Ofnæmi og óþol

Eitt af þeim vandamálum sem við stöndum frammi fyrir í dag er það sem við köllum ofnæmi og óþol, þegar líkaminn bregst á neikvæðan hátt við því sem við setjum ofan í okkur, sem snertir okkur eða við öndum að okkur. Það að borða hollt er alls ekki einfalt fyrir þá sem þola ekki vissar matartegundir sem annars eru taldar mjög hollar. Ofnæmi er ekkert nýtt vandamál. 400 árum f.Krist meðhöndlaði Hippókrates sjúlklinga sem þoldu illa kúamjólk. En margt er öðruvísi í dag en þá og vandamálið ennþá flóknara. Ofnæmi erfist oftast. Hjá börnum sem eiga annað foreldrið með ofnæmi eru líkurnar 30% að þau fái einnig ofnæmi.

Ef báðir foreldrar eru með ofnæmi aukast líkurnar í 80%. Ef hvorugt foreldra er með ofnæmi eru líkurnar samt 15% (upplýsingar úr fagtímariti Allergo-Journal 6/97). Er hægt að gera eitthvað til að styrkja líkamann og minnka þessar líkur? Ég er alveg sannfærð um að það er hægt með réttum lifnaðarháttum og réttu mataræði. Þó svo að ofnæmi og óþol sé ekkert nýtt vandamál þá held ég að það sé staðreynd að vandamálið er miklu stærra en það var áður. Þegar kemur að ofnæmi og óþoli getur það sem er hollt fyrir einn verið hreint eitur fyrir annan. Þannig að fyrsta skrefið er að láta mæla hvað líkaminn þolir og hvað ekki.

Þegar síðan kemur að því að breyta mataræðinu, þá er auðvitað nauðsynlegt að taka burt það sem við þolum ekki. En vandamálið verður þá hvað á að koma í staðinn. Þá þarf auðvitað að skoða hvaða næringarefnum við erum að missa af og hvernig við getum bætt þau upp með öðrum mat. Það er mjög mikilvægt. Algengur ofnæmisvaldur er mjólkin. En ofnæmið getur verið á mjög mismunandi stigi, sumir ráða ekki við að brjóta niður próteinið í mjólkinni aðrir þola ekki mjólkursykurinn. Þess vegna eru margir sem geta notað sýrðar mjólkurafurðir, smjör og rjóma þó þeir þoli alls ekki nýmjólk. Sumir þola mjólkina í sveitinni beint úr kúnni en ekki út úr búð.

Mjólkin inniheldur mörg mikilvæg næringarefni og þess vegna er mikilvægt að finna út hvað líkaminn þolir. Ef um algert mjólkurofnæmi er að ræða, verður að finn aðrar afurðir. Algengast er að nota sojamjólk í staðinn fyrir mjólk, en ekki eru allir sem þola hana. Rísmjólk, haframjólk og möndlumjólk eru einnig valkostir. Sumar af þessum tegundum eru kalkbættar, en það er auðvitað mikilvægt að hugsa um hvar hægt er að ná í kalk úr matnum. Sesamfræ, möndlur og fíkjur eru t.d. góðir kalkgjafar. Svo er auðvitað mikilvægt að lesa á umbúðir því mjólk og mjólkurduft er í mörgum tilbúnum afurðum.

Einnig er gott að vita að kalk nýtist mun betur úr sýrðum mjólkurafurðum heldur en úr nýmjólk. Glútenofnæmi og glútenóþol er einnig þekkt. Glúten er í hveiti, rúgi, byggi, höfrum og spelti. Þessar korntegundir eru í brauði,kexi og mjög mörgum tilbúnum réttum. Þeir sem þola ekkert glúten verða að nota aðrar korntegundir í staðinn, en glútenlaust korn er hrísgrjón, maís og hirsi, en einnig bókhveiti, amarant og quinoa sem eru ekki raunverulegar korntegundir en notast eins og korn. Quinoa og amarant eru tiltölulega nýjar tegundir á markaðnum. Þær innihalda mikið prótein (16%), línolsýrinihald er 50% og fjölómettaðar fitusýrur eru 70%.

Þær innihalda einnig hátt hlutfall steinefna eins og kalk, magnesíum og járn og mikið af E-vítamíni. Þetta eru allt mjög næringarríkar korntegundir og þó það sé kúnst að baka úr þeim þá er það hægt og þær eru fínar með mat og í  grauta. Quinoa korn er einnig mjög gott að nota eins og cous-cous. Það eru kannski ekki allir sem vita að bæði cous-cous og bulgur er unnið úr hveitikorni og mjög oft úr hvítu afhýddu hveiti. Það er því alls ekki gott fyrir þá sem eru með glútenóþol eða þá sem þola ekki hveiti. Til eru þeir sem þola heilhveiti en alls ekki hvítt hveiti, en þá er ekki um glútenóþol að ræða. Einnig eru margir sem þola ekki rúg en þola heilhveiti og einnig öfugt. Mjög margir hafa tímabundið óþol fyrir glúteni, vegna sveppasýkingar.

Sumir þola ekkert hveiti, en geta notað hreinræktað spelt í staðinn en glútenuppbyggingin í því er öðruvísi en í hveiti. Upp hefur komið sá misskilningur hjá sumum að spelt sé glútenlaust en svo er alls ekki. Ef það er hreinræktað þá eru mjög margir sem þola það vel þó þeir þoli ekkert annað glúten. Þeir sem ekki þola kakó geta notað carob sem er unnið úr jóhannesarbaunum. Það inniheldur ekki koffein eins og kakó og er því betra fyrir börn. Það er fáanlegt í dufti og er það mjög gott í allan bakstur í staðinn fyrir kakó. Einnig er hægt að nota það í heita drykki. Við ættum að gefa börnunum okkar carob í staðinn fyrir kakó því kakó inniheldur koffein.

Carob inniheldur bæði járn og B-vítamín, en einnig ýmis önnur næringarefni. Það eru ótrúlega margar matvörur sem geta valdið ofnæmi og mikilvægt að láta mæla það til þess að betro árangur geti náðst. En fæðan sem við borðum er ekki hrein, náttúruleg fæða án allra aukaefna. Í matvælaframleiðslu í dag eru notuð mörg hundruð hjálparefni og mörg eru tilbúin gerviefni sem eru líkamanum mjög framandi. Og sum geta valdið ofnæmi og óþoli. Þessi efni eru notuð til að fá meiri uppskeru, fallegri og söluvænni matvöru sem er bragðmikil og geymist lengi. Í ræktuninni er notaður tilbúinn áburður, sveppaeyðandi lyf, vaxtarhormón og eiturefni. Á ferskvöru gasefni og geislun. Þegar matvara er unnin eru notuð rotvarnarefni, þráavarnarefni, litarefni, brennisteinssambönd og bragðaukandi efni, svo eitthvað sé nefnt.

Ég ætla að nefna örfá af þessum efnum sem geta valdið ofnæmi. Nokkuð þekkt er orðið MSG eða monosodium glutamat, en það er bragðaukandi efni unnið í síauknum mæli úr erfðabreyttum afurðum. Það er mjög mikið í súpum og kryddblöndum. Í stórum skömmtum getur það orsakað örari hjartslátt, höfuðverk og doðatilfinningu sem getur breiðst út frá hnakka út í bak og hendur (kína-syndrom). Brennisteinssambönd eru notuð í ýmis matvæli eins og þurrkaða ávexti, þurrkaðan lauk, bjór og vín. Þau geta verið sérstaklega hættuleg fyrir astmasjúklinga. Ein brennisteins-meðhöndluð apríkósa getur t.d. orsakað astma-kast. Ekki er nauðsynlegt að taka fram brennistein í innihaldslýsingu sé magnið undir 50 milligr. per kg eða líter.

Vandamál geta hins vegar orsakast af 5 milligr. Gervisætuefnið aspartam sem nú sést í fleiri og fleir matvörum eins og t.d. mjólkurvörum er slæmt fyrir marga. Það er líkamanum mjög framandi og hann á erfitt með að losa sig við það. Þegar það var fyrst sett á markað var bannað að setja það í mat ætlaðan börnum innan 3 ára. Í sambandi við ofnæmi og óþol hef ég sérstakar áhyggjur af erfðabreyttum matvælum. Það er einn alvarlegasti þátturinn í þróun matvælaframleiðslu í dag. Bara það að blanda saman algerlega óskyldum tegundum eins og hægt er að gera og hefur verið gert, hlýtur að flækja málin verulega. Því eftirlit er allt of lítið.

Sem dæmi um það sem gert hefur verið er að gen var tekið úr brasilíuhnetu sem er algengur ofnæmisvaldur og var það sett í sojabaunir til að gera þær próteinríkari. Áður en þessar sojabaunir voru settar á markað var einhver sem vildi athuga hvort nokkur hætta væri á því að þær gætu valdið ofnæmi eins og brasilíuhnetur. Það reyndist vera og það tókst að stöðva það að þessar sojabaunir færu á markað. En hvað vitum við um þær vörur sem eru erfðabreyttar og eru á markaði. Það er ekki einu sinni skylda að taka fram að þær séu erfðabreyttar hvað þá hvernig það var gert. Ég tel þetta vera alvarlegasta málið sem við stöndum frammi fyrir varðandi matinn sem við borðum og allt annað bliknar í samanburði.

Ég vona svo sannarlega að umræðan um þessi mál eigi eftir að aukast og íslendingar eigi eftir að hafna því að leyft verði að rækta áfram erfðabreytt bygg á Íslandi, en því miður er verið að gera það í dag til að nota efni úr því í lyfjaframleiðslu. Rétt er að vekja athygli á því að um 80% af soja og maís sem ræktað er í Bandaríkjunum er erfðabreytt og nokkuð víst að eitthvað af því sé á íslenskum markaði. Ég hef aðallega minnst á nokkur af þeim gerviaukaefnum sem notuð eru í matvörur. En það skiptir líka máli hvað kemur á húðina og í bæði þvottaefnum og snyrtivörum geta verið ýmis aukefni sem fólk þolir ekki. Í dag vitum við hvað einn plástur á húðina getur gert og þá getum við rétt ímyndað okkur hvað krem sem við berum á allan líkamann getur gert.

Algengustu efnin í snyrtivörum sem fólk þolir ekki eru rotvarnarefni og ilmefni, en einnig ýmis önnur efni. Í þvottaefnum eru einnig ýmis efni sem eru slæm bæði fyrir náttúruna og heilsuna. Hægt er að fá bæði snyrtivörur og hreinlætisvörur sem eru unnar úr lífrænum hráefnum og innihalda ekki skaðleg efni. Þegar talað er um hreinleika matvæla er ekki hægt annað en minnast á lífræna ræktun. Í lífrænni ræktun eru ekki notuð kemisk hjálparefni og eiturefni. Í unninni matvöru eru ekki rotvarnarefni, gervi-litarefni, ekki MSG, ekki brennisteinssambönd sem notuö eru annars á flesta venjulega ræktaða þurrkaða ávexti. Lífrænt ræktaðar vörur eru að mínu mati hreinustu matvörur sem völ er á . Úrval af lífrænt ræktuðum vörum í dag er líka mjög mikið sem sýnir að öll þessi gerviefni eru meira og minna óþörf.

En það krefst vissulega meiri vinnu og tíma að framleiða lífrænar vörur. Fyrir neytandann er mikilvægt að varan sé vottuð lífræn frá viðurkenndum vottunaraðilum. Þegar um ofnæmi og óþol er að ræða þá skiptir einnig máli er að byggja upp sterkt ónæmiskerfi og forðast það sem veikir það. Þetta er að sjálfsögðu mjög mikilvægt á fyrsta skeiði ævinnar þegar við erum að byggja upp líkamann. Á meðgöngunni er mikilvægt fyrir móðurina að borða rétt, einnig á meðan barnið er á brjósti. Það þarf nú varla að taka það fram að brjóstamjólkin er besta næringin fyrir barnið fyrstu mánuðina. En það er mjög mikilvægt að móðirin borði rétt. Barnið getur fengið ofnæmi fyrir því sem móðirin borðar.

Eitt af því sem veikir ónæmiskerfið er ofnotkun sýklalyfja. Það eykur mjög líkur á að við fáum sveppasýkingar, sem getur verið erfitt og tímafrekt að losna við. Sýklalyf á í rauninni aðeins að nota þegar um alvarlegar sýkingar er að ræða sem líkaminn ræður ekki sjálfur við. Ef um vægar sýkingar er að ræða er sýklalyfjum ofaukið því þau drepa allar barkteríur, bæði góðar og slæmar og setja þarmaflóruna í ójafnvægi. Það eru líka til margar góðar jurtir og jurtalyf sem geta hjálpað okkur að vinna á sýkingum. Mig langar í lokin að segja frá samanburðarrannsókn sem gerð var í Svíþjóð fyrir 2 árum á skólabörnum í Waldorf skólum annars vegar og öðrum skólum hins vegar, varðandi ofnæmi og óþol. Niðurstöður þessarar rannsóknar vöktu það mikla athygli að um þær var fjallað í helstu fjölmiðlum landsins.

En þar kom fram að óþol og ofnæmi væri töluvert minna hjá börnum í Waldorf skólum. Hvað er þá öðruvísi hjá börnum í Waldorf skólum. Þau borða flest lífrænt ræktað heilkornafæði og grænmetisfæði, lífrænar mjólkurvörur að hluta til ógerilsneyddar, mjólkursýrt grænmeti, fá mjög sjaldan sýklalyf og hafa verið minna bólusett en önnur börn. Í þessari rannsókn var ekki hægt að aðgreina hvað af þessum þáttum hefði afgerandi meiri áhrif en annað á niðurstöðurnar. Það getur verið erfitt og flókið að sýna fram á eða sanna að það skipti máli fyrir þann sem er með ofnæmi eða óþol að borða lífrænt, en það hefur verið sannað með samanburðar-rannsóknum í Bandaríkjunum að fólki sem á við húðvandamál að stríða líður miklu betur ef það notar lífrænt ræktaða bómull næst húðinni. Það kemur kannski ekki á óvart því hvergi í heiminum er eins mikið af sterkum eiturefnum notað við ræktun eins og í bómullarræk.

Höfundur: Hildur Guðmundsdóttir 2005Flokkar:Greinar og viðtöl

%d bloggers like this: