Úr einu í annað

Svíar vara við amalgami
Sænsku heilbrigðisyfirvöldin hafa nú gefið út yfirlýsingu um að tannfyllingarefnið „amalgam“ sé hættulegt og þurfi að skipta á því og öðrum skaðlausum fyllingarefnum. Þessi yfirlýsing hefur vakið athygli og kom á óvart, vegna þess að þessi sömu heilbrigðisyfirvöld höfðu áður hundsað aðvaranir frá fjölda vísindamanna. Aðvörunin þýðir kúvendingu í margra ára rimmu sem staðið hefur í Svíþjóð. Fjöldi aðvarana frá ótal vísindamönnum höfðu ekki áður megnað að hreyfa við sænskum heilbrigðisyfirvöldum, sem töldu að skaðinn af amalgaminu væri gróflega orðum aukinn. Einnig bentu heilbrigðisyfirvöldin á það að ennþá hefði ekki fundist neitt tannfyllingarefni sem komið gæti að fullu í stað amalgams.

Nú hafa rannsóknir annars staðar í heiminum verið staðfestar með sænskum rannsóknum. Það fékk sænsku heilbrigðisyfirvöldin til að skipta um skoðun og viðurkenna að þau hefðu vanmetið heilsutjónið af amalgamfyllingunum. Nú fyrirskipa heilbrigðisyfirvöldin að hætt sé að nota fyllingar með kvikasilfri í, eins fljótt og unnt sé. Einnig vara þau þungaðar konur við að vinna við amalgam t.d. á tannlæknastofum. Þá vilja þau láta rannsaka, hvort fólk sem vinnur á tannlæknastofum eignist óeðlilega oft vansköpuð börn.

Sænski félagsskapurinn „Tannskaðasambandið“ (Tandskadeförbundet), sem er félag fólks með vandamál eftir  tannviðgerðir, krefst þess að amalgam verði bannað nú þegar. Það er þó ekki hægt, vegna þess að sumir tannlæknar telja önnur fyllingarefni ekki nægjanlega sterk í jaxla, þó að aðrir noti þau og telji vel viðunandi. Á síðustu árum hafa vísindamenn fengið ótal mismunandi upplýsingar um amalgam. Fólk með amalgam í tönnunum andar frá sér að jafnaði þrem til fimm míkrógrömmum kvikasilfurs í rúmmetra lofts. Þetta magn vex þó meira en tífallt þegar tuggið er eða drukknir eru heitir drykkir og sér í lagi, þegar neytt er súrrar eða saltrar fæðu. Upplýsingar þessar er fengnar frá „Statens Miljömedicinska  Laboratoríum í Stokkhólmi. 

Þessi gildi eru hærri en staðall Alþjóða heilbrigðisráðsins (WHO) fyrir mengun á vinnustað í 8 tíma á dag, sem er 25 míkrógrömm í rúmmetra lofts. skýrsla í læknatímaritinu „The Lancet“ segir frá athugunum á kvikasilfri í heila tannlækna og aðstoðarfólks þeirra. Það fólk hafði að meðaltali 1305 ppb (milljörðustu hluta úr grammi) kvikasilfurs í heilavef. Til samanburðar höfðu tannlausir einstaklingar aðeins 5-10 ppb, en fólk með amalgam tannfyllingar 78 ppb kvikasilfurs í heilavef. Ég hef áður skrifað um þetta sama efni hér í blaðið og fengið heldur kaldar kveðjur frá íslenskum heilbrigðisyfirvöldum og því miður, einnig frá sumum tannlæknum, m.a. í Tannlæknadeild Háskóla Íslands. Nú spyr ég og krefst málefnalegs svars: Hvenær ætla íslensk heilbrigðisyfirvöld að láta sér segjast og gera eitthvað í málinu, annað en að senda í fjölmiðla yfirtannlækni Heilbrigðis- og Tryggingaráðuneytis og láta hann reyna að útskýra fyrir fólki alvarlegt vandamál sem hann augljóslega hefur ekkert hirt um að kynna sér?



Flokkar:Úr einu í annað

%d bloggers like this: