Hugleiðsla og heilun

Í vorblaði Heilsuhringsin 2007 birtist viðtal við Eyjólf Friðgeirsson líffræðing um fyrirtæki hans Hollusta úr hafinu sem framleiðir holla matvöru úr þörungum. Í þessu viðtali hefur Eyjólfur fallist á að segja okkur frá því hve andleg iðkun með Zen búddhistum og breytt mataræði læknuðu ristilbólgur sem höfðu þjáð hann lengi. Nú fær Eyjólfur orðið: Þegar ég fór í ristilskoðun haustið 2004 voru svo miklar bólgur í hluta ristilsins að læknirinn minn sagði að það væri ekki um neitt annað að ræða en skera þennan hluta úr. Þá var ég búinn að vera með þetta vandamál í 4-5 ár og búið að reyna allt til að laga það. Þó ég hafi þá stundað andlega iðkun í mörg ár hafði ég aldrei breytt fæðunni, sem fyrr eða síðar verður þó hluti af iðkuninni. Á þessum tímapunkti ákvað ég að gera úrslitatilraun til að fá bót og ákvað að skipta um fæðu, þó læknarnir teldu það ekki breyta neinu fyrir ástandið á ristlinum.

Ég gerðist grænmetisæta og tók út mjólkurvörur, hveiti, sykur, ger og fleira.
Batinn var hægur en ég hafði trú á að mér myndi batna og smátt og smátt fann ég bata. Eftir hálft ár fann ég að ég var orðinn greinilega betri og síðan hefur verið stöðugur hægur bati. Á þessum tíma hef ég ekki tekið nein lyf eða fæðubótaefni til að laga ristilinn. Í júní 2007 fór ég aftur í ristilskoðun og niðurstaða skoðunarinnar var að bólgan er horfin, aðeins eru eftir litlir þrotablettir, sem ekki hefðu vakið athygli nema af því þeir voru á þessu svæði. Ég hef verið að hugsa málið og er þeirrar skoðunar, og hef raunar verið lengi, að batinn sé að þakka breyttu mataræði og einnig andlegri iðkun og breyttum viðhorfum vegna iðkunarinnar. Af hverju? Jú, um ástæður svona bólgu í ristli er sáralítið vitað og að mörgu leyti eru svona vandamál í ristli áþekk astma. Streita og óreglulegt líferni hefur afgerandi áhrif á þetta. Mataræðið skapar hagstæðar aðstæður en iðkunin heilar.

Áhuginn vaknaði snemma
Áhugi á trúarbrögðum, dulspeki og hugleiðslu vaknaði hjá mér þegar ég var barn og unglingur. Ég las mikið um þessi efni en tækifæri til að stunda iðkun voru mjög fá og því miður kynntist ég engum slíkum möguleika þá. Þegar leið á ævina var ég upptekinn af öðrum hlutum, áhuginn og tækifærið kom ekki fyrr en ég var orðinn fullorðinn. Ég held að kveikjan að því hafi verið að mjög fatlað barn fæddist í fjölskyldunni og það neyddi okkur öll til að endurmeta lífið og skoða okkur sjálf. Leiðin að hugleiðslunni sem ég stunda í dag kom nánast af sjálfu sér. Fyrir nokkrum árum lærði ég slökun, þá komst ég allt í einu í samband við sjálfan mig og brennandi áhugi vaknaði á því að halda áfram. Vinkona mín Soffía Lára Karlsdóttir leiðbeindi mér fyrstu skrefin og benti mér á gott lesefni. Síðan fór ég að prófa hugleiðslu einn og stunda andlegar æfingar sem ég fann í bókum.

Á þeim tíma fór ég í bænahring og þátttakan þar hefur síðan verið hluti af iðkun minni. Eftir tveggja ára iðkun sjálfur var ég farinn að sitja og tæma hugann. Mér fannst ég þurfa að taka eitthvert nýtt skref og þá hvatti Soffía Lára mig til að prófa zen-iðkun. Ég fór að iðka með hópnum Zen-Íslandi Nátthagi og líkaði það svo vel að ég er með þeim enn. Hugleiðsluiðkun er 3-4 sinum í viku hjá Nátthaga. Þá er setið tvisvar í 30 – 40 mínútur og milli setanna er hugleiðsla á hreyfingu (kinhin). Í lok iðkunar er oftast kyrjað. Yfirleitt eru lengri setur einn laugardag í mánuði og sesshin í nokkra daga a.m.k. tvisvar á ári. Ég hef stundað iðkanir með hópnum mjög vel undanfarin ár.

Kennsla og iðkun
Um miðjan janúar árið 2005 gafst mér kostur á að fara til þriggja mánaða iðkunar á helgistað Zen búddhista á Sonoma Mountain Zen Center (skammstafað SMZC). Á þessum helgistað eru árlega haldin tvö sérstök iðkunartímabil, sem standa í mánuð og kallast ango sem þýðir: ,,Að dvelja í friði“. Hið fyrra er í febrúar, vetrar-ango, hið seinna í ágúst, sumar-ango. Í þriðju viku ango er sesshin, sem þýðir: ,,Að snerta hug og hjarta“. Sesshin er tímabil aukinnar iðkunar að jafnaði einu sinni í mánuði. Sesshin getur verið eins dags iðkun með hugleiðslu 8 sinnum eða fjögra til átta daga stíf iðkun. Ábótinn Jakusho Kwong Roshi rekur Sonoma iðkunarstöðina ásamt fjölskyldu og starfsfólki, sem er um það bil tíu manns. Kwong Roshi er einnig leiðbeinandi Zen á Íslandi-Nátthaga.

Á hverju ári fara nokkrir meðlimir Zen á Íslandi á ango til Sonoma. Dogen Zenji stofnaði Soto zen búddhismans í Japan á árunum 1200 til 1253, skipaði svo fyrir að tvisvar á ári yrðu munkarnir að iðka í þrjá mánuði samfleytt til þess að styrkja stoðir búddismans. Á meðan á iðkunartímabilinu stendur lifa þátttakendur eingöngu með fjársjóðunum þremur Búdda, Dharma (kenningarnar) og Sangha (samfélag búddhista). Þann tíma sem ango stendur yfir er farið á fætur kl. 4 og 45 mínútum síðar teknar 108 beygjur. Setur byrja kl. 5:15 og eftir það eru Chi Kung æfingar fyrir morgunmat. Máltíðir eru 3 formlegar oryoki (borðað er formlega úr 3 skálum, áþekkt japönskum tesiðum). Setur eru í 30 – 45 mínútur 8 sinnum á dag. Unnið er alla morgna, en aðeins sum síðdegi.

Fyrir utan iðkunina fer fram nám á Ango sem leitt er af eldri nemanda Roshi. Ef ekkert sérstakt er um að vera á Sonoma setrinu er dagskráin þannig: Vaknað er um klukkan fimm að morgni eftir það eru tvær 35 mínútna setur og kyrjun er fram til kl. 7. Á þessum tíma árs birtir milli kl. 6 og 7. Það er byrjað í myrkri en komið úr setusalnum (zendóinu) í birtingu. Eftir morgunsetu búa menn sér oftast sjálfir til morgunmat og síðan er unnið frá kl. 8.45 til 12, en þá er sameiginlegur hádegisverður í Sangha húsinu. Fyrir matinn er kyrjað og síðan er borðað í þögn þó ekki formlega (oryoki). Eftir hádegi er unnið frá kl. 13:30 – 15:30. Klukkan sex er sameiginlegur kvöldmatur. Deginum lýkur svo með tveim 40 mínútna setum frá 19:30 til 21:00. Eftir það er hvíld og vel þeginn svefn.

Á laugardögum koma gjarnan margir m.a. til að hlýða á Dharma-fyrirlestur (kenningafyrirlestur) sem er á milli kl. 11 og 12. Eftir það er öllum boðið til sameiginlegs hádegisverðar. Síðdegis á laugardögum og á sunnudögum er frí, engar setur og engin vinna. Stór hluti tekna SMZC kemur frá gestum. SMZC leigir út aðstöðu fyrir hópa, t.d. halda aðilar þar árlega námskeið í eflingu og styrkingu fyrir stjórnendur. Einnig koma búddistar úr öðrum söfnuðum til lengri og skemmri dvalar, m.a. kemur reglulega fólk frá Shambala Tíbetbúddhistum í einangrunariðkun. Zen búddhistar úr öðrum söfnuðum koma á ango og sesshin og fyrir utan þessa gesti kemur reglulega fólk úr samfélagi búddhista á Íslandi og Póllandi, sem Roshi leiðir. Fyrrum langdvalarfólk heimsækir staðinn og kemur til að sitja.

Staðurinn
Fyrsta morguninn sem ég dvaldi í Sonoma var mjög kalt í setusalnum zendóinu yfir nóttina voru aðeins 3 – 4° en yfir daginn 7 – 8°, mér leist ekki á blikuna, ef yrði svo kalt áfram, en sem betur fer var þetta kaldasti morgunninn þann tíma sem ég var þarna. Setusalurinn zendóið er hitaður upp með heitum blæstri undir gólfinu, svo gólfið hlýnaði fljótt og eftir fyrstu setuna hlýnaði loftið líka aðeins. Fyrstu dagana hélt ég að það væri alltaf ausandi rigning á nóttunni, en svo var ekki, ástæðan var sú að á nóttunni var yfirleitt þétt þoka og hún myndaði dropa á trjánum sem féllu á þak kofans eins og rigning. Setrið stendur efst í Sonomafjalli sem er eitt af þremur ævafornum eldgígum. Þar er mikið af stórum trjám, hæð sumra er allt upp í 30 – 40 metrar og 1.5 metrar í þvermál. Dýralíf er fjölbreytt, dádýr koma heim að húsunum, mikið er af íkornum og hérar eru algengir, stórir hópar af villtum kalkúnum fara um skóginn. Mikið er af alls konar fuglum: Uglur, gæsir, endur, krákur, Kaliforníu-hrægammar, vákar, fálkar, spætur, hegrar, lynghænur, kólibrífuglar og fjöldinn allur af smáfuglum. Mest af trjánum eru sígræn tré og blóm eru blómstrandi allan veturinn, þó fjöldi þeirra aukist þegar vorar.

Veran í setrinu engu lík

Ég dvaldi í Sonoma í tæpa þrjá mánuði. Fyrst eftir að ég kom þangað var rólegt svo ég hafði góðan tíma til að átta mig á hlutunum og komast smátt og smátt inn í daglega dagskrá iðkunar, náms og vinnu. Ég las mikið mest ýmis tímarit sem gefin eru út af amerískum Búddhistum m.a. Shambala rit Tibetbúddhista, Triangel og Buddhadarma rit zenbúddhista. Tímaritin opnuðu fyrir mér sögu og stöðu Búddhisma í Ameríku. Sagan er merkileg og staða iðkunar fjölbreytt og þróttmikil. Ég tók fullan þátt í ango í 26 daga í febrúar þar af var sesshin í 8 daga. Svo stíf iðkun opnar öllum iðkendum nýja dýpt og vídd iðkunar, nokkurs konar djúpa tengingu við sjálfan sig. Eftir upplifun þessarar stífu iðkunar hafði ég svo heilan mánuð í rólegri iðkun til að melta og meta upplifunina. Að koma til SMZC og dvelja þar við iðkun, nám og störf er engu líkt fyrir Soto zen iðkanda.

Ný upplifun árið 2007
Þegar ég dvaldi aftur í Sonoma setrinu árið 2007 ogtók þátt í ango fannst mér það ný upplifun. Í fyrri veru minni þar var eins og verið væri að taka grunn að nýrri byggingu, grafið upp og undirstöður gerðar. Nú var unnið í uppbyggingu á grunninum, lítið umrót þó miðaði vel að byggja. Andrúmsloftið á ango var gott, góður samstæður hópur og engar óvæntar uppákomur. Það er mín skoðun að eitt form iðkunar sé í sjálfu sér ekki betra en annað. Meginatriðið er að taka ákvörðun um að stunda iðkun. Þú finnur sjálfur hvort það sem þú ert að gera hentar þér og forsenda árangurs er að þú sjálfur takir ábyrgð á þinni iðkun, hvaða iðkun sem þú stundar, hver leiðbeinandinn er eða hópurinn sem þú iðkar með. Ég held að vitneskjan um hvað sé best að gera búi innra með okkur og kyrrð, bæn og hugleiðsla hjálpi okkur að skynja hana og átta okkur á því hvað er best að gera.Eyjólfur hefur netfang: eyjo44@simnet.is

Viðtalið skrifaði Ingibjörg Sigfúsdóttir árið 2007



Flokkar:Hugur og sál

%d bloggers like this: