Hvers vegna Hatha yoga?

Vegna þeirra lifnaðarhátta, sem meirihluti þjóðarinnar býr við, – að loft er oft of heitt innanhúss, og enn fremur oft of þurrt. Oft skortir fólk mjög hreyfingu nú á dögum, bæði úti og inni; vinna er átakalítil, miðað við það sem var áður. Matur er að vísu mikill og gómsætur, en ekki alltaf hollur að því skapi, og borðar fólk auðveldlega yfir sig. Þessir samverkandi þættir gera það lífsnauðsynlegt að auka brennslu og losa líkamann við úrgang, styrkja hann og auka endurnýjunarmátt hans, – vinna gegn hrörnun andlega og líkamlega. Maðurinn er skapaður til hreyfingar og átaka. Og við vitum, að hann hrörnar og verður sljór, ef þessu hlutverki er ekki sinnt.

Þess vegna þarf á sérstakri skipulagsbundinni líkamsrækt að halda. En hvers vegna eru yoga-æfingar æskilegar? Vegna þess að þær sameina ræktun líkama og anda; þær eru mannrækt. Hvort heldur fólk byrjar iðkun þessara æfinga vegna þess að það er bagað afstirðleika og slappleika, vöðvahnútum, vöðvabólgu, bakverk, taugaveiklun eða einhverju ennþá öðru, þá kemur í ljós eftir nokkurra mánaða iðkun, að áhrifin eru bæði líkamleg og andleg.

Samstilling hugans við hreyfinguna í framkvæmd æfinganna, og ekki síst rétt öndun, kallar framjákvæði, sjálfsstjórn og gleði. Ég hef oft orðið var við undrun fólks þegar það uppgötvar, hvað lífið er auðvelt og auðugt, þegar það hefur öðlast fulla sjálfsstjórn, og mætir hverju sem að höndum ber óhrætt, með sterkan og heilbrigðan vilja. Vegna þeirra mörgu, sem halda að yoga sé átrúnaður eða trúarbrögð, skal tekið fram, að allar greinar yoga eru iðkaðar til sjálfsögunar og aukins þroska, algerlega án tillits til trúarbragða.

Höfundur: Viggó M. Sigurðsson árið 1979Flokkar:Fjölskylda og börn, Hreyfing

%d bloggers like this: