Að byggja upp orku með tónun

Útdráttur úr erindi Esther Helgu Gúðmundsdóttur á haustfundi Heilsuhringsins 1996

Tónun er fyrir alla!
Tónun er leið til fyllra og betra lífs. Að tóna fyllir þig bjartsýni og gleði, það leyfir þér að „finna“ fyrir sjálfum þér og öðrum. Tónun fyllir þig ljósi og kærleika og þú gengur inn í daginn, tilbúinn! Söngur hefur veitt mannkyninu gleði í gegnum aldir, og ekkert sameinar fólk eins sterkt. Það skiptir ekki máli hvar í heiminum þú ert, ef fólk syngur saman breytist andrúmsloftið, það verður opnara og vinsamlegra, fólk finnur fyrir samkennd og meira öryggi.

Söngur veldur vellíðan og gleði
Í gegn um starf mitt sem söngvari og söngkennari upplifi ég stöðugt þau áhrif sem söngur hefur á manneskjuna. Það er eins og söngur hreyfi við einhverri innri orku sem yfirleitt veldur vellíðan og gleði. Söngur og tónlist opna okkur og við verðum næmari á okkar eigin tilfinningar og líðan. En af hverju skyldi fólk almennt vera svona hrætt við að syngja, jafnvel fyrir sjálft sig. Það afsakar sig með því að það sé laglaust, eða hafi svo lélega rödd, en flesta langar í raun óskaplega mikið að geta tekið þátt í söngnum af öryggi.

Syngjandi maður er glaður maður!
Í hvert skipti sem þú talar ertu í raun að syngja.Talröddin veldur hljóðbylgjum alveg á sama hátt og söngröddin, en þegar við tölum erum við tiltölulega ómeðvituð um röddina okkar. Ef við þurfum hinsvegar að tala yfir hópi fólks þá finnum við fyrir sömu streitueinkennum og þegar við eigum að syngja fyrir aðra, við verðum andstutt, svitnum og finnum jafnvel fyrir óraunveruleikatilfinningu. Við verðum meira meðvituð, því einhver er að hlusta á okkur, þ.e. sjá okkur. Þessi „einhver“ fær innsýn inn í sál okkar og síðast en ekki síst þá sjáum við sjálf okkur betur. Söngurinn opnar leið beint inn í sálina og ástand hennar á hverjum tíma.

En hvaða tilfinningu tengjum við söng?
Ef við höfum á tilfinningunni að við séum að syngja allan daginn, hljótum við ekki að vera laðari og stuðla þannig að eigin andlegu og líkamlegu heilbrigði? Með þessa spurningu í huga langaði mig að vita meira um hvað gerðist ef við notuðum hljóð og söng markvisst til að ná fram hinum ýmsu andlegu og líkamlegu áhrifum.

Það var þá sem ég uppgötvaði tónun!
Tónun eykur orku og jafnar orkustreymið í líkamanum. Tónun losar um streitu og ýmsar erfiðar tilfinningar. Tónun eykur sjálfstraust og gerir okkur bjartsýnni. Tónun hjálpar okkur að byggja upp viljastyrk.

Hvað er tónun?
Tónun er einfaldlega að láta frá sér hljóð. Við sleppum röddinni lausri, þ.e. hættum að stjórna því sem kemur frá okkur með huganum og leyfum röddinni að hljóma. Hljóð sem við myndum á þennan hátt eru m.a. hlátur, grátur og vein. Með þessum hljóðum fáum við útrás fyrir tilfinningar okkar. Tónun er mjög sterk leið til að byggja upp orku og bæta líkamlega og andlega vellíðan. Það er í raun mjög erfitt að útskýra eða kenna tónun nema verklega þ.e.a.s. með því að „gera“. Ég vil þó freista þess að gefa hér einfaldar leiðbeiningar sem gætu komið ykkur af stað. Rétt er að taka fram að ekki þarf söngvara til að ná árangri í tónun, raddgæði skipta þar engu máli. Best er að tóna á morgnana fljótlega eftir morgunteygjuna. Að mínu mati er fátt sem undirbýr mig betur undir daginn í stressuðu nútímasamfélagi en tónun.

Hvernig á að tóna
Standið með fætur aðeins í sundur og réttið vel úr líkamanum. Teygið báðar hendur hátt yfir höfuð og finnið fyrir teygju alveg niður í tær. Finnið vel fyrir teygju í mittinu og að lungun fái aukið rými. Látið handleggina falla aftur fyrir líkamann og niður með síðum. Lokið síðan augum og byrjið að horfa inn á við og finna. Finnið fyrir líkamanum og til að vinna á móti þeim algenga vana að síga í öxlum, lyftið brjóstkassanum og ýtið náranum aðeins fram. Þegar þið opnið brjóstkassann náið þið að anda dýpra, líkaminn nær dýpri öndun og þið finnið fyrir þörf til að andvarpa og/eða geispa.

Allt sem lifir það hreyfist
Það er óeðlilegt að halda líkamanum stífum. Leyfið honum að sveigjast, rétt eins og lauf í vindi og þannig fáið þið tilfinningu fyrir lífshrynjandinni hið innra, hjartslættinum, blóðstreyminu, önduninni og síðast en ekki síst finnið þið ykkur sameinast hjartslætti alls þess sem í náttúrunni lifir. Slakið á kjálkanum og leyfið hljóðum að koma frá ykkur. Byrjið á að andvarpa, setjið síðan rödd í andvarpið og leyfið líkamanum að stynja eða veina í smá stund. Ykkur finnst kannski að þið hafið enga ástæðu til að stynja, en leyfið líkamanum að dæma um það. Með þessu erum við að hreinsa uppsafnaðan andlegan og líkamlegan sársauka, sem þið hafið orðið fyrir í lífinu, en hann er bundinn í undirmeðvitundinni og líkamanum og hindrar eðlilegt orkuflæði. Þegar þið hafið lokið þessu hreinsunarstarfi, byrjið þá að tóna djúpum löngum tóni sem þið rennið upp í hærri tón og leyfið honum að hljóma aftur og aftur þangað til að þið finnið fyrir létti og slökun, en jafnframt meiri styrk.

Tónað í orkustöðvarnar
Orkustöðvar og rásir svokallaðar er hægt að finna um allan líkamann, en þær stærstu og næmustu eru: Rótarstöð, magastöð, sólarplexus, hjartastöð, hálsstöð, ennisstöð og loks hvirfilstöð (sjá meðfylgjandi mynd). Þegar tónað er í þessa staði í líkamanum, náum við að létta og styrkja þessar stöðvar og endurnýja orkuflæði líkamans. Við losum um andlegar og líkamlegar stíflur, sem eiga það til að myndast í tímans rás.

Innra nudd
Líkja má tónun í orkustöðvar við nudd. Allir sem hafa upplifað gott nudd muna hvernig það losar um allskyns hnúta og þreytu í vöðvum líkamans og þekkja vellíðanina og slökunina sem fylgir.Tónun er einfaldlega að láta frá sér hljóð. Við sleppum röddinni lausri, .e. hættum að stjórna því sem kemur frá okkur með huganum og leyfum röddinni að hljóma. Hljóð sem við myndum á þennan hátt eru m.a. hlátur, grátur og vein. Tónun er innra nudd með hljóðbylgjum sem við framköllum sjálf og skapar sömu vellíðan.

Do-Re-Mi
Það er dálítið misjafnt hvaða tónar eru notaðir í hverja orkustöð. Svo virðist sem hver og einn sem stundar tónun finni sína leið, sem breytist þó sífellt. Samt eru ákveðin atriði sem hægt er að styðjast við, t.d. tónskalann Do-Re-Mi-Fa-So-La-Tí-Do. Byrjað er að tóna löngum tónum á Do í neðstu orkustöðina. Re í þá næstu o.s.frv. og ,,Þeir sem geta talað, geta sungið og þeir sem geta gengið, geta dansað segir gamall indíána málsháttur”. síðast tónum við Tí í hvirfilstöðina. (Sumir finna fyrir orkustöðvum sem ná hærra en líkaminn og tóna þá Do fyrir ofan líkamann).Þeir sem kunna ekki á þetta kerfi, geta einfaldlega byrjað að tóna á djúpum tóni í neðstu orkustöðina og hækka síðan tóninn við hverja orkustöð.

Samkvæmt Biblíunni og fleiri fornum ritum er því haldið fram að í upphafi hafi hljóðið orðið til (samanber „Í upphafi var Orðið“) og sé því grunnurinn að allri tilveru okkar. Vísindamenn hafa í síauknum mæli beint augum sínum að mikilvægi hljóðs og virkni þess, m.a. að hljóð hreyfir efni. Ég er þess fullviss að í framtíðinni muni fólk almennt vera meðvitaðra um hvernig það geti notað tal og tóna til að stjórna lífi sínu og auka með því lífsnautn og lífsgleði. Það er ósk mín að með þessu greinarkorni fái lesendur innsýn í enn eina leið til að stuðla að betra líkamlegu og andlegu heilbrigði.

Í upphafi var kyrrð, alls þess sem er. Kyrrðin hreyfðist, og það varð hljóð. Hljóðið tók á sig form og Orðið varð til. Orðið var Guð og Orðið er Guð. Síðan var Orðinu gefið hold og einstaklingsvitundin Ég, fékk vald yfir því, undir lögmáli Guðs. Helstu heimildir: Laurel Elizabeth Keyes: Toning: The creative power of the voice, Don G. Campell: The Roar of Silence. Kay Gardner: Sounding the Inner Landscape.Mary Bassano: Healing with Music and Color.

Um höfund greinarinnar:
Esther Helga Guðmundsdóttir var stofnandi og skólastjóri Söngsmiðjunnar í Reykjavík. Hún lauk prófi frá Háskólanum í Indiana Bandaríkjunum, í söng-, söngkennslu, og tónlistarfræðum árið 1988, og hefur starfað sem söngvari og þó aðallega söngkennari síðan. Hún er brautryðjandi á sviði söngkennslu fyrir almenning og hefur látið sér annt um að stuðla að meiri breidd í söngkennslu og gefa sem flestum tækifæri til að læra söng og að kynnast röddinni sinni.



Flokkar:Fjölskylda og börn, Greinar