Sykursýki og mataræði

Inngangur ( grein frá 1991)
Sykursýki er einn sá sjúkdómur sem herjar á nútíma þjóðfélög og hefur stundum verið nefndur einn af svokölluðum ,,menningarsjúkdómum“. Þetta þýðir þó ekki að sykursýki hafi verið óþekkt áður fyrr. Líkur benda til að sykursýki hafi verið þekkt þegar á dögum forn-Egypta og allar götur síðan. En það er fyrst nú á þessari öld, sem sykursýki verður jafn útbreidd sem raun ber vitni meðal iðnaðarþjóðfélaga nútímans. Því hafa ýmsir hugleitt hvort breyttir lifnaðarhættir og mataræði eigi ekki drýgstan þátt í þessari aukningu.

Reyndar er ekkert nýtt við það að tengja sykursýki við mataræði, því að mjög lengi hefur það verið vitað, að sykursjúkir máttu ekki neyta sykurs eða sætrar fæðu. Lengi var talið að próteinauðug fæða, t.d. kjöt, fiskur, egg og ostur væri heppilegasta fæðan fyrir sykursjúka, en að þeir ættu að varast kolvetnaríka fæðu t.d. brauð, ávexti og ýmsar tegundir grænmetis að ógleymdum sykri og sætindum. Ég ætla hér að fara ofurlítið nánar út í það sem ég veit nýjast um hugmyndir nútímavísindamanna um samband mataræðis og truflana á blóðsykri, sem lýsa sér annað tveggja, sem sykursýki eða lágur blóðsykur og stundum of lágur og of hár blóðsykur á víxl hjá sama einstaklingnum.

Sykursýki og trefjar
Til þess að frumur líkamans geti nýtt sér sykur eða aðra kolvetnafæðu þarf að breyta kolvetnunum í sitt einfaldasta form eða einsykrunga úr fjölsykrungum, t.d. sterkju úr kornvörum eða tvísykrungum t.d. hvítasykri, maltsykri eða mjólkursykri. Þetta gerist með aðstoð meltingarhvata í þörmunum, sem búa til úr þessum sykurtegundum einsykrunga: þrúgusykur, ávaxtasykur og galaktosa,sem líkaminn tekur síðan upp í blóðrásina og nýtir til orkumyndunar eða annarra þarfa.

Hvítur sykur er samsettur úr tveimur einsykrungum, þrúgusykri og ávaxtasykri, sem klofna auðveldlega sundur í meltingarfærunum. Flóknari kolvetni t.d. sterkja, sem m.a. finnst í flestum kornvörum, klofnar ekki eins auðveldlega sundur í einsykrunga og því líður lengri tími frá því þannig fæðu er neytt, þar til hún berst út í blóðið sem þrúgusykur. Flókin kolvetni hafa því miklum mun minni skammtímaáhrif á blóðsykur til hækkunar en ein- eða tvísykrungar t.d. þrúgusykur eða hvítasykur.

Trefjar er samheiti á ýmiskonar fjölsykrungum, sem finnast í ótal fæðutegundum úr jurtaríkinu. Sameiginlegt trefjum er að þær eru stórar sameindir, sem meltingarhvatar í fólki megna ekki að brjóta niður í einsykrunga að neinu teljandi marki. Þær berast því ómeltar gegnum meltingarfærin. Vissir gerlar í meltingarfærunum eru þó taldir geta brotið sumar trefjar lítilsháttar niður og með því „matreitt“ þær fyrir þá sem neyta trefjanna og hafa rétta gerla í meltingarfærunum.

Trefjar eru taldar hægja á upptöku annarra kolvetna sem neytt er. Auk þess drekka þær í sig kólesteról, bæði úr fæðunni og einnig kólesteról sem kemur með gallinu inn í meltingarveginn. Sumir vísindamenn telja trefjar vera hinn náttúrulega öryggisloka á kólesteróli í blóði. Verði kólesterólið of hátt, þá sendir lifrin hluta þess út í gallið, sem blandast þarmainnihaldinu. Þar drekka trefjarnar það að mestu í sig og bera það út úr líkamanum í saumum. Skorti trefjar í fæðuna taka þarmarnir þetta kólesteról aftur upp og það fer á ný út í blóðrásina og kólesterólið í blóðinu hækkar.

Lifrin reynir á ný að losa líkamann við umfram kólesteról út í gallið og framleiðir stundum svo mikið af því að gallið yfirmettast og gallsteinar úr kólesteróli taka að myndast í gallblöðrunni. Framhaldið þekkja flestir. Trefjar auka að miklum mun magn þarmainnihalds, sérstaklega í ristlinum, auk þess að halda í sér raka og gera þarmainnihaldið þjált, svo að úrgangsefnin eiga auðveldara með að berast út úr meltingarveginum á hæfilega löngum tíma.

Trefjarnar drekka í sig ýmis óheppileg efnasambönd úr þarmainnihaldinu m.a. krabbameinsvaldandi efni. Það er sennilega höfuðástæða þess að þeir sem neyta að jafnaði trefjaríkrar fæðu fá miklum mun síður krabbamein í ristil og endaþarm en fólk sem lítillar trefjafæðu neytir. En þetta var nú útúrdúr því að hér er verið aðfjalla um mataræði og sykursýki en þar koma trefjar einnig við sögu. Í ljós hefur komið að trefjar eru einkar vel fallnar til að halda blóðsykrinum jöfnum og stöðugum. Ekki er þó alveg sama hvaða trefjar notaðar eru.

Trefjar úr brauði, sem aðallega eru úr ,,sellulósa“ eða ,,tréni“, hraða mjög meltingunni og eru því prýðilegar fyrir þá sem þjást af hægðatregðu. Þær hafa þó ekki eins öflug áhrif til lækkunarkólesteróls og temprunar blóðsykurs og sumar aðrar trefjar. Trefjar úr eplum og fleiri ávöxtum, aðallega ,,pektín“, eru að sumu leyti betri til þeirra nota. ,,Lignin“, trefjar úr ýmsu grænmeti eru einnig taldar góðar, en suða breytir eiginleikum lignins verulega, að sumu leyti til góðs, það verður mýkra og aðgengilegra til matar, en að öðru leyti til ills, trefjaeiginleikar þess minnka og það líkist meira sterkju. sennilega eru hráar rifnar gulrætur, gulrófur, rauðrófur og ýmiskonar kál mjög æskileg fæða fyrir sykursjúka og þá sem þjást af lágum blóðsykri.

Bestu trefjarnar til að tempra blóðsykur eru þó af ýmsum taldar vera svokallaðar „guar“ trefjar, en þær eru unnar úr kínverskum baunum sem heita „guar-baunir“. Töflur úr guartrefjum fást í nágrannalöndunum, ætlaðar sykursjúkum og fólki með of hátt kólesteról í blóði. Ég veit ekki hvort þessar trefjar eru fáanlegar hér á landi en þykir líklegt að það verði innan tíðar, sé það ekki nú þegar. Líklegt er að baunaspírur ásamt spírum af korni og sólblómafræjum séu einnig heppileg fæða, en mjög auðvelt er að láta þessi fræ spíra og framleiða spírurnar sjálfur eftir þörfum.

Sumir sem skrifað hafa um þetta efni telja þó að bókhveiti og hirsi séu hollustu korntegundirnar fyrir fólk með blóðsykurstruflanir auk þess að vera næringarríkar. Margir sérfræðingar hafa að undanförnu lagt ríka áherslu á að sykursjúkir neyti trefjaríkrar fæðu með miklu af flóknum sein-meltum kolvetnum og telja að því fólki vegni miklum mun betur, sé til lengri tíma litið, en þeim sem lifa á próteinríkum kolvetnasnauðum mat eins og áður fyrr var ráðlagður sykursjúkum. Þannig fæða tryggir sennilega betur en flestönnur, að ekki berist mikið magn þrúgusykurs á stuttum tíma út í blóðrásina og um leið að nægilegur þrúgusykur sé ávalt til staðar í blóðinu til að ekki verði skyndilega blóðsykurslækkun t.d. viðóvænta áreynslu, eða ef örlítið of stór skammtur insúlíns er gefinn óviljandi.

Sykurþolsþátturinn í fæðu (Glucose Tolerance Factor)
Hinn svokallaði ,,sykurþolsþáttur“, oft nefndur GTF, sem er skammstöfun á enska nafninu, hefur á undanförnum árum vakið áhuga fleiri og fleiri vísindamanna. Rannsóknir benda til þess að þetta ensím gegni mjög mikilvægu hlutverki í líkamanum í sambandi við stjórnun blóðsykurs og vinni gegn bæði sykursýki og lágum blóðsykri. Einnig er talið aðhann hafi fyrirbyggjandi áhrif á æðakölkun og hjartasjúkdóma. GTP er krómsamband sem líkaminn sjálfur getur myndað, sé til staðar nægilegt krómniacin (B-3 vítamín) eða amínósýran tryptofan og amínósýrurnar glútamínsýra og cystein. Skorti eitthvað af þessu getur líkaminn ekki myndað GTF.

Lengi hefur verið vitað, að í mikið unninni fæðu er mjög lítið af krómi og að slík fæða beinlínis rænir líkamann krómi, sem brotnar niður og tapast með þvagi. GTF virðist ómissandi til að insúlínið verki í líkamanum og aðstoðar þannig við stjórnun blóðsykursins. Skortur þess er bæði talinn geta átt þátt í sykursýki og lágum blóðsykri. Tilraunir á bæði dýrum og fólki hafa sannað þetta endanlega.

Við tilraunirnar kom í ljós að GTF lækkaði bæði triglycerið og kólesteról (blóðfita) í blóði sykursjúkra tilraunadýra og dýra sem þjáðust af krómskorti. Þá er vitað að GTF lækkar lágþéttni lipóprótein (slæma kólesterólið) en hækkar háþéttni lipóprótein (góða kólesterólið) í blóði bæði manna og dýra, en þessi lipóprótein bera kólesteról um líkamann. Talið er að háþéttni lipópróteinin hindri að kólesteról setjist innan í æðar en lágþéttni-lipópróteinin hvetji það. Svo virðist sem sumir einstaklingar eigi í örðugleikum með að mynda GTF.

Stundum getur það stafað af krómskorti en stundum af öðrum ástæðum. Þeir einstaklingar þurfa að fá GTF úr fæðunni. Á markaðinum hérlendis er ölger sem inni heldur GTF, undir nafninu ,,Bio-Chrom“ og fæst í flestum heilsufæðubúðum og apótekum. Ein tafla er notuð daglega og mælt er með því að nota einnig trefjar eða trefjaríka fæðu. Þó að margt sé ennþá óljóst í sambandi við GTF, má þó slá því föstu að þetta efnasamband gegni lykilhlutverki við stjórnun blóðsykurs. Ekki er ólíklegt að endurskoða þurfi insúlíngjöf þegar farið er að nota GTF og í vissum tilfellum kann að vera að hætta megi alveg að nota það.

Fjölómettaðar fitur
Miklar rannsóknir hafa farið fram undanfarin ár á hlutverki fjölómettaðra fitu í líkamanum. Nú er vitað að líkaminn myndar fjölmörg mikilvæg efnasambönd úr fjölómettuðum fitum auk þess að þær eru ómissandi byggingarefni frumuhimna. Mikilvægustu efnasambönd sem vitað er um að myndast úr fjölómettuðum fitum eru svokallaðir fitusýruhormónar, en af þeim eru prostaglandin einna þekktust. Ákveðin prostaglandin eru t.d. mjög mikilvæg til að halda samloðun blóðflaga hæfilega mikilli og starfsemi ónæmiskerfisins í jafnvægi auk ótal annarra mikilvægra líffræðilegra atriða, sem þessir hormónar stjórna á einn eða annan hátt. T.d. eru sumir fitusýruhormónar bólgumyndandi en aðrir bólgueyðandi. Því hefur stundum verið talað um „vond“ og „góð“ prostaglandin.

Fitusýruhormónar myndast úr þremur mismunandi fitusýrum og ræður framboð þeirra í líkamanum miklu um hvaða fitusýruhormónar eiga auðveldast með að myndast. Fitusýruhormónar úr tveimur þessara fitusýra hafa yfirleitt æskilegar verkanir en úr þeirri þriðju myndast bæði æskilegir og óæskilegir. Með mataræði má því að verulegu marki stjórna þessum hormónum, á þann hátt að neyta fæðu sem inniheldur fitur sem myndað geta æskilega fitusýruhormóna en draga úr neyslu fæðu sem stuðlar að myndun óhepppilegra. Sú fæða er einkum kjötvörur, en fita úr sjávardýrum, svokölluð ómega-3 fita myndar ekki óæskilega fitusýruhormóna.

Fjölómettuð jurtafita getur einnig myndað fitusýruhormóna, en þó ekki nema hún breytist fyrst í líkamanum fyrir tilverknað sérstakra ensíma. Þessi ensím verða að starfa rétt til þess að líkaminn geti nýtt þær fitur til myndunar fitusýruhormóna, en sumir þeirra eru taldir mjög mikilvægir, m.a. fyrir starfsemi ónæmiskerfisins og til að samloðun blóðflaga sé hæfilega mikil auk fjölmargra annarra líffræðilegra verkana sem hér er of langt mál upp að telja. M.a. dregur einn þessara hormóna, prostaglandin E-l umtalsvert úr þörf líkamans fyrir insúlín. Skortur á insúlíni og of hár sykur í blóði ásamt skorti á B-6 vítamíni, zinki og magnesíum kemur í veg fyrir að þessi ensím starfi eðlilega. Einnig truflar harðfeiti, transfitur og kólesteról í fæðu þessi sömu ensím. Þá er einnig vitað að veirusýkingar og jónandi geislar og nokkur lyf og áfengi hindra að ensímin starfi eðlilega og líkaminn geti nýtt fjölómettaðar fitur úr jurtaolíum til myndunar æskilegra fitusýruhormóna.

Fram hjá þessu má komast með því að nota sérstakar jurtaolíur sem innihalda fitusýruna gammalinolensýru, en hún getur myndað æskilega fitusýruhormóna, án þess að það ensím sem helst truflast af áðurgreindum ástæðum komi til. Gamma-linolensýran fæst úr nokkrum sjaldgæfum jurtaolíum t.d. kvöldvorrósarolíu og hjólkrónuolíu. Sykursjúkir eru í sérstakri hættu hvað skort á þessari fitusýru varðar, vegna skorts á insúlíni og of háu sykurmagni í blóði. Þá verður hætta á að óheppilegt hlutfall Fitusýruhormóna skapist sem, aftur leiðir til ýmissa sjúkdóma, t.d. í æðakerfinu, gigtarsjúkdóma og skerts viðnáms gegn ýmsum sýkingum. E-vítamín er talið draga úr myndun óheppilegra fitusýruhormóna og sennilega einnig snefilefnið selen. Einnig er fullsannað að mjög æskilegt sé fyrir sykursjúka að neyta daglega kvöldvorrósarolíu eða annarrar hliðstæðrar gammalinolenssýrufæðu.

Vitað er að fólk sem nota þurfti daglega umtalsvert magn af insúlíni, hefur getað hætt því, eftir að það tók að nota kvöldvorrósarolíu.

Ómega-3 fiturnar úr sjávardýrafitu eru álíka mikilvægar og e.t.v. geta þær að hluta komið í stað fitanna úr jurtaríkinu. Nýlega var sagt frá því í vísindatímaritinu „Science“ að í tilraunum með sykursjúkar rottur hafi komið í ljós að hindra mátti svokallað „insúlín-þol“ í þeim með því að gefa þeim lýsi. Enda þótt vísindamennirnir sem tilraunina gerðu álitu að meiri rannsókna á þessu væri þörf, töldu þeir þó að ástæða væri til að fólk með insúlínþol notaði fisk eða lýsi að staðaldri (Insúlínþol er það kallað þegar nægjanlegt insúlín er í blóðinu en blóðsykur samt óeðlilega hár og lækkar lítið eða ekki við aukið insúlín).Augljóst er því að þó að enn sé ýmislegt á huldu um mikilvægi fjölómettaðrar fitu í fæði sykursjúkra, þá gegna þær mikilvægu hlutverki sem verður að taka tillit til við ákvörðun á slíku fæði.

Bætiefni og sykursýki
Í vísindatímaritinu Joumal of Orthomolecular Medicine var nýlega birt athyglisverð grein, þar sem m.a. var komið inn á mikilvægi nikótinsýru (nicotinamith) (B-3 vítamíns) í sambandi við sykursýki. Nikótínsýra myndar í líkamanum mjög svo mikilvæg efnasambönd, kóensímin NAD og NADP, sem gegna lykilhlutverki í orkuframleiðslu allra fruma líkamans. Höfundur greinarinnar dregur fram í dagsljósið ýmsar rannsóknir sem sýna að sykursýki fylgir ævinlega skortur á NAD. Þetta er m.a. hægt að sýna fram á með mælingum á efninu ,,porfyrin“ í þvagi sykursjúkra. Með því að gefa sjúklingunum B-3 vítamín hvarf porfyrinið úr þvaginu og ástand þeirra batnaði. Breskur læknir, Neuwhal að nafni, gaf sykursýkisjúklingum sínum stóra skammta af nikotinsýru og gat von bráðar hætt að gefa þeim insúlín ef þeir höfðu ekki haft sjúkdóminn mjög lengi. Aðrir sjúklingar þörfnuðust miklu minna insúlíns ef þeir fengu vítamínið.

Rannsóknir á rottum, sem gerðar voru í Japan eftir 1980, sýndu að B-3 vítamín kom í veg fyrir að efnasambönd, sem annars ollu sykursýki í dýrunum, gerðu þeim neinn skaða. Þeir töldu að áðurnefnd eiturefni eyðilegði NAD í beta-frumum briskirtilsins, þannig að þær hættu að mynda insúlín og legðust í einskonar dvala. Með auknu magni B-3 vítamíns, sem myndar NAD, endurnýjuðust NAD birgðir frumanna og þær tóku til starfa á ný. Fleiri efni, t.d. zink, hjálpa þar til og greinarhöfundur bendir á að sykursjúkir þjáist oft af zinkskorti, sem hann telur að oft stafi af lélegri nýtingu zinks í meltingarfærum vegna skorts á B-3 vítamíni.Þessar rannsóknir benda til að nikótínsýra geti haft fyrirbyggjandi og jafnvel læknandi áhrif á sykursýki, að minnsta kosti sé hún ekki komin á mjög hátt stig.

Í lesendabréfi í tímaritinu Joumal of Ortho molecular Medicine segir læknir frá hvernig hann endurlífgaði ,,dauðan“ hluta af fæti sykursjúks manns með 4 g af C-vítamíni, 6 dólómit töflum og1000 einingum af E-vítamíni daglega, ásamt fjölefnatöflum sem hann nefnir VM-75. Sex mánuðir liðu þar til bati fór að sjást greinilega og meira en ár þar til tilfinning í fætinum varð fullkomlega eðlileg. Auk þess batnaði sjón hans mikið og húð og neglur fengu betra útlit. Læknirinn telur að full ástæða sé til að gefa fleiri sjúklingum með svipuð vandamál kost á að fá þessa meðferð og sjá hver árangur yrði.Ótal fleiri fæðubótarefni hafa verið notuð til að bæta ástand sykursjúkra t.d. hvítlaukur, síberíuginseng, rauðrófur sem taldar eru verka vel á briskirtilinn og lakkrísrót, sem sagt er að örvi myndun insúlíns og styrki insúlínfrumurnar í brisinu.

Einnig hefur verið skrifað um að hollt sé fyrir sykursjúka að drekka sítrónusafa í vatni og jafnvel fasta í nokkra daga á allan mat en drekka mikið af útþynntum sítrónusafa. Bandaríski lífeðlisfræðingurinn Cary Reams staðhæfir að þannig fasta lækni fullkomlega sykursýki á lágu stigi, sé rétt mataræði tekið upp að föstunni lokinni. Hann tekur þó fram að slíka föstu megi alls ekki framkvæma nema undir stöðugu eftirliti læknis, helst á sjúkrahúsi, því að fylgjast verður reglulega með blóðsykrinum ef ekki á illa að fara. Einnig á þessi meðferð sennilega aðeins við sjúklinga sem mynda eitthvað af insúlíni, þ.e. eru með „fullorðins“ sykursýki, en ekki við þá sem insúlínfrumumar í brisinu eru algerlega óstarfhæfar. Reams segir einnig að sítrónusafafasta hindri kransæðasjúkdóma, sé hún rétt framkvæmd og heppilegt mataræði fylgi í kjölfarið.

Samanteknar ályktanir
Sykursýki er erfiður sjúkdómur og sé hún á háu stigi er sennilega ekki hægt að lækna hana. Þó má segja með nokkuð góðri vissu að ýmislegt megi gera til að draga verulega úr ýmsum hliðarverkunum, sem oft fylgja henni, með réttu mataræði og notkun ýmissa fæðubótarefna. Sé hún hinsvegar á byrjunarstigi er líklegt að hægt sé að halda henni fullkomlega niðri, þannig að engra einkenna verði vart og ekki þurfi að nota insúlín eða önnur lyf. Þetta þýðir að líklega mætti að mestu eða öllu koma í veg fyrir að sykursýki í fullorðnu fólki smá versni með aldrinum. Sykursýki í börnum og ungu fólki stafar sennilega af öðrum ástæðum en sú fyrr nefnda og er að öllum líkindum erfiðari viðureignar.
Þó kann að vera að væri brugðið nógu snemma við, væri hægt að hindra að hún nái því stigi að verða ólæknandi. Frekari rannsóknir verða að skera úr um það. Eigi að síður gilda mataræðisleiðbeiningar og notkun fæðubótarefna jafnvel fyrir þá sjúklinga og aðra og ættu að bæta ástandið, einnig hjá þeim, og draga úr hliðarverkunum sjúkdómsins.
Óþarfi er að orða það að það mataræði sem hér er mælt með er einnig gott fyrir flest heilbrigt fólk og ætti að draga úr líkum á því að þeir einstaklingar sem nota það, fái sykursýki síðar á lífsleiðinni.

Hér verður það helsta sem reynt hefur verið að segja í þessu spjalli dregið saman í örfá minnisatriði.
1. Notið ekki unnin kolvetni nema sem allra minnst t.d. sætindi, hvítt hveiti og annað því um líkt.
2. Notið helst ekki ýmiskonar pakkamat, sem oft hefur verið bætt í fjölþættum aukefnum, sem lítið er vitað um
langtímaverkanir af. Fæðu eins og franskar kartöflur og fleiri djúpsteikta rétti ætti einnig að forðast sem mest.
3. Notið helst ekki tilbúna fitu t.d. smjörlíki, bökunarfitu eða matvæli sem þannig fita er notuð í. Þó má nota lítilsháttar af
mjúku jurta smjörlíki t.d. „Sólblóma“.
4. Notið sem mest af grófum kolvetnaauðugum mat, t.d. fræjum, baunum, gulrótum, rauðrófum, káli, lauk og hvítlauk.
5. Notið einnig ávexti og ber en þó í hófi, og helst ekki mikið sæta ávexti.
6. Notið fisk fremur en kjöt, sé þess kostur, þó að kjötmeti í hófi sé leyfilegt.
7. Notið mjólkurvörur ef ykkur verður gott af þeim en annars ekki. Best er ab mjólk, kotasæla, skyr og skyrmysa.
8. Notið bætiefni: C-vítamín, B-vítamín, lýsi, E-vítamín, selen, kvöldvorrósarolíu, zink og dólomit eða aðra kalk- og magnesíum gjafa og krómsambandið GTF, t.d. Bío-Chrom. Sumum sem óvanir eru að nota fæðubótarefni, kann að vaxa í augum að nota margar tegundir bætiefna, sem auk þess kosta töluverða fjármuni. Við það fólk langar mig til að segja að þeim peningum sé ekki illa varið, sem sannarlega bæta heilsu fólks og draga úr alvarlegum aukaverkunum af erfiðum sjúkdómi. Ég tel að nægar vísindalegar upplýsingar séu fyrir hendi til að mæla með neyslu þeirra bætiefna sem hér voru talin upp, en vitanlega verður fólk að ákvarða sjálft hvað það gerir í þeim efnum. Þeir sem ekki vilja eða treysta sér til að nota bætiefni, þurfa jafnvel ennþá fremur að vanda fæðuval sitt en hinir. Þá kann að vera að þeir geti sparað sér þann kostnað sem af notkun þeirra leiðir, án þess að taka þá áhættu að heilsufar þeirra verði lakara en það þurfti að vera.

Heimildir eru að mestu fengnar úr mörgum heftum af Journal of Orthomolecular Medicine.

Höfundur: Ævar JóhannessonFlokkar:Greinar, Skrif Ævars Jóhannessonar

%d bloggers like this: