Hátíðaruppskriftir

Nú er Gunna í nýju skónum nú eru að koma jól Siggi er í síðum buxum Solla í bláum kjól Það fólk sem veit að ég er grænmetisæta hefur hvað mestar áhyggjur af þegar jólin fara að nálgast, að ég svelti á jólunum. En það er nú síður en svo. Við, á mínu græna heimili hlökkum mikið til jólanna og sérstaklega að borða hina himnesku jólamáltíð og söknum einskis. Hér á eftir kemur sýnishorn af hefðbundnum jólamatseðli hjá mörgum grænmetisætum.

Margir eiga párað á blað einhverja uppskrift af hnetusteik en þessi uppskrift er afar ljúffeng og hef ég þróað hana áfram í gegnum árin. Svo er ég í restina með uppskrift af afar gómsætri súpu, en ég hef undanfarin ár boðið upp á góða grænmetissúpu í fjöldskyldumatarboðunum á annan í jólum og bakað ostamúffur með. Fellur þetta í góðan jarðveg – sérstaklega hjá kjötfólkinu því það er fegið að fá smá hvíld frá stórsteikunum. Gangi ykkur vel í eldhúsinu. Kær kveðja. Solla.

Hnetusteik
2 msk græn ólífuolía
2 laukar, smátt saxaðir
200 gr sæt kartafla, afhýdd og rifin
200 gr sellerírót, afhýdd og rifin
200 gr soðnar kartöflur
200 gr tófu – firm eða stíft –
200 gr soðin hýðishrísgrjón
200 gr fetaostur eða sojaostur eða bara
sleppa öllum osti….
2 msk tómatpúrré
ca 10 sólþurrkaðir tómatar, smátt saxaðir
1 msk timian
1 msk karrý
1/2 tsk cayennepipar
1 msk sjávarsalt
200 gr cashewhnetur,þurrristaðar og malaðar
200 gr heslihnetur, þurrristaðar og malaðar
200 gr möndlur, þurrristaðar og malaðar rasp:
ca 100 gr sesamfræ
ca 100 gr cashewhnetur, malaðar í matvinnsluvél

Laukur, sæt kartafla og sellerírót látin krauma í ca 20 mín á stórri pönnu eða í potti með kryddinu og tómatpúrré,- kælt,- vatninu hellt af tófúinu og síðan er tófústykkið léttkreist með eldhúspappír til að ná öllu vatninu úr því,- öllu hrært saman í hrærivél (gott að nota hnoðarann),- velt upp úr raspinu, mótað í „steik“ og bakað við 200°c í ca 4o mín.,- ummmmmm með sveppasósu, waldorfsalati og paprikusalati og aprikósuchutney og ostamúffum

Sveppasósa
100 g sveppir
1 dós kókosmjólk
2 tsk. karrí
smá sjávarsalt og nýmalaður svartur pipar
1-2 gerlausir grænmetisteningar, t.d. frá Rapunzel
1-2 msk. maísmjöl hrært út í 1/2-1 dl af vatni
Skerið sveppina í sneiðar og setjið í pott. Bætið kókosmjólk, kryddi og grænmetiskrafti útí og sjóðið í um 30 mín. við vægan hita. Þykkið með maísmjöli. Sósuna má einnig þykkja með maukuðum soðnum kartöflum.

Waldorfsalat
1/2 sellerírót, rifin á grófu rifjárni
1/2 sæt kartafla, afhýdd og rifin á grófu rifjárni
2 græn epli, í hæfilega stórum bitum
125 g vínber, skorin í tvennt og steinhreinsuð smá klettasalat
1 dl þurrristaðir pekanhnetur eða valhnetur
1 dl þurrristaðir heslihnetur
3 1/2 dl ab-mjólk eða sojajógúrt
1/2 tsk. karrí
1 msk. sinnep, t.d. frá DeRit
1 tsk. rifin piparrót (má
sleppa)
smá vorlaukur eða graslaukur
smá salt og nýmalaður
svartur pipar

Selleríið og sæta kartaflan eru afhýdd og rifin á grófu rifjárni og sett í skál,- eplin eru jarnhreinsuð og skorin í passlega bita (það þarf ekki að afhýða þau ef þau eru lífræn, bara þvo) og bætt útí skálina,- vínberin eru þvegin, steinhreinsuð og skorin í tvennt og útí skálina,- klettasalati og hnetum bætt útí,- ab-mjólkin er sett í kaffifilter og látið leka af henni í a.m.k. 1 klst til að gera hana þykkari, kryddað og hellt yfir salatið og blandað saman – tilbúið!

Paprikusalat
Þó svo að ykkur finnist smá vesen að grilla og afhýða paprikurnar er bragðið sko algjörlega vel þess virði, en fyrir ykkur sem alls ekki nennið því, er hægt að kaupa þær afhýddar í glerkrukku. Við það að grilla paprikuna verður hún skemmtilega sæt og ómótstæðileg. Þið getið notað basil eða kóríander eða annað grænt krydd í staðinn fyrir kerfil. Mér finnst lakkrískeimurinn sem er af kerflinum reyndar passa mjög vel við paprikurnar.

Ég þarf oftast að gera þessa uppskrift tvöfalda því hún er svo vinsæl. 2 rauðar paprikur – helst íslenskar og lífrænar 2 plómutómatar eða lífrænir íslenskir tómatar -skornir í báta, 1 avókadó – afhýtt og skorið í grófa bita, safi úr 1 lime, 1/4 búnt ferskur kerfill – t.d frá Engi eða annað grænt krydd sem ykkur líkar, smá sjávarsalt, smá grófmalaður svartur pipar, nokkrar sneiðar af ferskum parmesan eða smá sojaostur, – kveikið á grillinu í ofninum,- skerið paprikurnar í tvennt og steinhreinsið og setjið þær undir grillið og grillið þar til hýðið verður dökkt þá takið þið þær út og flettið hýðinu af og skerið þær í ca 2x2cm bita,- setjið grænmetið í skál,- hellið lime safnum yfir,- grófsaxið ferska kóríanderinn og stráið yfir,- bragðið til með salti og pipar.

Aprikósuchutney
1/2 kg þurrkaðar aprikósur, best að nota þessar brúnu og lífrænu
1/2 kg ferskir tómatar
1 tsk vanilluduft
1/2 tsk malaðar kardimommur
smá salt
smá cayennepipar

Setjið aprikósurnar í bleyti yfir nótt – látið vatnið rétt fljóta yfir þær,- afhýðið tómatana með því að setja þá örstutt ofaní sjóðandi vatn,- skerið tómatana í tvennt og hreinsið innan úr þeim,- setjið aprikósurnar og tómatana í blandara ásamt kryddinu og maukið,- maukið er látið í pott og suðan látin koma upp á þeim og bullsoðið í 2-3mín,- hrærið stöðugt í svo það brenni ekki við,- kælt,- geymist í nokkrar vikur í kæli í loftþéttu boxi -einnig er hægt að setja í box og frysta.

Ostamúffur
Þetta gera ca 10 stk múffur og þið getið notað venjulegan ost í staðinn fyrir sojaost. Leyndarmálið bak við þessar múffur er að þeyta eggin vel saman í hrærivélinni og velta varlega útí í lokin
125 gr spelt
75 gr maísmjöl
3 tsk lyftiduft -þetta úr heilsuhillunni-
1/2 tsk salt
150 gr nýrifinn parmesan eða sojaparmesan
2 egg
50 ml ólífuolía
250 ml ab-mjólk eða sojajógúrt

Hitið ofninn í 200°c,- blandið þurrefnunum saman í skál,- þeytið eggin vel saman þar til þau verða létt og freyðandi,- bætið olíu + ab-mjólk útí og blandið varlega saman og loks eggjunum og blandið extra varlega saman,- smyrjið muffinsform með smá olíu og setjið deigið í með ískúluskeið,- bakið við 200°c í ca 20 mín

Sojaís
1 1/2 dl cashewhnetur
2 1/2 dl sojamjólk
2 1/2 dl sojarjómi, þið getið líka notað venjulegan rjóma
15 döðlur, smátt saxaðar
2 bananar
smá vanilla ef vill

Fyrst eru cashewhneturnar settar í blandarann og malaðar,- síðan er döðlunum bætt útí og þær tættar niður,- þarnæst setjum við sojamjólkina og sojarjómann og blöndum þessu vel saman,- við endum á að setja bananana útí ásamt vanillunni ef við ákveðum að nota hana,- þetta er sett í form og fryst.

Ananas og gulrótarsúpa
2-3 msk ólífuolía
1 púrra – smátt skorin
1 msk karrýmauk
1 hvítlauksrif – pressað
1 cm fersk engiferrót – fínt söxuð
1 lárviðarlauf
4 gulrætur – smátt skornar
1/4 sellerírót – smátt skorin
1/2 ltr vatn + 2 gerlausir grænmetisteningar t.d.frá Rapunzel
1 dós -ca 400 gr- ananasbitar + safi
1 dós kókosmjólk
smá sjávarsalt og smá nýmalaður pipar
ferskur kóríander

Olían hituð í potti og púrran mýkt þar í,- karrý + hvítlaukur + engiferrót + lárviðarlauf sett útí og látið steikjast í 3-5 mín – gulrætur + sellerírót sett útí og látið malla með kryddinu í 2 mín,- grænmetisteningarnir eru leystir upp í vatninu og settir útí ásamt ananasinum og kókosmjólkinni og látið sjóða í ca 15 mín,- bragðað til með s+p,- þurrristið smá kókosflögur og klippið ferskan kóríander og stráið yfir súpuna og berið fram.

Höfundur: Sólveig Eyríksdóttir 2003



Flokkar:Uppskriftir

%d bloggers like this: