Perlur náttúrunnar

Rætt við Rannveigu Haraldsdóttur, Ingibjörg Sigfúsdóttir skráði

,,Náttúrunni nægist með lítið“. Með þessum orðum byrjar Alexander bóndi Bjarnason formála í kveri sínu ,,Um íslenskar Drykkurtir“, sem hann ritar árið 1859. Og seinna í sama formála ritar hann: „Jeg þori að fullyrða, að ef vjer þekktum þær mörgu og ágætu urtir lands vors, þeirra verkanir, krapt og eiginlegleika og hefðum hirðusemi til að safna þeim, hirða þær og geyma, en oss þætti ekki hver útlendur hégóminn betri og dýrmætari en hið góða, sem guð rjettir oss gefins í gegnum náttúruna, einmitt þar, sem hún er oss hagfelldust og hollust, þá gætum vjer lifað heilbrigðara, glaðara og sælla lífi en margir nú lifa, með því að nota þær urtir sem á landi voru bæði sjálfkrafa spretta og á því má rækta“.

Þó að 140 ár séu liðin síðan þetta var skrifað, á það enn vel við og ekki síður nú en þá. Sem betur fer erum við Íslendingar að vakna til vitundar um ágæti okkar eigin lands og það sem náttúran hefur uppá að bjóða. Þannig byrjaði samtal okkar Rannveigar Haraldsdóttur á Patreksfirði, sem hefur viðað að sér ýmsum gömlum fróðleik um meðferð jurta og nýtingu þeirra. Hér á eftir segir Rannveig okkur frá söfnun jurta og við forvitnumst um olíu og krem, sem hún hefur nýlega hafíð framleiðslu á.

Jurtatínsla
Best er að tína jurtir í þurrki og þá fyrri part dags. Ekki skal tína jurtir við vegabrúnir eða þar sem ryk þyrlast yfir þær, né nálægt mengunarvaldandi mannvirkjum. Þegar búið er að tína jurtirnar skulu þær sem fyrst hreinsaðar (fjarlægja visnuð blöð o.s.frv.) og þurrkaðar. Blóm og blöð má ekki þurrka í sól, aðeins ræturnar. Best þykir mér að binda þær saman í knippi og hengja upp í þvottahúsinu eða annars staðar, þar sem hlýtt er og sólin skín ekki inn, en smærri jurtunum dreifi ég á lök, sem ég breiði úr á gólfinu. Jurtirnar eru orðnar þurrar þegar hægt er að mylja þær í lófa sér. Jurtir sem erfitt er að þurrka, t.d. baldursbrá, þurrka ég í ofni við kaldblástur í nokkrar klst. og hengi síðan upp í knippi. Jurtirnar er ágætt að geyma í glerkrukkum, pappakössum eða jafnvel bréfpokum, en alls ekki í plasti eða plastpokum og þá er betra að búið sé að mylja þær smátt. Mjög erfitt er að ráðleggja einhverjar sérstakar jurtir til tínslu, því að þær eru svo margar góðar. Ég tel því aðeins nokkra sem hægt er að byrja á.

Birkilauf: Hægt er að byrja að tína birkilaufin strax í maí, nýblómstruð. Birkite er mjög bragðgott og talið vera styrkjandi, blóðhreinsandi, barkandi og lystaukandi. (Barkandi áhrif eru samandragandi og valda því að líkamsvessarnir þykkna).

Fífill, œtifífill:Fíflablöðin eða hrafnablöðkumar öðru nafni, er hægt að byrja að tína í maí (fyrir blómgun). Seyðið er talið örva hægðir og þvaglát, eyða bólgum (liðagigt), mýkjandi og þynna vessa. Áður fyrr voru framleidd fegrunarlyf úr fíflum. Einnig er ágætt að nota blöðin í salat og er þá betra að láta renna kalt vatn á þau fyrst, það tekur úr þeim remmuna.

Njóli, heimula: Best er að taka blöðin fyrir blómstrun þ.e. í maí- júlí. Njólinn er t.d. talinn barkandi, styrkjandi, hægðaaukandi, þvagaukandi og róandi. Seyði af njóla er líka gott að bera á húð við kláða og útbrotum. Einnig er njólinn góður í salöt.

Arfi (haugarfi): Takist rétt áður en hann blómstrar. Talinn vera kælandi, mýkjandi og græðandi. T.d. talinn græða sár í lungum og örva matarlyst. Verkanir arfans eru þær sömu þótt hann sé borðaður hrár t.d. í salöt. Hrafnablöðkur, njóla og arfa er gott að nota, hvort heldur saman eða ein sér í salöt eða jafninga.

Ljónslappi: Tínist helst fyrir blómstrun í júní. Talinn barkandi, styrkjandi og græðandi. Ljónslappann hef ég notað lengi með góðum árangri við hálsbólgu og hæsi. Einnig er hann góður við niðurgangi.

Rjúpnalauf, (holtasóley): Blómgast í maí-júní og er best að tína laufin fyrir blómgun. Talin styrkjandi og barkandi. Rjúpnalaufin eru mjög góð við magaverkjum og niðurgangi. Laufin nota ég bæði í seyði og eins tuggin, ný eða þurrkuð.

Vallhumall: Blómgast í júní-ágúst, Best þykir mér að tína hann þegar blómin eru farin að sjást (eru þá gráleit), en ekki fullblómstruð Vallhumallinn er talin ein fjölhæfasta lækningajurtin. Styrkjandi, græðandi, blóðhreinsandi og verkjastillandi (-eyðandi), bæði inn- og útvortis. Öll jurtin er notuð, þ.e. blóm, leggir og blöð.

Blóðberg: Blómgast íjúní. Talið betra að tína hana fyrir blómgun, en ég tíni hana alveg eins þótt hún sé með blómum og nota þá bæði blöð og blóm. Talin styrkja hjarta, höfuð og sinar, örvar þvag og tíðir, þynnir vessa, blóðhreinsandi og örvar svita. Blóðberg má alls ekki sjóða nema örstutta stund.

Vinsæl og góð teblanda
Blóðberg, rjúpnalauf og vallhumall. Einnig er mjög gott að bæta hárdeplu við þessa blöndu. Ýmsar aðrar tilfæringar er hægt að hafa við þessa jurtablöndu. Við hálsbólgu og kvefpestum nota ég t.d eini, einiber, elftingu, ljónslappa og hvannarótarbita, svo eitthvað sé nefnt. Þegar seyði er soðið, er best að setja blóðbergið útí rétt áður en suðutíma lýkur.

Te: Hellið sjóðandi vatni yfirjurtablönduna og látið trekkja í ca. 8-10 mín.
Seyði: Mjög misjafn suðutími. Þó er 20-30 mín. suða yfirleitt nokkuð hæfileg. Athugið að láta aldrei bullsjóða, bara þannig að suðan rétt haldist. Best þykir mér að nota hunang útí, hvort heldur það er te eða seyði. Ég vil biðja alla sem fara í jurtatínslu að fara vel með náttúruna. Ekki rífa upp rótina ef bara á að nota blómið eða legginn og ef nota á rótina, að skilja smá bút eftir ofan í jörðinni svo að jurtin geti vaxið þar aftur.

H.h. Rannveig vilt þú segja okkur frá jurtaolíunni og kreminu sem þú býrð til?
Jurtaolían er unnin úr íslenskum, græðandi, mýkjandi, bólgueyðandi og verkjastillandi jurtum og rót ásamt ólífuolíu. Ég er búin að vera að prófa mig áfram með hana í u.þ.b. 3 ár. Fyrst á lítil sár og fleiður, en svo fór ég að prófa hana á fleira t.d. brunasár, sólbruna, ýmis konar exem, kláða og útbrot, sprungnar varir, kuldaexem, gömul sár sem ekki vildu gróa, einnig á skurði. Jafnvel eftir skurðaðgerðir og alltaf komst ég betur og betur að því hvað hún virkaði vel. Fyrstu tilraunadýrin mín voru að sjálfsögðu meðlimir fjölskyldunnar og ég sjálf.

H.h. En af hverju byrjaðirðu á þessu?
Ég kynntist jurtaseyðum og áburðum sem barn, því móðir mín leitaði stundum til Ástu grasalæknis. Ég hef alltaf í sálu minni trúað á mátt jurta til lækninga og heilbrigðs lífernis og fannst það mjög eðlilegt þegar móðir mín notaði grasameðul. Sjálf byrjaði ég ekki að fást við þetta fyrr en ég fluttist vestur á Patreksfjörð. Ég byrjaði nú bara smátt, fór að laga te og svoleiðis, en svo smá þróaðist þetta og ég fór að geta hjálpað ættingjum og vinum með ýmsa kvilla, t.d. hálsbólgu, kvef, maga- og meltingarvandamál og blöðrubólgu með jurtaseyðum.

Nú, svo dreymdi mig stundum hvaða jurtir ég ætti að nota og til mín bárust bækur um þessi mál, sumar allt frá 18. öld. Reyndar gaf Ásrún, vinkona mín á Patreksfirði, mér fyrstu bókina mína um jurtir. Ég vil taka það fram að maðurinn minn og synir mínir hafa stutt mig og hvatt á alla lund og hjálpað mér við jurtatínsluna. Og kannski er árangurinn að þakka tilraunum mínum á þeim með allar þessar jurtir. Mig langaði líka til þess að búa til útvortis olíu eða áburð eða hvort tveggja, eins og ég hef nú gert. Ég fór að prófa mig áfram.

Ég var búin að ná þó nokkrum árangri, en var ekki fyllilega ánægð. Þá fór mig að dreyma ákveðna jurt, 3 nætur í röð, sem ég vissi að ég átti að nota í olíuna. Þá þekkti ég ekki þessa jurt, en svo skýrir voru draumarnir að ég þekkti hana þegar ég sá hana, enda fór ég strax að leita. Og viti menn, þetta var málið. Nú varð ég loks ánægð. Ég hef ekki gefið upp hvaða jurtir eru í olíunni, enda tel ég mig þá vera að skaða sjálfa mig og jafnvel landið okkar, því sumar jurtirnar eru fágætar og seinvaxnar og umgengni við jurtirnar og landið er ábyrgðarhluti. Ég t.d. hræðist útflutning á íslenskum jurtum eins og talað hefur verið um.

Ég er nýbyrjuð að búa til krem og nuddolíur, sem nú er verið að prófa. Á Heilsugæslunni á Sauðárkróki hefur Sigríður Pálmadóttir hjúkrunarkona notað kremið og olíuna á fótasár og hefur það gengið mjög vel, á sjúkrahúsinu hér á Patreksfirði er einnig nýbyrjað að nota kremið og allar jurtir sem eru í olíunni hefur Lyfjaeftirlit ríkisins fengið til umfjöllunar og fann ekkert athugavert við verkun þeirra.

H.h. Viltu segja eitthvað að lokum?
Ég er viss um að allir þeir sjúkdómar sem eru staðbundnir á Íslandi, er náttúran með lækningu við. Við þurfum bara að kunna að lesa hana og vera tilbúin að læra upp á nýtt. Lítum bara í kringum okkur, náttúran er alls staðar og tilbúin að vinna með okkur. Hún er stórbrotin og viðkvæm. Lærum að nota hana, en jafnframt að vernda hana og virða. Í íslenskri náttúru er mikill kraftur. Í einni lítilli jurt getur búið mikil kynngi, ferskleiki og heilbrigði. Landið okkar er ennþá hreint og fallegt, höldum því þannig.

 Flokkar:Jurtir

%d