Slæm reynsla af tiggó og aspartam

Ég hef veitt því athygli að oft má kenna næringu um krankleika og vil segja frá dæmum þess. Áður fyrr kom fyrir að ég tuggði tyggigúmmí og valdi þá Extra af því að alltaf var verið að auglýsa að það væri svo gott fyrir tennurnar. Ég fór stundum upp í 8-10 plötur á dag, en svo leið stundum langur tími á milli. Einu sinni eftir 2-3 ja daga samfellda notkun, fór ég að finna fyrir ógleði, höfuðverk og svima, en ég hugsaði ekki mikið um það fyrstu dagana og þó, ég var óvön að vera með þessi einkenni. Ég fór að hugsa minn gang, þetta var ekki eðlilegt. Svo las ég utan á pakkann, og sá að eitt efnið sem tyggigúmmíið innihélt var aspartman, markaðssett undir nafninu Nutra sweet.

Þá mundi ég að nokkru áður hafði ég lesið um það í Heilsupóstinum eða álíka blaði og fann úrklippuna. Þar stóð það svart á hvítu að fyrrnefnd einkenni gætu komið af neyslu aspartam. Ég hætti að nota þetta tyggjó og einkennin hurfu. Seinna gerði ég aðra tilraun með Extra tyggjó og allt fór á sömu leið svo að ég steinhætti og hef ekki snert það síðan.

Fyrir 1-2 árum var sýndur þáttur um eiturefni í matvælum í RÚV, þar var sagt að efnið aspartman hafi verið rannsakað fyrir (mig minnir 20 árum) og þá komið í ljós að það var baneitrað, en fyrirtækjunum og vísindamönnunum sem unnu við rannsóknirnar var borgað til að hætta þeim og lögðust þær niður, en voru svo teknar upp aftur af þeim mönnum, sem komu fram í þessum þætti. Sjónvarpið hlýtur að eiga þennan þátt, sem var skuggalegur því að mikið er um eiturefni í alls konar matvælum.

Sams konar einkenni og af tyggjóinu hef ég fengið eftir neyslu á Sviss Miss kakódrykk, þið vitið kakóið sem er bara hræra út í vatn eða mjólk. Ef ég drekk 2 bolla með stuttu millibili fæ ég höfuðverk og hálfgerða ógleði. Eins er ef ég drekk sama magn af Krakkakakói, en ég hef aldrei fengið neitt þessu líkt ef ég drekk Nesquik. Ekki heldur af venjulegu kakói búnu til á gamlamátann.

Svo er annað efni, sem ég man því miður ekki lengur hvað heitir, en það er í magameðali (magamjólk), sem hægt er að kaupa út úr lyfjabúð án lyfseðils.

Ég tók það inn í nokkur ár og varð alltaf gleymnari og gleymnari og var svo komið að ég mundi ekki hvað ég ætlaði að ná í, þegar ég var búin að snúa mér við til að ná í það. Þegar svo var komið las ég loks innihaldslýsinguna og bar saman við grein í heilsublaði, sem ég átti. Þar var sagt að ef efnið væri tekið inn í nokkurn tíma, gæti það valdið minnisleysi og flýtt fyrir alsheimer. Ég steinhætti að nota það, fór til magasérfræðings og fékk lyf við bakflæði og minnið kom aftur smám saman, eins og það var áður en ég fór að taka magamjólkina inn á hverjum degi. Nafnið á efninu var mjög líkt og alumin, en mig minnir það hafi heitið albumin.

Kristín R. Magnúsdóttir 2003Flokkar:Reynslusögur

%d bloggers like this: