Úr einu í annað – Vor 2003

Hér fara á eftir 4 stuttar greinar fyrirsagnir þeirra eru eftirfarndi:

  •  Kóensím Q-10 hægir á einkennum Parkinsons-sjúkdóms, 
  • Q-10 er gagnlegt við mígren, 
  • B3 vítamín er gagnlegt við Alzheimers, 
  • Nikótín er stundum til gagns, 

Kóensím Q-10 hægir á einkennum Parkinsons-sjúkdóms
Parkinsons-sjúkdómur er langvarandi sjúkdómur í miðtaugakerfinu sem hrjáir einkum eldra fólk, þó að einnig komi fyrir að yngra fólk fái hann. Talið er að Parkinsons-sjúkdómur stafi af því að frumum í heilanum sem mynda boðefnið dópamín, annaðhvort fækki eða virkni þeirra dvíni. Þetta lýsir sér sem skjálfti eða titringur í útlimum, stirðleiki eða fólk verður eins og stíft í öllum hreyfingum, örðugleikar, við að halda jafnvægi og að skapa sér rétta tilfinningu fyrir umhverfinu og allar hreyfingar verða óeðlilega hægar. Oftast herjar þessi sjúkdómur á fólk sem komið er yfir fimmtugt, þó að yngra fólk fái hann stöku sinnum.

Enda þótt lyf eins og Levodopa geti dregið úr einkennum sjúkdómsins virðist þó engin læknismeðferð fram að þessu hafa getað hægt á eða snúið við raunverulegum orsökum sjúkdómsins. Þó gæti hugsast að langvarandi meðferð með kóensím NADH, sem sagt var frá í Hh. fyrir nokkrum árum geti seinkað eða hindrað að sjúkdómurinn haldi áfram að versna, en vegna þess að engar nýjar upplýsingar hafa borist um það síðustu árin verðum við að bíða enn um sinn eftir að fá úr því skorið.

Hér verður sagt frá könnun sem læknirinn Clifford Shults við Kaliforníu-háskóla í San Diego gerði á 80 Parkinsons-sjúklingum, víðsvegar um fylkið, til að ganga úr skugga um hvort kóensín Q-10 sé skaðlaust, og ef svo er, hvort það gæti hægt á sjúkdómsferlinu. Allir sjúklingarnir, sem tóku þátt í könnuninni, þjáðust af þremur grundvallareinkennum Parkinsons-sjúkdóms, þ.e. skjálfta, þeir voru stífir og hreyfingar þeirra voru óeðlilega hægar. Þeir höfðu verið greindir innan 5 ára tímabils þegar könnunin var gerð. Sjúklingunum var skipt í fjóra hópa með slembiúrtaki.

hóparnir fengu Q-10 í mismunandi stórum skömmtum, 300 mg, 600 mg og 1.200 mg á dag, auk þess að fá E-vítamín. Fjórði hópurinn fékk óvirkt lyf (placebo) og E-vítamín. Allir þáttakendurnir fóru í læknisskoðun eftir einn mánuð og eftir það fjórða hvern mánuð, samtals í 16 mánuði, eða þangað til álitið var að þeir þyrftu að fá Levodopa. Meðan á könnuninni stóð hafði sá hópur sem mest fékk af Q-10 hrörnað 40% minna en sá sem ekkert Q-10 fékk. Mestu áhrifin virtust vera á þætti sem tengdust daglegu lífi t.d. að matast og klæða sig. Niðurstaða könnunarinnar var, að „óhætt er að nota Q-10 upp í 1.200 mg á dag og að það skilar betri árangri en að nota minni skammta“, segir dr. Shults. Heimild: Arch. Neurol. 15. október 2002. Birt í Nutrition and Mental Health, vetur 2002. Æ.J.

Q-10 er gagnlegt við mígren
Fólk sem fær endurtekin mígrenköst er af sumum talið hafa lélega orkuvinnslu í mítokóndríum (hvatberum) frumanna. Orkuvinnslan í mítókondríum er að miklu leyti háð fjórum lykil-næringarefnum sem eru ribóflavin (B2) nikótínamíð (B3), magnesíum og kóensím Q-10. Sé skortur á einhverju þessara efna geta hvatberarnir ekki starfað eðlilega og myndað nægilega mikið af orkuríka efnasambandinu adenosinþrífosfat (ATP) sem nánast öll starfsemi frumanna byggir á. Í könnuninni sem hér er sagt frá, voru 31 einstaklingur, sem allir þjáðust af endurteknum migrenköstum, látnir taka inn kóensím Q-10, 150 mg á dag í þrjá mánuði. Fjöldi migren-kasta var talin áður en könnunin var gerð til samanburðar og aftur tvo síðustu mánuðina meðan könnunin stóð.

Meira en 50% fækkun á fjölda daga með migrenhöfuðverk varð hjá 61,3% þáttakenda meðan Q-10 var notað. Niðurstaðan úr þessari könnun var að meðaltalsfjöldi daga á mánuði þar sem migreneinkenna var vart fækkaði um 59,8% og meðaltalsfjöldi migrenkasta fækkaði um 42%. Svo virðist sem Q-10 sé ámóta gagnlegt, hvort sem köstunum fylgir „ára“ eða ekki, en ára er sjóntruflanir sem oft fylgja migrenköstum. Höfuðverkurinn virtist hvorki verri né betri meðan á könnuninni stóð. Engra hliðar- eða aukaverkana varð vart. Þessi könnun bendir til að fækka mætti migrenköstum með næringarefnum sem auka orkuvinnslu frumanna, en í þessu tilfelli var aðeins eitt af fjórum næringarefnum, sem örva orkuvinnsluna prófað. Verið gæti að jafnvel ennþá betri árangur næðist með að nota einnig hin þrjú. Heimild: Cephalagia, 2002:22, 137-141. Birtist í Nutrition and Mental Health, vetur 2002….Æ.J.

B3 vítamín er gagnlegt við Alzheimers-sjúkdómi
Hópur vísindamanna í Suður Dakota hafa komist að því að algengt vítamín veitir umtalsverða vörn gegn skaða sem Alzheimers-sjúkdómur veldur á heilafrumum. Fyrri rannsóknir hafa sýnt að Evítamín og musteristré(ginkgo biloba) lofa góðu við meðhöndlun á sjúkdómnum en nú hefur komið í ljós að afbrigði af B3-vítamíni, nikotínamíð er e.t.v. ekki síðra til að hindra skaða á heilafrumum sem sjúkdómurinn veldur heldur en áðurnefnd bætiefni. Við tilraun létu vísindamennirnir heilafrumur verða fyrir áhrifum af efnasambandi sem drepur frumur á líkan hátt og verður við Alzheimers-sjúkdóm. Ef þeir létu heilafrumurnar fyrst verða fyrir áhrifum af nikótínamíði, eyðilagði eitrið þær ekki nærri því eins fljótt, eins og annars hefði orðið, ef vítamínið hefði ekki fyrst verið notað. Aðrir rannsakendur halda einnig að þetta efni lofi góðu sem nýtt tæki til að verja heilafrumurnar gegn því að mynda eitraðar útfellingar, sem síðan leiðir til dauða frumanna. Þeir sem lesið hafa Heilsuhringinn í nokkur ár minnast þess e.t.v. að í vorblaðinu 1996 er grein eftir Æ.J. um að nota kóensím NADH gegn bæði Alzheimers- og Parkinsons-sjúkdómi. NADH er afbrigði B3 vítamíns og líkaminn býr það til úr nikótínamíði (B3-vítamíni), svo að e.t.v. er hér verið að tala um sama hlutinn. Heimild: Nutrition and Mental Health, vetur 2002 og vitnað í Health Scout News, 25. september 2002……. Æ.J.

Nikótín er stundum til gagns
Nikótín er svo nátengt tóbaksnotkun að fáir tengja það sennilega við hollustu eða heilbrigði. Vísindamenn vita það þó nú, að það eru önnur efni í tóbakinu en nikótín sem valda mestöllu því heilsutjóni sem reykingar valda og nikótínið sjálft gegnir mikilvægu hlutverki í heilastarfseminni. Það örvar efnasambönd sem gegna undirstöðuhlutverki í að flytja skilaboð milli tauga víðsvegar í heilanum. Rannsakendur sem notuðu hreint nikótín til lækninga, segja frá jákvæðum árangri af að nota nikótín til að meðhöndla Alzheimers- og Parkinsons-sjúkdóm ásamt Tourette-heilkennum. Tourette-heilkenni er heilasjúkdómur sem einkennist af of miklu dópamíni í heilanum. Sjúklingurinn hefur ýmiskonar ósjálfráðar vöðvahreyfingar, grettur í andliti, kippi í vöðvum og jafnvel ósjálfræði í talfærum. Venjulega er þetta meðhöndlað með lyfinu Haldol eða öðrum lyfjum með líka verkun, sem draga úr virkni boðefnisins Dópamín, en haldol virðist stundum ekki verka á alla. Séu notaðir litlir skammtar af nikótíni, eykur það verulega virkni lyfja með líkar verkanir og haldol og nota má nikótínplástra sem límdir eru á húðina og endast í langan tíma.

Við rannsókn á þessu kom fram að hjá mörgum sjúklinganna hættu þessir ósjálfráðu vöðvakippir, við að nota þessa aðferð og einnig dró úr ósjálfráðum orðum og hljóðum sem þeir gáfu frá sér. Fjöldi rannsókna hefur einnig verið gerður í sambandi við Parkinsons-sjúkdóm, Alzheimers-sjúkdóm, geðklofa og þunglyndi. Þær benda til að nikótín bæti árangur þeirra meðferðarúrræða sem nú þegar eru notuð. Dr. Paul Newhouse við Vermont-háskólann í Bandaríkjunum sýndi fram á að ef Parkinson-sjúklingar fá nikótín í nokkrar vikur batnar hreyfigeta þeirra umtalsvert. Nokkrum þeirra batnaði mjög mikið en öðrum lítilsháttar. Einnig sýndu Alzheimers-sjúklingar aukna vitsmunalega getu. Vitanlega er ennþá of snemmt að draga miklar ályktanir af þeim rannsóknum sem gerðar hafa verið í sambandi við hvort nikótín geti raunverulega bætt varanlega, vitsmunalegt ástand Alzheimersjúklinga með sjúkdóminn á háu stigi. Framtíðarreynsla og rannsóknir skera úr um það. Þetta á einnig við um Parkinsons-sjúkdóm og Touretta-heilkenni, en árangur af frumrannsóknunum er þó athyglisverður. Heimild: Greg Schilhal, Nutrition and Mental Health, vetur 2002

Höfundur: Ævar Jóhannesson vor 2003Flokkar:Úr einu í annað

%d bloggers like this: