SÓLA – náttúruafurðir frá Urtasmiðjunni

Gígja Kjartansdóttir Kvam rekur Urtasmiðjuna á Svalbarðsströnd við Eyjafjörð sem hefur hefur tekið miklum breytingum frá stofnun hennar árið 1992.

Framleiðslan byggir á gömlum hefðum um notkun lækningajurta, einnig á nútíma þekkingu og rannsóknum á hollustu og heilsubætandi áhrifum jurta. Fyrirtækið hefur verið í stöðugri þróun og miklu fleiri jurtir og náttúrleg efni eru nú notuð í framleiðsluna en gert var í byrjun. Íslenskar villtar jurtir eru þar í stærsta hlutverkinu, eins og t.d.:vallhumall. maríustakkur, rauðsmári, fjólur, fjallagrös o.fl.

Einnig eru notaðar ýmsar jurtir sem ekki vaxa villtar en eru lífrænt ræktaðar hérlendis eða keyptar erlendis frá, m.a. morgunfrú, kamilla, hafþyrnir, lofnarblóm, rósmarín, arnika og rós. Mikið er vandað til hráefnisins því það ræður gæðum vörunnar og virkni hennar. Lögð er áhersla á að framleiða úr jurtaríkinu hreina náttúruvöru án aukefna. Engar dýraafurðir og ekkert sem er unnið úr jarðolíum eins og parafínolíur eða vaselín er notað í vörurnar, enda eiga slík efni ekki heima í náttúrlegum húðvörum. Allar olíur eru hreinar jurtaolíur sem innihalda ómega olíur, þær eru ríkar af næringarefnum og eru uppbyggjandi fyrir húðina, sérstaklega þegar hún fer að þorna og eldast.

Til að binda saman vatn og olíur svo að úr verði krem þarf bindiefni, í það eru notuð náttúrleg efni sem unnin eru úr m.a.: kókoshnetum, maís, sheahnetum, kakóbaunum, hunangi og bývaxi. Öll þessi hráefni eru ofnæmisprófuð og má nota í mat. Notað er náttúrlegt rotvarnaefni sem unnið er úr jurtum og ávaxtakjörnum, sem reynist mjög vel. En talið hefur verið að svokölluð paraben efni sem notuð hafa verið sem rotvörn í snyrtivöruiðnaðinum síðastliðna áratugi geti verið skaðleg vegna aukaverkana á hormónastarfsemi o.fl. Einnig er notuð náttúrleg þráavörn og sólarvörn úr jurtum og jurtarótum, sem er nýjung í framleiðslu húðvara hér á landi. Urtasmiðjan framleiðir margs konar næringarrík andlits- og líkamskrem, nudd- og baðolíur fyrir yngri sem eldri og allar húðgerðir.

Fyrst má nefna Græðismyrslið sem er í reynslunotkun á Lýtalækninga – og brunadeildinni í Fossvogi. Það er stundum kallað Græna undrið og er alhliða sviða- og kláðastillandi græðiáburður sem hefur reynst undraverður á brunasár, sólbruna, ör, exem, sóriasis og gyllinæð. Vöðvaolía/gigtarolía er kröftug nuddolía sem hefur góð áhrif á vöðvabólgu, stirðleika, verki, sinadrátt og eymsli í liðum. Fótaáburðurinn róar þreytta fætur og mýkir hæla og dregur úr þrota. Í snyrtivörulínunni er Fjallagrasakrem sem er rakagefandi dagkrem. Morgunfrúarkrem, næringarkrem unnið úr morgunfrú sem er frábær jurt og hefur reynst vel fyrir viðkvæma húð. Síðast en ekki síst er djúpnærandi silkiandlitsolía, sem er uppbyggjandi vítamínkúr fyrir húðina. Vörulínan Móðir og barn inniheldur bað og nuddolíu fyrir móður og barn, hún er ætluð bæði fyrir og eftir meðgöngu til að varnar húðsliti, einnig frábær fyrir ungbarnanudd og má líka nota út í baðvatnið. Barnasalvi/bossakrem mýkir litla englabossa og varnar þvagbruna. Mömmusalvinn græðir og mýkir sárar geirvörtur.

Hvernig hófst ævintýrið?
Gígja: Ég er fædd og uppalin í sveit og í hjarta mínu er ég sveitamanneskja. Þegar ég var barn þótti mér gaman að læra nöfnin á íslensku jurtunum sem uxu út um holt og hæðir og vildi helst flytja þær í garðinn heima við hús, en það lánaðist ekki nógu vel, þar vildu þær ekki dafna því þar áttu þær ekki heima. Á æskuheimili mínu voru notaðar ýmsar jurtir og grös til matargerðar s.s. njólablöð, hundasúrur, fíflablöðkur og arfi. Jurtaseyði var drukkið af ýmsum jurtum t.d. vallhumli, blóðbergi og rjúpnalaufi að ógleymdum fjallagrösunum sem líka voru notuð í brauð. Ég var því strax sem barn meðvituð um hollustu jurtanna og hefur því alltaf fundist eðlilegt og sjálfsagt að nýta þær til matar. Amma mín sem bjó á heimilinu sauð smyrsli úr grösum, aðallega úr vallhumli og bar bæði á menn og skepnur. Það virkaði vel þegar græða þurfti sár og bruna eða draga úr bólgum.

Einnig gerði hún gigtaráburð og er hennar uppskrift undirstaðan í þeirri vöðva- og gigtarolíu sem ég framleiði í dag. Þegar ég fullorðnaðist stóð hugur minn til annarra hluta og ég fór í tónlistarnám. Eftir framhaldsnám í Þýskalandi kom ég heim og gerðist tónlistarkennari við Tónlistarskólann á Akureyri. Þar kynntist ég manninum mínum og fljótlega eignuðumst við 2 börn. Þegar börnin voru flogin úr hreiðrinu og meiri tími gafst til tómstunda fór ég að hugsa um mitt gamla áhugamál jurtirnar. Í gegnum árin hafði ég viðað að mér ýmsum bókum um jurtir og virkni þeirra til bættrar heilsu og prófaði mig áfram við gerð á húðvöru, smyrsli og kremi úr jurtum sem uxu hér í kringum mig. Margar voru tilraunirnar og mörg voru mistökin sem ég lærði líka af. Með þolinmæði og þrautseigju varð þetta betra og betra og varð eftirsótt því fiskisagan flýgur ef eitthvað þykir gott og gagnast vel. Þá varð ég að ákveða hvort ég ætlaði að sinna þessu af alvöru eða hvort þetta ætti bara að vera áhugamál og tómstundaiðja. Í rauninni kom ákvörðunin af sjálfu sér þar sem ég hafði verið að berjast við slitgigt um árabil sem var farin að hamla mér í tónlistarkennslunni.

Mikil eftirspurn
Í vetur hefur staðið yfir hjá okkur þróum á svokölluðum saltskrúbbum úr íslensku jarðsalti og þara, fyrir ákveðið fyrirtæki hér á landi. Þessi vara mun svo fara á nudd- og spastofur erlendis, hún er einnig orðin mjög eftirsótt hérlendis og þykir vera heilsubætandi bæði fyrir sál og líkama. Ég held að varla líði sú vika að ekki berist fyrirspurnir erlendis frá um hvort við höfum áhuga á að flytja vörurnar út og nú er hafinn útflutningur til USA, Bretlands og viðræður standa yfir við Tékkland og Íran. Hvort eitthvað verður úr því vitum við ekki enn. Útlendingar eru hrifnir af okkar ómengaða landi, hreina vatni og lofti og kunna vel að meta íslenskar náttúruvörur. Ef við viljum viðhalda okkar hreinu náttúru og þessari ímynd sem landið okkar hefur útávið þurfum við að umgangast það með virðingu og nærgætni.

Höf: Ingibjörg Sigfúsdóttir 2008Flokkar:Jurtir

%d