Heildræn hugsun í húsagerð

Rætt við Einar Þorstein Ásgeirsson hönnuð um vistrænar byggingar

Í síðasta blaði H.h. (1991) skrifaði Einar Þorsteinn um varasöm líffræðileg áhrif bygginga. Við höfum fengið margar óskir um að meira yrði skrifað um þetta efni. H.h. snéri sér þess vegna til Einars Þorsteins til að ræða við hann um hvernig hann teldi að best væri að byggja frá grunni og bað hann að draga upp mynd af því sem kalla mætti „jákvæð“ híbýli fólks.

EÞ: Þetta er nú ákaflega víðfeðmt efni, svo ég tipla svona rétt á toppunum á því í þessu samtali okkar. Hið fyrsta sem mér kemur í hug er eins konar safnorð: Vistrænar Byggingar. Við skulum hafa í huga að hér er ekki um það að ræða að komin sé fram á sjónarsviðið einhver ný byggingarlistastefna, meira eða minna útí loftið heldur afleiðing af hægfara hugarfarsbreytingu fólks, sem á sér rætur í nýjum skilningi á manninum. Skilningi sem hefur verið að mótast síðastliðin 80 ár, en þó með mestum hraða nú eftir að mengun jarðarinnar hefur bent okkur á svo ekki verður um villst, hvernig maðurinn er samofinn umhverfi sínum.

Ég vitna í hugmyndir James Lovelock um jörðina sem stærstu lifandi veru sólkerfisins: Gaia kenninguna. Þessi hugarfarsbreyting hefur vitaskuld ekki náð til allra jarðarbúa jafnt, já jafnvel ekki einu sinni til allra vestrænna þjóða, en við erum á leiðinni. Til þess að forðast misskilning vil ég líka taka fram að huglægur þáttur mannsins/ mannkynsins er ekki undanskilinn í þessari vistrænu yfirskrift. Ótalmargt af því sem myndar ramma líffræðilegrar tilveru okkar hefur áhrif á sálar- og geðlíf okkar. Já, það er alkunna að efnislegur rammi menninga (arkitektúr) mótar hugsanaramma fólksins að miklu leyti. Og hugsana ramminn, þrengd hans eða vídd er það sem takmarkar eða eflir þroska okkar í hverju lífi fyrir sig. Þess vegna á orðið lífvænlegar byggingar (þú afsakar íslensku túlkunina á orðinu) við um allt kerfið, lífkerfi mannsins í heild. Og hér komum við einmitt að kjarna málsins: Þegar byggja skal rétt verður að hafa HEILDINA, allt sem snertir manninn að leiðarljósi. Þess vegna segi ég það enn: Hafir þú engan heimspekilegan tilgang í lífi þínu, þá skalt þú ekki byggja fyrir aðra.

H.h: Áttu við að lífvænleg bygging innihaldi rétt eða heilbrigð áhrif bæði andleg og líkamleg á íbúa hennar?

EÞ: Í besta tilfelli á hún að gera það, já. En áður en við förum útí smáatriði langar mig til þess að koma nánar inná byggingar sem hluta af menningu til skýringar. Gefum okkur að til sé vítt svið í tilgangi þeirra sem hanna byggingar. Alveg frá því að gera byggingar, sem líta á sem symból fyrir tjáningu mannsandans, sem sagt arkitektúr sem hrein listgrein eða á hinn bóginn að byggja ein göngu í þeim tilgangi að fólki líði vel í híbýlum sínum, sem krefst þekkingar á tilgangi og tilveru mannsins í smáatriðum. Í einfaldari orðum sagt, og þá vitna ég til nútímans: Annars vegar hús sem koma vel út á ljósmyndasíðum glæsiritanna og hins vegar hús, hvers innihald er alls ekki unnt að endurspegla með ljósmynd.

Við getum líka tekið dæmi um föt sem samsvara þessu: Annars vegar eru það tískufötin frá París og hins vegar eru það gallabuxurnar og peysan. Annað lítur vel út en hitt er þægilegt. Hvorttveggja menningarstefnur.
Í dag höfum við viðurkenndar arkitektúrstefnur, sem eru tískulínur fremur en að taka tillit til fólksins sem notar húsin. Upplýsingastefna nútímans mun án efa breyta forgangsröð arkitektúrsins með tímanum yfir í þægindastefnu líffræðinnar og jafnvel þroskamöguleika andans. Ef til ágreinings kemur tel ég að arkitektúrinn muni hreinlega klofna í tvær greinar. Ég held að það sé alveg ljóst að ég aðhyllist mjúku stefnuna. Ég vinn nú með fólki víða um lönd, sem er á sömu línu, í þeim tilgangi að vinna þessari menningarstefnu álits.

H.h: Nú hefur þú verið þekkur fyrir það hér á landi að hanna kúluhús. Hvernig kemur það inní þessa mynd sem þú varst að lýsa?

EÞ: Það er von að þú spyrjir. Sjáðu til: Ég er menntaður í gamla kerfinu. Nánar tiltekið í Þýskalandi á seinnihluta sjötta áratugarins (63-69). Og hefðu ekki komið til áhrif frá uppreisnarmönnum kerfisins eins og Buckminster Fuller og Frei Otto hefði mér án efa ekki tekist að losa mig frá þessari stöðnuðu menningararfleifð, sem einkennir hugsun mjög margra arkitekta. Hálfkúluformið hefur verið mér eins konar aðhald og ögun í að láta gamla tímann lönd og leið. Uppreisn mín gegn kerfinu um leið er það mér einmitt symból fyrir HEILD og um leið mjög gagnleg bygging í vistfræðilegum skilningi, þar sem það takmarkar orkunotkun. Um þetta gæti ég haft langt mál, en við ætluðum að tala um jákvæða mynd af híbýlum fólks.

H.h: Þú talaðir hér áðan um áhrif formsins á fólk og hugsun þess?
EÞ:
Þetta er nokkuð, sem vísindin viðurkenna en lítið er gert til þess að kynna fólki það. Í vinnu minni við kynningu á nýju húsformi, hef ég kynnst mjög vel afstöðu fólks með og móti slíkri starfsemi. Þetta hefur orðið til þess, að ég hef sérstaklega kynnt mér áhrif formsins á íbúa þess. Almennt séð er fólk ekkert að hugsa um áhrif húsa eða heimilis síns á þau sjónarmið sem það hefur. Því sjaldnast vill svo vel til að híbýlin eru nákvæm spegilmynd af skoðunum fólksins sem í þeim býr, fremur þak yfirhöfuðið. Það velur sér bara það sama og nágranninn, vegna öryggisins, sem í því felst að vera eins. Smekkur mótast mikið af því sem fyrir þig kom í æsku. Sem dæmi getum við nefnt þetta sígilda: Þér leið vel hjá ömmu þinni á æskudögunum og þar sem hún bjó í húsi fortíðarinnar sækir þú þitt öryggi aftur í slíkt hús. En í leiðinni vill gleymast að fortíðarhúsið varð til vegna efnahagslegra, þekkingarlegra og annarra aðstæðna fortíðarinnar.

Í þeim löndum þar sem fortíðarhyggja er sterk eins og t.d. á Íslandi verður þetta meira áberandi en ella. Nú vill svo til að af þeim hlutum, sem maðurinn notar í lífsbaráttunni frægu, er húsið það sem lengst endist, eða er látið endast af fjárhagslegum ástæðum. Á meðan allir keppast við að fá sér ný bílamódel sem sífellt batna og slíkt telst til menningarinnar, breytast húsin nánast ekki neitt. Þetta verður svo til þess að fólk sættir sig við það, sem það hefur, en veit ekki að því kynni að líða enn betur í annarri gerð bygginga. Og nú er ég ekkert endilega að tala um hálfkúlulaga hús, heldur hús þar sem tekið er tillit til heildarinnar: Lífskerfisins, en slíkt hús er samansett úr mjög mörgum þáttum. Tökum síðan fólk, sem brýtur ísinn og flytur í nýja húsagerð. Slíkt er svo mikið frávikfrá menningunni fyrir fólkið að því opnast einnig á öðrum sviðum nýjar leiðir í hugsun og atferli. En um leið má ég til með að skjóta því hér að, að þrátt fyrir mjúku línurnar í mínum húsum þá eru það yfirleitt konumar sem ekki treysta sér til þess að fara í „menningarlegt öryggisleysi“ þess konar húss!

Nú höfum við dæmi úr íslenskri sögu, að flúið var úr einni húsagerð yfir í aðra. Nánast frá torfbænum yfir í steinsteypuna. Afturúrhengslin í arkitektúr-þægindum hérlendis í enda nítjándu aldar, miðað við nágrannaþjóðirnar, voru orðin slík að eitthvað róttækt þurfti að gera. En að mínu mati var stökkið of stórt, umskiptin of snögg. Eftir það er varla hægt að tala um íslenska menningu í húsbúnaði. Engin þróun átti sér stað ef vel er að gáð. En auðvitað er þetta aðeins hluti af stærra dæmi, því dæmi að kúgun þjóðarinnar og arðrán orsakaði stöðvun í margs konar eðlilega þróun hennar.

En til þess að snúa mér aftur að spurningu þinni beint þá hefur Rudolf Steiner og hans heimspeki lagt áherslu á ákveðna formun híbýla. T.d. að hafa aldrei rétt horn (90 gráður) í grunnmynd þeirra. Nokkrir arkitektar úr hópi antrópósófista hafa unnið samkvæmt þessu. Aðrir t.d. André Studer í Ziirich gengur enn lengra: Hann skoðar nákvæmlega fjölskyldu þá er hann teiknar hús fyrir m.a. frá stjörnuspekilegum sjónarmiðum. Ég minnist þess í frásögn hans, þegar hann teiknaði hús uppá hæð, með gluggum allan hringinn fyrir mann sem honum þótti full þröngsýnn. Þetta er dæmi um það hvernig hægt er að vinna að endurbótum á mannlegu hliðinni með híbýlum. Hringlaga hús bjóða einnig upp á öðruvísi þægindatilfinningu vegna rýmisins. En hér er margt órannsakað, þó að mörgu sé haldið fram t.d. um dvalargæði hálfkúluformsins.

H.h: En hvernig myndir þú nú setja saman slík jákvæð eða lífvænleg híbýli?
: Á meðan ég finn ekki neitt hagkvæmara form nota ég hálfkúlulagið áfram. Sem sagt einbýlishús á ræktanlegri lóð.Gefum okkur dæmi um byggingu á Íslandi: Til þess að byrja með fengi ég sérfræðing til þess að leita að segulfráviki á lóðinni og alls ekki byggja nálægt slíku fráviki. Stærð hússins yrði miðuð við það að um helmingur af grunnfleti væri sólarstofa með einföldum glerfleti á móti suðri, en þreföldum glerfleti inn að íbúðinni. Einangrun hússins yrði allt að 40 cm þykk og helst lífræn einangrun, eins og korkur eða meðhöndlaður pappír. Nú eða blanda af annarri einangrun með lífrænni einangrun innst. Ysta byrðið yrði þakdúkur sem andar. Hann er soðinn saman og límdur á ysta krossviðarflötinn og er því algerlega loft- og vatnsþéttur. Þar á ofan kæmi síðan steinull og í hana sett vökvunarkerfi þannig að hún geti borið grasvöxt með hjálp næringar í vatni. Húsið yrði því grænt að utan.

Allur útlits frágangur að utan og einnig inni í sólstofunni væri torfhleðsla svipað og var í gamla torfbænum. Grunnurinn undir húsinu væri steyptur og járnabindingin í honum jarðtengd, þ.e. tengd í vatnsleiðslu. Um 20% af gleri hússins væri þannig ,að útfjólubláir geislar sólarinnar kæmust í gegn til að tryggja að samsetning loftsins inni yrði eins og úti. Þétting á stórum glerflötum yrði með innbyggðu vatnsfrárennsli, þannig að ekki rynni frá gleri á gler. Með sólstofunni má nýta sólarorkuna, á þann hátt að heita loftinu sem safnast í sólskini yrði dælt niður undir húsgrunninn, þar sem fyrir er þurr ómúruð steinhleðsla í lokuðu rými svokallaður steinlager. Loftstreymið fer í gegnum hann og hitar upp steinana sem geyma hitann uns kvöldar en þá skilar hann sér upp í gegnum gólfið. Afgangsloftinu er síðan sleppt út. Annað efni í húsinu væri síðan valið líffræðilega óskaðlegt.

H.h: Þetta var tæknilega hliðin en hvað með annað fyrirkomulag?
EÞ:
Venjulega skipan herbergja í húsi þekkja allir. Ég held að vel mætti skipuleggja hús út frá öðrum sjónarmiðum en þeim húsgögnum sem einhver á fyrir: Verum ekki þrælar húsgagnanna. Mín skoðun er sú að frekar beri að leggja áherslu á að leysa þarfir nútímamannsins t.d. með því að gera „friðarherbergi“ í húsinu, þ.e. eins konar kapellu til andlegra iðkana, en jafnframt bæta við fleiri „félagsherbergjum“ en nú eru notuð. Oft skortir alveg hljóðeinangrað herbergi í hús fyrir hávaðatónlist, en lítið stoðar að hafa uppi boð og bönn um slík mál á heimilum. Þá er og nauðsynlegt að hafa eitt stórt rými með mikilli lofthæð innandyra, sem gæti raunar verið sólstofan hér. Ég vil leggja mikla áherslu á gróður innandyra. Því er opinnjarðvegur nauðsynlegur í sólarstofunni, en um leið þarfmikinn möguleika til loftunar, því að gróðurmold fylgir mikill raki. Lítill heitpottur í stólstofu er að sjálfsögðu á mínum persónulega óskalista.

H.h: Þú talar um torfhleðslu í innigarði/sólarstofu. Er ekki mikið um skordýr og annað kvikt sem fylgir henni?
EÞ:
Ég býst fastlega við því. En engin sem gera skaða eða sjúga blóð úr fólki held ég. Einhvern veginn hef ég það á tilfinningunni að það sé ágætis mælikvarði á loftið og lífsandann í húsinu ef venjulegur skordýrabúskapur þrífst innan í því. En þetta er mitt persónulega mat.

H.h: Ef við snúum okkur nú að húsum, sem þegar er búið að byggja. Hvernig er unnt að færa þau í rétt horf? Gera þau lífvænlegri?
EÞ:
Af framansögðu má sjá ljóslega að það er töluvert mál. Án efa þarf að kosta nokkru til þess, þó mismikið. Tökum til dæmis plasteinangrunina inni í húsunum. Skynsamlegast er að rífa hana út en einangra húsið að utan og klæða. Eftir standa þá berir steinveggirnir. Þá má t.d. múra með gipsi, sem er mun heilsusamlegra en að hafa venjulegan múr inni á sér. Gipsið er t.d. góður rakajafnari. Mörgum kann að finnast þetta of langt gengið, en alla vega er gott að kanna plasteinangrunina. Það kynni að koma í ljós að hún er alls ekki lengur fyrir hendi. Í eldri húsum getur hún verið gufuð upp svo að til nýrra aðferða þarf að grípa. Ég vil svo vísa til síðasta heftis H.h. í þessu sambandi. Þar er margt talið upp sem betur mætti fara. Segulmæling innanhúss er eitt af því sem óhikað má mæla með.

H.h: Þú nefndir hér áðan að þakdúkurinn andaði. Hvers vegna er það nauðsynlegt?
EÞ:
Þannig er að hver manneskja gefur frá sér 40 gr afraka á klukkustund gegnum húðina ef hún reynir ekki á sig en allt að 80 gr ef um mikla áreynslu er að ræða. Inní húsum fer þessi raki inní veggi og þak ef ekki er stöðugt loftað út. Hver íbúð hefur þar af leiðandi háan rakaþrýsting og um leið loftþrýsting sem er hærri en utanhúss. Munurinn er lítill en samt nokkur. Ef þessi raki safnast í veggjunum og kemst ekki út, slær honum smám saman niður í útjaðri einangruninnar og um leið minnkar einangrunargildi hennar uns hún er öll rök. Þessi raki skilar sér svo inn í íbúðina aftur: Húsið fer að leka. Fyrir utan óþægindin á sér hér stað mikill byggingarskaði. Ekkert byggingarefni þolir slíka meðferð til lengdar og húsið skemmist. Líttu á máluðu steinhúsin hér á landi. Málningin flagnar fyrst og fremst af vegna rakaþrýstings innanfrá. En auðvitað er máluð steinsteypa ófullnægjandi frágangur bygginga.

H.h: Hvernig stóð á því að þú fékkst þennan áhuga á lífrænni hlið bygginga?
E.Þ.
Ætli það sé ekki vegna þess að ég hef alltaf haft áhuga á samhengi hlutanna. Í venjulegum arkitektaskóla lærir maður nóg til þess að skilja hve rangt hefur verið byggt hér á Íslandi allt frá byrjun steinsteypualdar. Þegar maður spyr svo hvers vegna og fær svör sem benda til þess að venjuleg eðlisfræði virki ekki hér á landi, þá endar það með því að maður kannar málefnið til fulls. Þá kemur margt fleira í ljós en arkitektaskólamir kenna. Reyndar hefur þetta verið að breytast hjá ^þeim nú eftir að vistkreppan er orðin viðurkennd. Samhengi hlutanna er nauðsynlegur skilningi manna á tilverunni.

Lítið dæmi: Hefur þú nokkrum tíma spurt sjálfa þig þegar þú sturtar niður í klósettinu hvert skolpið fer? Hvað skeður við hinn endann? Það skiptir ekki máli þegar einn eða tveir losa klósettið en þegar hundruð þúsunda sturta niður í einu hvað skeður þá við hinn endann? Þetta er gott dæmi um það hve fólk almennt hugsar ekki um samhengi hlutanna. Þeir sem „útvíkka sviðið“ og fara yfir í vistfræðilega deildina láta sig slíkt varða. Þeir kaupa sér jafnvel vistrænt þurrklósett. En í augnablikinu skortir hér á skilning kerfisins að koma til móts við slíkar óskir t.d. með því að skipuleggja lítil hverfi þar sem allir sem vilja láta vistfræðileg lögmál gilda fái notið sín. Það er augljóst að slík einkavæðing frárennslismála mun spara kerfinu og þar með okkur ómældar upphæðir og skapa betra heilsufar í okkar veirudreifingar glaða landi með vindinum, ef slíkt verður ofaná.

H.h: Þegar þú gerir áætlanir um byggingar hvaða sjónarmið ráða hjá þér við val á byggingarefnum?
EÞ:
Þessa dagana er áhugi minn að færast æ lengra frá dauðum efnum. Ég hef ávallt verið hrifinn að timbri til íbúðagerðar. Og þá er ég að tala um timbur frá löndum sem planta tveim trjám fyrir hvert eitt sem þau fella eins og í Noregi. Það fer að skipta máli hve það rýrir vistkerfið mikið að búa til hvert tonn afbyggingarefni: Á meðan það kostar 32000 kílóvattstundir fyrir ál og 10500 kwh fyrir stál, en 400 kwh fyrir límtré og 20 kwh fyrir timbur, þá er engin spurning að ég vel fremur tré eða límtré.

Steypa er góð til síns brúks, sem húsgrunnur eða umferðarmannvirki en ekki til þess að hafa inni í stofunni hjá sér. Það þarf ekki að koma neinum á óvart að í kjölfar vistkreppunnar munu áhrif á húsbyggingar helst verða þær, að þær verða grænni og lífrænni. Fyrstu grænu opinberu byggingamar eru ekki risnar en þær koma. Það er tímaskekkja að byggja opinberar byggingar úr áli eða stáli í dag nema þá e.t.v. á tunglinu. Auðvitað er þetta allt afstætt: Ál er gott í flugvélar og ál er ekki umhverfislega neikvætt ef það er framleitt úr hreinni orku. Það þarf að varast að gera trúarbrögð úr þessum nýju skoðunum. Hvað mig snertir er ég fylgjandi hátækni og geimiðnaði en það þýðir ekki sama og að ég telji húsbyggingarvanda mannsins fullleystan. Þvert á móti.

H.h: Hvernig sérðu framtíðina í þessum málum hérlendis?
EÞ:
Ég hygg að ákvarðanir í þessum málum sem öðrum hingað til verði teknar útí heimi fyrir okkur. Það er nú staðreynd að við erum þiggjendur í flestöllu því sem heitir tækni og iðnþróun, en einmitt árangur slíkrar iðju eru hlutirnir sem við notum dags daglega og teljum til vestrænnar menningar. Ein afundantekningunum eru þó húsin okkar, sem eru samkvæmt munnmælasögum þau bestu í heimi. Ekki þarfnú mikla kunnáttu til þess að sjá að þau hanga saman þrátt fyrir ranga og oft á tíðum kæruleysilega gerð. Ég minni á alkalískemmdirnar. Það sem stjórnar húsagerð hér.

Ingibjörg Sigfúsdóttir  skráði árið 1991



Flokkar:Umhverfið

%d