Römm uppskera sykurs

Við sættum okkur orðið við að tilefnislausir ofbeldisglæpir – grimmilegir og oft án ástæðu – séu hluti lífsins í vestrænum þjóðfélögum nútímans. Það færist æ meir í vöxt að fórnarlömbin séu þeir sem ekki geta varið hendur sínar: konur, gamalmenni, fatlaðir, börn og kornabörn.

Sömuleiðis er ógnvekjandi að árásarmennirnir eru sífellt að verða yngri. Á 25 ára tímabili í USA milli áranna 1952 – 1977 tvöfaldaðist fjöldi þeirra sem voru handteknir fyrir morð, árás, nauðgun og manndráp og voru á aldrinum 15-25 ára. Fjöldi þeirra sem voru á aldrinum 15-17 ára þrefaldaðist, en sexfaldaðist meðal barna undir 15 ára aldri. Í fyrra voru 1600 árásir gerðar í London á strætisvagnastjóra og eftirlitsmenn strætisvagna. Oftast voru árásarmennirnir skólabörn. Hvað er það sem breytir venjulegu fólki í óða glæpamenn? Hvað veldur því að börn umsnúast í niðurrifsmenn og grimmdarlega kvalara?

Endalausar umræður eiga sér stað um ástæðurnar, sem taldar eru spanna vítt svið sálarfræðilegra og félagslegra þátta. Þar er tínt til atvinnuleysi, fátækt, spenna í borgum,  kynþáttavandamál,  aðstöðumunur og arðrán, gegndarlaust ofbeldi í sjónvarpi og illkvittnar vídeómyndir. Það sem borið hefur á góma til úrbóta spannar allt frá harðri fangelsisrefsingu til nánast hernaðaraga. Í öllum þessum umræðum er þó einn þáttur sem aldrei heyrist nefndur: matarræði.

Gæti verið að tengsl reyndust vera milli lélegrar fæðu og andfélagslegrar hegðunar? Gæti rangt mataræði átt sinn þátt í því að breyta börnum í rusta? Flestir myndu álíta þetta nokkuð langsótta hugdettu en þó hafa verið að hrannast upp í gegnum árin vísbendingar sem gætu einmitt stutt þetta. Matarræði á seinni hluta 20. aldar er ógæfa milljóna manna á Vesturlöndum, sérstaklega hinna fátækari og barna þeirra. Hvað marga snertir er uppistaðan í fæði þeirra fullhreinsað kolvetni, hvítur sykur og hvítt hveiti, hvorutveggja gjörsneytt mörgum vítamínum og öðrum mikilvægum næringarefnum.

Önnur næringarefni spillast stórlega þegar matur er niðursoðinn, frystur eða fullunninn. Þúsundum viðbótarefna er sturtað í framleiðsluna, en fá þeirra eru prófuð með tilliti til þess hvaða áhrif þau hafi á miðtauga kerfið, hvað þá þegar þau koma fyrir í samböndum. Ávöxtum og grænmeti er spillt með skordýra- og sveppaeitri sem aldrei var ætlað til manneldis. Fiskur er mengaður afeitruðum matarúrgangi sem safnast fyrir í úthöfunum.

Kjöt og fuglakjöt er mengað af lyfjum sem bætt er í fóðrið. Blý sem er virkt eitur – hleðst upp í umhverfinu. Rannsóknarmenn hafa verið að leita að samhengi milli þessara þátta og vaxandi tíðni ofbeldisglæpa, en á síðustu tveimur eða þremur árum hafa þeir í auknum mæli einbeitt sér að einu sérstöku sviði: hypoglycaemia eða of lágum blóðsykri. Höfuðpaurinn kann þegar allt kemur til alls að reynast sykur -þetta hreina og banvæna efni sem heimurinn treður í sig í sífellt stærri skömmtum. Hollur matur í heilbrigðri fæðu brotnar hægt niður í glúkósa í blóðrásinni og það sem verður framyfir geymist í lifrinni sem glykógen.

Þessum ferli er fínlega stjórnað af hormónum, starfsemi heilans byggir á því að þetta magn glúkósa eða blóðsykurs haldist í jafnvægi, en heilinn notar rúmlega fjórðung af glúkósabirgðum líkamans. Unninn sykur eða súkrósi er samanþjappað kolvetni sem breytist svo fljótt í glúkósa að blóðsykurjafnvægið nötrar. Briskirtillinn dælir út insúlíni til þess að koma magninu niður aftur. Það verður svo til þess að adrenalínkirtlarnir svara með því að gefa frá sér epinephrin sem er merki til lifrarinnar um að losa meiri blóðsykur og hækka þannig magnið aftur.

Þetta skyndilega hrap í blóðsykri æ ofan í æ vekur upp ástand sem kallað er hypoglycaemia. Í því ástandi eru boð frá heilanum sem stjórna skaphöfn, einbeitni og námi stöðugt rofin. Afleiðingin getur orðið skyndileg geðillska, árásarhneigð, andfélagsleg hegðun, einnig þunglyndi, mislyndi, fum, þreyta og pirringur; Fleiri efni geta hleypt af stað þessu ójafnvægi í efnaferli líkamans s.s. koffin, vínandi, tóbaksreykur og ofnæmisefni, en ekkert þeirra getur gert það skyndilegar eða á jafn fyrirsjáanlegan hátt og sykur.

Það verður að teljast merkilegt, að sykurneysla hefur haldist nákvæmlega í hendur við aukna tíðni ofbeldisglæpa. Í Bretlandi er sykurneysla nú 5 1/2 matskeið á dag á hvern einstakling. Fjölskylda nokkur, faðir, móðir, fjögurra ára dóttir og sex mánaða barn, notaði 5 1/2 kg afsykri á viku fyrir utan þann sykur sem neytt var í kexi, kökum, búðingum, gosdrykkjum, morgunverðarmusli, sultuðu grænmeti og jafnvel niðursoðnu grænmeti.

Meðal Bandaríkjamaður treður í sig 64 kg af sykri árlega. Börnin neyta þó miklu meiri sykurs en fullorðnir þegar með er talið sælgæti, súkkulaði, ís og gosdrykkir. Áhugi hefur glæðst á sykur-afbrota kenningunni í kjölfar rannsóknar sem gerð var í Bandaríkjunum 1975. Þar kom í ljós að 85% lögbrjóta sem kannaðir voru reyndust vera með lágt blóðsykurmagn. Önnur könnun sem gerð var í Bandaríkjunum 1980 sýndi fram á að hátt hlutfall afbrotaunglinga reyndist eta meira en 200 kg afsykri árlega í ýmsum myndum.

Einn áhugasamasti rannsakandi á tengslum matarræðis og afbrota er Alexander Schauss. Hann er frá Bandaríkjunum, fyrrum eftirlitsmaður með skilorðsbundnum dómum. Þegar hann vann við hjálparstarf meðal heróínsjúklinga í Harlem á sjötta áratugnum veitti hann því eftirtekt að þeir sem átu heilbrigða fæðu áttu mun auðveldara með að losna frá fíkninni en hinir sem lifðu á sykraðri draslfæðu. Þegar hann vann að æskulýðsmálum í Suður-Dakota komst hann að því að þau upptökuheimili sem betur stóðu sig í endurhæfingu unglinganna sáu þeim einnig fyrir betra fæði. Á einu heimilinu hirtu vistmenn eigin kálgarð og höfðu ekki að gang að sykri, kaffi eða te. Þeir neyttu eingöngu heilsufæðis.

Á þessu heimili var vera unglinganna að jafnaði aðeins þrír mánuðir, en að jafnaði átján mánuðir á öðrum heimilum í fylkinu. Árið 1970 setti Schauss á fót Amerísku líf- og félagsfræðistofnunina sem einbeitir sér að athugunum á lífefnafræðilegum og umhverfislegum ástæðum andfélagslegrar hegðunar. Hann var í fyrstu tortryggður af kredduföstum félagsráðgjöfum, læknum og næringarfræðingum sem álitu hann loddara. ,,Það kom í ljós að þeir sem vildu sýna þessu áhuga og vera opnir voru starfsbræður mínir í réttarkerfinu“, sagði hann.

,,Andstaðan kom frá heilbrigðiskerfinu. Ég benti þeim hvað eftir annað á að vísindin væru þess ekki umkomin enn að dæma um hvort tiltæki okkar hefði vísindalegt gildi eða ekki. En ef hins vegar rétt næring gæti fækkað innskráðum og hamlað unglingum frá að lenda í réttarkerfinu þá væri það að minnsta kosti rannsóknarvert.“ Rök hans voru tekin gild og þeir sem fást við afbrotaunglinga leita nú í æ meira mæli samráðs við Schauss. Hann hefur nú stjórnað rannsóknarverkefnum, haldið fyrirlestra um allan heim og þjálfað félagsráðgjafa til þess að koma á svipuðum verkefnum.

Árið 1977 var frú Barbara Reed kölluð fyrir nefnd á vegum öldungadeildar Bandaríkjaþings. Hún er frá Ohio, eftirlitsmaður með skilorðsbundnum dómum og hún greindi nefndinni frá þeim árangri sem hún hefur náð með því að láta afbrotaunglinga gangast undir matarkúr. Fyrst var gengið úr skugga um það hvort þeir hefðu hypoglycaemia með því að láta þá svara spurningalista. Hún komst að því að hátt hlutfall þeirra virtist hafa hypoglycaemia og viðbrögð þeirra við matarkúr til að leiðrétta það voru eftir því. Í matarkúrnum var sleppt sykri, kaffi, vínanda, sælgæti og fullunnum mat sem innihélt rotvarnarefni.

Árið 1975 var einn dómari þegar farinn að gefa sökudólgunum þessar ráðleggingar. „Frú Reed lætur þig á matarkúr og þú skalt halda þig við hann, annars lendirðu í tugthúsi vegna þess að þú lendir örugglega í klandri ef þú hættir við hann.“ Hún sagði að af þeim 252 lögbrjótum sem héldu sig við kúrinn hafi enginn komið aftur fyrir rétt. Meðal þeirra sem dáðust að vitnisburði hennar voru stjórnendur endurhæfingarstöðvar bandaríska flotans í Seattle. Þeir ákváðu að fella niður afmatseðlinum sykur og hvítt hveiti. Ári seinna skýrðu þeir frá, að veikindum hefði fækkað, lyfjagjöf dregist saman og agabrotum fækkað um 12%. Sterkasti vitnisburðurinn um samhengið milli afbrota og matarræðis er í niðurstöðum tveggja ára langrar könnunar sem gerð var af Stephen Schoenthaler, prófessor í afbrotafræðum við ríkisháskólann í Kaliforníu.

Könnunin var gerð á 276 síbrotaunglingum á aldrinum 12 – 18 ára sem héldu til á endurhæfingarstofnun í Virginíu. Aðeins örfáir úr starfsliðinu og engir aðrir fengu að vita að þeir voru notaðir sem tilraunadýr. Gosdrykkja sjálfsali var látinn hverfa, einnig ís, búðingar, smákökur, og jafnvel sykurkörin á matarborðunum og þeim talin trú um að þetta væri gert í hollustuskyni samkvæmt duttlungum forstjórans sem allir vissu að var áhugasamur um jurtafæði. Niðurstaðan var furðuleg. Fjöldi þeirra sem sýndu góða hegðun jókst um 71%. Fjöldi síbrotamanna féll um 50% og andfélagslegum atvikum fækkaði um 47%. Loksins er þessi vitnisburður farinn að hafa áhrif. Líf- og félagsfræðistofnunin hefur nú undir forsjá Alexanders Schauss  hleypt af stokkunum 95 rannsóknarverkefnum í USA og víðar ásamt ítarlegum kennslunámskeiðum fyrir fagmenn.

,,Það hefur tekið 13 ár að koma þessu saman“, segir Schauss, „og við erum ekkert fús til þess að afhenda þetta eins og hvern annan tæknilegan varning tilbúinn til notkunar með upplýsingum og öllu saman, nema við séum vissir um að þetta sé meðhöndlað á fullnægjandi hátt. Fyrsta skilyrðið er að vekja áhuga viðeigandi fagmanna og upplýsa þá. Það fylki sem er í fararbroddi þessara rannsókna er Alabama. Við þjálfuðum allt félagsþjónustukerfi þeirra, allt frá efsta manni og niðurúr, á átta fullskipuðum vinnudögum. Þeir urðu að endurmeta lífsmynstur sitt samtímis. Það er ekki hægt að þvinga börn til þess að gefa á bátinn ýmsar smánautnir ef þau sjá kennarana samtímis drekka kók og reykja án afláts. ,,Fyrir mánuði hélt Schauss fyrirlestur á alþjóðlegu þingi um næringarfræði Surfer’s Paradise í Queensland í Ástralíu. Þangað komu m.a. stjórnendur félagsþjónustunnar í Queensland. Þeir urðu svo upprifnir afáhuga að nú er hann á förum þangað í næsta mánuði til þess að hleypa af stokkunum 10 ára næringarverkefni fyrir skóla og betrunarheimili. Schauss gætir þess þó vel að benda á þau takmörk sem verkefnum hans eru sett.

,,Ég veit ekki til þess að neinn hérna álíti matarkúr allsherjarlækningu. Og ekkert okkar telur að orsök afbrota sé lélegt fæði; það er einn þáttur af mörgum. En því alvarlegri sem hegðunarvandamál einstaklings eru, þeim mun meiri líkindi eru til þess að líkarnleg vandamál hrjái hann einnig. Við erum farin að gera okkur grein fyrir því, þegar einstaklingi er komið í gott fæði, þá öðlast hann að minnsta kosti rétt efnajafnvægi til að geta brugðist við leiðsögn, fræðslu og menntun. Mörgum tilraunum hefur verið hrint í framkvæmd og margar athuganir hafa verið gerðar og ekkert af þessu hefur gefið annað en jákvæða svörun“.

…Stytt og endursagt úr The Times frá I.ágúst 1983. Flóki Kristinsson.



Flokkar:Næring

%d