Góðar matarmiklar súpur

Súpur
Á haustin, þegar loftið er farið að kólna og himnesk haustlyktin fyllir vitin, finnst mér ekkert jafnast á við góða matarmikla súpu. Það góða við súpur er að þær eru ennþá betri daginn eftir og er því um að gera að útbúa stóran skammt svo þið sleppið við að elda næsta dag og þurfið eingöngu að hita upp súpuna. Hér á eftir koma allskonar súpu uppskriftir, bæði gamla góða misósúpan og orkusúpa sem er hin fullkomna máltíð. Ég hvet ykkur til að sleppa ykkur í súpugerðinni.
Gangi ykkur vel. Sólveig

Grunnsoð
1 kg grænmeti, gulrætur, rófur, kartöflur, hvítkál, sellerírót, sætar kartöflur; laukur, hvítlaukur, paprika; ferskar.
Kryddjurtir – þið getið notað grænmetisafskurð og það sem til er í ísskápnum.
Setjið grænmetið í pott og látið vatn fljóta yfir. Saltað ef vill. Suðan látin koma upp og soðið
við vægan hita í ca 1/2 klst. – kælið og sigtið soðið.

Himnesk haustsúpa
400 gr kartöflur
300 gr brokkolí
200 gr sellerírót
100 gr skalott-laukur
1/2 – 1 avókadó – ef vill
1 l vatn
2 grænmetisteningar
1 tsk þurrkað timian
1 tsk salt
smá cayenne pipar
ca. 10 möndlur
1 dl kókosflögur
vorlaukur eða púrra
1 lítið búnt ferskt timian eða smá þurrkað

Kartöflu, brokkolí, sellerírót, skalottlaukur, vatn, grænmetisteningar, timian, salt og cayenne skorið í grófa bita.Allt sett í pott og soðið í ca 15 mín. Á meðan eru kókosflögurnar og möndlurnar þurrristaðar á pönnu þar til þær eru gylltar, einnig eru púrran eða vorlaukurinn léttmýkt í smá ólífuolíu á pönnu og þessu öllu blandað saman í skál. Súpan er sett í blandara ásamt avókadóinu og maukuð, sett í skálar og toppað með kókos-púrrublöndunni

Linsubaunasúpa
2-3 msk ólífuolía
1 púrra, smátt skorin
2 tsk karrý
1 lárviðarlauf
4 gulrætur, smátt skornar
2 kartöflur, smátt skornar
200 gr rauðar linsur
2 grænmetisteningar
vatn og kókosmjólk
salt og cayenne pipar
ferskur kóríander
Olían hituð í potti og púrran mýkt þar í. •Karrý og lárviðarlauf sett útí og blandað saman við púrruna,• grænmetið er skorið í bita og sett útí ásamt linsunum• grænmetisteningurinn er leystur upp í vatninu og því hellt útí ásamt kókosmjólkinni. Látið sjóða í ca 45 mín eða þar til baunirnar eru soðnar • bragðað til með salt og cayenne og að lokum klippum við kóríander yfir

Orkusúpa
2 dl kornsafi eða vatn
Smá söl eða annar þari
1 dl spírur, s.s alfalfa eða mung eða baunaspírur
1 dl grænt grænmeti, s.s sólblómaspírur, brokkolí, lambhagasalat (eða annað eiturefnalaust kál). Einnig má nota ýmislegt grænmeti, s.s. gulrætur, sætar kartöflur, blómkál fennikel, sellerí eða það sem þið eigið í ísskápnum. Ávextir s.s 1 epli eða 1 ein pera og 1 banani og hindber eða vatnsmelóna 1 avocadó • allt er sett í blandara nema avókadóið, og blandað vel í ca 2 mín.• avókadóinu bætt útí og blandað í ca 10 – 20 sek. • Tilbúið. • Í þessa súpu á að nota hugmyndaflugið, þetta er aðeins grunnuppskrift. Rétt samsetningin er: kornsafi, þari, spírur, grænt, ávöxtur, prótein. Þá fær líkaminn alla þá næringu sem hann þarf.

Gulrótarsúpa
3 gulrætur
1 bolli gulrótarsafi
1 avókadó
1 tsk cumin
sett í mixara og njótið og njótið.

Matarmikil chili súpa
3-4 msk græn ólífuolía
1 meðalstór laukur
1 púrra
2-3 hvítlauksrif
1 stór ferskur rauður chili eða 1/2 tsk þurrkaður
2 tsk cuminduft
2 tsk paprikuduft
1 dl tómatpúrré
2 grænmetisteningar
1 sæt kartafla
2-3 gulrætur
1 sellerístilkur
1 rauð paprika
ca 10 kartöflur
1 dós niðursoðnir tómatar, aukaefnalausir
2-3 dósir kókosmjólk
1 dl appelsínusafi
ferskt kóríander

Laukur og púrra er skorið frekar smátt og látið mýkjast í olíu í ca 15 mín ásamt fínt söxuðum hvítlauknum í potti/pönnu,- restin af grænmetinu er skorið í frekar litla bita og sett út í laukinn, tómatarnir eru maukaðir og settir útí. Ef notað er ferskt chili er það skorið í litla bita og sett útí; ath ef þið viljið hafa réttinn sterkan eru steinarnir notaðir í réttinn en við mildari útgáfu er piparinn steinhreinsaður – restinni af uppskriftinni er bætt útí og látið malla í ca 30-40 mín. Ef það vantar vökva í súpuna má bæta við kókosmjólk – ferskt kóríander er klippt yfir súpuna áður en borið er fram

Blómkálssúpa
2 msk ólífuolía
2 laukar, í sneiðum
1 blómkálshaus, í bitum
100 gr möndlur
2 sellerístilkar, í þunnum sneiðum
1 tsk múskat
1 tsk salt
cayenne pipar á hnífsoddi
ca 1 ltr vatn

Olían hituð í potti og laukurinn mýktur þar í. Blómkál, möndlur, sellerí sett útí og látið krauma í 3-5 mín. Grunnsoði eða vatni bætt útí, suðan látin koma upp og látið sjóða við vægan hita í 30 mín. Súpan sett í matvinnsluvél og maukuð – síðan hituð upp og smökkuð til með salti eða grænmetiskrafti

Misosúpa
1 msk olía -t.d. ristuð sesamolía-
2 laukar fínt saxaðir
2 gulrætur, skornar í sneiðar
1/4 hvítkálshaus, skorið í fína strimla
1 dl wakame þari, útvatnaður í 10 mín og skorinn í bita
8 dl vatn
4 tsk miso, uppleyst í heitri súpunni
1-2 fínt saxaðir vorlaukar eða steinselja

Olían hituð í pottinum og laukurinn mýktur þar í . Vatni og wakame bætt útí og soðið í 15 mín, slökkt á hitanum, misóið leyst upp í smá súpu og bætt útí. Ath að misóið má ekki sjóða , vorlaukurinn klipptur yfir

Kóríandersúpa
2 laukar í sneiðum
1.2 l grunnsoð eða vatn + 2 gerlausir grænmetisteningar
200 gr kartöflur, skornar í bita
2.5cm fersk engiferrót, rifin
1 tsk malað kóríander
1 tsk cumniduft
8 msk ferskt kóríander, saxað
1/4 ferskur chili pipar, saxaður
1 b frosnar grænar baunir
2 msk sítrónusafi
ferskur kóríander til að klippa yfir

Allt sett í pott, suðan látin koma upp og súpan soðin í 20 mín. síðan allt maukað í matvinnsluvél, ferskur kóríander klipptur yfir áður en borið er fram.

Höfundur: Sólveig Eyríksdóttir 2002Flokkar:Uppskriftir

%d bloggers like this: