Í samfélagi okkar hrjáir streita eða stress marga. En hvað er streita? Hvað gerist í líkamanum? Þegar álag eykst eða við lendum í erfiðum aðstæðum, fá nýrnahetturnar boð um að framleiða adrenalín. Adrenalín er hormón sem örvar andardrátt og hjartslátt. Andardráttur verður hraðari og blóðþrýstingur hækkar. Einnig koma önnur einkenni í ljós; vöðvarnir herpast, köldum svita slær út, við verðum máttlaus í hnjánum, föl, finnum fyrir svima og blóðsykur hækkar. Við erum í varnarstöðu, tilbúin að berjast eða flýja af hólmi. Þegar álagið minnkar slaknar á spennunni og við slökum á. En hvað gerist ef streituástand verður viðvarandi og hvíldartímabilin styttast?
Ef þetta ástand varir lengi, ef til vill í nokkur ár, fer líkaminn að gefa sig. Þreyta sækir á og ónæmiskerfið veikist. En er streita nýtt fyrirbæri? Nei, síður en svo, streita hefur alltaf fylgt mannkyninu. Í milljónir ára hefur’taugakerfi mannsins verið að þróast. Forfeður okkar lifðu við allt aðrar aðstæður, þeir þurftu að geta brugðist fljótt við ef hætta steðjaði að. Þá var streita þeim nauðsynleg til þess að lifa af. Taugakerfið þróaðist við þessar aðstæður og sýndi þau viðbrögð sem maðurinn þurfti þá. Í samfélagi okkar þurfum við minna á þessum viðbrögð um að halda. Raunar krefst nútíma samfélag þess að við útilokum þau. Ef við erum stöðvuð fyrir of hraðan akstur getum við ekki barist eða flúið af hólmi. Líkaminn bregst eftir sem áður þannig við, eftir sitjum við með innri spennu sem okkur gengur misvel að losna við. Streita er oft undanfari sjúkdóma. Varlega áætlað er talið að streita sé orsök 75-90% allra sjúkdóma.
Streita hefur áhrif á: háan blóðþrýsting, krabbamein, hjarta- og æðasjúkdóma, astma, sjúklega hræðslu (fobiur), áfengissýki, misnotkun lyfja, ofnæmi, lágan blóðsykur, svefnleysi o.fl.
Margir verða ekki beint veikir, en eru samt ekki alveg heilbrigðir. Þeir eru í ástandi mitt á milli. Þegar streituástand er orðið viðvarandi og vandmálin virðast óleysanleg er ástandið komið á alvarlegt stig. En hvað er unnt að gera til að takast á við streituna? Oft er það að lífsmáti okkar sem er ástæðan. Gerumvið ofmiklar kröfur? Reynum við ef til vill að gera of mikið á of stuttum tíma? Á allt að vera fullkomið? Ágætt er að líta nánar á þessa daglegu hluti. Hvernig líkar okkur vinnan? Hvernig er hjónabandið, samband við vini og ættingja?
Leiðir lífsmáti okkar til hamingju og gleði? Breytt hugarfar, gott mataræði, hreyfing og slökun eru nokkrir þeirra þátta sem geta hjálpað til. Gott mataræði skiptir máli. Mikilvæg steinefni eyðast hraðar við streitu. Rétt mataræði styrkir hjarta, nýru og nýrnahettur, en þessi líffæri eru undir miklu álagi. Slæmar matarvenjur valda ekki streitu en til dæmis feitur matur, áfengi, sykur og matur með aukefnum létta ekki undir heldur þvert á móti auka álagið á líffærunum. Góð leið til að takast á við streitu er að ástunda slökun. Þegar slakað er á i 15-20 mínútur eiga ýmsar breytingar sér stað í líkamanum: Súrefnisþörf minnkar, efnaskipti verða hægari, blóðþrýstingur lækkar, vöðvaspenna minnkar. Magn lakatat minnkar (lakatat er mjólkursýrusalt).
Lakatat er efni sem myndast við efnaskipti í vöðvunum og ef það safnast saman í blóðinu getur það valdið hræðslu, áhyggjum og ótta. Mjólkursýra, ef hún safnast fyrir, getur einnig orsakað þreytutilfinningu. Eftir slökun erum við einnig opnari og móttækilegri fyrir nýjum hugmyndum og eigum auðveldara með að leysa vandamál. Einnig eru þeir sem ástunda slökun reglulega afslappaðri og hafa minni áhyggjur.
Allir geta lært að slaka á en það gildir um slökun eins og flest annað, að ef árangur á að nást þarf að gefa sér tíma og gera æfingar reglulega. 1 byrjun er oft gott að nota segulband og hlusta á æfingarnar. Bæði er hægt að kaupa band eða lesa sjálfur inn á bandið eftir ákveðnum reglum. Nauðsynlegt er að slökunin vari í 15-50 mínútur daglega ef vænta á góðs árangurs. Hér verður sagt frá einni slökunaraðferð; margar fleiri eru til og fólk verður oft að þreifa sig áfram og finna þá aðferð sem hentar. Þessa æfingu er einnig unnt að lesa inn á band og gefðu þér góðan tíma fyrir hverja æfingu. Ágætt er að hafa um það bil 20 sek. milli æfinga.
1) Komdu þér vel fyrir á rólegum stað, dempaðu ljósið, lokaðu dyrunum. Sestu í þægilegan stól, hafðu fæturna á gólfinu
og lokaðu augunum. Einnig má liggja á gólfinu.
2) Beindu athyglinni að andardrættinum.
3) Dragðu andann djúpt nokkrum sinnum og endurtaktu í huganum ,,ég slaka á“ þegar þú andar frá þér.
4) Beindu nú allri athyglinni að andlitsvöðvunum og taktu eftir spennunni, andardrætti og augum. Sjáðu fyrir þér mynd af
þessari spennu, hún gæti verið eins og reipi með hnútum á. Sjáðu fyrir þér spennuna leysast upp og verða eins og
slök teygja.
5) Taktu eftir hvernig öll spenna hverfur úr andliti og augum. Þegar spennan hverfur og slaknar á, finnurðu hvernig hún
breiðist út um allan líkamann.
6) Spenntu andlitsvöðvana og þrýstu augnlokunum saman. Haltu spennunni og gerðu nú hið gagnstæða við spennu,
slakaðu á og finndu hvernig slökun breiðist út um allan líkamann.
7) Notaðu nú þessa sömu aðferð á allan líkamann; kjálkana, hálsinn axlirnar, hrygginn, handleggi, hendur, brjóstið,
magann, fæturna, ökklana, tærnar eða þar til allur líkaminn er orðinn slakur. Finndu spennuna í hverjum líkamshluta og
sjáðu síðan fyrir þér hvernig spennan leysist upp og hverfur. Endur taktu þetta síðan, spenntu vöðvana og gerðu
síðan hið gagnstæða, slakaðu á.
8) Þegar þú hefur slakað á öllum líkamanum, láttu þá fara vel um þig í nokkrar mínútur eða eins lengi og þig langar til.
9) Þegar þig langar til að vakna þá skaltu hleypa ljósinu í gegnum augnlokin og búa þig undir að opna augun og skynja
umhverfið.
10) Opnaðu augun og þér líður vel og ert tilbúinn að taka á verkefnum sem bíða. Til að byrja með getur verið erfitt að
einbeita sér að slökun. Láttu það ekki slá þig út af laginu, það er aðeins eðlilegt, árangurinn kemur brátt í ljós.
HEIMILDIR: Berger, Barbara: Kvinde du kan, Borgen, 1987. Simonton, 0. Carl; Somonton, Stephanie Matthews; Greighton, James L.: At blive rask igen, Borgen, 1987.
Höfundur: Berglind Guðmundsdóttir ári 1988
Flokkar:Fjölskylda og börn, Greinar