Börn og einstaklingar sem minna mega sín hafa eins og við fullorðna fólkið mismunandi fætur og þess vegna er erfitt að fullyrða hvernig og hvaða skótegund er hin eina rétta.
Miklu auðveldara er að segja hvernig skór eiga EKKI að vera. Þegar börn eru lítil eru flestir foreldrar mjög athugulir og áhugasamir um skófatnað barna sinna og reyna eftir bestu getu að velja góða skó. Þegar börnin verða eldri og kröfuharðari leyfa foreldrar þeim sjálfum að velja og eru börnin þá gjarnan undir áhrifum frá vinum og þeirri skótísku sem er í gangi hverju sinni. Það sem oftast er einblínt á þegar skór eru keyptir er tegund, litasamsetning og verð. Foreldrarnir velja oft fyrst eftir útliti skótausins síðan er verðið athugað. Það sem er mikilvægast kemur síðast þ.e. hvernig passa skórnir fyrir þessa fætur. Forgangsröðin þ.e. tegund litasamsetning og verð, verður helst skýrð með því að seljendur og kaupendur vita ekki hvernig skórnir eiga að vera eða EKKI að vera. Það er mikið atriði að velja rétta skó í upphafi til þess að fyrirbyggja algenga fótkvilla seinna meir s.s. tábergsig, líkþorn á nuddstöðum, sprungna hæla, niðurgrónar neglur og svona mætti lengi telja. Það er því engin ástæða til að láta börn sem ekki eru farin að ganga í skó og þrengja þannig að fótunum.
Eftirtalin atriði ætti ávallt að hafa í huga við kaup á skóm.
* Skórnir eiga að vera fótformaðir og þess vegna breiðastir yfir tærnar svo hægt sé að hreyfa þær óhindrað. Sérstaklega er mikilvægt að hafa gott pláss fyrir stórutærnar.
* Skórnir verða að vera nógu langir fyrir fæturna vegna þess að fæturnir lengjast um c.a. 1-1 1/2 cm og breikka um c.a. 1 cm þegar stigið er í þá.
* Hælkappinn á að vera frekar stífur en athugið vel að hann nuddi ekki ökklana.
* Æskilegast er að skór séu reimaðir því þá er hægt að stjórna breiddinni yfir ristina og betra að skoða inn í skóinn til að sjá hvort nóg rými er fyrir tærnar. Við fullorðna fólkið finnum fljótt ef skórnir særa eða eru óþægilegir á annan hátt. Barn sem ekki er farið að tala lætur ekki alltaf vita ef skórnir meiða eða þrengja að fótunum. Barnsfótur vex allt að 15mm á 6 mánuðum og er því gott að kaupa skóna aðeins of stóra og setja frekar lausa leppa inn í skóna svo þeir passi betur. Skósólinn á helst að vera mjúkur og sveigjanlegur 1-2 cm að þykkt. Skór eiga að passa strax! Það á ekki að ganga þá til. Fjárfesting í góðum skóm úr náttúrulegu efni er fjárfesting í fallegum og heilbrigðum barns fótum sem barnið býr alltaf að.
Flokkar:Líkaminn