Fyrsta desember síðastliðinn sótti ég fyrirlestur hjá Imre Slomogyi og konu hans Margréti, þar sem þau kynntu bók sína Tærnar- spegill persónuleikans, sem kom út á síðasta ári hjá bókaútgáfunni Skjaldborg. Það eru 15 ár síðan Margrét og Imre veittu því athygli að staða og lögun tánna gaf vitneskju um persónueiginleika, hegðun, og tilfinningar fólks. Þau skoðuðu hundruðir fóta og tóku urmul viðtala til að kanna hvort ákveðin einkenni tánna gæfu til kynna sams konar persónuleika og komust að því að tilfinningar og andlegt ástand fólks kom fram í sömu einkennum á tánum. Það létti þeim leitina að fólk var ákaflega forvitið um þetta áhugamál þeirra og hafði gaman af því að leyfa þeim að spá í tærnar á sér. Til dæmis var það algengt að þegar kunningjar þeirra buðu í veislur þá var táspálesturinn notaður sem skemmtiatriði. Í tveggja tíma fyrirlestri gaf Imre góða innsýn í þessi fræði og útskýrði vel. Hann byrjaði á því að lýsa því hvernig má finna endurspeglun heildarinnar í hinum ýmsu hlutum líkamans.
Hann benti á nálastungur í eyru, garnameðferð, svæðameðferð, andlitsgreiningu, pólunarmeðferð o.fl. Svo talaði hann um frumefnin fimm og hvernig hver tá endurspeglar ákveðna tilfinningu eða orku. Lögun og staða tánna sýnir hvernig eigandinn höndlar þessa orku eða hvernig ástand orkustöðvanna er. Imre fullyrti að staðfastar persónur sé með fallegar tær og viljasterkt fólk gangi í skóm sem fari vel með fæturna. Hann hefur komist að þeirri niðurstöðu að þeir sem leyfa fótum sínum að aflagast t.d. leyfa tánum að bogna séu þeir sem leyfa öðrum að setja sér reglur og viðmið, sem eru í andstöðu við þeirra eigin persónuleika. Því til áréttingar sýndi hann mynd af brúði í hvítum íburðamiklum brúðarkjól sem var í bláum strigaskóm. Þegar hann undraðist þetta og spurði hana hvers vegna hún væri í svona óvenjulegum brúðarskóm, svaraði hún. „Þetta er brúðkaupsdagurinn minn, því skyldi ég vera í óþægilegum skóm, þó að einhver Ítali segi að það sé í tísku“. Hann taldi það engan efa að kona með slíka viljafestu væri með beinar tærna. Imre sýndi myndir af fótum hvítvoðunga og lýsti því hvernig persónuleikinn komi fram í lögun tánna strax við fæðingu og nefndi sem dæmi kunningja sinn, mikinn bjartsýnismann sem hafi fæðst með tvær litlu tær á vinstri fæti.
Hann lagði áherslu á að foreldrar ættu að gæta þess vel að aldrei væri hindruð orka barnsfóta með of þröngum skóm og ekki ætti að láta þau ganga í íþróttaskóm. Barnsfóturinn sé svo mjúkur að hann aðlagaði sig þröngum skóm, það geti skaðað barnið varanlega. Af útliti og lögun stóru tánna má fá mikilvægar upplýsingar. Staða þeirra, lögun og hlutföll í samanburði við hinar tærnar geta sagt mjög mikið. Reyndar segir hver tá sína sögu um tilfinningar eigandans og það skrítna er að þær breyta um lögun, stöðu og útlit eftir andlegri líðan hans. Imre sagði alla geta lært að lesa í tær ef þeir fylgdu leiðbeiningum bókarinnar, en áður en byrjað væri að spá í tær annarra ætti að skoða eigin tær nákvæmlega fyrst.
Láréttar gárur í nöglum benda til bylgjulíkra hreyfinga á tilfinningasviðinu. Hnúður á stóru tá gefur til kynna óhóflega hlédrægni og hjálpsemi.
Flokkar:Greinar og viðtöl