Á liðnu ári komu út á bók æviminningar Ævars Jóhannessonar. Ævar er öllum lesendum Heilsuhringsins vel kunnur því hann hefur allt frá því félagið var stofnað og byrjað var að gefa út blaðið verið í fararbroddi. Greinar eftir hann um fjölmörg efni hafa birst í nær öllum blöðum Heilsuhringsins, oftast fleiri en ein. Heiti bókarinnar er „Sótt á brattann“. Sá titill er réttnefni því á æviferli sínum hefur Ævar tekist á við margskonar erfiðleika og ávallt náð að sigrast á þeim og náð að sinna lífsverki sínu og köllun. Þar hefur hann oft á tíðum verið í hlutverki frumkvöðulsins, hugvitsmannsins og hugsjónamannsins allt í senn.
Í bókinni rekur Ævar æviferil sinn og helstu mótunarþætti í lífi og starfi. Hann var fæddur og alinn upp meðal alþýðufólks við sveitastörf. Þegar sem unglingur óskaði Ævar sér að verða vísindamaður en sem ungur maður þurfti hann að glíma við berklaveiki og fleiri erfiðleika. Leiðin var því ekki greiðfær en þá opnaðist hjáleið, eins og Ævar nefnir það. Alveg frá unga aldri hafði hann haft gríðarlegan áhuga á eldgosum og sá áhugi glæddist þegar Hekla gaus árið 1947-1948, en þá var Ævar 17 ára, og enn frekar síðar þegar hann varð starfsmaður Raunvísindastofnunar. Ljósmyndun var um tíma helsta hugðarefni Ævars og í bókinni eru góð dæmi um myndir af eldgosum sem vöktu mikla athygli og hafa sumar birst víða.
Uppfinningar hans á sviði framköllunar litljósmynda voru stórmerkar þótt ekki tækist að fá einkaleyfi á þessari tækni. Eftir að Ævar hóf störf hjá Raunvísindastofnun komu einnig í ljós einstakir hæfileikar á sviði rafeindatækni eins og vel kemur fram í bókinni. Dæmi um það er íssjáin svonefnda. Fyrstu árin eftir að Ævar fór að starfa í Heilsuhringnum birtust einkum þýddar greinar eftir hann en fyrsta alvörugreinin, eins og hann orðar það sjálfur, var um kvöldvorrósarolíu. Sú grein olli hatrömmum blaðadeilum og reynt var til hins ýtrasta að hrekja efni hennar, en Ævar fór að lokum með fullan sigur í því máli.
Í kjölfar þessa kom hver greinin eftir aðra, m.a. um kvikasilfurseitrun í tannfyllingum en Ævar hafði með eigin tilraunum sannað sitt mál sem sýnir vel hversu einarður hann var í verkum sínum. Ævar aflaði sér mjög haldgóðrar þekkingar á sviði heildrænna lækninga, ekki síst hvað viðkom næringarþætti fæðunnar, vítamínum og næringarefnum. Sótti hann fróðleik sinn í þekkt læknatímarit eins og Lancet og Ortomolecular Medicine og þýddi fjölmargar greinar upp úr þeim. Ritstörfin í tengslum við Heilsuhringinn hafa verið Ævari köllun. Tilurð þeirra og forsendur eru raktar í bókinni.
Hann lagði sig ætíð fram um að afla sér heimilda um það nýjasta, og að hans mati það merkasta á sviði lækninga, og miðla þeim fróðleik til landa sinna. Mjög athyglisvert er að lesa forsöguna að tilurð jurtalyfsins sem þróaðist í það að verða hið þekkta lúpínuseiði, en í viðaukum bókarinnar greinir Ævar m.a. frá því hvernig lúpínuseyðið má nota við ýmsum öðrum sjúkdómum en krabbameini. Í viðauka er einnig að finna nokkrar merkar, dulrænar frásagnir. Öll frásögn bókarinnar markast af hispursleysi og einlægni. Einkunnarorð bókarinnar: – Því sá, sem hræðist fjallið og einlægt aftur snýr, fær aldrei leyst þá gátu: hvað hinumegin býr (ÞE) – eiga einkar vel við.
Vilji fólk kaupa bók er hægt að hafa samband við Sigríði dóttur Ævars í netfangi: harmony@inharmony.is
Flokkar:Annarra Skrif