Nýjar leiðir í krabbameins lækningum 1987

Formáli
Meðan Marteinn sálugi Skaftfells skrifaði í þetta rit sá hann um greinaflokk með þessu nafni. Við andlát hans féll því þessi greinar flokkur niður um sinn. Það var þó ekki vegna þess að ekki hafi verið af nægu efni að taka, því að á undanförnum árum hefur sennilega meira verið ritað um nýja valkosti í krabbameinslækningum en nokkurn tíma áður í erlend blöð og tímarit. Margir hafa komið að máli við þann er þetta ritar og sagt, að nauðsynlegt sé að lesendur blaðsins eigi þess kost að fylgjast með því helsta sem er að gerast í þessum málum erlendis.

Ég hef í nokkur ár safnað að mér öllu því efni sem á fjörur mínar hefur rekið, um óhefðbundnar krabbameinslækningar, enda haft sérlegan áhuga á þeim málum. Því ber þó ekki að leyna að það er með hálfum huga að ég tek nú að mér að endurlífga þennan greinarflokk, sem líklega verður fastur liður í blaðinu næstu árin. Bæði er það að viðkvæmt mál er að skrifa um efni sem varðað getur líf eða dauða fjölda fólks. Einnig óttast ég harkaleg viðbrögð aðila sem  kunna að telja sér málið skylt og finnst e.t.v. að ég sé að blanda mér í hluti sem ég hafi ekkert vit á og komi heldur ekki við.

Margt af því sem ég kem til með að ræða í þessum skrifum á vafalaust eftir að valda umtali og deilum. Við því er lítið hægt að sporna og nýjar hugmyndir sem allir eru sammála um eru ólíklega mikils virði. Ég mun reyna að segja eins satt og rétt frá því sem um er rætt og þekking mín og vit gerir mér kleift og reyna að forðast öfgar og vafasamar fullyrðingar. Framtíðin ein verður svo að skera úr því hvort þessi skrif geta orðið einhverjum sem leiðarsteinn til að ná landi í þeim hrakningum sem ýmsir hafa orðið fyrir í baráttunni við þennan sjúkdóm, sem stundum hefur varla mátt nefna sínu rétta nafni.

Ég er sannfærður um það, að bjarga mætti mörgum mannslífum og gefa ótal þjáðum einstaklingum nýja von, ef öll sú þekking á óhefðbundnum krabbameinslækningum, sem til er á þessari stund, væri nýtt til hins ýtrasta og þó að þessi skrif gætu aðeins orðið til að hjálpa einum einasta dauðvona sjúklingi væru þau ekki einskis virði. Fullviss um að þessi sannfæring mín sé rétt  hef ég því þessi skrif.

Inngangur
Krabbamein er einn sá sjúkdómur sem leggur flesta af velli hér á landi og í öðrum vestrænum samfélögum. Oft er krabbamein talið til svokallaðra menningarsjúkdóma, þó að líklegt megi telja að það hafi fylgt mannkyninu frá upphafi. Hinar raunverulegu orsakir þess eru þó ennþá ekki að fullu þekktar, þó að fjölmargt sé vitað um einkenni þess og framvindu. Margir telja krabbamein ekki vera einn sjúkdóm, heldur fjölmarga mismunandi sjúkdóma, sem allir hafi þó viss sameiginleg einkenni. Hin sameiginlegu einkenni allra krabbameina er stjórnlaus fjölgun einhverra ákveðinna fruma eða frumuhópa.

Fyrr eða síðar kemur að því að þessar frumur fara að vaxa inn í einhver mikilvæg líffæri eða líffasrakerfi og trufla starfsemi þeirra líffæra eða líkamans í heild. Sé ekkert að gert, endar þetta með því að eitthvert mikilvægt líffæri eða líkaminn í heild verður óstarfhæfur og einstaklingurinn deyr. Mjög misjafnt er hversu þessi þróun tekur langan tíma, allt frá nokkrum dögum frá því að fyrstu einkenna verður vart, upp í áratugi. Flestir krabbameinssérfræðingar telja nú að byrjun krabbameins sé sú að stökkbreyting verði í erfðaefni einhverrar frumu, oft af þekjufrumugerð. Við það hættir fruman að hlíta stjórnkerfi líkamans og fer að skipta sér stjórnlaust.

Ef ónæmiskerfi líkamans uppgötvar þetta ekki í tíma og grípur í taumana með því að tortíma afbrigðilegu frumunum, verður úr þessu krabbamein. Sumir vísindamenn telja að stöðugt séu að myndast í líkamanum slíkar afbrigðilegar frumur, en ónæmiskerfið finn þær jafnóðum og eyði. Sé sú kenning rétt, er krabbamein í raun og veru sjúkdómur í ónæmiskerfinu og fyrirbygging og jafnvel lækning væri í því fólgin að koma ónæmiskerfínu aftur í lag. Allt sem truflar eða skaðar ónæmiskerfið gæti því aukið líkur á krabbameini og gert lækningu torveldari. Einnig hefur verið bent á að ýmis efnasambönd og aðrir umhverfisþættir geti stuðlað að stökkbreytingum í frumum. Þá verði e.t.v. til á skömmum tíma fjöldi afbrigðilegra fruma. Slíkt gæti valdið óeðlilega miklu álagi á ónæmiskerfið, sem þá e.t.v. réði ekki við að tortíma öllum afbrigðilegu frumunum og útkoman yrði krabbamein.

Umhverfisþættir sem valdið geta stökkbreytingum í frumum eru fjölmargir, t.d. ýmis efnasambönd og jónandi geislar, þ.e. röntgengeislar, kjarnorkugeislar og útfjólublátt ljós. Efnasamböndin sem valdið geta stökkbreytingum eru næstum því óteljandi, en má skipta í tvo hópa, sem eru efnasambönd sem við fáum í líkamann utan frá, og efnasambönd sem myndast í líkamanum sjálfum úr öðrum skaðlausum efnum. Nánar verður síðar farið út í þá sálma. Mikið hefur verið rætt og ritað um hugsanlegan þátt veira í breytingu erfðaefnis fruma.

Nú er talið næstum því fullvist að sumar veirur geti komið af stað krabbameini í fólki. Ýmsar algengar veirur hafa þar verið nefndar t.d. veirur sem valda áblástri þ.e. „Herpes simplex“. Ekki er auðvelt að sanna þetta fullkomlega, m.a. vegna þess að flestir ganga með herpes veirur í sér mestalla ævina Ekki er ólíklegt að næmi fólks til að sýkjast af krabbameini gangi eitthvað í erfðir, þó að ólíklegt sé að rétt sé þar að tala um erfðagalla. Einnig er ólíklegt að um eiginlega smitun sé að ræða, jafnvel þótt veirur ættu stundum þátt í sjúkdóminum. Þær veirur væru að öllum líkindum algengar í umhverfinu og findust í flestum einstaklingum, bæði heilbrigðum og sjúkum. Böndin berast því aftur að ónæmiskerfinu.

Hugmyndir um lækningu krabbameins hafa einkum beinst inn á tvær brautir: Að leiðrétta ónæmiskerfíð og að fínna efnasambönd eða aðra meðferð sem tortímir sýktum frumum án þess að skaða heilbrigðar. Frá því um miðja öldina hafa læknavísindin einkum hallast að þeirri síðari, illu heilli myndu sumir e.t.v. segja. Nú á allra síðustu árum hefur áhuginn aftur beinst að ónæmiskerfínu og ýmislegt bendir nú til að stórra tíðinda megi vænta frá þeim rannsóknum innan tíðar. Lengi hafa sumir haldið því fram að mataræði gegni lykilhlutverki við fyrirbyggingu og lækningu krabbameins. Nú er svo komið að fullar sannanir eru komnar fyrir þessu.

 Bandaríska Krabbameinsfélagið gaf nýlega út bók með nafninu „Mataræði og krabbamein.“ Niðurstöður þeirrar bókar eru að fullsannað sé að stóran hluta krabbameina megi rekja til óheppilegs  mataræðis. Þetta er einmitt hið sama og náttúrulækningafólk og ýmsir aðrir hafa haldið fram áratugum saman, oft við litlar undirtektir þeirra sem best töldu sig vita á þeim tíma. Birtar hafa verið mjög athyglisverðar frásagnir af fólki sem telur sig hafa hlotið lækningu ýmiskonar krabbameina með því að breyta um mataræði.

Notkun fæðubótarefna við krabbameinslækningar er einnig vel þekkt og er þar e.t.v. fremst á blaði lækningatilraunir nóbelsverðlaunahafans dr. Línus Paulings og dr. Ewan Camerons með C-vítamín, sem við höfum sagt áður frá hér í blaðinu. Á síðari árum hefur verið sagt frá fjölda náttúrulegra efna og efnasambanda sem reynst hafa vel við krabbameini. Þar er um að ræða jurtalyf af ýmsu tagi t.d. birkiösku, trjábörk frá Suður-Ameríku  (La Pacho), efnasambönd úr möndlum og apríkósukjörnum (Laetrile), hvítlauk, Síberíu ginseng, flavonoid-efni, mistiltein og ótal margt fleira.

Eitt það nýjasta er notkun á hákarlalýsi sem búið er að gera rannsóknir á í Svíþjóð í meira en þrjá áratugi og niðurstöður voru birtar af skömmu fyrir síðustu áramót. Það sem helst hefur verið gagnrýnt í sambandi við alls konar „náttúrulyf“ við krabbameini, er að ekki hafi verið gerðar nægilega góðar rannsóknir á þeim, helst tvöfaldar blindprófanir. Þessi gagnrýni er sjálfsagt oft réttmæt, en benda má á því sambandi að engar nothæfar blindprófanir eru heldur til á verkunum neinna hefðbundinna krabbameinslyfja eða meðferðar.

Þar er því jafnt á komið. Notkun andoxara þ.e. A-vítamíns, C-vítamíns, E-vítamíns, zinks og selens, sem fyrirbyggjandi meðferðar hefur nú að mestu hlotið almenna viðurkenningu, t.d. gaf bandaríska Krabbameinsfélagið fyrir nokkru út yfirlýsingu um ótvíræða fyrirbyggjandi eiginleika beta-karótíns gegn lungnakrabbameini, en beta-karótin myndar A-vítamín í líkamanum, en veldur ekki eitrunaráhrifum í stórum skömmtum eins og A-vítamín gerir.

Einnig hér á Íslandi hefur komið fram  jurtalyf sem virðist oft koma að gagni, en ennþá vantar þó vísindalega staðfestingu á því. Í Bandaríkjunum og víðar hefur verið töluvert skrifað um svokallaða „hitameðferð“ gegn krabbameini, en þá er æxlið hitað með sérstökum aðferðum upp í 43°C. Krabbameinsfrumurnar deyja við þennan hita, en heilbrigðar ekki. Tæknileg vandkvæði hamla þó framkvæmd þessarar með ferðar, sem annars er athyglisverð. Nýjar ,,hefðbundnar“ aðferðir eru einnig í þróun, t.d. ný stórum betri frumudrepandi lyf, en nú eru í notkun.

Athyglisverðust eru þó sennilega efnasambönd sem líkaminn sjálfur myndar og eru hluti ónæmiskerfisins t.d. „interferon“ og ,,mterleukm-efni“ og svo kallaður „tumour nacrosis-factor“. Ónæmisaðgerðir gegn krabbameini, eins konar bólusetning er einnig í þróun. Augljóst er því að margt er að gerast í þessum málum og full þörf á að gefa íslenskum lesendum kost á að fylgjast með því eftir föngum. Í næstu blöðum mun ég segja frá einhverju af því sem hér hefur verið stiklað á og e.t.v. fá einhverja sérfræðinga á ákveðnum sviðum  til að skrifa um sérhæfð efni

Hákarlalýsi
Alllangt er síðan hugmyndir komu upp um það að í hákörlum væri eitthvert það efni, sem hindraði eða læknaði krabbamein. Talið er að hákarlar séu eina skepnan sem ekki sé hægt að sýkja af krabbameini og þegar fyrir fjölmörgum áratugum fór athygli einstakra vísindamanna og annarra að beinast að því að reyna að fínna út í hverju þetta lægi. Vitað er að rannsóknir á þessu hafa m.a. verið gerðar í Sovétríkjunum og Japan og sjálfsagt miklu víðar.

Ég man eftir viðtali, sem ég las í einhverju blaði, við gamlan Austfirðing fyrir fjölmörgum árum. Hann sagði frá því að hann hefði farið í gegnum kirkjubækur í Múlasýslum og athugað dánarmein fólks yfir langan tíma. Úr þeim athugunum taldi hann sig hafa fundið það, að í sjávarplássum þar sem hákarl var áður fyrr mikið notaður til matar, var krabbamein óþekkt, en inn til sveita, þar sem hákarl var lítið notaður, voru krabbamein þegar um aldamót algeng dánarorsök. Hann dró þá ályktun af þessu, að eitthvert efni í hákarli hindraði krabbamein.

Nú virðist vera að koma í ljós að sú ályktun var rétt. Hákarlar hafa verulega frábrugðna efnasamsetningu í bæði fitu og vöðvum, bornir saman við aðrar skepnur. Vöðvarnir eru m.a. taldir innihalda blásýrusambönd. Athyglisvert er að blásýrusambönd eru einnig í ýmsum plöntum og plöntuhlutum sem notaðir hafa verið sem krabbameinslyf, t.d. hinu umdeilda krabbameinslyfi ,,Laetrile“ sem síðar verður rætt um í þessum þáttum. Einnig eru fiturnar sérkennilegar, en þær eru nokkuð mismunandi eftir tegundum, en innihalda m.a. fituefnið ,,Skvalín“ sem notað er í snyrtivörur og fituefni sem nefnast ,,Alkoxy-glyserolar“. Margt fleira er sérkennilegt við hákarla sem ekki verður tíundað hér.  Á síðastliðnu ári voru gerðar opinberar 36  ára rannsóknir sem farið hafa fram við „Radíumhemmet“ við Karolinska sjúkrahúsið í Stokkhólmi.

Astrid Brohult, sem er læknir við Radiumhemmet, hefur staðið fyrir þessum rannsóknum ásamt nokkrum öðrum læknum. Þessir læknar telja að alkoxy-glyserolar, sem finnast í miklu magni í lýsi úr Grænlandshákarli, séu hin virku efni, sem m.a. finnast í litlum mæli í beinmerg og brjóstamjólk en langmest í hákarlalýsi. Hákarlalýsið virðist virka með tvennu móti á krabbameinsæxli. Í fyrsta lagi dregur það mjög úr óheppilegum áhrifum geislameðferðar á heilbrigða vefi í kringum æxlið.

Þetta gerir mögulegt að nota stærri geislaskammta en annars væri hægt og þar með í sumum tilfellum að gera geislameðferð mögulega og árangursríka. Í öðru lagi hvetur það ónæmiskerfíð, sem m.a. kemur fram í mikilli fjölgun hvítra blóðfruma, sem oft fækkar hættulega mikið við geisla- og lyfjameðferð gegn krabbameini. Þessi eiginleiki er mjög athyglisverður og gæti gefið vísbendingu um að hákarlalýsið sé nothæft við lækningu á ótal fleiri sjúkdómum en krabbameini, auk þess að hafa fyrirbyggjandi verkanir gegn krabbameini.

Geislaverndandi eiginleiki þess er einnig mjög athyglisverður og lofar góðu um að e.t.v. megi nota það til að draga úr verkunum kjarnorkugeislunar, t.d. við kjarnorkuslys. Sænsku læknarnir segja að mikilvægt sé að gefa hákarlalýsið í nokkurn tíma áður en geislameðferð gegn krabbameini hefst og halda því áfram lengi eftir að geislameðferð lýkur, eigi góður árangur að nást. Þeir segja að ennþá sé ekki fullljóst hversu lengi áður en geislameðferð hefst sé heppilegast að gefa lýsið, en telja þó viku lágmark. Magnið sem þeir nota er nálægt hálfu grammi af hreinu alkoxy-glyseroli á dag, sem er 1-1/2 g af Grænlandshákarlslýsi.

Lýsið hefur til þessa mest verið notað við krabbamein í móðurlífi og árangurinn lofar góðu. Langtíma-athugun sýndi að nálægt helmingi fleiri konur sem fengu lýsið lifðu fimm ár eða lengur, heldur en aðrar sem fengu það ekki. Auk þess voru eftirköst geislameðferðar miklum mun vægari. Ennþá er æskilegasti dagskammtar í próf un svo að vera má að enn betri árangur eigi eftir að nást síðar, þegar læknarnir kunna betur að nota það. Japanir, sem einnig hafa gert tilraunir með hákarlalýsi, telja að virka efnið í hákarlinum sé ekki alkoxy-glyserolarnir, heldur skvalinið.

Af því er mjög mikið í lifur beinhákarla. Vera má því að um fleiri en eitt efnasamband sé að ræða og að báðir hafi rétt fyrir sér. Sumir telja jafnvel að hold hákarlsins sé best, betra en lýsið, sem fæst úr lifrinni. Augljóst er því að mikilla rannsókna er þörf áður en hægt er að slá neinu endanlega föstu um mikilvægi hákarlsins eða hákarlalýsis í baráttunni við krabbamein. Þó finnst mér rétt að fólk sem fara þarf í geislameðferð noti það, þó ekki væri nema vegna verndandi eiginleika þess gegn geislun. Belgir með hákarlalýsi munu vera væntanlegir á markaðinn hér innan tíðar.

Ég var sú eina sem þorði að prófa nýja lyfið
Frásögn konu sem hákarlalýsið bjargaði. Gerd-Marie Fahlström lá deyjandi úr krabbameini a Radíumhemmet í Stokkhólmi. Hún var of veik til þess að læknarnir þyrðu a geisla hana meira, en þá gafst henni  kostur a að prófa nýtt óreynt lyf, hákarlalýsi. Móðurlífíð hefur stækkað af einhverri ástæðu, sagði læknirinn við mig þegar hann  hafði skoðað mig fyrst, segir Gerd-Marie En ég hafði bara ekkert móðurlíf. Það hafði verið fjarlægt fyrir mörgum árum. Ennþá var ég ekkert hrædd og ekki heldur þegar læknirinn sendi mig til Huddinge sjúkrahússins í nánari rannsókn. Hefði ég bara vitað hvað beið mín. Gerd-Marie er nú sextug. Hún vinnur sem bókavörður í Skövde og býr í raðhúsi í rólegu hverfi í útjaðri bæjarins, ásamt manni  sínum, Gösta og grábröndótta kettinum Kurru.

Stórt æxli
Ég veiktist sumarið 1977, heldur hún áfram. Þá bjuggum við í Stokkhólmi. Ein vinnufélaga minna hafði verið kölluð í krabbameinsskoðun og við fórum að rabba um krabbamein. Þetta minnti mig á að kominn væri tími til fyrir mig að fara í læknisskoðun. Tekið hafði verið úr mér 6,8 kg æxli þegar ég var 33 ára og ég var aftur skorinn upp þegar ég var 45 ára. Þá var móðurlífið tekið og flest annað. Aðeins hálfur eggjastokkur var skilinn eftir. Ég hafði ekki fundið fyrir neinu óvanalegu, en af öryggisástæðum pantaði ég samt tíma hjá lækni fyrirtækisins sem ég vann hjá. Því varð ég mjög undrandi þegar læknirinn fór að tala um að móðurlífíð hefði stækkað, en þegar læknirinn sýndi mér hvar ég ætti að þrýsta á, þá fann ég fyrir einhvers konar þykkildi inni í mér. En að það gæti verið nokkuð hættulegt grunaði mig ekki. Því var ég alls ekkert óttaslegin þegar ég ræddi við lækninn í Huddinge eftir rannsóknina.

Læknirinn var frá Júgóslavíu, man ég, glaður og jákvæður í fasi. Við ræddum málið, en það sem hann sagði mér var ekkert sérlega upplífgandi. Það þurfti að gera á mér aðgerð. Krabbameinsæxli á stærð við barnshöfuð var þar sem hálfi eggjastokkurinn hafði verið. Þrátt fyrir þessar alvarlegu upplýsinga veigraði Gerd-Marie sér við að viðurkenna ástand sitt. Hún fékk vikufrest, sem hún notaði til að fara út í sveit með manni sínum, Gösta og Roger syni sínum.

Þegar ég sagði Roger fyrst frá þessu, fölnaði hann fyrst upp. Síðan reyndi hann að róa mig. Flestir komast í gegnum þetta, mamma, sagði hann. Ég vissi að læknirinn sem átti að gera aðgerðina var fær í sínu starfi svo að ég var eiginlega aldrei neitt óróleg. Þess vegna þurfti ég ekkert á sálfræðilegri aðstoð að halda, sem mér stóð til boða. Viku eftir aðgerðina var farið að gefa Gerd-Marie frumueitur. Enginn hafði frætt hana um aukaverkanirnar, en einnig þær sætti hún sig við með eðlislægu skopskyni. Ég fékk frumueitur á miðvikudegi. Föstudaginn á eftir féll hárið af í stórum flyksum. Þá fékk ég lánuð skæri og klippti af mér það sem eftir var. Hvílík sjón.

Viltu lifa!
Ég flutti frá Huddinge til Redíumhemmet, því að ég þurfti einnig að fá geislameðferð, heldur Gerd-Marie áfram. Fyrst vildi ég það ekki en þá kom læknir og settist á rúmstokkinn hjá mér og tók hendur mínar í sínar og sagði: – Viltu lifa? Hann horfði beint inn í augun á mér. Já svaraði ég eymdarlega. -Þá geislum við þig, sagði hann, og þannig gekk það til. Hvað mér leið illa. Blóðið fór niður úr öllu valdi og að lokum varð ég svo veik að það varð að hætta geisluninni. Þeir héldu að ég myndi deyja. Samt þurfti ég að fá meiri geislun til að eyða krabbameininu. En þegar mér leið sem verst spurði deildarlæknirinn, Nina Einhorn, dósent, mig hvort ég vildi reyna nýtt tilraunarlyf, sem verið væri að prófa á Radíumhemmet. Auðvitað vildi ég reyna alla þá hjálp, sem mér stóð til boða.

Ég lá á stofu með fimm öðrum konum. Þeim var öllum boðið að taká þátt í tilrauninni, en ég var sú eina sem þáði það. Hinar þorðu það ekki. En ég hugsaði sem svo að það væri mál Radíumhemmets, hvernig ég væri meðhöndluð, einnig hvað varðaði belgina með hákarlalýsinu, sem nefnt var AT-18. Ég fékk sex belgi á dag og í upphafi sagði enginn mér hvað þeir innihéldu. Ég þurfti næstum því að þvinga út úr starfsfólkinu vitneskju um Astrid Bröhult, lækni sem vann niðri í kjallara að rannsóknarstörfum. Lyfið sem Gerd-Marie fékk var fyrst viðurkennt opinberlega í Svíþjóð haustið 1986, eftir 36 ára rannsóknir og þá sem „náttúrumeðal“, þrátt fyrir að það hefði verið notað á Radíumhemmet öll árin og þrátt fyrir það að Astrid Brohult hafi reynt að fá það skráð sem hjálparlyf við geislalækningar.

Ástæðan er sú að það er hrein náttúruafurð, hákarlalýsi. Nafnið „Ecomer“, sem það er nú nefnt, hefur Astrid Brohult sjálf gefið því, „Bergmál úr hafinu“. Þegar ég byrjaði á hákarlalýsinu, heldur Gerd-Marie áfram, var ég svo langt leidd að ég þoldi alls ekki meiri geislun eða frumueitur. Bæði ég og læknarnir vissum að kröftugari læknismeðferð var mín eina von, en meiri geislun eða frumueitur þýddi um leið dauðadóm í því ástandi sem ég var. Ég var byrjuð að gefast upp, sætta mig við að deyja. Ég hafði að hluta til kvatt mann minn og son.

Læknarnir höfðu heldur ekki uppörvað mig og í raun og veru var ekki margt fleira sem hægt var að gera fyrir mig. Það var hákarlalýsið sem breytti öllu, það er ég sannfærð um. Aðeins eftir nokkra daga höfðu hvítu blóðfrumurnar og blóðflögurnar fjölgað sér nægjanlega til að hægt væri að byrja að geisla mig aftur. Vesalings Gösta. Þetta var ömurlegur tími fyrir hann. Órói hans og spenna kom fram í því að hann fékk tvisvar sinnum hjartaáfall meðan veikindi mín stóðu. Þegar ástand blóðsins batnaði, jókst lífsþróttur Gerd-Marie. Ég var geisluð annan hvern dag, nema um helgar, frá því í október og fram í desember, segir hún.

Eftir það var ég látin hafa frumueitrið áfram og því er ekki hægt að segja að mér hafi liðið sérlega vel þennan tíma. Í janúar 1979 gat Gerd-Marie aftur farið að vinna. Í fyrstu aðeins hálfa vinnu og hún var ennþá veikburða en þó lifandi. Það að ég lifi er fyrst og fremst rannsóknum Astrid Brohult að þakka, segir Gerd-Marie að lokum. Án uppgötvunar hennar hefði ég aldrei lifað af alla þá geislun sem þurfti til að eyða æxlinu. Þá hefði krabbameinið sigrað. Og að lokum. Við vorum sex sem boðið var að prófa nýja lyfíð. Nú er ég ein eftir á lífi. Ég sem var sú eina sem vogaði að þiggja boðið.

(Þessi frásögn, eftir Áke Cyrus og Matti Lukkamen, er fengin úr tímaritinu „Allens“ nr.  15, 6.apr.1987) *  Heimildir um rannsóknir á hákarlalýsi eru að  mestu fengnar úr skýrslum frá dr. Astrid Brohult.

Höfundur Ævar Jóhannesson árið 1987



Flokkar:Krabbamein

%d