B3 vítamín gegn áfengisfíkn verkar.
Í síðasta blaði H.h. var stutt grein um tilraunir bandarískra vísindamanna til að lækna áfengis- og eiturlyfjafíkn með stórum skömmtum af B3-vítamíni. Greinarhöfundur veit um að nokkrir einstaklingar hér á landi eru nú að prófa þetta á sjálfum sér, en hefur ekki getað aflað sér vitneskju um árangur, nema í einu tilfelli. Í því tilfelli var um að ræða mann sem drukkið hafði mjög mikið og illa í áratugi. Í byrjun jan. s.L, var svo komið að hann var búinn að fá skorpulifur á svo háu stigi, að læknar tjáðu honum að dauðinn biði hans innan nokkurra vikna, ef hann hætti ekki algjörlega að smakka vín á stundinni. Andlegt ástand hans og fíkn í áfengi var þá komin á það stig, að hann treysti sér ekki til að hætta drykkjunni, jafnvel þó að honum væri gert ljóst að áframhaldandi drykkja jafngilti dauðadómi. Móðir hans hafði verið sagt frá greininni í Journal of Orthomolecular Medicine, sem sagt var frá í síðasta blaði, og ákvað að gera lokatilraun til að reyna að bjarga lífi sonar síns. Hún keypti fullt glas af B3 vítamíni (nikótínamid), ásamt nokkrum fleiri vítamínum, og fór með til sonar síns. Hann féllst á að taka þau og byrjaði strax á því og hætti drykkjunni samdægurs.
Þessi maður hafði oft áður hætt drykkju eftir margra vikna fyllirí. Líðan hans var þá yfirleitt mjög bágborin fyrstu vikuna og jafnvel miklu lengur. Hann fékk stundum drykkju-brjálæði (delirium tremens), sá ofsjónir og yfirhöfuð var líðan hans hörmuleg. En nú brá svo við að ekkert af þessum einkennum gerði vart við sig. Fráhvarfseinkenni voru lítil sem engin og ekki vottur af deliríum tremens eða öðrum einkennum sem vön voru að hrjá hann þegar líkt stóð á. Að nokkrum dögum liðnum var hann orðinn eins og nýr maður, að sögn móður hans, og hresstist með degi hverjum og löngun í áfengi virtist að mestu eða öllu horfin. Hann hélt áfram að hressast og vikur og mánuðir liðu. Að sögn móður hans mundi hún ekki eftir honum jafn hressum síðan hann var unglingur. Honum fannst nú að óhætt mundi að slaka á og draga úr töku vítamínanna og fór að trassa að nota þau. Ekki leið á löngu þar til gamla löngunin í áfengið vaknaði á ný og hann drakk sig fullan eitt kvöld.
Morguninn eftir, þegar hann rankaði við sér, fylltist hann ótta yfir að nú væri öll hans viðleitni unnin fyrir gíg. Hann náði í glösin með vítamínunum og tók fullan skammt. Þá var eins og við manninn mælt að löngun hans að halda drykkjunni áfram hvarf og hann drakk ekki meira í það skiptið. Slíkt hafði aldrei áður skeð, ef hann hafði lent á fylliríi eftir að hafa verið „þurr“ í langan tíma. Eftir því sem greinarhöfundur veit best, hefur líkt tilvik gerst einu sinni síðan, án þess að alvarleg drykkja yrði úr, en að öðru leyti hefur maðurinn staðið sig vel og er við góða heilsu. Reynsla þessa einstaklings sýnir að nikótínamid (B3) í risaskömmtum dregur mjög úr áfengisfíkn og fráhvarfseinkennum eftir langvarandi ofdrykkju. Einnig hindrar það deliríum tremens fullkomlega. Auk þess sýnir reynsla þessa manns að sé dregið úr vítamíngjöfinni eða henni hætt, sígur fljótlega aftur á ógæfuhliðina.
Allt þetta fellur mjög vel saman við erlendar upplýsingar um þetta efni. Magn það af nikótínamid, sem þessi maður notaði fyrstu vikurnar var 750 mg. á dag, tekið nokkrum sinnum yfir daginn. Engra aukaverkana varð vart. Þeir sem áhuga hefðu á að notfæra sér B-3-vítamín gegn áfengisfíkn, ættu ekki að byrja með minni skammt en 500 mg. á dag. Of lítill skammtur er líklegur til að valda vonbrigðum og vantrú á gagnsemi meðferðarinnar. Síðar má gera tilraunir með smærri skammta og fínna þá hvaða lágmarksskammtur dugir fyrir hvern einstakling. Auk nikótínamid er rétt að nota einnig blönduð B-vítamín, C- og E-vítamín, en ekki ætti að þurfa að nota þau í risaskömmtum. Lík meðferð og hér hefur verið lýst hefur verið notuð, með mjög góðum árangri í Ameríku, við sumum afbrigðum geðklofa. Um það ætla ég þó ekki að ræða hér, en hef hug á að gera því efni skil síðar.
Megrandi fita.
Í síðasta aprílhefti tímaritsins „The Economist“ í kaflanum um tækni og vísindi, er grein sem nefnist „Fitan sem grennir fólk“. Þar er sagt frá nýju fituefni sem fundið var upp árið 1971 af fjölþjóðafyrirtækinu Procter & Gambler. Nú fyrst er þetta efnasamband að koma fram í sviðsljósið. Efnafræðilega er það sykur-polyester, skammstafað „SPE“ og lítur út líkt og fita, en er í raun langar fitusýrukeðjur tengdar sykri. Efnið fannst af tilviljun, þegar vísindamenn voru við rannsóknir á auðmeltum fitum til að nota í fæðu fyrir ungbörn sem fæddust fyrir tímann. SPE má nota í matreiðslu á sama hátt og smjörlíki eða aðrar matarfitur, en er að því leyti frábrugðið venjulegri fitu, að meltingarhvatar geta ekki brotið það niður og það fer ómelt í gegnum meltingarveginn og gefur því engar hitaeiningar út í líkamann. Tilraunir hafa verið gerðar með það gegn offitu við Háskólann í Cincinatti. Tíu einstaklingar með offituvandamál fengu 60 grömm af efninu í 20 daga. Að meðaltali léttust þeir á milli þrjú og fjögur kg.
Einnig kom í ljós að efnið hafði öflug áhrif gegn kólesteróli. Svo virðist sem það drekki í sig kólesteról í þörmunum, bæði úr annarri fæðu, og einnig kólesteról sem berst með gallinu inn í meltingarveginn. (Sama gera einnig trefjar í fæðu). Rannsóknirnar sýndu að efnið lækkaði „slæma kólesterólið“, lágþéttni lípópróteinin í blóðinu um 20% og einnig „triglyceriðin“ í blóðinu, en hvortveggja þessara efna eru talin flýta fyrir æðakölkun. Um leið virtist það hækka lítils háttar háþéttni lípóprótein í blóði, sem einnig er talið gott fyrir æðarnar og hindra kransæðasjúkdóma. Efnið hefur þó sína ókosti að sögn blaðsins. Það tekur í sig fituleysanleg vítamín úr fæðunni, þ.e. A, D, E og K; sérstaklega A og E. Því má búast við að nauðsynlegt sé að bæta fæðuna upp með þessum vítamínum ef efnið er notað. Einnig verkar efnið dálítið laxerandi, sé það notað í stórum skömmtum. Japanska fyrirtækið „Mitsubishi Kasei“ er lítils háttar farið að nota afbrigði af SPE í súkkulaði, en annars hefur notkun þess í matvörur ekki verið leyfð annars staðar. Búist er þó við því að skammt verði í það að einhver lönd leyfi notkun þess.
Framleiðendur hafa lagt inn hjá bandaríska Matvæla- og lyfjaeftirlitinu tvær umsóknir fyrir efninu. Aðra sem lyf gegn offitu og háu kólesteróli í blóði, en hina sem bætiefni í matvöru. Búist er við að nokkur ár líði þar til leyfin verða veitt. Ýmis fleiri fyrirtæki hafa sýnt málinu mikinn áhuga og eru að þróa ný afbrigði efnisins. Því er ekki ólíklegt að áður en langt um líður fáum við hitaeiningasnautt smjör líki, „rjómaís“, matarolíur og bökunarfeiti. Sá sem skrifar þetta rabb vill á þessu stigi málsins ekki leggja neinn dóm á ágæti þessa nýja fituefnis. Margt er enn óljóst um hugsanlegar aukaverkanir af langtímanotkun þess og efnasambandið er engan veginn „náttúrulegt“. Vel má þó vera að í ljós komi að þetta sé gagnlegt efni fyrir fólk með viss heilsufarsleg vandamál. Þar verður reynslan og áframhaldandi rannsóknir að skera úr um. Ég segi hér frá þessu til þess að lesendur blaðsins geti fylgst með þróun málanna og viti um hvað er verið að ræða, ef boðið skyldi verða hér upp á „SPE“, nýtt undralyf gegn offitu.
Hitaveituvatn og snefilefni
A síðari árum hefur áhugi fyrir snefilefnum og mikilvægi þeirra aukist umtalsvert. Þetta stafar m.a. af því að meira er nú vitað um hlutverk þeirra í líkamsstarfseminni en áður var og hefur sú vitneskja leitt til þess að snefilefni, sem áður voru annaðhvort talin ónauðsynleg eða jafnvel skaðleg, eru nú allt í einu viðurkennd sem ómissandi næringarefni. Gott dæmi um þetta er t.d. snefilefnið selen, sem hér á landi var lengi bannað, sem frægt er orðið, og flokkað með hættulegum eiturefnum, en er nú viðurkennt sem ómissandi í daglegri fæðu, eins og við hér í þessu blaði höfðum reyndar haldið fram fyrir daufum eyrum Lyfjanefndar árum saman. Nýjar upplýsingar benda til að ýmis fleiri snefilefni’séu kannski ekkert síður mikilvæg, t.d. króm í sambandi við sykurefnaskipti, kobalt í sambandi við blóðmyndun og molíden, vanadíum og sérstaklega germaníum í sambandi við starfsemi ónæmiskerfisins.
Vegna óheppilegra ræktunaraðferða, þar sem tilbúinn áburður er eingöngu notaður á þrautpínda jörð, hefur snefilefnainnihald flestrar matvöru, annarrar en sjávarfangs, stöðugt verið að lækka. Nútíma vinnslutækni á kornvörum rýrir enn frekar bæði stein- og snefilefnainnihald þeirra. Því má gera ráð fyrir því að oft skorti verulega á um að lágmarksþörfum á þessum efnum sé fullhægt með nútímamataræði. Því er orðið brýnt að finna einhverja leið til að basta úr þessu á öruggan og ódýran hátt. Ég fór að gamni mínu að kynna mér lítils háttar snefilefnainnihald í íslensku vatni með því að líta í doktorsritgerð Stefáns Arnórssonar, prófessors, en hann er sennilega okkar færasti sérfræðingur í þeim efnum og doktorsritgerð hans fjallar um uppleyst efni í íslensku jarðhitavatni. Í flestu íslensku jarðhitavatni er umtalsvert magn snefilefna, en töluvert mismunandi eftir stöðum og jafnvel einstökum borholum eða laugum á sama svæðinu. Áhugi minn beindist einkum að hitaveituvatni víðs vegar um landið og sér í lagi að snefilefninu germanium, sem eins og áður segir er nú sérstaklega í sviðsljósinu í sambandi við starfsemi ónæmiskerfisins.
Germanium er nú af sumum talið geta hindrað krabbameinsvöxt, auk þess sem skortur þess gæti m.a. verið þáttur í gigtarsjúkdómum, ofnæmi, sjálfsónæmissjúkdómum, og veiru og sveppasýkingum. Vitað er að mikið germanium finnst í ýmsum heilsu- og laskningajurtum, t.d. lauk og hvítlauk og rússneskri rót (Síberíuginsengi). Íslenskt hitaveituvatn er til þess að gera auðugt af germanium, molibden og vanadium, auk nokkurs selens, en því miður hef ég ekki tölur um seleninnihald. Einna mest er af germanium í hitaveituvatni í Varmahlíð í Skagafirði og þar næst að Reykjum í Hrútafirði. Húsavík er einnig með nokkuð hátt germaníuminnihald en aðrir staðir eru nokkru neðar, t.d. Reykjavík.
Ölkelduvatn frá Lýsuhóli á Snæfellsnesi er í sérflokki með meira en tíu sinnum meira germaníum en Reykjavík. Sá galli fylgir þó gjöf Njarðar, að það er með hundrað sinnum hærra blýinnihald en flest hitaveituvötn á Íslandi. Þess vegna er sennilega ekki æskilegt að nota það í mjög stórum stíl til drykkjar, því að í því er nálægt því 0,3 mg. af blýi í lítra. Í flestu hitaveituvatni er lítils háttar af flúor í náttúrulegum samböndum. Yfirleitt er magn hans milli 0,5-2,0 mg. í lítra, nema á Lýsuhóli og Reykjum v/Reykjabraut, Hún., þar sem það er nokkru hærra, eða 5,6 og 4,0 mg. í lítra. Í Reykjavík er flúormagn 0,5-1,4 mg. í lítra, svo að líklega ætti að vera óhætt að drekka eða nota á annan hátt til matar allt að því hálfan annan lítra á dag, án hættu á flúoreitrun, ef annars flúors er ekki neytt teljandi. Vegna þess að þetta rabb er ekki hugsað sem nein endanleg úttekt á snefilefnainnihaldi hitaveituvatns, sem væri efni í langa grein, ætla ég að láta hér staðar numið, en benda lesendum á að ekki sé óskynsamlegt að nota hitaveituvatn sem mest við matartilbúning og fá þannig ókeypis aukaskammt af snefilefnum saman við matinn.
Flokkar:Úr einu í annað