Frábær heimatilbúinn andlits- og hálsmaski

Uppskriftina að þessum maska fékk ég í gamalli enskri náttúrulækningabók. Ég hef ásamt nokkrum vinkonum mínum prófað hann nokkrum sinnum, með svo góðum árangri, að ég get með mjög góðri samvisku mælt með honum. Best er að tveir eða fleiri hjálpist að, því það er svolítið erfitt að vera einn í þessu. Rífið niður gulrætur, helst lífrænt ræktaðar og bætið útí smávegis af safa úr nýkraminni sítrónu Hreinsið vel andlit og háls og þekið síðan vel með gulrótarmaskanum, en gætið vel að fara ekki of nálægt augum eða nösum. Liggið síðan út af með maskann á, í 20-30 mín.

Þá er komið að erfiðasta hjallanum, það má helst ekki hlæja. Ég get sagt ykkur að það er mjög erfitt, því maður er afskaplega afkáralegur með þennan grænmetisrétt framan í sér. Nú, síðan er maskinn hreinsaður af og húðin þvegin, fyrst með volgu sápuvatni og síðan með ísköldu vatni. Að síðustu ber ég svo jurtaolíu á andlit og háls. Og það er ekki að spyrja, maður er eins og nýsleginn túskildingur, fallega sólbrúnn og endurnærður eftir góða slökun.

Ó. V.Flokkar:Ýmislegt

%d