Erindi flutt hjá Blindravinafélaginu 1. apríl 2006

Ég var beðinn að ræða hér við ykkur m.a. um efni sem ég skrifaði um stutta grein í Tímaritið Heilsuhringinn fyrir allmörgum árum. Þessi grein var um efnasamband sem m.a. finnst í töluverðu magni í aðalbláberjum. Auk þess finnst þetta efni og nokkur önnur náskyld efnasambönd í mörgum öðrum berjum. Þó hefur mér skilist að ennþá hafi engin ber fundist, þar sem jafn mikið af þessum efnasamböndum er eins og í aðalbláberjum. Þetta efni er litarefnið sem gefur bláberjum og aðalbláberjum lit sinn. Einnig eru náskyld dökkbláa litarefni í bláum og svörtum vínberjum, sólberjum og krækiberjum. Rauða litarefnið í mörgum berjum t.d. rifsberjum er einnig náskylt þessu litarefni en bláa litarefnið í aðalbláberjum er nefnt anthocyanósíð.

Þetta litarefni og fjöldi skyldra efnasambanda eru oft flokkuð með svokölluðum flavonóíðum, sem er fjölþættur flokkur lífrænna efnasambanda sem finnast í jurtum. Mörg þessara efna eru örugglega mjög mikilvæg fyrir heilsuna og jafnvel ómissandi að sumra áliti, enda hafa nokkur þeirra verið nefnd ,,bíoflavonóíð“, sem þýða mætti ,,líf-flavonóíð“. Ástæða þess að ég er að tala um þessi efni hér er að fyrir á milli 10- 20 árum kom grein í bandarísku vísindariti um að þessi efnasambönd sem hér er verið að tala um, Anthocyanosíð úr aðalbláberjum, væru sennilega áhugaverð í sambandi við augnsjúkdóm sem engin þekkt lækning væri til við. Sjúkdómurinn heitir Retinitis pygmentosa. Hann leiðir sennilega alltaf til blindu fyrr eða síðar, eða svo var haldið fram í greininni.

Þar var sagt að þetta bláa litarefni úr aðalbláberjum væri eina efnið sem vitað væri um að hefði haft jákvæð áhrif á sjón þeirra sem voru með Retinitis pygmentosa. Þetta var aðalefnið í stuttri grein sem ég skrifaði í Heilsuhringinn skömmu síðar. Þegar ég skrifaði þá grein vissi ég ekki hvort nokkur staðar væri hægt að fá aðalbláber eða aðalbláberjasafa eða ,,extrakt“. Skömmu síðar var ég staddur í Heilsuhúsinu í Kringlunni og var að tala um þetta og vandræðast yfir þessu og því að gaman væri að einhver með þennan sjúkdóm reyndi þetta, ef hægt væri að ná í aðalbláber eða aðalbláberja extrakt. Þá snýr afgreiðslukonan í Heilsuhúsinu sér að mér og segir: ,,Það er nú ekki mikill vandi því að við erum með aðalbláberja extrakt frá Svíþjóð hérna í búðinni.

Hann er í pilluformi og heitir Strix og við erum nýbúin að fá hann en engin veit til hvers á að nota hann, svo að sennilega selst þetta aldrei og verður ,,ónýtt.“.  Síðan þá hefur Strix oftast verið til í Heilsuhúsinu, en ég veit ekkert um árangur af að nota það. Sennilega þarf að nota Strix að staðaldri þar sem eftir er ævinnar eigi varanlegur árangur að nást, en nota þarf 2-3 töflur á dag. Töflurnar eru nokkuð dýrar og sjúkrasamlagið greiðir ekkert, því að aðalbláber eru ekki skrásett sem lyf. Sennilega kostar þúsundir króna á mánuði að nota Strix í fullum skammti. Síðar komst ég að því að fleiri efnasambönd en bláa litatefnið í aðalbláberjum hafa líkar verkanir eins og það.

Þetta eru náskyld efni sem finnast t.d. í furuberki (picnogenol) og vínþrúgukjörnum (grape seed extract). Þessi efni eru náskyld bláum og rauðum litarefnum í berjum og ávöxtum en eru litlaus og stundum nefnd pro-anthocyanósíð, en ,,pro“ þýðir for eða á undan, sem þýðir að ef efnaferlið héldi áfram yrði efnið blátt, því að ,,cyan“ er blár litur. Öll þessi efnasambönd eru öflug oxunarvarnarefni eða ,,andoxarar“ miklu öflugri en C og E vítamín, sem einnig eru andoxarar. Sennilega er það þetta sem gerir þessi efni svona mikilvæg fyrir sjónina.

Líklega varna þessi efnasambönd því að lausar stakeindir ráðist á frumur í sjónhimnu augans og geri þær óstarfhæfar. Verið getur að erfðafræðilegur galli valdi því að meira verði til af lausum stakeindum hjá vissum einstaklingum í sjónhimnu augans eða skortur sé á oxunarvarnarefnum til að verja frumur sjónhimnunnar fyrir árásum stakeinda á sömu frumur. Þetta vita menn ekki ennþá en grunar aðeins. Hvað sem öðru líður virðast þessi öflugu andoxunarefni í aðalbláberjum og fleiri berjum og furuberki draga úr eða hindra þær skemmdir á sjónhimnu augans sem annars leiðir oftast til blindu.

Af því að ég er að tala hér um sjónina og hvernig hún daprast oft með aldri langar mig að segja ykkur stutta sögu um aldraðan mann sem sagði sögu sína í lesendabréfi til Townsend Letter for Doctors and Patiens fyrir nokkrum árum. Hann sagði að sjón sín hefði verið orðin mjög léleg og hann hefði verið orðinn því sem næst blindur, þegar einhver benti honum á að prófa að nota karótín efni, en karótínefni eru mörg og er beta- karótín, gula litarefnið í gulrótum þeirra þekktast. Hann fór að ráðum þess sem kenndi honum þetta og fékk sér öll karótínefni sem til voru í búðinni og byrjaði að nota.

Fljótlega fór sjón hans að lagast og hann uppgötvaði að það var einkum karótínefnið Lútein sem bætti sjón hans. Hann jók notkun þess og innan tíðar var sjón hans orðin næstum því eins góð og hún var þegar hann var ungur. Þá fór hann til augnlæknisins sem hann hafði verið hjá og hafði úrskurðað hann svo til blindan nokkru áður. Hann mældi í honum sjónina og staðfesti að hún var í fullkomnu lagi. En þegar hann fór að segja honum að hann hefði læknað sjóndepru sína með bætiefnapillum var augnlæknirinn fjúkandi vondur og rak hann út. Hann gekk úr skugga um að það var Lúteinið sem bætti hjá honum sjónina.

Eitt sinn átti hann ekkert Lútein í nokkra daga og trassaði að kaupa nýtt glas. Eftir fáeina daga, sem hann notaði ekki Lútein, fann hann að sjónin fór að daprast meir og meir. Hann þorði þá ekki að trassa lengur að kaupa nýtt glas með Lúteini og að fáum dögum liðnum var sjónin aftur komin í lag og hefur verið það síðan, enda tekur hann Lútein daglega. Lútein og önnur karótínefni eru öflug oxunarvarnarefni, eins og C- vítamín, E- vítamín, bláa litarefnið í bláberjum og mörg fleiri efni þ.á.m. flest vítamínin og ótal fleiri efni og efnasambönd. Sennilega eru fá líffæri jafn háð oxunarvörnum og oxunarvarnarefnum eins og augun og mikið er þar í húfi, því að sömu augun verða að duga okkur á langri ævi.

Ævar Jóhannesson



Flokkar:Greinar

%d bloggers like this: