Gigt

Í maí tölublaði 2002 Townsend Letter for Doctors & patients er að finna mjög áhugaverða grein um liðagigt ritaða af Anthony di Fabio, MA og Gus Prosch. Jr., MD. Grein þessi er í raun inngangur bókarinnar ,,Arthritis: Osteoarthritis and Rheumatoid Disease Including Rheumatoid Arthritis“. Fyrir þá sem vilja kynna sér þessi mál betur er bók þessi fáanleg hjá The Arthritis Trust of America, 7376 Walker Road, Fairview, Tennessee 37062, USA. Greinin í heild sinni er of löng til birtingar í Heilsuhringnum en birtist hér endursögð í styttri útgáfu með innskotum frá undirritaðri. Báðir greinarhöfundar hafa reynt árangur eftirtalinna meðferða á sjálfum sér og verið lausir við liðagigt í fimmtán ár. Annar höfundanna hefur og meðhöndlað þúsundir gigtarsjúklinga með góðum árangri.

Leitin að betri líðan
Ef við grípum niður í miðjum formálanum þá kasta greinarhöfundar fram þeirri fullyrðingu að slitgigt sé ekki óhjákvæmilegur fylgikvilli öldrunar hana sé hægt að meðhöndla og lækna. Ennfremur að hægt hafi verið að lækna liðagigt í mörg ár. Reynsla höfunda er, að til að ná árangri í liðagigtarmeðferð sé yfirleitt nauðsynlegt að hún samanstandi af eftirtöldum þáttum:

  • (1) Réttu mataræði
  • (2) Afeitrun
  • (3) Styrkingu ónæmiskerfisins,
  • (4) Eyðingu óæskilegra snýkjudýra úr líkamanum
  • (5) Meðhöndlun á fæðuofnæmi og
  • (6) Meðhöndlun á candida-sveppasýkingu.

Það sem greinarhöfundar hafa komist að er:

(a) Að heilsufar okkar, sem ekki er hægt að rekja til arfgengs meðfædds galla, ræðst af því hvað við borðum, drekkum, öndum að okkur, hvernig okkur gengur að útskilja eiturefni úr líkama okkar, hvernig líferni okkar er, viðbrögðum við streitu og hversu mikil streita er í lífi okkar. (

b) Að það séu sennilega fleiri leiðir þekktar til að viðhalda og endurheimta heilsuna en þær leiðir sem stuðla að og viðhalda slæmri heilsu. Það lítur því út fyrir að við mennirnir göngum mjög hart fram til að geta verið jafn heilsuveil og raun ber vitni. Eftirtalin atriði eru eins og lög sem hægt er að fletta af einu og einu, líkt og flett sé utan af lauk. Með því að fjarlægja sem flest þeirra næst fram betri heilsa hjá nánast öllum.

1. Streita: Streita er stærsti orsakavaldur vanheilsu. Hún er þó algerlega óumflýjanleg og birtist ýmist í líkamlegu eða andlegu formi. Líkamleg streita getur verið hiti og kuldi, mengandi efni, dagsbirta eða myrkur, þyngdarafl jarðar, örverur, loftslagsbreytingar og breytingar á rakastigi, slys, íþróttir ofl. Andleg streita getur t.d. verið misgjörðir gegn okkur sjálfum eða öðrum, skyldur, agi, nám, vinna sérstaklega ef viðkomandi er óánægður í vinnunni, hjónaband eða sambúð, sambúðarslit og skilnaðir og að sjálfsögðu ástvinamissir, svo eitthvað sé nefnt. Sumt fólk getur höndlað óhemju mikla streitu á meðan aðrir þola minna. Við getum tekið þann kost að minnka streitu í lífi okkar og það er val okkar sem ákveður hverskonar streitu við upplifum. Streitan hefur mörg og mismunandi birtingarform og er svo stór orsakavaldur í vanheilsu almennt að hægt væri að skrifa heila bók einungis um það. Liðagigt og aðrir skildir gigtarsjúkdómar batna hjá sumu fólki við það einfaldlega að forðast aðstæður og fólk sem valda því streitu.

2. Næring: Því nær mataræði forfeðranna sem okkur tekst að komast því heilbrigðari helst líkami okkar að undanskildum bakteríum og öðrum sníkjudýrum sem óhjákvæmilega slæddust með vegna lélegri geymsluaðferða og skorts á hreinlæti hér áður fyrr. Þetta þýðir með öðrum orðum að við þrífumst best á lífrænt ræktuðum afurðum, lausum við skordýraeitur, illgresiseitur og önnur aðskotaefni. Þessar afurðir eru fullar af ensímum, vítamínum, steinefnum og nauðsynlegum fitusýrum. En þar sem það verður alltaf erfiðara og erfiðara í okkar tæknivædda umhverfi að fullnægja næringarþörf líkamans með þeim afurðum sem okkur standa til boða, þurfum við að bæta upp það sem á vantar með tilbúnum bætiefnum. Maturinn okkar inniheldur ekki

lengur nauðsynleg efni í réttum hlutföllum eða magni og því þurfum við viðbót mismikla þó eftir hverjum einstaklingi. Auk þess að leggja áherslu á fæðuval og næringaruppbót leggja höfundar áherslu á að liðagigt og skyldir sjúkdómar séu ekki liðamóta-sjúkdómar heldur sjúkdómar alls líkamans. Það eru margir liðagigtarsjúklingar og aðrir með svipuð einkenni, sem uppskera bata einfaldlega með því að bæta mataræði sitt. Höfundar áætla að um 30% gigtarsjúklinga geti náð bata með þessari aðgerð eingöngu. Veldu að komast hjá óhóflegri streitu og bættu mataræði þitt og þú gætir uppskorið bata.

3. Candida-sveppasýking og fæðuofnæmi.
Gersveppurinn Candida albicans lifir við eðlilegar kringumstæður í jafnvægi við aðrar örverur í innyflum fólks. Við ákv. kringumstæður s.s við sýklalyfjanotkun, hormónanotkun (stera- og p-pillu) og aðra efnamengun (t.d. kvikasilfur) sem og óhóflega streitu og slæmt mataræði, fjölgar þessum svepp óeðlilega mikið og hann breytir um lífsform. Hann festir sig á slímhúð þarmavegginn og skýtur þar rótum sem ná alla leið inn í blóðæðar. Þaðan á sveppurinn greiða leið inn í blóðstrauminn auk þess sem hann skilur eftir örlítil göt á þarmaveggnum sem verða ,,lekir“ á eftir. Þetta þýðir að örsmáar ómeltar fæðuagnir sogast út í gegnum þessi göt og inn í blóðið. Ónæmiskerfi líkamans bregst við þessum ögnum eins og hverjum öðrum aðskotahlut og myndar mótefnasambönd (antigen/antibody complex) sem eru lífefnafræðileg byrjun á fæðuofnæmi.

Einkennin eru oft lík því að flensa sé að herja á líkamann, höfuðverkur, ógleði, liðverkir, þyngsli og slen. Candida sveppurinn framleiðir ýmist acetaldehyd, alkóhól eða hvoru tveggja. Acetaldehyde, sem verður til við niðurbrot alkóhóls, er ábyrgt fyrir timburmönnum sem menn finna fyrir daginn eftir áfengisneyslu. Þessi stöðuga framleiðsla á acetaldehyd sem sveppurinn  stendur fyrir í innyflum fólks hefur áhrif á hverja einustu frumu og líffæri líkamans og veldur gríðarlegu viðvarandi eiturefnaálagi á frumur, líffæri og líffærakerfi.

Með tímanum geta komið fram einkenni sem líkjast svo til hvaða hrörnunarsjúkdómi sem er þ.m.t.liðagigt. Rétt eins og Candida albicans getur framkallað ógrynni mismunandi sjúkdómseinkenna í líkama fólks, allt eftir því hvaða vefur verður fyrir mestum áhrifum, þá getur fæðuofnæmi gert slíkt hið sama. Og rétt eins og candida sýking getur líkt eftir einkennum  gigtar, þá getur fæðuofnæmi gert það líka. Meðferðaraðilum sem hefur tekist að aðstoða skjólstæðinga sína við að minnka streitu, bæta mataræði og næringarefnagjöf þeirra og sigrast á sveppasýkingu og fæðuóþoli, hafa læknað stóran hluta þess fólks sem til þeirra leita þjáð af liðagigt.

4. Afeitrun á kvikasilfri, skordýra og illgresiseitri, afeitrun og sótthreinsun á upprunastað sýkingar. Það er mikilvægt að uppræta „miðstöðvar“ hinna ýmsu sýkinga, en það tekst þó ekki fullkomlega fyrr en uppsafnað skordýra- og illgresiseitur hefur verið fjarlægt. Þau efni hverfa þó ekki úr líkamanum að fullu fyrr en kvikasilfur hefur verið fjarlægt. Kvikasilfur er afar eitraður málmur en hefur þó fram til þessa dags verið notaður í blöndu við aðra málma til að fylla í holur í tönnum. Þrátt fyrir að auðvelt sé að sýna fram á að kvikasilfrið losnar úr tönnunum með tímanum hefur gengið erfiðlega að fá tannlækna til að viðurkenna þá heilsufarslegu hættu sem sjúklingum þeirra stafar af því að hafa það í munninum. Kvikasilfursgufur sem losna úr fyllingunum í munninum bindast lífrænum efnum og mynda lífrænt kvikasilfursefnasamband, sem safnast upp í líkamanum. Með tímanum safnast fyrir umtalsvert magn þess konar kvikasilfurs í líkamanum frá tannfyllingum og af öðrum uppruna t.d. úr fiski, skordýraeitri og illgresiseitri. Það eru aðallega tvenns konar áhrif frá kvikasilfri sem vert er að athuga í samhengi við gigt:

Í fyrsta lagi safnast lífrænt kvikasilfur upp í taugakerfinu og truflar taugaboð. Áhrifin eru margs konar og geta m.a. líkst liðagigt. Í öðru lagi myndar lífrænt kvikasilfur smá ,,poka“ eða ,,umslög“ víða um líkamann þar sem framandi örverur koma sér fyrir. Þessar örverur eru yfirleitt stökkbreytt form lífvera sem lifa þar loftfirrtu lífi. þ.e. þurfa ekki súrefni til að komast af. Árásarfrumur líkamans ná ekki að komast inn í „pokana“ til að eyða þessum örverum þar sem þær eru verndaðar af kvikasilfri. Þetta verður til þess að örverurnar halda áfram að þrífast og gefa frá sér eiturefni sem dreyfast út í hina ýmsu vefi, líffæri og líffærakerfi líkamans. Hin mörgu sjúkdómseinkenni sem orsakast af þessu hafa verið skilgreind sem einn af hinum svokölluðu „sjálfsofnæmissjúkdómum“, en auk þess framkalla eiturefnin liðagigtar-lík einkenni. Rótarfyllingar og holur eftir tannúrdrátt uppsprettasýkinga:

Tannúrdráttur og rótarfyllingar eru mikilvægar uppsprettur þrálátra sýkinga sem orsaka hrörnunarsjúkdóma, þ.m.t. hina ýmsu gigtarsjúkdóma. Streptococcus feci eða einhver hinna mörg hundruð veira, bakteria eða mycoplasma (ákv. teg. örsmárra baktería) finna sér leið inní holurnar sem myndast við aðgerðirnar. Þær lifðu áður í súrefni í munninum en stökkbreytast eftir að þær eru komnar niður í holurnar og taka að lifa loftfirrtu lífi. Líkt og bakteríurnar sem áður hefur verið minnst á sem lifa slíku lífi gefa þær frá sér eiturefni sem fara útí blóðið og valda sjúkdómseinkennum. Gómurinn lítur út fyrir að vera eðlilega gróinn og einungis 10% þeirra sem hafa slíka sýkingu finna fyrir særindum eða viðkvæmni eða grunar að nokkuð sé að. Jafnvel þó áratugir séu liðnir frá því aðgerð var framkvæmd á tönninni getur sýkingin verið virk.

Höfundar mæla með að tannlæknir sem hefur kynnt sér líffræðilegar lausnir (biological dentist) sé látinn um að lagfæra slíkar sýkingar, þar sem sérstök tækni og þjálfun sé nauðsynleg. Á meðan ónæmiskerfið er ungt og starfar eðlilega ræður það við eiturefnin sem þessar bakteríur gefa frá sér, sem og við aðra óboðna gesti. Þegar við eldumst bera þessi eiturefni ónæmiskerfi okkar smám saman ofurliði og í kjölfarið fara hinir ýmsu hrörnunarsjúkdómar að láta á sér kræla. Liðagigt og liðagigtarlík einkenni eru meðal þessara sjúkdóma.

Aðrar algengar uppsprettur krónískra sýkinga sem vert er að hafa í huga og geta valdið gigtarlíkum einkennum, eru skurðstaðir eftir nef- og hálskirtlatöku hafi sótthreinsun verið ábótavant. Skordýra- og illgresiseitur berast í líkama okkar úr matvælum og úr umhverfi. Í dag eru um 70.000 mismunandi eiturefni á markaðnum, sem fæst hafa þó verið prófuð nægjanlega til að vitað sé með vissu um afleiðingar eituráhrifa þeirra. Yfirleitt safnast þessi efni upp í fituvef líkamans og ekki næst að losa líkamann við snýkjudýr fyrr en þessi efni hafa verið fjarlægð. Það eru margar leiðir til að losa líkamann við uppsöfnuð eiturefni, þ.á.m. 31/2 -4ra vikna kúr með gufuböðum við 60°-82°C, ásamt inntöku á vítamínum, steinefnum og fitusýrum; ozonmeðferð, böð með sérstökum hreinsandi efnum, þurrburstun á húðinni ofl., ákveðnar jurtir og jurtablöndur sem og hómópataefni.

Grundvallaratriði er þó að losna við uppsafnað kvikasilfur, það gerir losun skordýra- og illgresiseiturs mögulega, sem aftur leyfir úthreinsun snýkjudýra. Yfir 1000 teg. snýkjudýra geta þrifist í líkama fólks og það útheimtir ýmsar aðferðir og mismunandi kúra að losna við þau. Með því að losna við óhóflega streitu, fullnægja einstaklingsbundinni næringarþörf, með afeitrun á kvikasilfri, skordýra-og illgresiseitri, með því að meðhöndla candida-sveppasýkingu og fæðuofnæmi, með því að drepa óæskileg snýkjudýr með lyfjum, jurtum og öðrum aðferðum og með því að hreinsa úr þörmum og ristli uppsafnaðan úrgang sem er gróðararstía snýkjudýra, örvera og orma, næst að bæta heilsu hjá yfirgnæfandi meirihluta fólks.

5. Nauðsynlegar einstaklingsbundnar meðferðir.
Í sumum tilfellum getur læknir eða annar þjálfaður meðferðaraðili þurft að viðhafa sérstaka meðferð meðfram því sem að framan er talið. Þetta á t.d. við í tilfellum þar sem sykursýki orsakast af fæðuofnæmi svo dæmi sé tekið. Sé fólk í vafa um hvort því sé óhætt að prófa sig áfram með skref 1-4 skyldi það ráðfæra sig við lækni. Höfundar fullyrða að liður 4 sé svo mikilvægur fyrir heilsu fólks að sé honum rétt framfylgt sé nánast fullvissa fyrir því að hver einasti liðagigtarsjúklingur muni uppskera betri líðan. Það þýðir þó ekki að skemmdir sem þegar hafa orðið á liðum eða öðrum líffærakerfum gangi til baka og sérstök meðferð kann að vera nauðsynleg til að fást við slík vandamál.

Niðurstaða höfunda er að ekki bara þeir sem þjást af liðagigt eða öðrum gigtarsjúkdómum, heldur og stór hluti allra þeirra sem þjást af svokölluðum hrörnunarsjúkdómum muni öðlast stórbætta heilsu fari þeir eftir þessum leiðbeiningum. Nú, þá vitum við það! Það sem hangir á spítunni er þó í stuttu máli sú staðreynd að erfitt getur verið að koma ofantöldum leiðbeiningum í framkvæmd, því þrátt fyrir að til séu meðferðaraðilar sem hafa þekkingu á ákv. hlutum meðferðarinnar þá eru fáir eða engir sem hafa nægjanlega þekkingu og reynslu til að fást við þá alla. Undirrituð veit t.d. ekki til að hérlendis starfi neinn tannlæknir sem hefur kynnt sér líffræðilegar lausnir í tannlækningum, þannig að þeir sem þurfa á slíkri meðferð að halda gætu þurft að leita til útlanda eftir henni.

Á slóðinni http://www.biologicaldentistry. org/er að finna lista yfir slíka tannlækna. Hérlendis eru hins vegar starfandi læknar, grasalæknar, hómópatar, næringarþerapistar/ráðgjafar og náttúrulæknar og sjálfsagt fleiri sem geta aðstoðað á öðrum sviðum. Almenningur á yfirleitt greiða leið að gufuböðum á sundstöðum víðs vegar um land og nokkrir osonklefar og aqua detox tæki eru komin í gagnið víðs vegar um landið. Hvernig sem á málin er litið er það þó þess virði að byrja að prófa sig áfram, taka fyrstu skrefin sem maður getur hjálparlaust og byrja að afla sér frekari fræðslu um efnið. Við erum öll einstaklingar með mismunandi eiginleika og þarfir og batinn getur komið eftir fyrsta skref hjá sumum á meðan aðrir þurfa að fara alla leið til að ná þeim árangri sem þeir óska.

Þeir sem vilja fá frekari upplýsingar um þær meðferðir sem hér var fjallað um geta snúið sér til: The Arthritis Trust of America 7376 Walker Road Fairview, Tennessee 37062 USA http://www.arthritistrust.org eða lesið bókina „Arthritis: Osteoarthritis and Rheumatoid Disease Including Rheumatoid Arthritis“ sem fjallar ýtarlega um ofantalið efni. Heimildir: ,,Arthritis“ by Anthony di Fabio, MA and Gus Prosch, Jr.,MD Townsend letter for doctors & patients may 2002.

Höfundur: Sigríður Ævarsdóttir er hómópati airlyn Anne Dittaog hefur síma: 893 1793.



Flokkar:Greinar og viðtöl