Magnesíum og B-6 vítamín hindra nýrnasteina

Eitt það fyrsta sem ég lærði af Marteini heitnum Skaftfells var að magnesíum og B-6 vítamín til samans, kæmu næstum því fullkomlega í veg fyrir að nýrnasteinar mynduðust. Þetta mun hann hafa lært af greinum í tímaritinu Prevention Magazine. Marteinn lánaði mér stundum gömul blöð af Prevention og í einu þeirra var grein um þetta, sem ég þýddi og kom hún síðan í Hollefni og heilsurækt. Nokkrum sinnum eftir þetta hef ég skrifað um nýrnasteina og hvernig hægt er að hindra að þeir myndist. Í októberblaði Townsend Letter for Doctors and Patients 2005, er stutt grein um þetta, eftir Alan R. Gaby lækni. Þar segir hann frá könnun þar sem 149 einstaklingar sem höfðu endurtekið fengið calcium oxalat nýrnasteina eða blöndu úr calcium oxati og calcium fosfati. Þetta fólk var látið nota 100 mg af magnesíumoxíði þrisvar sinnum á dag og 10 mg af B-6 vítamíni daglega. Þessi tilraun stóð frá 4 árum og sex mánuðum upp í 6 ár. Niðurstaðan varð sú að nýrnasteinarnir hættu næstum því alveg að myndast, eða um 92,3%, eða fækkaði í nálægt tíunda part úr steini á ári, væri miðað við allan hópinn, eða með öðrum orðum, að einn af hverjum 10 sjúklingum fékk einn stein á ári.

Önnur könnun, þar sem ekkert B-6 var notað en 500 mg af magnesíum á dag, sýndi að steinunum fækkaði um 90%, eða urðu aðeins tíundi hluti þess sem áður var. Gaby læknir segir frá því, að fyrir 20 árum var hann beðinn að halda fyrirlestur um náttúrlegar lækningar á árlegum fundi hjá Læknafélagi Baltimore-svæðisins. Vegna þess að vera hans þar kynni að vera umdeild, var einnig boðið „næringarsérfræðingi“ frá virtri lækningastofnun til að segja álit sitt á ræðu Gabys. „Sérfræðingurinn afþakkaði boðið með þeim orðum, að vera sín þar og umræður um ræðu mína, gæfi mér trúverðugleika sem ég ekki verðskuldaði“ segir Gaby. „Hann benti sérstaklega á grein sem ég nýlega hafði fengið birta í tímaritinu Prevention (E.t.v. greinin sem ég nefndi) um B-6 vítamín og magnesíum til að hindra myndun nýrnasteina. Eftir að ég sendi þeim, sem ráðstefnuna héldu, afrit af rannsóknunum sem ég ræddi um og höfðu verið gefnar út, um B-6 vítamín, magnesíum og nýrnasteina, bað sérfræðingurinn þá sem að rannsókninni stóðu afsökunar á hvatvísi sinni. Samt færðist hann undan að eiga orðastað við mig,“ segir Alan R. Gaby svo að lokum.

Ævar Jóhannesson



Flokkar:Greinar

%d