Ný lækning á psoriasis

Í janúarhefti „Townsend Letter for Doctorsand Patients“ 1997 er löng grein um „nýja aðferð til að lækna psoriasis“, sem þar er sögð komin frá Evrópu.Greinarhöfundur hefur ekki áður heyrt um þetta og vegna þess að mjög líklegt er að margir Íslendingar sem þjást af psoriasis gætu haft gagn af að kynna sér efni þessarar greinar,verður ágrip af henni birt hér. Vitanlega getur greinahöfundur ekkert fullyrt um hvort það sem hér kemur fyrir almenningssjónir sé rétt, en bendir á að mjög ólíklegt er að framangreint tímarit birti grein sem ekki væri rétt í meginatriðum.

Efnið læknaði psoriasis
„Ég hafði þjáðst af psoriasis síðan ég var 33 ára og gengið til þekkts húðsjúkdómalæknis, Allan Menter, í Dallas í Texas“ segir Patrick Kelly, en hann var einn þeirra fyrstu sem prófuðu nýtt lyf við psoriasis sem komið var með frá Evrópu af flugmanni sem flaug milli Evrópu og Ameríku. „Sérfræðingurinn hafði látið mig nota koltjöruáburð, ótal mismunandi sprautur, krem, stera og fleiri lyf án neins varanlegs bata, þó að stundum skánaði mér rétt í bili, en síðustu fimm árin hafði mér þó aldrei batnað neitt. Ég hafði psoriasis á báðum olnbogum og hnjám, sem oft blæddi úr, þegar ég klóraði mér ósjálfrátt í svefni.

Mér fannst eins og ég lifði í víti en núna er þetta allt breytt“ segir Kelly. „Strax eftir fyrstu fjóra dagana sem ég notaði pyrithion zink, sem ég sprautaði úr úðabrúsa á olnbogana og hnén, hvarf psoriasishreistrið og hefur ekki komið aftur“. Efnið myndar enga fitu og er lyktarlaust. Því er aðeins úðað á þar sem hreisturblettirnir eru og síðan látið eiga sig. Ekkert annað þarf að gera, ekki breyta um mataræði, nota steraáburð eða fæðubót-arefni, aðeins úða þessu eina efni á. Efnið hefur einnig reynst vel við öðrum húðsjúkdómum, t.d. exemi. Dr. Fran Rose, læknisfræðilegur forstjóri Starcare Prevention Medicine,sem kom til Bandaríkjanna með lítilsháttar af efninu í úðabrúsa frá Evrópu, segir að enginn sjúklinga sinna sem notað hefur pyrithion zink hafi orðið fyrir vonbrigðum.

Hann segir að það hafi engar auka-verkanir sé það notað útvortis og verki bæði fljótt og örugglega. Dr. Rose segir frá Rachel Elbanks, aðstoðarkonu hjá sér, sem þjáðst hafði af psoriasis árum saman eða síðan hún var 16 ára. Hún hafði notað flest þekkt læknisráð án árangurs, auk fjölmargra náttúrulyfja svo sem hákarla-brjósk, sem henni fannst gera ofurlítið gagn. Hún fékk úðabrúsa með efninu frá Spáni. Þegar hann tæmdist var allt psoriasis horfið af líkama hennar.

Hún úðaði blettina tvisvar til þrisvar á dag meðan efnið entist á brúsanum. Nokkru síðar lenti hún í bílslysi, en eins og vitað er versnar psoriasis oft ef fólk verður fyrir einhverju áfalli eða slysi. „Eftir slysið kom psoriasis aftur á allan líkama minn,“ segir Rachel. „Úðabrúsi endist í mánuð þó að hann  sé notaður daglega og allt að því í þrjá mánuði sé hann notaður öðru hvoru. Eftir þrjár vikur var hreistrið aftur horfið.“ Reynsla annarra sjúklinga sem notuðu efnið er lík reynslu Rachelar og Patrick Kelly´s og er ekki ástæða til að tíunda fleiri dæmi og prófanir sýndu að 78% þeirra sem notuðu það sýndu góðan eða mjög góðan árangur. Afgangurinn, 22%, gaf lélegan eða frekar lélegan árangur.

Árangur kom yfirleitt í ljós á innan við viku. Alonzo Aliaga, læknir við Höfuðsjúkrahús Valenciaborgar á Spáni fullyrðir: „Lyfið er mjög áhrifaríkt við að meðhöndla psoriasis, sérstaklega staðbundið afbrigði þess og psoriasis í hársverðinum“. Könnun á efninu var gerð við Finochietto sjúkrahúsið í Buenos Aires í Argentínu í ágúst 1995. Það var tvíblind athugun sem gerð var af húðsjúkdómalækninum Adriana Bugmard. Allir sjúklingar sem tóku þátt í henni þurftu að vera með psoriasis bletti á báðum helm-ingum líkamans, hægri og vinstri. Pyrithion zink 0.2% var borið á annan helminginn en „platlyf“ (palcebo) á hinn. Niðurstaðan var sú að pyrithion zink 0,2% hafði stórkostlega yfirburði yfir platlyfið.

Hvað er pyrithion zink ?
Pyrithion zink var uppgötvað af efnafræðingnum Emil Barrel árið 1936. Lyfjafyrirtækið Hoffman-La Roche fékk síðan hugmyndina til frekari þróunar. Efnið er skilgreint sem lífrænt málmsalt (organometalltic salt) með efnafræði(legu) formúluna C10H8N2O2Zn sem erlesið bis-(1-hydroxy-2 (1H) pyridin ethionado-O) zink. Það hefur verið notað í lyfjaiðnaðinum sem sveppalyf og sýklalyf. Venjulega er það notað sem 0,2% (2mg/ml) upplausn. Það hefur verið læknisfræði-lega prófað á háskólasjúkrahúsum á Spáni, Argentínu og Paraguay og er t.d. notað gegn flösu. Á einkasjúkrahúsum í Evrópu hefur það reynst vera 96% virkt gegn psoriasis.Það er sérlega áhrifa-ríkt við kláða. Eftir mánaðar notkun má telja að oftast sé psoriasis læknað.

Pyrithion zink hefur við prófanir reynst áhrifaríkt gegn pityrosporum-gersveppum sem oft er ruglað saman við bólur. Einnig er efnið gott við annarskonar sveppasýkingum og gersveppasýkingum. Með þetta í huga fer ekki hjá því að láta sér detta í hug hvort psoriasis sé e.t.v. eitt form sveppasýkingar í húð eða ofnæmisviðbrögð gegn einhverjum sveppagróðri sem e.t.v. sé í sjálfu sér skaðlítill en getur þó valdið alvarlegri ofnæmissvörum hjá vissum einstaklingum.Einhver ástæða hlýtur að vera fyrir því að sveppalyf, sem borið er á húðina, læknar psoriasis. Hér ætla ég ekki að reyna að svara þeirri spurningu en læt lesendum þessarar greinar eftir að brjóta heilann um svarið.

Eftirmáli
Skömmu eftir að ég samdi þessa grein sagði maður nokkur mér í óspurðum fréttum að hann vissi um lækningu á psoriasis sem hann hefði kynnst fyrir hartnær 20 árum. Hann sagði að á Spáni fengist efni á úðabrúsum sem hann sagðist sjálfur hafa notað. Þetta efni sagði hann, að hefði læknað á sér psoriasis-bletti á fáeinum dögum. Hann sagði ennfremur að Lyfjanefnd ríkisins hefði ekki leyft að flytja efnið inn í landið og því hefði ekki verið hægt að taka það í frekari notkun þá. Kann að vera að hér hafi verið um pyrithion zink að ræða?

Ævar Jóhannesson.



Flokkar:Greinar

%d bloggers like this: