Höfuðverkur sem má ráða bót á

Mörg okkar erum við heppin og fáum sjaldan eða aldrei höfuðverk. En því miður þjást allt of margir af langvarandi eða endurteknum höfuðverk sem hlýtur að hafa áhrif á lífsgæðin, enda verkir þá orðnir hluti af hinu daglega lífi. Höfuðverkur er líka algeng ástæða þess að fólk leitar sér aðstoðar læknis en þó verkurinn geti í einstaka tilvikum gefið vísbendingar um alvarlega sjúkdóma eru einkennin yfirleitt vegna góðkynja kvilla.  Höfuðverkur flokkast niður í nokkrar tegundir og þær langalgengustu eru mígrenihöfuðverkur og spennuhöfuðverkur. Sá síðast nefndi telst til stærri hluta allra höfuðverkja og er sú tegund sem við sjálf getum oft haft áhrif á með einföldum ráðum og auðveldast er að bæta með réttri meðferð.

Spennuhöfuðverkur
Flestir hafa fundið fyrir spennuhöfuðverk einhvern tíma á lífsleiðinni. Verkurinn getur verið allt frá léttum óþægindum til stöðugs verkjar sem veldur því að erfitt er að einbeita sér við verkefni í vinnu eða skóla. Verkurinn er oft eins og band um höfuðið eða þrýstingur í hnakka, við gagnaugu, enni eða fyrir aftan augun. Skýringu einkennanna má finna í læstum liðum í hálshrygg, spenntum og aumum vöðvum, sinafestum og liðböndum í höfði, hnakka, öxlum eða kjálkum. Ástæðan getur verið svefnleysi, streita eða aðrir innri og ytri þættir eins og:
• Röng líkamsstaða
• Rangar vinnustellingar
• Svefnskortur
• Hálshnykkur við aftanákeyrslu
• Slitbreytingar í hálshrygg
• Tanngnístran
• Kuldi
• Streita og álag

Hvað er til ráða? Oft er hægt að lækna höfuðverk með einföldum leiðum eins og að drekka vatn eða sofa smástund. Ef verkurinn er meira langvarandi þarf að huga að, og ef þörf er á, gera breytingar á einum eða fleiri þáttum í okkar daglega lífi. Má þar nefna:

• Sitja rétt í stólnum með slakar axlir
• Skipta oft um vinnustellingar
• Slökunaræfingar í vinnuhléi
• Stuttar pásur ef vinnan er einhliða
• Sofa reglulegan nætursvefn
• Sofa með heilsukodda
• Forðast streitu
• Viðhalda tilfinningalegu jafnvægi
• Forðast að verða kalt
• Huga að matarræði
• Regluleg hreyfing og líkamsrækt Ef viðunandi árangur næst ekki með ofangreindum leiðum, þarf að kanna ástand liða og vöðva íhálsi, herðum og kjálkum, sérstaklega ef einkennin hafa varað einhvern tíma. Meðferðaraðilinn lítur á sjúkdómssögu einstaklingsins; hversu lengi verkurinn hefur verið til staðar, hvenær og hvernig hann byrjaði, hvað dregur úr og hvað eykur hann o.s.frv. Skoðun sýnir oft skerta hreyfigetu í hálsi og herðum, stífa, stutta vöðva með vöðvahnútum í öxlum og milli herðablaða, stífa eða læsta liði í hálsi og milli herðablaða.

Meðhöndlun
Losa um vöðvaspennu og vöðvahnúta í hálsi, herðum og kjálkum með nuddmeðferð
· Losa um stífa og læsta liði í hálsi og milli herðablaða með kírópraktormeðferð
· Hitabakstrar og heit böð
· Hitakrem og olíur
· Teygja stutta vöðva
· Bithlíf ef gnístir eða pressar saman tönnum
· Nálastungur
· Höfuðbeina- og spjaldhryggjarjöfnun

Það er ekki ætíð hægt að koma í veg fyrir spennu í hálsi og herðum og þá er mælt með meðferð til að auka og viðhalda hreyfingu liðanna og mýkt vöðvanna. Ástæðan getur verið aftanákeyrsla, slit vegna fyrri meiðsla eða aldurs, líkamsstaða við vinnu auk streitu og álags sem oft fylgir okkar daglega lífi. Til að ná viðunandi árangri nægja oft tvær, þrjár meðferðir en það er ekki óalgengt að meðhöndla þurfi líkamann oftar til að ná árangri og viðhalda honum svo með endurtekinni meðferð.

Höfundur: Oddný Óskarsdóttir löggiltur kírópraktor,  geinin skrifuð 2006



Flokkar:Kjörlækningar, Meðferðir