Magnesíum, steinefnið gleymda

Síðan Heilsuhringurinn fór að koma út höfum við nokkrum sinnum sagt frá mikilvægi steinefnisins magnesíums, t.d. skrifaði Marteinn heitinn Skaftfells grein um magnesíum í eitt fyrsta blaðið Vegna þess að elstu blöðin af Heilsuhringnum eru flest uppseld fyrir löngu og að öðru hvoru eru að berast gagnlegar upplýsingar um þetta steinefni, ákvað greinarhöfundur að setjast niður og taka saman í greinarstúf nokkuð af þeim fróðleik magnesíum sem hann hefur orðið áskynja við lestur fjölda greina í mörgum tímaritum síðastliðna tvo áratugi eða svo. Ein höfuðástæða þess að greinin varð til er þó bréf frá lesenda til Townsend Letter for Doctors and Patients í októberhefti þess 1998. Höfundurinn, Bill Sardi frá Kaliforníu, (www.bilsardi.com) ræðir þar um magnesíum og hvernig lyfjafyrirtækin hafa stöðugt reynt að gera lítið úr mikilvægi þess og í stað þess rekið áróður fyrir að nota vafasöm lyf sem kosta mörgum sinnum hærri fjárupphæðir.

Magnesíumskortur er algengur
Fyrir meira en tveim áratugum var hér staddur heimsþekktur, en að vísu nokkuð umdeildur manneldisfræðingur, Harold Newbold að nafni. Hann flutti fyrirlestur hér í Háskólanum um næringarefni og næringarbúskap fólks í vestrænum samfélögum, sérstaklega í Bandaríkjunum. Ég man nú ekki ýkjamargt úr ræðu hans, en þó man ég að hann sagði í lokin eitthvað á þessa leið: „Væri ég spurður hvaða næringarefni helst vantaði í mataræði nútímafólks, mundi ég trúlega svara magnsesíum.“ Magnesíum er steinefni sem við þurfum að fá töluvert mikið af úr fæðu. Ráðlagður dagskammtur í Bandaríkjunum er 400 mg, sem trúlega er síst of há tala. Nýjar upplýsingar sýna að „meðal“-bandaríkjamaður fær aðeins 279 mg á dag. Þetta er miklu minna en æskilegt væri og hjá sumum hreinlega hættulega lítið.

Meira um það síðar. Þar sem neysluvatn er hart fáum við dálítið magnesíum úr drykkjarvatni. Þetta gæti skýrt hvers vegna hjartaáföll eru tvisvar sinnum tíðari þar sem mjúkt drykkjarvatn er notað en þar sem það er hart, eins og vitað hefur verið og viðurkennt í nokkur ár. Á Íslandi er víðast hvar mjúkt vatn svo að við þurfum að fá allt okkar magnesíum úr fæðunni. Fyrir nokkrum árum var birt niðurstaða úr stórri könnun í Bandaríkjunum, hvort gagnlegt væri að nota smáa skammta af aspiríni til að draga úr líkum á hjartaáföllum. Niðurstaðan benti til þess að töluvert gagn væri að þessu. Aðrar svipaðar kannanir gáfu hinsvegar aðrar niðurstöður. Nú hefur verið bent á að aspiríntöflurnar sem notaðar voru í könnuninni voru „bufferaðar“ með magnesíum, en þannig bufferað asperín er kallað „magnyl“ á Íslandi. Sumir telja því að það hafi verið magnesíum innihaldið í töflunum en ekki asperínið sem dró úr hjartaáföllunum.

Rétt hlutföll eru mikilvæg
Ef vel á að vera þarf hlutfallið á magnesíum og kalki í fæðunni að vera innan ákveðinna marka. Sé það langt frá þeim getur það valdið skorti á því efninu sem minna er af, jafnvel þó að nægilega mikið sé af því fyrir líkamann væri hlutfallið rétt. Þetta stafar sennilega af því að mjög mikið af öðru hvoru efninu hindrar upptöku hins í meltingarfærunum. Sennilega er best að hlutfallið sé nálægt 2 hlutum nýtist úr fitusprengdri mjólk. Sennilega er ekki ráðlegt að gefa fólki með beingisnun mikið af kalki einu sér. Heilbrigð bein eru nefnilega alls ekki gerð úr hreinu kalki, heldur einnig úr mörgum öðrum efnum, t.d. magnesíum, fosfór, mangani, bór o.fl. Sé skortur á einhverju þessara efna getur líkaminn ekki nýtt kalkið og það getur jafnvel truflað heilbrigða beinmyndun, eins og sumar kannanir gætu bent til.

Magnesíumskortur getur valdið hjartaáföllum
Of lítið magnesíum í blóði getur valdið ýmiskonar misalvarlegum sjúkdómseinkennum, t.d. hjartsláttartruflunum sem stundum geta orðið alvarlegar. Sýnt hefur verið fram á að í fólki sem dáið hefur skyndidauða vegna hjartastöðvunar finnst oftast nær miklu minna af magnesíum í hjartavöðvanum en í fólki sem dáið hefur af öðrum ástæðum. Stundum finnast litlar eða engar kransæðaþrengingar hjá því fólki og oftast er þá álitið að krampi í æðakerfi hjartans hafi valdið þessum skyndilega og að margra áliti, ótímabæra dauða. Freistandi væri að draga þá  ályktun af þessu að sumt þetta fólk hafi beinlínis dáið vegna skorts á magnesíum. Hjartsláttartruflanir vegna magnesíumskorts koma oft í tengslum við áreynslu eða við geðshræringu.

Smá blóðtappi í kransæð, sem annars ætti ekki að valda alvarlegum skaða, getur valdið skyndidauða ef sjúklingurinn þjáist af magnesíumskorti. Könnun sem gerð var (ISIS study) og túlkuð af lyfjaframleiðendum þannig að gagnslaust sé að nota magnesíum við hjartaáföll, var að mati Bill Sardi mistúlkuð vagna of lítils magnesíums sem notað var og að það var notað allt of seint, en mikilvægt er að nota það eins fljótt og verða má eftir áfallið. Að mati hans, og stutt veigamiklum rökum, mætti sennilega fækka dauðsföllum af hjartaáföllum um helming eða meira, ef allir sjúklingarnir fengju eins fljótt og verða má magnesíumsprautu beint í æð (The Lancet, 339:1553-58, 1992 og Journal Nutrition, 126:2365S-2372S, 1996). Einnig mælir hann með að nota ensímið „streptokínasa“ eftir hjartaáfall, ásamt þvagræsilyfjum.

Varið ykkur á Calcíumblokkerum
Bill Sardi er sérstaklega gagnrýninn á lyfjaflokk sem nefndur er „Calcíumblokkerar“ (calcium channel blockers), sem hann segir að lyfjafyrirtækin hafi framleitt til að nota í stað magnesíums m.a. til að stjórna blóðþrýstingi. Magnesíum er að mati Bill Sardi náttúrlegur calcíum blokker og ætti í flestum tilfellum að vera notaður í stað tilbúnu lyfjanna sem, auk þess að vera miklu dýrari, liggja undir grun um að valda ýmsum alvarlegum hliðarverkunum, t.d. krabbameini, innvortis blæðingum og fjölgun dauðsfalla almennt. Greinarhöfundur vill bæta hjartsláttartruflunum við þennan lista af eigin reynslu. Hjartsláttartruflanirnar hættu þegar hætt var að nota calcíumblokkerinn en farið var að nota magnesíum í staðinn.

Mörg lyf af þessum lyfjaflokki fást hér á landi t.d.: Cardizem, Norvasc, Adalat, Dilacor. Bill Sardi telur að hraðvirkir calcíumblokkarar séu verstir en þeir hægvirku skárri. Best telur hann þó að nota frekar magnesíum. Flest þessi lyf eru fyrst og fremst notuð við háum blóðþrýstingi. Fólki sem vildi reyna að nota frekar magnesíum en calsíumblokkerinn er bent á að byrja á að nota magnesíum, áður en það hættir að nota lyfið og minnka síðan smátt og smátt að nota calsíum blokkerinn og fylgjast með blóðþrýstingnum og hætta ekki að nota lyfið ef blóðþrýstingurinn hækkar teljandi við það. Snemma árs 1996 gaf Háskólinn í Washington út úrdrátt úr skýrslu frá Hjartaverndarfélagi Bandaríkjanna (American Heart Association) sem sýndi alvarleg vandamál í sambandi við calcíumblokkera.

Skömmu síðar gaf Bandaríska læknafélagið alla skýrsluna út. Fréttastofan AP skýrði svo frá því: „Sex milljónir Bandaríkjamanna eru nú að taka lyf til að lækka blóðþrýsting en í þess stað eykur það hættuna á að fá hjartaáfall um 60%“. Lyfjaframleiðendur mótmæltu þessu sem gömlum, misvísandi og röngum upplýsingum, en eigi að síður hélt gagnrýni á þessi lyf áfram og í tímaritinu Circulation var birt viðvörun frá Hjarta, lungna og blóðstofnuninni í Bandaríkjunum um að nota skyldi calsíumblokkera með varúð og í Circulation 92:1326-31, 1995 stóð: „Hjá kransæðasjúklingum sem þjást af hjartabilun, vega skaðleg áhrif hraðverkandi calcíumblokkera meira en upp á móti hugsanlegu gagni af að nota þá“. Ég ætla hér ekki að tína til fleiri tilvitnanir um calsíumblokkera. Þetta ætti að nægja til að sýna að full ástæða er til að nota frekar magnesíum, sem er að sögn Bill Sardi náttúrlegur calsíumblokker og ætti því alltaf að vera tekinn fram yfir tilbúin og um leið ónáttúrleg efnasambönd, sem því miður, margir læknar ávísa frekar, enda þótt þau séu miklu dýrari en magnesíum.

Ýmislegt annað
Magnesíum verkar róandi á taugakerfið og dregur þannig úr streitu. Þetta kemur t.d. fram í lækkuðum blóðþrýstingi, betri svefni og minni hættu á taugaspennu af litlu tilefni. Auk þess hefur verið skýrt frá að magnesíum verki vel gegn sjúkdómum eins og mígren og órólegum ristli eða ristilkrampa  Rétt samspil milli magnesíums og calcíums (kalks) er sennilega algerlega ómissandi til að taugakerfið starfi eðlilega og skortur á öðru hvoru eða báðum efnunum hlýtur að koma fram m.a. í starfsemi taugakerfisins. Sjálfsagt mætti telja upp eitt og annað fleira í sambandi við magnesíum, t.d. að magnesíum er náttúrlegt hægðalyf. Allt of mikið magnesíum getur valdið niðurgangi en mikið kalk í hlutfalli við magnesníum veldur aftur á móti harðlífi og sennilega er magnesíum mikilvægara fyrir heilbrigð bein en flest annað. Erfitt er að gefa upp hversu mikið af magnesíum rétt er að nota sem fæðubótarefni. Það fer m.a. eftir mataræði.

Mikið unninn matur er oftast snauður af magnesíum og fæða eins og hvítur sykur inniheldur alls ekkert magnesíum eða önnur steinefni. Hvítt hveiti, hvít hrísgrjón, flestir pastaréttir o.fl. þessháttar eru snauðari af magnesíum en grófmalað korn eða matur úr þannig hráefni t.d. heilhveitibrauð eða rúgbrauð. Annars má segja að magnesíum finnist í flestum náttúrlegum, lítið unnum mat, bæði úr jurta og dýraríkinu. Hrein fita, eðli sínu samkvæmt, inniheldur þó ekkert magnesíum eða önnur steinefni. Til að fá nægilegt magnesíum úr fæðunni er því best að nota sem mest lítið unninn mat, sem hægt er að bæta upp með því að taka til viðbótar magnesíum í töfluformi ef ástæða þykir til. Þeir sem hafa magasýrurnar í lagi geta notað ódýrar magnesíum-oxíð eða magnesíumkarbóna  töflur, sem einnig má nota til að draga úr of miklum magasýrum.

Líka má nota dólómít-töflur, sem innihalda bæði kalk og magnesíum. Fólk sem skortir magasýru getur ekki nýtt magnesíum úr áðurnefndum töflum. Það fólk getur notað amínósýrubundið magnesíum og e.t.v. magnesíum sem bundið er í lífrænni sýru t.d. magnesíum-lactat eða gluconat Þeir sem ætla að reyna að nota magnesíum sem calsíum blokker, til að lækka háan blóðþrýsting verða að prófa sig áfram með hversu stóran skammt þeir þurfa að nota og verða að eiga góðan blóðþrýstingsmæli og ekki breyta lyfjameðferð nema öruggt sé að blóðþrýstingurinn haldist innan eðlilegra marka. Heimild m.a: Bill Sardi, Townsend Letter for Doctors and Patients, október 199  Æ.J.

Magnesíumklóríð við sýkingum
Þegar ég hafði lokið við greinina um magnesíum rakst ég á athyglisverða grein í ljósriti úr Townsend Letter for Doctors and Patients frá árinu 1992. Höfundurinn, læknirinn Paul Vergini, segir þar frá eiginleika sem magnesíumklóríð hefur til að lækna eða bæta ýmiskonar sýkingar. Hann segir að ekki sé hægt að nota neitt annað magnesíumsalt og leggur á það mikla áherslu. Aðeins magnesíumklórið hefur þennan eiginleika, önnur magnesíumsölt ekki. Vergini segir að árið 1915 hafi franskur skurðlæknir, Pierre Delbet, verið að leita að heppilegu efni til að hreinsa sár. Efni sem þá voru notuð drápu vefina sem hreinsaðir voru og það olli stundum verri sýkingum en þeim sem verið var að forðast. Hann prófaði ýmis efni og fann þá að magnesíumklóríðlausn var ekki aðeins skaðlaus fyrir vefinn, heldur örvaði það einnig hvítar blóðfrumur og var þannig frábært til að þvo sár. Hann gerði fjölda tilrauna og uppgötvaði að efnið var ekki aðeins gott til að nota útvortis, heldur mátti einnig taka það inn eða gefa það sem sprautulyf.

Væri það notað þannig var það öflugur hvati á ónæmis- eða varnarkerfi líkamans. Sumt fólk talaði einnig um hressingaráhrif þess og notaði jafnvel eingöngu þess vegna. Dr. Delbet prófaði það við ýmsa sjúkdóma og fann /að það verkaði á ótalmargt t.d. ristilbólgu og skyld einkenni, Parkinsons-sjúkdóm og óstyrkleika og vöðvakrampa sem oft fylgir öldrun, exem, psoriasis, vörtur og fleiri húðsjúkdóma. Það styrkti húð og neglur og hafði góð áhrif á einkenni sem fylgja elli, t.d. getuleysi, blöðruhálskirtilsvandamál og einkenni frá blóðrásartruflunum í heila. Þá reyndist það vel við ofnæmiskenndum einkennum t.d. heymæði, astma og húðútbrotum. Hann gerði heilmiklar athuganir í sambandi við krabbamein og fann m.a. að magnesíumklóríð var mjög gott til að hindra krabbamein og gat oft snúið við forstigseinkennum.

Dýratilraunir bentu til að efnið hægði á vexti krabbameinsæxla. Dr. Delbet skrifaði tvær bækur um þetta efni, 1944 og 1945. Annar franskur læknir, dr. A. Neveu notaði magnesíumklóríð við sýkingum árið 1943 með frábærum árangri. Hann varð mjög spenntur og ætlaði að skrifa um þetta eftir að hann hafði meðhöndlað lömunarveikisjúklinga með sama árangri. Hann rak sig þá á vegg frá hinum „viðurkenndu vísindum“, sem sáu að þetta gæti skaðað nýjan og ört vaxandi “business”; fjöldabólusetningar. Niveu lét þetta þó ekki á sig fá og náði árangri við marga aðra kvilla, t.d. kíghósta, mislinga, rauða hunda, skarlatsótt og fleiri smitsjúkdóma. Sagan endar þó ekki þarna, því að á síðustu árum hafa nokkrir læknar í Bandaríkjunum staðfest það sem frönsku læknarnir héldu fram fyrir meira en hálfri öld. Þeir hafa bætt nokkrum sjúkdómum við þann lista sem frönsku læknarnir höfðu prófað magnesímklóríð við. Þar má nefna: ristil, gigtarsjúkdóma og síþreytu, auk þess að nota það sem viðbótarmeðferð við krabbameini.

Þetta er engan veginn tæmandi listi og vel má vera að fleira eigi eftir að koma í ljós, segir höfundur þessara upplýsinga, dr. Vergini. Hann mælir með því að nota 2,5% lausn af magnesíumklóríð hexahydrat (MgCl2 6H2O) sem er 25g í 1 lítra vatns. Hæfilegur skammtur er eftirfarandi: Fullorðnir og börn eldri en 5 ára 125ml 4 ára börn 100m 3 ára börn 80ml 1-2 ára börn 60ml Börn yfir 6 mánaða 30ml Börn undir 6 mánaða 15ml Þessa skammta á að taka inn. Gegn langvarandi sjúkdómum á að nota einn skammt að morgni og annan að kvöldi. Við bráða sjúkdóma á að nota einn skammt á 6 tíma fresti en á 3 tíma fresti tvo fyrstu skammtana, sé um alvarlegan sjúkdóm að ræða. Síðan má lengja tímann í 8 og 12 klst. í nokkra daga, eftir því sem sjúklingnum batnar. Sem fyrirbyggjandi meðferð og sem fæðubótarefni má nota einn skammt á dag.

Heimild: Townsend Letter for Doctors and Patients, nóvember 1992.

Höfundur: Ævar JóhannessonFlokkar:Greinar

%d