Trefjarík fæða hefur áhrif á sjúkdóminn,segir Jóhannes Gunnarsson læknir
„Gyllinæð er einn af algengustu kvillum sem hrjá mannfólkið. Tíðnin eykst með hækkandi aldri og er áætlað að minnsta kosti 50% þeirra sem eru fimmtugir eða eldri hafi við meira eða minna gyllinæðar-vandamál að stríða og er hún um það bil helmingi algengari hjá körlum,“ sagði Jóhannes Gunnarsson skurðlæknir á Borgarspítalanum, en tímaritið Hjartavernd segir frá niðurstöðum breskrar rannsóknar sem sýnir að rétt mataræði, trefjarík fæða, hafi áhrif á sjúkdóminn. Jóhannes sagði að gyllinæð væri í raun æðahnútur í endaþarmsopi, sem má rekja til aukins viðnáms við tæmingu blóðs frá kviðarholslíffærum, fyrirferðaraukningar eins og æxli eða þungunar, hjá konum. ,,Aðrar orsakir eru arfgengar. Fylgja ættum eins og æðahnútar á fótum og fer oft saman og loks harðlífi,“ sagði Jóhannes.
,,Langalgengasta orsök fyrir harðlífi er of lítil neysla á trefjaríku fæði auk almennt of lítillar hreyfingar og trassaskapur við að sinna hægðaþörf. Fólk ætti því að forðast mikla neyslu á brauði bökuðu úr hvítu hveiti, borða reglulega mikið af grænmeti og halda mjólkurdrykkju niðri. Drekka fremur ávaxtasafa. Kyrrsetumenn ættu að hreyfa sig reglulega. Góð byrjun er að nota stigana fremur en lyftur til að komast á milli hæða.
Leggja bifreiðinni á bifreiðastæði, fremur en ólöglega við anddyri hússins sem á að fara í og synda fremur en að liggja í heitu pottunum. Þetta kostar ekki neina dýra æfingagalla.“ Jóhannes benti á að hveitiklíð og hörfræ væri hægt að fá í náttúrulækningabúðum og apótekum auk annarra lyfja við harðlífi, sem gefin eru samkvæmt læknisráði. Hann sagði að minniháttar gyllinæð gæti verið án einkenna og þarfnast oft ekki annarrar meðferðar en trefjaríkari fæðu, sem getur komið í veg fyrir að sjúkdómurinn versni. Þetta fréttaviðtal birtist í Morgunblaðinu 20 júlí 1986 og er birt með leyfi höfundar.
Birt árið 1989
Flokkar:Líkaminn