Heilunarorka

Þegar minnst er á heilunarorku dettur flestum í hug orka sem streymir eftir andlegum orkubrautum til viðtakanda. Torkennileg dularfull orka sem ekki á sér fræðilega skýringar en margir hafa reynt.

Orka getur tekið á sig margvíslegar myndir. Heilunarorka getur það einnig. Þú, sem lest þetta, hefur eflaust upplifað það að fá óvænt hól, vingjarnlegt faðmlag eða bara bros frá einhverjum. Lítið orð, lítið bros eða bara örlítil jákvæð tjáning til þín getur leyst úr læðingi þvílíka orku að furðu sætir.

Segjum sem svo að yfirmaður þinn hæli þér fyrir vel unnið verk. Orðin frá honum fara frá eyrum inn í heila þar sem þau eru meðtekin. Frá heilanum fara tilfinningar niður að hjartarótum þar sem gleði og hitatilfinning springur út og seytlar um allan líkamann. Gleðin og vellíðanin sem svona sprenging framkallar getur varað allt frá nokkrum mínútum upp í marga daga. Síðan er hægt að endurframkalla þessa tilfinningu með því að rifja upp atburðinn í mörg ár á eftir. Lítil orð eins og ,,Þú ert langflottust/astur“ ,,Þetta var vel gert hjá þér“. ,,Þú hefur fallegt bros“ eru gulls ígildi.

Það er ekkert dularfullt við þessa orku. Hún er til staðar. Hún er fyrir okkur að nota hana. Það getur hver sem er miðlað þessari orku. Viðurkenning í orðum, jákvætt uppörvandi bros, klapp á öxlina eða lítið faðmlag getur leyst þessa orku úr læðingi og framkallað litla hamingjusprengingu í hjarta þess sem fyrir verður. Að miðla þessari orku kostar ekkert. Það þarf enginn að leggja út pening, fyrirhöfnin er lítil, allt sem þarf er að vera meðvitaður um þetta vopn sem við búum yfir og nota það hóflega og hnitmiðað. Uppörvandi bros sem við sendum frá okkur kemur margfalt til baka. Þessi orka er heilandi, bæði fyrir sendanda og móttakanda.

VGVFlokkar:Hugur og sál

%d bloggers like this: