Mig langar til að deila með ykkur sætum og góðum og hollum freistingum sem eru bæði auðveldar og þægilegar í vinnslu. Mig langar til að hvetja ykkur til að prófa ykkur áfram við að baka án sykurs, hrásykurs, púðursykurs, hunangs, sýróps ýmiskonar og gervisætu. Einhvers staðar las ég að ef hvítur sykur kæmi á markaðinn í dag yrði hann lyfsseðilsskyldur. Hvað sem til er í því er ég ekki í nokkrum vafa um að neysla á afurðum unnum úr hvítum sykri og hvítum afurðum hafi meiri og önnur áhrif (verri) á börn og unglinga en við gerum okkur grein fyrir. Ég trúi því samt sem áður að almennt sé meðvitund okkar um gott mataræði að aukast. Við gerum meiri kröfur um að hráefnið sé gott, þ.e. eiturefnalaust og lífrænt ræktað og þá á ég ekki bara við gulrætur heldur líka döðlur, hnetur, krydd, ferska ávexti o.fl.
Mér finnst líka að foreldrar séu farnir að átta sig betur á tengingunni milli mataræðis og heilsu barnanna sinna og svei mér þá ef það er ekki bara að komast í tísku að gefa börnunum sínum „heilsunammi“. Alla vega eru foreldrar byrjaðir í miklu stærri stíl að vanda valið þegar sykur og sætindi eru annars vegar og það þykir ekki lengur sjálfsagt að draga fram sælgætisskál í hvert skipti sem barn birtist í heimsókn hjá afa og ömmu eða frænda og frænku. Ég held líka að sælgætismútur foreldra séu á undanhaldi og er það vel. Því lengur sem barninu er haldið frá dísætu sælgæti og alls kyns skyndimat því betra. Í næsta blaði mun ég fjalla um heilbrigðar lífsvenjur sem forvörn fyrir börnin okkar. En nú fer að styttast til jóla svo mér fannst upplagt að deila með ykkur hollu og góðu og gómsætu sem upplagt er að njóta við hin ýmsu tækifæri þar sem við gerum okkur dagamun.
Dásamleg döðlukaka
500 gr döðlur
2 msk ólífuolía
100 gr valhnetur, malaðar
100 gr möndlur, malaðar
1 tsk lyftiduft, úr Yggdrasil
1 banani, stappaður
1 tsk vanilludropar
1 tsk kanilduft
salt af hnífsoddi
11/2 dl spelt
Döðlurnar eru látnar vera í bleyti í vatni í ca 1 klst. (láta vatnið rétt fljóta yfir þær) Síðan eru þær skornar í litla bita og settar í matvinnsluvél ásamt olíunni. Restinni af uppskriftinni er bætt útí og öllu hrært létt saman. Sett í smurt bökuform og bakað við ca 180°C í ca 20-25 mín.
Hafra – kökur
100 gr haframjöl
100 gr malað haframjöl (þá er það sett í blandarann á matvinnsluvélinni)
50 gr carobduft
50 gr döðlur
100 ml vatn
100 gr bananar, afhýddir
200 gr tófu, stíft (firm)
50 gr hrísgrjónamjólk eða sojamjólk
Döðlurnar eru soðnar smá stund í vatni, ca 5-10 mín eða þar til þær hafa drukkið vatnið í sig. Setjið þær í matvinnsluvél ásamt banana og tofu og maukið. Setjið þurrefnin í skál og blandið döðlubananatófu blöndunni útí. Hnoðið saman í deig til að rúlla út og bætið smá hrísgrjóna/sojamjólk útí ef það er of þurrt. Rúllið út í ca 1 cm þykkt deig og skerið út kökur með glasabarminum (passleg stærð). Þetta gefur ykkur ca 15 kökur. Bakið við ca 170°C í 30-40 mín., eða þar til þær eru orðnar gylltar og stökkar.
Kaka úr sætum kartöflum
250 gr sætar kartöflur
75 gr spelt eða heilhveiti
50 gr sojamjöl
50 gr malaðar möndlur
1 tsk matarsódi
2 tsk cream of tartar
1 tsk kanill
75 gr döðlur, smátt saxaðar
50 gr sveskjur, steinlausar og smátt saxaðar
100 ml vatn
6 msk appelsínusafi, ferskur
1 msk af rifnu appelsínuhýði
1 egg
150 ml sojajógúrt eða ab-mjólk
Afhýðið sætu kartöflurnar og rífið á rifjárni. Blandið saman mjöli, möluðum möndlum, matarsóda, cream of tartar og kanil. Bætið rifnum sætum kartöflum útí. Sjóðið döðlurnar og sveskjurnar í vatninu þar til þær hafa dregið allt vatnið í sig, maukið þær og bætið útí deigið ásamt appelsínusafa og hýði. Þeytið eggið og bætið útí ásamt sojajógúrti/ab-mjólk. Setjið í smurt bökuform og bakið við 190°C í ca 30-40 mín eða þar til stinn og tilbúin.
Bananakaka
75 gr döðlur
100 ml vatn
225 gr bananar, afhýddir og maukaðir
1 egg
75 gr heilhveiti eða spelt
25 gr sojamjöl
50 gr malaðar möndlur
1 tsk matarsódi
1 tsk vanilludropar
150 ml sojajógúrt eða ab-mjólk
Sjóðið döðlurnar í vatninu þar til þær hafa dregið í sig allt vatnið, maukið. Kælið. Blandið saman döðlumaukinu og stöppuðum banönum og þeyttu eggi. Hrærið þurrefnunum saman í skál og blandið síðan útí ásamt vanilludropunum og sojajógúrtinu/ ab-mjólkinni. Setjið í smurt bökuform og bakið við 190°C í ca 35-45 mín eða þar til kakan er brún og losnar frá forminu í hliðunum.
Karob nammi namm
75 gr möndluflögur
75 gr rúsínur, fínt saxaðar
ca 25 gr carobduft
50 ml vatn
1/2 tsk vanilludropar
Setjið carobdufitð í pott ásamt vatninu og vanillunni. Látið carobduftið leysast upp. blandið útí rúsínunum og möndluflögunum, hrærið í með trésleif og reynið að mylja möndluflögurnar svolítið meira. Þegar rúsínurnar og möndlurnar eru velblandaðar saman ásamt carobsósunni þá takið þið teskeið og setjið ca 1 tsk af maukinu í einu á bökunarpappír (þetta gera ca 18 carob nammi namm) og látið þetta kólna inni í ísskáp í ca 1 klst áður en borið fram.
Vanillu-og carob muffins
1 stappaður banani
3 msk olía
1 egg, má sleppa og nota 2 msk sojamjöl í staðin
2/3 b ab-mjólk eða sojajógúrt eða sojamjólk
1 b smátt saxaðar döðlur
1 tsk vanilludropar
1/2 b spelt eða heilhveiti
1/2 b malaðar hnetur
1/2 b carobduft
3 tsk lyftiduft – úr Yggdrasil
1/2 b kókosmjöl
1/2 b rúsínur
Hitið ofninn í 180°C. Hrærið saman banana, olíu og eggi þangað til kremað. Hrærið úti sojamjólkinni, döðlubitunum og vanilludropunum. Hrærið restinni af uppskriftinni útí. Þetta dugar í ca 12-15 muffinsform. Bakið við 180°C í 25-30 mín.
Banana bakstur
3 b vel þroskaðir bananar, skornir í sneiðar
1/2 b ananassafi, sykurlaus
1/2 b malaðar pecanhnetur
4 döðlur, mjög fínt saxaðar
1/2 tsk múskat
1/2 tsk kardimommur
1/2 b pecanhnetur til að skreyta með
Setjið bananasneiðarnar í bleyti í ananassafann í
ca 30 mín.
Sigtið vökvann frá og setjið bananasneiðarnar í skál með möluðum pecanhnetum, fínt söxuðum döðlum og kryddi. Setjið í smurt hringlaga bökuform (lausbotna er góður kostur). Bakið við 180°C í ca 15 mín. Þegar 5 mín eru eftir af bökunartímanum er pecanhnetunum dreift yfir kökuna og hún bökuð áfram. Kælið og njótið!
Smáar gulrótar- og kókoshnetukökur
1 b gulrætur, fínt rifnar
1 b kókosmjöl
1/2 bolli smátt saxaðar döðlur
1/2 bolli örvarrót (arrowroot), fæst í heilsubúðum
1/2 tsk möndludropar
Setjið allt í matvinnsluvél og maukið vel. Setjið hverja köku fyrir sig með skeið á smurða bökunarplötu (gott að hafa bökunarpappír undir). Bakið við 175°c í ca 20-30 mín eða þar til gylltar.
Banana- og hnetusmákökur
1 b valhnetur
1 b pecanhnetur
1 b kókosmjöl
3-5 bananar, í sneiðum
1/2 b fínt saxaðar döðlur
smá kanill
Setjið hnetur og kókosmjöl í matvinnsluvél og malið fínt. Setjið í skál og bætið restinni af uppskriftinni útí. Kryddið með kanil eftir smekk. Blandið þessu vel saman og notið matskeið við að forma smákökurnar og setjið á smurða bökunarplötu. Bakið við 180°c í 15 mín.
Carobsmákökur
21/2 b spelt (eða heilhveiti)
2 tsk lyftiduft úr YGGDRASIL
1/2 tsk matarsódi
1/2 b góð canola olía
11/2 b mjög fínt saxaðar döðlur
ca 1/2 b appelsínusafi, bestur nýkreistur
11/2 b carob „súkkulaði“ (fæst í heilsubúðum), saxað í bita
Sjóðið döðlurnar í smá appelsínusafa í ca 5 mín, eða þar til döðlurnar hafa drukkið allan safann í sig. Setjið í skál: mjöl + lyftiduft + sóda. Blandið restinni af uppskriftinni útí og setjið með teskeið á smurða bökunarplötu (pappír). Bakið við ca 180°c í 10-12mín eða þar til létt gylltar. Kælið kökurnar á bökunarplötunni áður en þið setjið í box.
Konfekt
11/2 dl brazil hnetur, malaðar
11/2 dl brotnar pecanhnetur
2 dl döðlur, sem búnar eru að liggja í bleyti í sjóðandi vatni í ca 10 mín
1 dl fíkjur, í litlum bitum
1 msk appelsínubörkur, rifinn
Allt sett í matvinnsluvél, mótaðar litlar kúlur sem eru frystar.
Hnetusmjörskúlur
1 b hnetusmjör
1/2 b maukaðar döðlur
1/2 b carobduft
1/2 b kókosmjöl, þurrristað á pönnu
nokkrir möndludropar, ath. bara 2-3, (treystið mér)
1/2 b kókosmjöl til að velta upp úr
Allt sett í skál og blandað vel saman. Mótaðar litlar kúlur og þeim velt upp úr kókosmjölinu. Geymist í loftþéttu boxi í kælinum, en best þó í frysti.
Döðlu og pecan gott gott gott
2 b pecanhnetur
1 b steinlausar döðlur
1 tsk rifið sítrónuhýði
1 msk rifið appelsínuhýði
smá vanilludropar ef vill eða annað krydd
1 b kókosmjöl
Malið pecanhneturnar í matvinnsluvélinni. „Klippið“ eða saxið döðlurnar frekar smátt. Blandið síðan öllu nema kókosmjölinu saman í skál, það er bæði hægt að nota hrærivél og matvinnsluvél, en mér finnst best að nota hendurnar. Mótið síðan litlar kúlur úr massanum og veltið upp úr kókosmjöli. Ath! Í þessa uppskrift má bæði rista pecanhneturnar á þurri pönnu áður en þær eru malaðar og einnig er gott að þurrrista kókosmjölið á þurri pönnu þar til gyllt áður en kúlunum er velt upp úr því. Verði ykkur að góðu og gangi ykkur vel í eldhúsinu, kær kveðja Sólveig
Flokkar:Uppskriftir