Á síðasta ári (2007) var útvarpað stuttu viðtali við dr. Sigríði Halldórsdóttur prófessor við heilbrigðisdeild Háskólans á Akureyri um rannsóknir sem sýna hve gleði og jákvætt lífsviðhorf styrkja ónæmiskerfið og að hið gagnstæða depurð, sorg og neikvæðar tilfinningar veikja ónæmiskerfið.
Blaðamaður Heilsuhringsin leitaði til Sigríðar og innti hana nánar út í þessi fræði, sem lítið hefur verið fjallað um hérlendis. Fyrst var hún spurð hvað hafi vakið áhuga hennar á vitundarónæmisfræði (psychoneuroimmunology – bein þýðing er sáltaugaónæmisfræði). Hér á eftir fer viðtalið og gef ég Sigríði nú orðið.
Áhugi minn vaknaði þegar ég var í doktorsnámi við heilbrigðisháskólann í Linköping í Svíþjóð á árunum 1992-1996. Ég komst þá yfir heimildasamantekt um vitundarónæmisfræði sem birt hafði verið í árdaga vitundarónæmisfræðinnar. Ég varð alveg heilluð og er það enn. Þetta eru mjög mikilvæg fræði til að skilja hvaða þættir hafa áhrif á okkur mannverurnar, til góðs eða ills. Á árunum 1994-1996 fékk ég að gera ítarlegar heimildarannsóknir sem hluta af mínu doktorsnámi. Þá náði ég að lesa nánast allar rannsóknir sem birtar höfðu verið innan vitundarónæmisfræðinnar, eitthvað á annað hundrað rannsóknir. Í dag væri þetta ekki möguleiki þar sem rannsóknirnar skipta nú þúsundum en ég er enn að stunda heimildarannsóknir á þessu sviði og ef eitthvað er verður þetta sífellt meira spennandi!
Er langt síðan rannsóknir á vitundarónæmisfræði hófust hér á land og eru þær gerða víðar en í Háskólanum á Akureyri?
Ég er sú fyrsta sem ég veit um sem hef gert heimildarannsókn og skrifað um vitundarónæmisfræði hér á Íslandi, en það eru ýmsir að byrja að átta sig á mikilvægi þessa fræðasviðs innan heilbrigðisvísinda. Við Háskólann á Akureyri erum við þrjár sem erum að vinna að heimildarannsókn um konur og streitu og förum þar fyrst og fremst inn í vitundarónæmisfræðina og munum miðla niðurstöðum bæði hérlendis og erlendis.
Er vitundarónæmisfræði almennt viðurkennd í heilbrigðiskerfinu?
Íslenska heilbrigðiskerfið er mjög gott og er byggt á gagnreyndri þekkingu sem þýðir að íslenskt heilbrigðisstarfsfólk er stöðugt að leita eftir nýjustu þekkingu. Það þarf hins vegar að kynna vitundarónæmisfræðilegar rannsóknir mun betur en gert hefur verið og ég hef verið beðin um að skrifa tvær tímaritsgreinar um efnið og er langt komin með þær en jafnframt hef ég nýlokið við bókarkafla um efnið, sem mun koma út í afmælisriti Háskólans á Akureyri en við áttum nýlega 20 ára afmæli.
Er séð fram á til hvaða breytinga þessar kenningar leiða í almennri læknisfræði?
Eins og þetta snýr við mér þá tel ég að það sé ekki langt í að það verði almennt viðurkennt að við mannverurnar erum ein heild, líkami, hugur og sál og allt sem virkar niðurbrjótandi á okkur er mjög líklega niðurbrjótandi í reynd – líkamlega ekki bara andlega. Ég myndi vilja sjá meiri áherslu á umhyggju innan læknisfræðinnar eins og hjúkrunarfræðinnar. Umhyggja er kjarninn í fagmennsku þegar unnið er með fólki og fyrir fólk, ásamt faglegri færni, fagvisku (sem er sambland þekkingar og reynslu). Lykilatriði er að ná góðum samskiptum og tengslum við þjónustuþegana. Til þess að þetta megi verða er mikilvægt að heilbrigðisstarfsmaðurinn, hvort sem hann er læknir, hjúkrunarfræðingur, iðjuþjálfi, sjúkraþjálfi eða eitthvað annað, stundi sjálfsrækt því annars er hættan að viðkomandi brenni út í starfi.
Jákvæð og neikvæð áhrif á ónæmiskerfið
Helstu þættir sem eru ónæmisstyrkjandi eru: Jákvæð lífsviðhorf, húmor og bjartsýni, ásamt þrautseigju og seiglu. Það verður sífellt skýrara út frá rannsóknum hve gildi góðrar hreyfingar er mikið og hve hreyfing er nátengd heilbrigði. Endurtekið hefur verið sýnt fram á í rannsóknum að góð næring, hvíld og slökun eru einnig þættir sem hafa jákvæð áhrif á ónæmiskerfið. Félagslegur stuðningur er mikilvægur, einnig geta góð sambönd og hjónabönd verið jafnvægisgjafar. Það hefur einnig mikilvæg og jákvæð áhrif á ónæmiskerfið að létta á sér varðandi erfiða lífsreynslu.
Samskipti heila og líkama
Miðtaugakerfið, innkirtla- og ónæmiskerfið eru kerfi sem talin eru mikilvæg í tengslum við andlega og líkamlega vellíðan og æ fleiri rannsóknir staðfesta að þessi kerfi eru samvirk. Fræðigreinar allt frá líffræði til sálarfræði hafa sýnt fram á að ónæmiskerfið tekur við boðum frá heila og innkirtlum og öfugt.
Drápsfrumur
Eru hluti af framvarðarsveit ónæmiskerfisins. Þær líta út eins og eitilfrumur en eru af óþekkum uppruna. Þær eru frumudrepandi þ.e. þær hafa hæfileikann til að binda og drepa óheilbrigðar eða aðskotafrumur, einkum krabbameinsfrumur og vírusa. Það er einkum interferon sem virkjar drápsfrumurnar. Rannsóknir benda til að beta endorpin hafi bein áhrif á og auki virkni drápsfruma.
Ónæmisfræðileg áhrif áfalla í lífinu
Strax í upphafi síðasta áratugar sýndu rannsóknir skýr tengsl milli ónæmisbælingar af völdum depurðar, sorgar og áfalla í lífinu. Þá þegar var ljóst að þunglyndi sem verður t.d. vegna sálfræðilegra viðbragða við streitu verður til þess að auka líkur á vírussýkingum vegna minnkaðrar virkni drápsfruma. Þau áföll í lífinu sem talið er að hafi neikvæð áhrif á ónæmiskerfið eru t.d. að missa maka, skilnaður, að taka próf, bíða eftir aðgerð og að missa vinnuna. Hins vegar hefur verið sýnt fram á að jákvæðir atburðir s.s. að gifta sig og að eignast barn geta líka haft mikið álag á ónæmiskerfið í för með sér. Þá er ljóst af rannsóknum að léleg næring er tengd margháttuðum ónæmisröskunum.
Getur þú sagt frá dæmum sem benda til að kenningar ónæmisfræðinnar séu réttar?
Það eru margar rannsóknir sem sýna jákvæð áhrif gleði og bjartsýni og neikvæð áhrif sorgar og þunglyndis. Þetta eru rannsóknir sem finna má auðveldlega m.a. með því að fara á www. hvar.is sem öllum Íslendingum á að vera opið og fletta svo upp á ProQuest 5000 (neðst til vinstri á síðunni) og velja ,,Advanced search“ og slá inn leitarorðunum ,,psychoneuroimmunology“ og ,,stress“, þá koma u.þ.b. 60 athyglisverðar greinar strax upp á skjáinn. Ein sú nýjasta (gefin út í nóv./des. 2007) heitir því skemmtilega nafni: ,,Smile, Laugh and Connect to Reduce Stress and Improve Health“. Þar bendir höfundur á mikilvægi þess að fólk kynni sér vitundarónæmisfræðina og tileinki sér það sem við vitum nú í gegnum slíkar rannsóknir að byggir okkur upp t.d. að brosa, hlæja og tengjast öðrum í kærleika, og forðumst það sem við vitum að brýtur okkur niður.
Í rauninni getum við sagt að allt sem stressar okkur upp og við upplifum sem of mikið álag sé slæmt, en allt sem minnkar neikvætt stress sé gott. Þar með er boltinn svolítið hjá okkur sjálfum. Þá þarf ég sjálf að fara að hugsa um hvað stressar mig upp og get ég hugsanlega breytt lífsýn minni og látið það ekki stressa mig upp? Get ég farið að snúa mér að öðrum og spurt: ,,Hvernig get ég bætt lífið hjá öðrum með jákvæðni, bjartsýni og lífsgleði“? Við Íslendingar erum nokkuð jákvæð þjóð og bjartsýn en enn eru margir sem nærast á neikvæðum hugsunum og dreifa þeim í kringum sig. Þessu fólki þarf að hjálpa – þeirra sjálfra vegna og umhverfisins. Slíkt fólk verður frekar veikt og kostar því meira en hinir sem eru jákvæðir, hressir og lífsglaðir. Það er því þjóðhagslega hagkvæmt að útbreiða lífsgleði, jákvæðni og bjartsýni! sagði Sigríður að lokum.
Ingibjörg Sigfúsdóttir skráði árið 2008
Flokkar:Greinar og viðtöl