Erindi um krabbamein flutt á haustfundi 1992. Í hverjum manni býr stjórnandi afl handan rúms og tíma, sem er virkt í jarðlífi okkar frá vöggu til grafar. Alkunn íslensk staka fjallar um þetta í hnotskurn:
Forlög koma ofanað.
Örlög kringum sveima
Álög koma úr ýmsum stað
Ólög fæðast heima
Styttra getur það ekki orðið. Forlög merkja það, sem virðist að veru leguleyti fyrirfram áformað í æviferli einstaklings.Örlög eru utanaðkomandi öfl, svo sem bölbænir, sprottnar afhatri, sem beinist að þeim sem hlut á, og orsaka frávik frá þeirri þróun, sem áætluð var samkvæmt forlögum. Örlög mætti fremur skilja sem sjálfskaparvíti, ýmis konar ósjálfræði, sem leiðir til ófarnaðar, t.d. girndir og fíknir, sem fólk missir tökin.Sá sem orti þessa vísu hefur augljóslega vitað lengra nefi sínu. Starfsemi þeirrar lífsheildar sem nefnist „maður“ allt frá hinni smæstu frumu til þeirra athafna, sem einkenna þann, sem í hlut á, er svo ótrúlega flókin að furðu sætir. Það er raunverulega kraftaverk að nokkur maður skuli halda heilsu stundinni lengur. Þannig séð er það alger fásinna að líta á mannslíkamann sem eins konar vél. Engin vél svo ótrúlega flókin að gerð, gæti gengið bilanalaust stundinni lengur, hvað þá gert við bilanir á sjálfri sér.
Þær truflanir, sem við nefnum sjúkdóma, geta átt rætur að rekja til mismunandi þátta. Samkvæmt fornri hefð nefnast meginþættir mannverunnar líkami, sál og andi, sem tala um mismunandi líkami, sem venjulega falla þannig saman, að þeir eru allir í sama rúmtakinu og starfa saman sem heild. Sé þannig á málið litið, er talað um efnislíkama, orkulíkama, geðlíkama (sem einnig er nefndur astrallíkami), huglíkama, orsakalíkama og jafnvel andlegan líkama, sem varla á þó við, af því að orðið líkami gefur til kynna að um form eða mynd sé að ræða, en um slíkt er ekki að ræða í þeim- veruleika, sem er handan rúms og tíma og kallast andi. Ekki ber því að taka þessa aðgreiningu alveg bókstaflega, heldur hentar oft betur að hugsa um mismunandi þætti lífsheildarinnar. Svo samþættir eru þessir svonefndu líkamar, að röskun á sérhverjum þeirra, getur breytt ástandi hinna.
Þegar sagt er frá þessum þáttum er þeim oftast raðað eins og hér hefur verið upp talið, og veldur það því að fólk fer að álíta, að efnislíkaminn sé óæðri en þeir sem síðar eru taldir, en svo þarf engan veginn að vera. Stundum væri líka nær að telja upp huglíkamann fyrr en tilfinningalíkamann, af því að sumt fólk hefur mun sterkari hugsun en tilfinningar. Það ber sem sagt í þessu samhengi fremur að líta á orðið „líkami“ sem þátt í heild fremur en sjálfstæða einingu. Efnislíkami er þá notað um þann þátt, sem unnt er að mæla, vega, efnagreina og skoða með efnislegum hætti. Orkulíkaminn er spunninn úr þeirri orku, sem Indverjar nefna „prana“ og Kínverjar „kí“. Okkur stendur næst að tala um lífsorku. Þegar lítið er af henni kennum við þreytu, en erum frísk og athafnasöm, þegar gnægð er af lífsorku. Þess ber að gæta, að læknisfræði Vesturlanda er fyrst nú á síðari árum farin að hugleiða að þessi orka sé yfirleitt til.
En lengi framan af var tilvist hennar afneitað, sennilega mest fyrir misskilning, því að allir færir læknar hafa ávallt áttað sig á hvert gildi það hefur að sjúklingar séu hlaðnir af lífsorku og vongóðir um bata. Þegar talað er um geðlíkamann, er átt við tilfinningaþáttinn. Svo náin tengsl eru milli tilfinningalífs og lífsorku, að sumir aðgreina ekki orku líkamann frá geðlíkamanum. Það gera samt austrænir læknar, t.d. þeir sem fást við að lækna fólk með nálastungum, Rei-Ki og Ajur Veda. Hið síðastnefnda er forn indversk læknislist. Sumir geta séð fyrirbrigði, sem tengjast orkulíkama og geðlíkama og flestir geta komist upp á lag með að skynja ástand orkulíkamans, t.d. með höndunum. Mjög margir, sem fást við nudd, komast fljótt upp á lagið með það, ef kennslan, sem þeir njóta er góð. Huglíkaminn felur í sér hugsunarþáttinn, og gefur auga leið að sá þáttur er oft mjög nátengdur tilfinningalífinu, þó að sumir eins og til dæmis nákvæmir vísindamenn reyni að vera „hlutlægir“ með því að bægja tilfinningum frá.
Margir botna lítið í hvað við er átt með hugtakinu, „orsakalíkami“, en hann felur í sér tilganginn með því lífi, sem lifað er, hvort heldur hann er meðvitaður eða eigi. Það sem hér er nefnt tilgangur er nátengt því sem Indverjar nefna „karma“. Mikilsvert er hverjum manni að lifa lífi, sem á sér tilgang. Að lifa í tilgangslausu tómi spillir mjög allri heilsu til sálar og líkama. Heildræn læknisfræði hefur yfirsýn yfir starfsemi hinna ýmsu líkama eða þátta þeirrar lífsheildar, sem er einstaklingurinn allur, og tekur reyndar líka tillit til samfélagsins alls af þeirri ástæðu, að maðurinn er félagsvera. „Maður er manns gaman“, segir í Hávamálum. Sú heildaryfirsýn sem að er stefnt, eykst því meir sem meðvitundin um tilvist hins andlega þáttar verður ljósari. Maðurinn hefur sem sagt fólginn í sér möguleika á að tengjast viljandi og vitandi því afli, sem er í rauninni ofvaxið skilningi okkar, en birtist þó í hinu stórmerkilega samræmi, sem hvarvetna má finna í umhverfinu, sem við lifum í og reyndar líka í okkur sjálfum, ef nógu djúpt er leitað. Sú heildarvitund, sem hér er um rætt, fæðir af sér að lifað er ábyrgu lífi.
Ábyrgðin kemur ekki aðeins fram í því að meiða ekki og skemma fyrir öðrum að óþörfu, heldur fer maðurinn að skynja sitt eigið hlutverk í lífi heildarinnar allrar, allt frá þeirri virðingu, sem ber að hafa fyrir eigin líkama og vitundarlífi, til einlægrar lotningar fyrir allri lífsheildinni, svo sem fram kemur í einkunnarorði Alberts Schweizers: „Lotning fyrir lífinu!“ Þá, verður hið daglega líf þjónusta við hina miklu lífsheild, sem trúarbrögð nefna Guð. Vegna hins innra jafnvægis, verður allt heilsufar betra en ella hefði orðið, þó svo að það eigi fyrir öllum að liggja að hverfa héðan, þegar kallað er til nýrrar þjónustu á öðrum vettvangi hins mikla og stóra lífs, sem við getum borið lotningu fyrir, en er alltaf þrotlaus uppspretta undrunar og verður aldrei fyllilega skilgreint eða skilið. Okkur er samt öllum boðin þátttaka í því, ef við aðeins viljum ganga einlæglega til liðs við lífið, á hverjum þeim vettvangi, sem forsjónin ætlar okkur og vísar okkur á, ef við höfum augun opin.
Höfundur Úlfur Ragnarsson læknir árið 1993
Flokkar:Hugur og sál