Erfðabreytt matvæli og heilsufarsáhætta

Erfðabreytt matvæli eru afurðir nýrrar og róttækrar tækni sem gerir vísindamönnum kleyft að breyta nytjaplöntum með því að breyta samsetningu erfðaefnis þeirra. Vísindamenn nota erfðatækni til að flytja erfðavísa, eða gen, úr framandi tegundum, t.d. matjurtum, bakteríum, vírusum, fiski, skordýrum, búfé eða jafnvel mönnum, og koma þeim fyrir í venjulegum nytjaplöntum í þeim tilgangi að ná fram í þeim eftirsóknarverðum eiginleikum. Ef vísindamenn vilja t.d. búa til frostþolinn tómat gætu þeir ákveðið að koma fyrir í tómatplöntunni geni úr heimskautafiski til þess að hún framleiði prótein sem gerir hana frostþolna.

Erfðatækni er gjörólík kynbótum
Með erfðatækni er unnt að búa til plöntur sem aldrei gætu myndast í náttúrunni, þar sem plöntur æxlast einungis innan tegunda eða milli náskyldra tegunda. Fram undir þetta hafa nytjaplöntur jafnan verið þróaðar með kynbótum sem byggja á náttúrulegri æxlun. Erfðatækni er hvorki útvíkkun né framhald á kynbótum, því hún endurhannar plöntur með íhlutun í sjálft erfðamengið. Við gætum búist við því að jafn ný og hugsanlega áhættusöm tækni sem þessi yrði ítarlega prófuð áður en afurðum hennar yrði sleppt á markað. Sú hefur hinsvegar ekki orðið raunin.

Evrópubúar á móti erfðabreyttum matvælum
Það voru bandarísk stórfyrirtæki sem innleiddu erfðatækni í því skyni að þróa og selja erfðabreytt matvæli eins fljótt og kostur væri. Bandarísk stjórnvöld studdu líftækniiðnað sinn með því að heimila að slík matvæli væru flokkuð sem „jafngild“ hefðbundnum matvælum og teldust þar af leiðandi ekkert nýtt. Með því var afskrifuð þörf á ítarlegum og tímafrekum prófunum, sem venjulega er krafist þegar um nýja tækni er að ræða. Óprófuðum og ómerktum erfðabreyttum matvælum var sleppt á markað. Það varð til þess að Evrópubúar höfnuðu þeim þar sem ekki hafði verið tekið tillit til öryggis- og heilsufarssjónarmiða.

Áhætta fyrir umhverfi og heilsufar
Mikil umræða hefur þróast á alþjóðlegum vettvangi um erfðabreytt matvæli þar sem vísindamenn er starfa á vegum líftæknifyrirtækja hafa marg ítrekað sett fram fullyrðingar um öryggi erfðabreyttra matvæla, þrátt fyrir að óháðir vísindamenn hafi varað við mikilli áhættu sem þeim fylgi. Þegar reynslan af 10-12 ára ræktun erfðabreyttra afurða er skoðuð nánar kemur í ljós að áhyggjur hinna síðarnefndu hafa reynst á rökum reistar. Áhætta sem þeir vöruðu við og líftæknifyrirtækin afgreiddu sem „hræðsluáróður“ er nú orðin að veruleika.:• Því var vísað á bug að erfðabreyttar plöntur gætu skaðað umhverfið. Það hefur hinsvegar gerst. Eftir þriggja ára ræktun tók illgresi að þróa ónæmi gegn illgresiseitri sem úðað var á erfðabreyttar plöntur og leiddi það til þess að bændur töldu sig knúna til að nota meira og sterkara eitur.

• Því var einnig neitað að erfðabreyttar plöntur gætu dreift sér út í umhverfið eða æxlast við villtar plöntur. Hvort tveggja hefur þó gerst. Erfðabreyttar afurðir hafa víxlfrjóvgast við illgresi og myndað „ofurillgresi“, og erfðabreyttar plöntur hafa dreifst út í umhverfið þrátt fyrir fyrirheit um að „fjarlægðarmörk“ og „varnarbelti“ myndu eyða hættunni á fræ- og frjókornadreifingu. • Vísindalegum upplýsingum um að erfðatækni sé ónákvæm og afleiðingar hennar ófyrirsjáanlegar hefur verið staðfastlega hafnað af líftækniiðnaðinum. Óháðir vísindamenn hafa sýnt fram á að ómögulegt sé að fullyrða um öryggi erfðabreyttra matvæla vegna þess hve þekking á hegðun gena sé af skornum skammti og hve litla stjórn vísindamenn hafa á því sem gerist við genaflutning.

Því hefur jafnan verið neitað að erfðabreytt matvæli kunni að vera hættuleg heilsu manna. Því til stuðnings er því haldið fram að það sé vísindalega útilokað að erfðabreytt efni í matvælum komist í þarmabakteríur. Breska Newcastle rannsóknin og nú nýverið rannsóknir Dr. Charles Arntzen í Bandaríkjunum hafa þó sýnt að líkt „genaflakk“ getur átt sér stað. Erfðabreytt prótein eyðast ekki öll í þörmum og þau geta komist inn í þarmabakteríur. Ekki má heldur gleyma því að nokkrar tilraunir sem gerðar hafa verið með fóðrun dýra á erfðabreyttum plöntuafurðum benda til skaðlegra áhrifa á heilsufar og líffærabyggingu.

Rökstuddur grunur um neikvæð heilsufarsáhrif
Þar sem erfðabreytt matvæli innihalda gen sem aldrei væru til staðar í venjulegum matvælum og gen þessi geta komist úr fæðunni yfir í þarmabakteríur, þá er brýn þörf á langtíma rannsóknum til að skera úr um hvort neysla erfðabreyttra matvæla hafi neikvæð áhrif á heilsufar. Slíkar rannsóknir gætu e.t.v. varpað ljósi á hvað valdið hefur eftirfarandi þróun:

1. Í kjölfar þess að erfðabreytt matvæli voru sett á markað í Bandaríkjunum greindi Bandaríska sjúkdómsvarnamiðstöðin (USCDC) frá því að fjöldi fæðutengdra sjúkdómstilvika hafi tvöfaldast.
2. Ofnæmistilvikum tengdum neyslu sojaafurða (einkum í breskum börnum) fjölgaði um 50% skömmu eftir að Monsanto hóf innflutning á erfðabreyttu soja til Bretlands.
3. Hópur rússneskra vísindamanna greindi frá því á fréttamannafundi í desember 2003 að fjöldi fólks þar í landi með ofnæmiseinkenni hefði þrefaldast á innan við þremur árum, og að aukin neysla á erfðabreyttum matvælum kynni að vera orsök þess.

Íslenskir neytendur varnarlausir?
Meðan ekki hafa farið fram ítarlegar rannsóknir á umhverfis- og heilsufarsáhrifum erfðabreyttra matvæla má því segja að neytendur séu á vissan hátt tilraunadýr, einkum þar sem slík matvæli eru ekki merkt. Evrópa hefur hafnað ræktun erfðabreyttra afurða og löggjöf ESB kveður á um skyldumerkingar á erfðabreyttum matvælum. Þegar þetta er ritað hafa íslensk stjórnvöld enn ekki verndað borgara sína með sambærilegri löggjöf um ræktun og merkingar erfðabreyttra afurða. Auk þess hafa þau heimilað umfangsmikla útiræktun á erfðabreyttum lyfjaplöntum, sem ýmsir vísindamenn telja jafnvel enn áhættusamari en ræktun erfðabreyttra matvæla. En um það verður ekki fjallað að þessu sinni.

Höfundur: Sandra B. Jónsdóttir er sjálfstætt starfandi og hefur ritað fjölda greina um matvæli og erfðatækni árið 2005.Flokkar:Greinar og viðtöl, Næring

%d bloggers like this: