má sleppa)
smá salt eða tamarisósa.

Setjið allt í blandara, byrjið á að setja papriku og agúrku og smá vatn, bætið síðan einni og einni tegund í einu svo auðvelt sé fyrir blandarann að mauka grænmetið. Blandið þar til allt er orðið silkimjúkt.

Nori rúllur m/grænmeti
Gerir 6-8 rúllur
6-8 blöð nori þari
1 meðalstór agúrka, skorin í þrennt og síðan í mjóa strimla
1 avókadó, afhýddur og skorinn í langa, mjóa strimla
1 rauð paprika, skorin í 2, steinhreinsuð og skorin í þunna strimla 1 hnefi alfalfaspírur, ferskt lífrænt spínat, t.d. baby spínat wasabi og tamarisósa fyrir þá sem vilja.

Setjið noriblaðið á bambusmottu eða bara trébretti, látið grófari hliðina snúa upp. Smyrjið um 7-8 cm breiðri pestórönd á blaðið Setjið agúrkustrimla og avókadóstrimla og paprikustrimla ofaná pestóið. Setjið spírur og spínat ofaná og þá er þetta tilbúið til að rúlla upp. Hægt er að rúlla þessu upp á bambusmottum eða bara með höndunum, það þarf bara að rúlla þessu frekar þéttings fast. Gott er að loka blaðinu með því að bleyta kantinn með vatni svo rúllan límist sem best saman. Þegar þið berið rúllurnar fram er hægt að skera þær í bita eða bera þær fram í heilu lagi. Þetta er tilvalið að taka með sem nesti í vinnuna. Sumum finnst snilld að hræra smá wasabi útí tamarisósu og dýfa rúllunum í :)?Njótið.

Höfundur: Sólveig Eiríksdóttir 2008Flokkar:Næring, Uppskriftir

%d bloggers like this: