Unglingar – erfiðir og heillandi
Í gegnum tíðina hafa unglingar hvers tíma þótt með ýmsu móti erfiðir. Þeir hafa verið uppreisnargjarnir, ósveigjanlegir, nýungagjarnir, háværir, en um leið heillandi. Þeir hafa látið að sér kveða og oft velgt fullorðnum undir uggum. En hvað hefur svo orðið um þessa unglinga? Jú, í aldanna rás hafa flestir komist til manns, orðið nýtir þjóðfélagsþegnar og stofnað fjölskyldu. Eða hvað? Þjóðfélagið hefur tekið örum breytingum undanfarin 15-20 ár og afleiðingar þeirra eru að koma í ljós.
Að komast til manns
er sá að mikill fjöldi barna og unglinga eiga við veruleg vandamál að stríða sem beinlínis má rekja til brotalama í okkar ágæta velferðarþjóðfélagi. Samt sem áður búum við yfir nægilegri þekkingu til að skapa börnum okkar lífvænleg vaxtar- og þroskaskilyrði. Niðurstöður fjölda rannsókna sýna fram á hvaða afleiðingar ófullnægjandi aðbúnaður í æsku hefur fyrir einstaklinga annars vegar og þjóðfélagið hins vegar. Hvernig hlúð er að barni fyrstu árin í lífi þess skiptir sköpum hvað varðar möguleika þess að vaxa upp sem heilbrigður og skapandi einstaklingur. Hvernig þjóðfélagið hlúir að fjölskyldu þessa barns, skiptir sköpum hvað varðar möguleika hennar til að skapa því ákjósanleg uppvaxtarskilyrði. Eins og barnið þarf öryggi, ást og aðhald þarf fjölskylda þess upplýsingar og tíma.
Tímaleysi
Stóran hluta fjölskyldna í landinu skortir tíma og orku til að sinna þörfum fjölskyldumeðlima sinna. Hvað eiga foreldrar eftir að til að gefa börnum sínum eftir 50 stunda vinnuviku? Enginn hópur í þjóðfélaginu þarf að leggja eins hart að sér til þess að hafa ofan í sig og á eins og foreldrar smábarna. Þetta er hópur ungra foreldra sem þarf að berjast fyrir því að koma sér upp þaki yfir höfuðið.
Á sama tíma og börnin þurfa mest á nálægð foreldra sinna að halda,/fer dýr mætur tími í steinsteypuna. En hvað verður um barnið á meðan foreldrarnir vinna. Langflest fara á dagheimili eða til dagmömmu, en er að skóla kemur vandast málið. Skólatími er stuttur og oft eru þau látin ganga sjálfala fyrir/eftir skóla. Þau læra því fljótt að treysta á sjálf sig, án þess að vera fær um það.
Örlög sumra unglinga hafa verið að ganga sjálfala árum saman, og að verða smám saman afskiptir í sinni eigin fjölskyldu. Það getur farið svo að fjölskyldan eigi lítið sameiginlegt til að tala um, þrátt fyrir að hafa búið undir sama þaki í fjölda ára. Eðlilega eyða unglingar miklum tíma með félögum, en hinn afskipti unglingur leitast við að fullnægja flestum sínum þörfum utan heimilis í hópi félaga. Kannski er hann heppinn og lendir í góðum félagsskap, þar sem hann blómstrar. En sumir – já allt of margir lenda í einmanaleika og öryggisleysi og dragast aftur úr námi, e.t.v. vegna áhugaleysis, en oftar vegna innri vanlíðunar og erfiðs ástands heima fyrir.
Rosalega töff – eða hvað?
Hvað verður um þennan ungling? Hann getur horfið inn í sig, einangrast í eymd sinni jafnvel týnst alveg og hætt námi. Hann getur einnig gera sig breiðan, fengið athygli innan skólans með því að valda óróa í bekknum, sýna ofbeldi, stela, drekka áfengi, safna að sér hópi lærisveina, sem síðan verður „klíkan“ sem allir hræðast. En hvernig líður þessum ungling er hann/hún eins töff og af er látið? Nei, bak við harða skel er oftast lítil sál, dauðhrædd og óörugg með þau völd sem hún hefur.
Þessi unglingur veit innst inni að hann ræður ekki við þessi völd, hann vill jafnvel ekki hafa þau. Hann vantar hjálp, en kann ekki að biðja um hana og/eða hver skyldi svo sem vilja hjálpa, er ekki öllum andsk… sama. Þeir fullorðnu sem hann þekkir eru alltaf uppteknir og hafa ekki tíma til að tala við hann eða hlusta á hann. Hlustaðu á mig, leyfðu mér að segja þér hvernig mér líður. Þessa setningu fá hjúkrunarfræðingar sem vinna með unglinga oft að heyra. Ekki bara hjá töffaranum sem allt vildi gleypa, heldur líka hjá unglingnum sem var einmana
• unglingnum sem var lagður í einelti
• unglingnum sem var útundan vegna þess að hann var sífellt að flytja,
• unglingnum sem var of feitur því matur var það eina sem hann fékk nóg af
• unglingnum sem gat ekki fylgt námsefninu en enginn tók eftir því
• unglingnum sem bjó við upplausn og óreglu og þurfti að skammast sín fyrir heimilið og/ eða fela fyrir vinum og jafnvel ættingjum ástandið heima fyrir,
• unglingnum sem var misnotaður kynferðislega.
Að leita sér aðstoðar
Er til of mikils mælst að við hlustum? Oft eru það kennarar sem fyrst sjá hvert stefnir. Ef gott samband er milli nemanda og kennara getur kennarinn oft leiðbeint unglingnum eða vísað honum á skólahjúkrunarfræðing og/eða skólasálfræðing. Oft skapast trúnaður milli nemenda og skólahjúkrunarfræðings sem hafa starfað lengi við sama skóla. Á bak við magaverkinn eða sárið sem þurfti plástur á liggur þörfin til að tala við þann sem vill hlusta. Slíkur stuðningur hefur hjálpað mörgum til að leysa úr sínum málum. Aðrir unglingar þurfa á frekari leiðsögn að halda.
Í velferðarþjóðfélögum eru starfræktar meðferðarstofnanir sem sinna börnum og unglingum. Ein af þeim er Barna- og unglingageð deild Landspítalans við Dalbraut. Þangað leita foreldrar með unglinginn sinn, þegar vandinn er ofviða bjargráðum fjölskyldunnar unglingar sem var vísað þangað frá skólanum þegar vandinn bitnaði á námi og/eða skólafélögum, unglingar sem félagsmálastofnanir kipptu út úr skuggahliðum mannlífsins.
Sumum nægir að koma í regluleg viðtöl á göngudeild og er þá oftast unnið með fjölskylduna í heild. Því þó einn sýkist í fjölskyldunni þá er ekki þar með sagt að aðrir séu ,,stikk frí“. Oft er sá ,,sjúki“ aðeins einkennisberi fjölskyldunnar þ.e. sá fyrsti sem gafst upp á ástandinu. Þetta er tímafrek meðferð, en árangursrík og þakklát. Stundum eru vandamálin orðin langvinn og erfið. Fjölskyldan komin í vítahring og sér enga leið út. Þá getur verið nauðsynlegt að unglingurinn komi tímabundið inn á deild til að hvíla hann og fjölskylduna á ástandinu. Þennan tíma getur unglingurinn notað til að ná áttum, undir handleiðslu fagfólks, og jafnvel fengið hjálp með djúp tilfinningaleg, geðræn eða félagsleg vandamál.
Höfundar: Essa Arndal og Salbjörg Bjarnadóttir hjúkrunarfræðingar
Flokkar:Hugur og sál