Fólk þarf að huga að uppruna sínum varðandi val á næringu

Rætt við Önnu Lind Fells sem nýverið gaf út athygliverða rafbók sem fjallar um reynslu hennar af vegan mataræði. Í bókinni miðlar hún ýmsum fróðleik varðandi heilsu almennt. Anna Lind bendir á að fólk hafi mismunandi þarfir og að erfðir geti ráðið miklu um hvernig efnaskipti fólks eru og það ráði miklu um hvernig næringu það þurfi að velja sér. Í því sambandi setji hún spurningarmerki við hversu vel vegan mataræði henti Íslendingum.

Anna Lind fær orðið:
Ég er og hef alltaf verið algjör heilsufrík, elska að læra um allt sem tengist líkamlegri og andlegri heilsu. Þegar ég fyrst gerðist vegan hélt ég að vegan mataræði væri hollasta mataræðið sem ég gæti tileinkað mér. Ég sniðgekk ekki einungis dýraafurðir heldur einnig alla óholla fæðu eins og sykur, glúten og aðrar unnar matvörur. Fyrst leið mér vel því að það getur tekið nokkur ár fyrir líkamann að þróa með sér næringarskort á vegan mataræði. Þess vegna líður mörgum vel fyrstu mánuðina og jafnvel fyrstu árin. Einnig er ekki mælt öll þau gildi í blóðprufu á Íslandi sem einstaklingum á vegan mataræði skortir gjarnan. Líkt og Omega 3 (EPA & DHA), A-vítamín, amínósýrur og fleira. Ég kom alltaf vel út á blóðprufu þannig að allt virstist vera í lagi, en svo var ekki.

Heilsan versnaði hægt og rólega, það byrjaði með blóðsykurssveiflum og með tímanum hætti ég að þola ávexti, t.d. orsakaði einn banani blóðsykursfalli. Ég varð algerlega orkulaus með höfuð- og magaverki. En ég hélt að vegan mataræði væri best fyrir mig og gaf þessu séns í nokkur ár. Þá sá ég að málið var ekki svona einfalt. Samt þráaðist ég við í eitt og hálft ár í viðbót. Ég er jógakennari og vegan mataræði er oft haldið á lofti í þeim fræðum þar sem jógakennslan byggist á ayurvedískum fræðum sem eiga uppruna sinn að rekja til Indverja, en þeir eru með allt öðruvísi líkamsstarfsemi en við Íslendingar.

Það kom að því að líkama minn fór að skorta magasýrur sem leiddi til þess að ég gat ekki brotið niður fæðuna á fullnægjandi hátt. Ástæða þess var sú að ég sniðgekk kjöt og prótein úr dýraríkinu, þá þurfti líkaminn ekki lengur að mynda eins mikið magn af magasýrum til að brjóta niður prótein. Skortur á magasýrum getur valdið ýmsum meltingartruflunum, meðal annars uppþembu og bakflæði. Öfugt við það sem margir halda þá orsakast bakflæði oftast af skorti á magasýrum og magasýrum á röngum stað, en ekki vegna of mikils magns af magasýrum.
Í framhaldi komst ég að því að ég væri með ,,Helicobacter Pylori“ bakteríusýkingu, vegna skorts á magasýrum. Slík sýking er talin vera orsök um 90% af öllum magasárum og er algeng ástæða bakflæðis. Mér tókst sjálfri á náttúrulegan hátt án sýklalyfja að útrýma H. Pylori bakteríusýkingunni. Það má lesa um það nánar hér:  https://holistic.is/god-rad-gegn-bakflaedi/

Hvernig fórstu að því?
Það byrjaði á mánaðar matarhreinsun þar sem ég lagði áherslu á kolvetnasnautt mataræði þar sem ég tók út: Sykur, unnar matvörur, glúten, ákveðnar tegundir af ávöxtum, kornvörur og allar mjólkurvörur því að þær geta aukið á bakflæði. Einnig tók ég út allar algengar íkveikjur bakflæðis, líkt og dökkt súkkulaði, kaffi, eldað tómatmauk, myntu, áfengi og fleira.

Ég forðaðist að borða nokkuð annað en: Sterkjulítið grænmeti, hreint kjöt og fisk. Einnig drakk ég sterkt ,,Matula“ jurtate tvisvar á dag en í því eru jurtir sem taldar eru öflugustu jurtir í heimi gegn ,,Helicobacter Pylori“ sýkingu. Þegar ég tók matula-te fann ég ótrúlegan mun á bakflæðinu og brjóstsviðanum enda virkar matula te að mörgu leiti betur en sýklalyf, sem oft geta valdið ofvexti candida sveppsins í kjölfari, sem gerir ástandið og bakflæðið enn verra skömmu síðar.

Oftast þarf meira til en bara að eyða út Helicobacter Pylori sýkingunni því að hún helst oft í hendur við ,,candida“ sveppasýkingu. Þannig að næsta skref hjá mér er að hreinsa út candida sveppinn sem tekur um þrjá mánuði. Það felst í því að taka inn margar tegundir af sterkum jurtum og öðrum bætiefnum, ásamt því að taka ákveðna hreinsun á mataræðinu. Meðal annars er tekinn inn fjölbreyttur stofn af góðgerlum, einnig jurtir til að styrkja ónæmiskerfið og styðja við afeitrunarferli líkamans. Ásamt sterkum jurtum sem drepa sveppi og sníkjudýr. Te úr rauðsmára (red colver tea) er drukkið til þess að hreinsa blóðrásina og líffærin, minnka bólgur og fleira. Síðan er gott að taka inn 1 dropa af silfri á dag.

Þegar líkaminn er að brjóta niður Candida sveppinn þá myndast oft mikið magn af svokölluðu sveppaeitri (e. mycotoxins) sem getur verið skaðlegt fyrir líffærin og blóðrásarkerfið. Þá er nauðsynlegt að taka inn efni sem hjálpa við að hreinsa það út úr líkamanum eins og lyfjakol (e. charcoal) sem er unnið úr kókoshnetum og bindst við eiturefnið. Anna Lind er nú að hanna þriggja mánaða netnámskeið til þess að hjálpa fólki við úthreinsun candida sveppasýkingar sem verður aðgengilegt bráðlega á www.holistic.is

Hvað er Candida?
Candida er gersveppur sem finnst víða í slímhúð heilbrigðra einstaklinga, aðallega í meltingarfærum og leggöngum kvenna. Sveppurinn veitir ekki skaða fyrr en um ofvöxt er að ræða sem getur myndast af völdum nútíma mataræðis, eiturefna í umhverfinu, streitu, sýklalyfjanotkunar, getnaðarvarnarlyfja og annarra lyfja, ásamt fleiru.

Candida ofvöxtur er mun algengari en flestir halda. Talið er að um 90% einstaklinga í nútímasamfélagi séu með svokallaðan ofvöxt, og oft án þess að gera sér grein fyrir því. Einkennin geta verið svo fjölbreytt og því tengir fólk það ekki endilega við Candida ofvöxt.
Væg einkenni um candida ofvöxt er til dæmis þreyta, uppþemba, þyngdaraukning, höfuðverkir, meltingartruflanir, exem, heilaþoka, erfiðleikar með einbeitingu og skýra hugsun, þunglyndi, kvíði, hormónatruflanir, svefntruflanir, þreyta og fleira. En í alvarlegri tilfellum þá geta einstaklingar þróað með sér sjálfsofnæmissjúkdóm (líkt og vanvirkan skjaldkirtil eða MS), krabbamein eða jafnvel Alzheimer. Þar sem flestir sjúkdómar eiga upptök sín í meltingunni.

Magasýrur eru mikilvægar til þess að drepa óvinveittar bakteríur, sníkjudýr og sveppasýkingar. Ef við erum með of lítið af magasýrum þá gerir það óvinveittum örverum kleift að setjast að í meltingarveginum, sem getur valdið skaða. Mikil kolvetnaneysla, sem fylgir oft vegan mataræði ýtir undir slíkan ofvöxt óvinveittra baktería.

Það var mjög erfitt fyrir mig að brjóta niður þá sterku ímynd sem ég hafði um heilnæmi vegan mataræðisins og ég hélt að ég myndi aldrei byrja að borða dýraafurðir aftur. Því að ég tók vegan lífsstílinn mjög alvarlega.En þegar heilsa mín versnaði og ég áttaði mig á orsökinni bjargaði það mér að hafa stundað nám í hagnýtum lækningum „functional medicine“ og hafa lært að greina skilaboð líkamans. Nú hef ég nánast snúið mataræði mínu algjörlega við og legg áherslu á hreint kjöt og innmat, sterkjulítið grænmeti, jurtir og ávexti sem eru með láan sykurstuðul. En það tók mig langan tíma að snúa til baka því að eins og margir, þá taldi ég besta kostinn bæði fyrir heilsuna og jörðina, að tileinka mér vegan mataræði.

En hugsun mín snýst ekki bara um að kjötframleiðsla sé slæm heldur um aðferðir nútímans við kjötframleiðslu. Ég er algjörlega sammála því að aðferðir í nútíma kjötframleiðslu séu slæmar bæði fyrir okkur og jörðina. Aftur á móti styð ég það sem nefnt er endurnýjunarbúskapur (e. regenerative farming). Það snýst um heildræna framleiðslu á kjöti og að byggja upp líf aftur í jarðveginum á náttúrulegan hátt. Slíkt ræktun á kjöti er talin binda meira kolefni í andrúmsloftinu en það losar og því getur verið umhverfisvænna að stunda þennan heildræna búskap en að sleppa því. Mér finnst þetta sjónarmið rosalega mikilvægt. Staðreyndin er sú að 85% af fólki sem gerist vegan, eða fer á grænmetisfæði, byrjar aftur að borða kjöt. Meðal annars vegna heilsufarsástæðna, eins og á við í mínu tilfelli.

Skilaboð mín til þeirra sem vilja fylgja vegan mataræði: „ef þér líður vel á vegan mataræði, þá er það frábært! Haltu áfram að hlusta á hvað þinn líkami þarf, við erum öll með mismunandi þarfir“.

Lifur er fjölvítamín náttúrunnar
Ég hugsa mikið um næringarþéttni þegar það kemur að heilbrigðu mataræði. Lifur er ein næringarþéttasta fæða sem við getum borðað, hún inniheldur rosalega mikið af næringarefnum, vítamínum og steinefnum. Lifur er til dæmis stútfull af nýtanlegu járni og B12-vítamíni. En B-12 vítamín er vandfundið í vegan mataræði. Það sem er sérstakt við innmatinn er það að sá innmatur sem við borðum, til dæmis lifur eða hjarta, hefur bein áhrif á sama líffæri í okkar líkama. Þannig að ef við borðum lifur hefur hún uppbyggjandi áhrif á lifrina í okkur því að hún er til dæmis stútfull af A-vítamíni sem er mjög nauðsynlegt fyrir heilsu lifrarinnar. Sama á við ef við borðum ti dæmis lambahjörtu, í því er mikið magn af Coenzyme Q 10 sem er þekkt fyrir að hafa mjög góð áhrif á hjarta- og æðakerfið. Það er svo áhugavert að sjá hvað náttúran virkar á fullkomin hátt.

Anna Lind gaf nýlega út rafbókina: Er vegan mataræði heilbrigt fyrir Íslendinga? Þar hefur hún tekið saman mikinn fróðleik um vegan mataræði og ýmis hagnýt heilsuráð og miðlar einnig fróðleik úr námi sínu. Upplýsingar má finna hér: www,holisticheilsuvorur.is

Anna Lind er ein af eigendum Holistic ehf. sem býður upp á heilsuráðgjöf á sviði heilsu- og lífsstílsþjáfunar. Hún er lærð í hagnýtum lækningum ,,Functional Medicine“ en hagnýtar lækningar snúast um að finna og bera kennsl á grunnorsök sjúkdóma og takast á við hana. Horft er á líkamann sem eina heild, eitt samstætt kerfi, ekki samansafn sjálfstæðra líffæra sem vinna í sitthvoru lagi. Þessi hagnýta læknisfræði hugsar um allt kerfið, allan líkamann en ekki bara einkennin. Auk þess er Anna Lind heilsumarkþjálfi og heildrænn næringar- og lífsstílsþjálfi, lærður nuddari, jógakennari, einkaþjálfari og menntuð í hreyfivísindum.

 

 

Heimasíða fyrir þjónustu: www.holistic.is
Heimasíða fyrir rafbók: www.holisticheilsuvorur.is
Netfang: anna@holistic.is
Sími: 6591662
Fiskislóð 49-51, Grandi 101 Reykjavík

Ingibjörg Sigfúsdóttir færði í letur í september 2022.



Flokkar:Greinar og viðtöl, Næring

Flokkar/Tögg, , , , ,

%d bloggers like this: