B-12 vítamín og elliglöp

Inngangur
Þessi greinarstúfur er að mestu byggður á langri grein eftir Joseph G. Hattersley MA. Ég hef áðu þýtt hluta úr áhugaverðum greinum eftir þennan höfund og birt í Heilsuhringnum, t.d. um oxysterol, þ.e. oxað kólesteról, sem Hattersley telur að oft sé orsök æðahrörnunar og hjartaáfalla en ekki kólesterólið í óoxuðu ástandi, sem sé mikilsvert næringarefni en ekki hálfgert eitur, eins og margir virðast halda að það sé. Í þessari grein er Hattersley aftur á móti að ræða um orsakir alzheimerssjúkdóms og annarra sjúkdóma í heila aldraðs fólks og hvernig sennilega má koma í veg fyrir þá og jafnvel lækna, að minnsta kosti að hluta. Hattersley telur að eftir 65 ára aldur megi gera ráð fyrir að hlutfallslegur fjöldi fólks með ýmiskonar elliglöp tvöfaldist á hverjum 5 árum sem fólk á eftir ólifað og hann álítur að mjög oft sé þetta vegna skorts á mikilvægum næringarefnum í fæðunni, sem aldrað fólk virðist oft á tíðum þurfa að fá meira af eða þarfnast meira en ungt fólk. Þetta á ekki síst við um B-12 vítamín sem aldrað fólk skortir mjög oft, m.a. vegna þess að oft á tíðum nýta þeir sem komnir eru á efri ár þetta vítamín afar illa úr fæðunni vegna skorts á magasýru og meltingarensímum.

Hindra stórir skammtar af B-12 alzheimers-sjúkdóm?
Þó að of lítið B-12 vítamín sé mjög oft höfuðástæðan fyrir alzheimers-sjúkdómi að mati Hattersley, veldur þó B-12 skortur stundum annarskonar heilabilun, sem einnig er oft á tíðum ekki greind sem skorts- eða hörgulsjúkdómur og aðeins kölluð ,,elliglöp“ eða einhverju álíka nafni, sem segir raun og veru ekkert um ástæður þessa ástands eða hvort nokkur lækning sé hugsanleg, sem flestir telja raunar ólíklegt. Að vísu geta vefrænir sjúkdómar í heilanum t.d. heilablæðingar eða blóðtappar í heilaæðum valdið einkennum eins og minnisbilun og jafnvel vitglöpum í sumum tilfellum. Bent hefur verið á það að sé notað kóensím Q-10 í heldur stærri skömmtum en notaðir eru sem fæðubótarefni, t.d.100-200 mg á dag, strax eftir áfallið, verði varanlegar heilaskemmdir oft miklu minni en annars hefðu orðið og stundum jafnvel sáralitlar. Best er að nota Q-10 strax eftir áfallið, en jafnvel nokkrum vikum seinna gerir þetta bætiefni töluvert gagn.

Vitglöp sem oft eru talin vegna Alzheimers-sjúkdóms með réttu eða röngu lagast oft við að gefa stóra skammta af B-12 eftir því sem læknirinn John V. Dommiese segir í tímaritinu Medical Hypotheses 1991, sé byrjað að nota vítamínið áður en mjög langur tími líður frá því að einkenna verður vart. Sami höfundur telur að til að leiðrétta B-12 skort sem valdið hefur sálrænum einkennum, þurfi miklu meira af þessu vítamíni heldur en almennt þarf og ráðlagt er fyrir heilbrigt fólk. Sáralítil hætta er á að jafnvel risaskammtar af B-12 valdi hliðarverkunum eða eitrunum og er sennilega varla þekkt, hvað þá heldur að ástæða sé til að vara við því. Sumt eldra fólk nýtir B-12 vítamín úr fæðunni afar illa og jafnvel næstum því ekkert. Þetta á alveg sérstaklega við um fólk sem tekinn hefur verið úr maginn eða hluti hans. Það fólk ætti að fá reglulega B-12 sprautur en treysta ekki á að fá þetta bætiefni  úr fæðunni eða vítamínpillum. Sé B-12 vítamín í blóðvatni minna en 550- 600 pg/ml (picogram í millilítra) fara að koma í ljós skortseinkenni og börn heilbrigðra mæðra eiga helst að fæðast með um 2000 pg/ml í blóði, þó að vafalaust sé þetta oft minna vegna vannæringar móðurinnar á þessu efni.

Skortseinkenni á B-12 vítamíni koma fyrst fram á taugakerfinu en ekki blóðinu, eins og margir álíta vafalaust og því er ekki nóg að láta mæla hvort blóðrauðinn sé í lagi ef fólk grunar B-12 skort. Hattersley læknir telur að oft séu fyrstu einkenni B-12 vítamínskorts vægt þunglyndi eða depurð, sérstaklega hjá eldra fólki. Sé þessi B-12 skortur ekki leiðréttur getur þetta leitt af sér hægt vaxandi vitglöp sem oft eru greind sem Alzheimers-elliglöp, sé um aldrað fólk að ræða. Þunglyndislyf gagna hér lítið en auk B-12 skorts getur skortur á skjaldkirtilshormónum og reyndar fleiri hormónum og næringarefnum valdið líkum einkennum. Hattersley bendir á að B-12 vítamínskortur sé oft nátengdur margskonar hormónatruflunum. Stundum kemur þetta fram í alvarlegum geðröskunum t.d. ofsóknar-geðbilun eða geðbrigðasýki með þunglyndis og ofvirkni tímabilum (Manic depressive psychoses). Auk þess nefnir Hattersley síþreytu, veiklað ónæmiskerfi, lágt streituþol, astma, beinþynningu og að fólk eldist óeðlilega hratt. Þá nefnir hann að sjúkdómurinn heila og mænusigg eigi töluvert sameiganlegt með B-12 vítamínskorti, þó að fleira komi þar við sögu.

Ekki má gleyma því að fólk sem algerlega er á grænmetisfæði og notar alls enga fæðu úr dýraríkinu á mjög erfitt með að afla sér B-12 vítamíns nema nota tilbúið vítamín í pillum eða fá reglulega B-12 vítamínsprautur. Einkenni B-12 vítamínskorts geta verið fleiri en hér hafa verið nefnd, t.d. ofbeldiskennd hegðun sem leiðir síðar til hreinnar geðbilunar, ef skorturinn er ekki leiðréttur. Sé einnig skortur á fólinsýru og B-6 vítamíni bætist við þetta hætta á hjarta- og æðasjúkdómum, sem stafar af því að amínósýran meþíonin myndar aðra amínósýru, hómócystein, sem oxar kólesteról, sem þá getur þrengt eða lokað mikilvægum æðum í hjarta eða heila, sem í sumum tilfellum truflar blóðrás til heilans. Þetta getur átt þátt í vitglöpum hjá eldra fólki, sem stundum minna á alzheimers-sjúkdóm.

Algengar ástæður B-12 vítamínskorts
Hattersley telur að þegar marvæli séu hituð í örbylgjuofni rýrni B-12 vítamínið í matnum töluvert. Til dæmis minnkar B-12 í mjólk, sem hituð er í 6 mínútur í örbylgjuofni um 30 – 40 %. Við venjulega eldunaraðferð með rafmagni eða gasi má sjóða mjólkina í 25 mínútur til að minnka B-12 vítamínið í henni jafn mikið. Jafnvel ennþá verra er það þó að örbylgjur eyðileggja ensím sem nauðsynleg eru til að líkaminn geti tekið upp og nýtt sér mikilvæg efni úr fæðunni. Hann heldur því fram að fólk ætti alls ekki að nærast á fæðu sem hituð hefur verið í örbylgjuofni og að neysla á þannig matvælum stuðli m.a. að því að fólk sé næmara fyrir sjúkdómum eins og krabbameini og alzheimers-heilabilun. Margt fleira í vestrænu mataræði hefur áhrif á hvort við fáum nægilegt B-12 vítamín eða hvort við nýtum vel það B-12 í fæðunni sem við fáum. Hattersley talar t.d. um skort á omega-3 fitusýrum, sérstaklega fitusýruna DHA ((docosahexaensýru), sem gnægð finnst af í feitum fiski og lýsi, sem hann mælir með að allir noti daglega.

Tilraunir á músum, sem Hattersley segir frá, benda til að fitusýrur úr lýsi (EPA og DHA) hægi á og geti jafnvel hindrað Alzheimers-sjúkdóm í músum. Hattersley talar einnig um trans-fitusýrur, sem helst finnast í tilbúinni fitu þ.e. fitu sem búið er að herða eða herða að hluta og síðan er notuð í iðnaðarvöru t.d. smjörlíki og bökunar- og steikingarfitu. Þessi fita er ónáttúrleg og finnst varla í náttúrunni, nema í litlu magni í mjólk jórturdýra, en sú fita er þó alls ekki eins og tilbúnar transfitur sem verða til við hlut-herslu fjölómettaðra fljótandi jurtaolía eða lýsis. Í könnun sem gerð var á meira en 800 öldruðum einstaklingum voru tvöfalt meiri líkur á að þeir sem notuðu mikið af transfitum væru með einkenn um Alzheimers- sjúkdóm, heldur en það fólk sem notaði minnst af þannig matarfitum (hsiresearch@ healthiernews.com).

Yfirleitt eru engar upplýsingar á matvælum um hversu mikið er af transfitum í þeim, aðeins hversu mikið er af mettaðri fitu. Þó er vafalaust miklu skaðlegra að neyta mikils af transfitum, heldur en mettaðri fitu, enda eru mettaðar fitur oftar í náttúrlegum matvælum en transfiturnar. Fólk sem er með of lítið af magasýrum er í sérlegri hættu að skorta B-12 vítamín. Hattersley álítur að oft sé það vegna skorts á B-6, zinki eða jónuðu kalki. Skortur á pepsíni getur líka valdið því að upptaka á B-12 sé ófullnægjandi. Þeir sem misst hafa mikinn hluta magans eða hann allan vegna skurðaðgerðar geta oft ekki nýtt sér B-12 vítamín í fæðunni eða úr vítamínpillum. Þeir verða að fá þetta vítamín í sprautum, sem gefnar eru í vöðva. Í maganum myndast efnasamband, próteinefni sem nefnt er á ensku ,,intrinsic factor“ sem ég veit ekki hvað er kallað á íslensku, þetta efni er ómissandi til að líkaminn geti nýtt sér B-12 vítamín úr fæðunni. Vanti þetta efni algerlega leiðir það til dauða, en áður hafa komið fram öll einkenni B- 12 skorts sem búið er að nefna.

Fyrrum, þegar B- 12 var ekki þekkt, var fólki með þennan sjúkdóm stundum gefin hrá lifur, en hún er mjög auðug af B-12 vítamíni. Stundum tókst að bjarga lífi fólks með þessu, því að örlítill hluti vítamínsins úr lifrinni hefur sennilega komið að notum, þó að ,, intrinsic factorinn“ væri ekki í lagi. Nú fær þetta fólk B-12 vítamín- sprautur í vöðva, eins og áður var sagt. B-12 vítamín-sprautur eru oftast gefnar við B-12 skorti frekar en pillur, því að það nýtist þannig miklu betur. Skortur á B-12 vítamíni getur komið fram, ef sýrubindandi magalyf eru notuð að staðaldri, segir dr. Hattersley. Auk þess hindra eða trufla þessi lyf upptöku ótal næringarefna úr fæðunni, þ.á.m. eru flest B- vítamínin og steinefni m.a. kalk og magnesíum, nema helst í lífrænum efnasamböndum. Það er efni í sérstaka grein og verður því ekki rætt frekar hér. Sennilega eru of miklar magasýrur oftast vegna magasárs-bakteríunnar, helicobacter pylori sem lækna má á nokkrum vikum með sýklalyfjum. Fengju allir með þessa bakteríu viðeigandi meðferð mætti að öllum líkindum að mestu hætta að nota sýrubindandi magalyf.

Auk þess eru nú til mörg lyf sem nefnd eru ,,prótónupumpuhemlar“, sem draga úr magasýrumyndun, án þess að stöðva sýrumyndunina algerlega. Við það ætti B-12 vítamín í fæðunni að geta komið að fullu gagni og sama er að segja um B-12 vítamín úr vítamínpillum. Eins og áður var nefnt fær fólk sem lifir algerlega á fæðu úr jurtaríkinu oftast lítið af B-12 fæðunni. Það fólk ætti sennilega að nota B-12 vítamín pillur öðru hvoru. Grein kom nýlega í Townsend Letter for Doctors and Patient, sem benti ákveðið til þess að algeng sjávarmatjurt sem nefnist Nori (þari), innihaldi B-12 í líffræðilega virku formi. Sé þetta rétt gæti það leyst vanda þeirra sem ekki vilja neyta fæðu úr dýraríkinu. Mikil eða langvarandi neysla á sýklalyfjum getur haft áhrif á hversu vel við nýtum B-12 úr fæðunni. Þetta á raunar ekki aðeins við um B-12, heldur mörg önnur ómissandi næringarefni. Flest sýklalyf trufla eða skaða eðlilega starfsemi mikilvægra örvera í þörmunum. Sumar þessar örverur mynda vítamín og fleiri mikilvæg næringarefni sem við eigum erfitt með að fá öðruvísi. Í stað vinsamlegra þarmagerla koma oft skaðlegir sveppir og bakteríur sem þola sýklalyfin betur. Ég ætla ekki að ræða það mál frekar hér, því að bæði ég og margir aðrir hafa oft áður skrifað um það greinar í Heilsuhringinn á liðnum árum.

Heildar niðurstöður
Sennilega eru margskonar elliglöp oftast afleiðing rangrar eða ófullkominnar næringar, sem stundum hefur varað ævilangt. Þetta á alveg sérstaklega við um skort á B-12 vítamíni sem er að mati dr. Joseph G. Hattersley höfuðvaldur að alzhheimers-sjúkdómi og reyndar fleiri einkennum sem einu nafni eru kölluð ,,elliglöp“. Auk B-12 skorts blandast oft margskonar annar efnaskortur inn í myndina, sem flækir málið og veldur því m.a. að fullur bati næst stundum ekki við það eitt að fólk fái nægilega mikið af B-12. Stundum getur þó langvarandi efnaskortur, t.d. á B-12 vítamíni valdið óbætanlegum taugaskaða sem ekki verður bættur. Aldrei má þó leggja árar í bát og gefast upp, því að Hattersley nefnir fjölda dæma um að slæm tilfell elliglapa hafi gengið til baka á frekar skömmum tíma, við að nota stóra skammta af bætiefnum, einkum B-12 vítamíni.

Lokaorð
Þessi greinarstúfur er saminn upp úr langri grein með nafninu ,,High- dose Vitamin B-12 for At- Home Prevention and Reversal of Alzheimer’s Disease and Other Diseases“ eftir Joseph G. Hattersley, MA. Greinin var birt í Townsend Letter for Doctor and Patiens í maí 2006. Hún er allt of löng til að birta hana í heilu lagi í Heilsuhringnum en margt í henni er svo spennandi og áhugavert að mér fannst algerlega nauðsynlegt að birta það. Árangurinn eru þið búin að sjá og e.t.v. lesa. Hafi einhver lesið greinina alla á frummálinu saknar sá hinn sami vafalaust margs sem vantar í þessa endursögn, enda er frumtextinn sennilega 4-5 sinnum lengri. Dr. Hattersley hefur áður skrifað áhugaverðar greinar í mörg tímarit um læknisfræðilegt efni. M.a. skrifaði hann mjög spennandi greinar um oxað kólesteról og kransæðasjúkdóma fyrir á milli 15 og 20 árum. Ég notaði efni úr þessum greinum, sem þá var afar umdeilt, í grein sem ég skrifaði í Heilsuhringinn skömmu síðar. Nú munu hugmyndir dr. Hattersley um oxað kólesteról og kransæðasjúkdóma, hafa fengið almenna viðurkenningu flestra. Kenningar hans eða tilgátur um alzheimers-sjúkdóm og elliglöp eru verulega áhugaverðar og spennandi og gætu valdið straumhvörfum í meðferð aldraðra.

Ævar JóhannessonFlokkar:Greinar

%d bloggers like this: