Öreinda lífssvörun – ,,SCIO biofeedback“

Mörg ykkar hafið eflaust heyrt talað um SCIO tækið eða verið svo heppin að hafa prófað þá tækni.

En ykkur er kannski ekki alveg ljóst hvað það er og hvernig það virkar. ,,SCIO biofeedback“ eða ,,Öreinda lífssvörun“ sem það gæti þýtt á íslensku, er tækni sem vinnur við að leiðrétta orkusvið líkamans. Í þessari grein mun ég nota heitið SCIO yfir þessa tækni. Einfaldast er að skýra þetta með því líkja þessu við vírusvörn sem skannar tölvu. SCIO tæknin skannar líkamann með tíðnibylgjum og leiðréttir streitutengd frávik. Það byggir á samstarfi skjólstæðingsins, SCIO tækinu og meðhöndlaranum; sameiginlega mynda þau þríhyrning sem vinnur saman.

Í þessu samstarfi vinnur skjólstæðingurinn að því að breyta lífstíl sínum samhliða SCIO meðhöndluninni og er það undir skjólstæðingnum komið hver árangurinn verður. Markmiðið hér er að kynna fyrir fólki nýja tækni og nýja leið sem er einstaklega hvetjandi til lífstílsbreytinga, þar sem einstaklingar þurfa að læra að taka ábyrgð á sínum eigin líkama og andlegum þáttum. SCIO tæknin er ekki gerð til að greina eða lækna sjúkdóma af neinu tagi heldur til að auka vellíðan og hjálpa okkur við að hafa áhrif á alla þá stressþætti sem á okkur dynja frá degi til dags eða með öðrum orðum að gefa einstaklingum tækifæri á að ná stjórn á sinni eigin heilsu.

Hvernig virkar þetta?
Með SCIO tækninni er hægt að mæla orkulegt ójafnvægi í líkamanum sem getur verið að hafa áhrif á heilsufar einstaklinga t.d. næringarlega þætti eins og steinefni, vítamín og amínósýrur, svo og eiturefni, sníkjudýr, hormónajafnvægi, bakteríur og veirur. Einnig tilfinningaleg áföll og streitu í líffærum okkar og líkamans í heild. Allt þetta er síðan borið saman við eðlilegt ástand og leitast SCIO síðan við að leiðrétta ójafnvægið með því að reikna út líffræðilega viðbragðshæfni og ómun hvers einstaklings.

Einstök mæling gildir eingöngu fyrir þá stund sem hún er gerð, miklar breytingar geta átt sér stað eftir eina meðhöndlun og niðurstöður breytast frá einum tíma til annars. Þó svo að áhrif meðhöndlunar haldi áfram að virka í margar vikur og jafnvel mánuði er það algjörlega undir hverjum einstaklingi komið hversu mikil áhrifin verða. Við bregðumst mismunandi við og tökum mismunandi inn þessar leiðréttingar og því er alltaf mikilvægt að fara ekki of geyst og gefa meðhöndluninni tíma. Upplýsingarnar beina athyglinni inn á orkusvið líkamans sem býður uppá yfirgripsmeiri sýn á heildarheilsu hvers einstaklings. Öreinda lífsvörun er í raun gömul aðferð í nútíma tæknilegum búningi, einfaldlega ,,Heilun“. Í SCIO eru yfir 800 mismunandi undirforrit með óendanlegum möguleikum sem unnið er við að þróa og bæta frá degi til dags.

Hér eru dæmi um nokkur forrit sem fólk getur notið góðs af: forrit sem hjálpar fólki til að ná djúpri slökun sem hefur einnig áhrif á svefn og höfuðverki, rafeinda-nálastungu forrit sem auðveldar orkuflæði líkamans, forrit til að endurþjálfa vöðva og minnka streitu sem situr í þeim. Betrunin sem á sér stað gerir líkamanum kleift að vinna með meiðsli eða annað sem hefur verið til fyrirstöðu. Einnig er til forrit fyrir þyngdartap svo að eitthvað sé nefnt.

Hvernig afstressar SCIO tækið líkamann?
Öreinda lífsvörun ,,Quantum Biofeedback“ er byggt upp á öreinda efnafræði. Þessi tækni sýnir fram á það orkulega ójafnvægi sem hefur áhrif á heilsufar einstaklinga. Meðan á meðhöndlun stendur, mælir SCIO margar samhliðamælingar eins og rafspennu, rafstraum, viðnámsþol, vökvun, oxun, róteindaþrýsting, frávik, rafeinda þrýsting, samviðnám, ómun og andóf svo eitthvað sé nefnt. Einnig finnur SCIO út hvaða árangur hefur átt sér stað síðan síðasta mæling var gerð (eða innan við sekúndu fyrr).

Ef einhver árangur hefur náðst, mun innslags ómurinn breytast orkulega og viðhalda þeirri stillingu sem er nauðsynleg og líkaminn getur nýtt sér til endurbóta og breytist stillingin eftir þörfum. Það eru allir sem geta nýtt sér þessa tækni og haft gagn af; börn og dýr eru einstaklega næm þar sem þau eru mun opnari og óheftari fyrir meðhöndlun og er mjög ánægjulegt að sjá þann árangur sem orðið getur hjá þeim. Með þessari tækni höfum við orðið vitni að frábærum árangri í sambandi við skapgerðabreytingar, ofvirkni, þyngdartap, mígreni, vöðvabólgu og betrun á ýmsum sjúkdómum og meiðslum. Fólk almennt áttar sig á því hversu alvarleg áhrif stress hefur á bæði líkamlega og andlega heilsu.

Flestir eru ótrúlega fljótir að taka við sér og er ánægjulegt að fylgjast með fólki taka sér tak og breyta lífi sínu til hins betra með því að taka ábyrgð á lifnaðarháttum sínum og breytt þannig algjörlega heilsu sinni og líðan. Það er mjög mikilvægt fyrir okkur sem erum að vinna með SCIO við að aðstoða fólk með hjálp þessarar tækni. Bandaríska lýðheilsustofnunin hefur gefið út þá yfirlýsingu að um 80% af öllum sjúkdómum séu afleiðingar streituálags. Vísindalega hefur verið sannað að lífssvörun slakar á stressi og yfirálagi sem getur tengst veikindum, meiðslum eða tilfinningalegum áföllum. Eins og við vitum lifum við á tímum hraða og þ.a.l. myndast stress auðveldlega allt í kring um okkur.

Stress myndast af hinum ýmsu ástæðum og getur haft líkamlegar, andlegar og sálarlegar afleiðingar. Orkuhjúpurinn (áran) í kring um okkur er stór vörn fyrir okkar andlega og líkamlega ástand. Þegar stress myndast byrjar það að leggjast á orkuhjúpinn og ef við ekki náum að vinna gegn þessu stressi kemst það nær kjarnanum, sem er líkaminn. Því nær líkamanum sem það kemur, því minni mótstaða myndast og oft endar það með því að heilsan brestur og sjúkdómar verða til. Stress verður til í mörgum myndum og oft á tíðum erum við ekki meðvituð um hversu djúpstæð áhrif það hefur á okkur. Í stað þess að vinna með stressið reynum við oft að ýta því frá okkur eða bæla það niður með ýmsum hjálpartækjum, en það er ekki þar með sagt að vandamálið sé ekki lengur til staðar.

Hverjar geta verið afleiðingar stress og á hverju missir líkaminn stjórn?
Til dæmis skapsveiflur, meltingar- og brennslutruflanir, óreglulegur svefn, ofnæmi getur myndast, hárlos og máttleysi, ofát o.fl. svo eitthvað sé nefnt. En hvað er það sem stendur upp úr? Jú, það er að líkaminn missir stjórn á að berjast gegn sjúkdómum, eða að hann hefur einfaldlega ekki næga orku til að berjast á móti sýkingum. Niðurstaðan verður sú að líkaminn nær ekki að gera það sem honum er eðlislægt en það er að lækna sig sjálfur. Líkaminn er byggður upp af frumum og hafa þær sitt eigið minni sem oft er kallað ,,frumuminni“. Þó svo að við munum ekki eftir einhverjum líkamlegum skaða eða áfalli þá muna þær eftir því. Það koma oft stundir þar sem við skiljum ekki líkamleg viðbrögð okkar út af einföldum hlutum, en það gæti verið minning frá barnæsku eða frá móðurkviði sem við munum ekki en líkaminn man og bregst ósjálfrátt við.

Við megum ekki gleyma að líkami okkar er fullkomnasta ,,tæki“ sem til er og kemur í heiminn með alla burði til að heila sig sjálfur. Það er undir okkur komið að nýta og hvetja hann til þess að nota þessa eiginleika og sjá til þess að það sé hægt, einfaldlega með því að hlusta og passa upp á hann. Í fáum orðum; með því að ná stjórn á stress-ástandi okkar getum við viðhaldið og haft líkamlegt, andlegt og sálarlegt ástand í góðu formi, en það er nákvæmlega það sem SCIO lífssvörun snýst um. SCIO tæknin er notuð um allan heim í dag þar á meðal á hinum ýmsu heilbrigðisstofnunum og á tveimur stórum sjúkrahúsum í Bandaríkjunum. Sérfræðingar og læknar hafa það fram yfir aðra meðhöndlunaraðila sem vinna með SCIO tæknina að þeir hafa leyfi til að nota hana sem hjálpartæki við greiningar á sjúkdómum og ofnæmi svo eitthvað sé nefnt.

Læknar og aðrir sérfræðingar innan heilbrigðisgeirans eru þeir einu sem hafa leyfi til að greina heilbrigðisástand fólks samkvæmt lögum. Aðrir sem vinna með SCIO tæknina hafa það ekki. SCIO tæknin og meðhöndlun er ekki hönnuð til að lækna eða greina sjúkdóma, SCIO tækið vinnur og jafnar stress og ójafnvægi í orkuflæði líkamans. Þetta þarf að vera mjög skýrt bæði fyrir þá sem meðhöndla og fyrir þá sem velja að fara í SCIO meðhöndlun. Meðhöndlun á stressi og orkuójafnvægi með SCIO tækninni á ekki að fela í sér að fólk finni sig knúið að fjárfesta í vítamínum eða öðrum bætiefnum til að auka áhrif meðhöndlunarinnar því það er ekki raunin. Það er mjög mikilvægt að allir þeir sem hafa áhuga á þessari tækni átti sig á þessum atriðum og virði þær reglur sem framleiðendur SCIO setja um þessa tækni svo og að virða reglur í því samfélagi sem við lifum í.

Ef einhver óskar eftir meiri upplýsingum um SCIO tæknina er velkomið að senda póst á scio.iceland@gmail.com,

Einnig er hægt að skoða vefsíður : http://www.thequantumallianc.com og http://www.thequantumcenter.com

Höfundur: Margrét Margrétardóttir árið 2008Flokkar:Annað, Ýmislegt

%d bloggers like this: