Batinn hófst í ísköldu baði

Vilhjálmur Andri Einarsson nú þekktur sem ANDRI ICELAND var stæltur fimleikastrákur í Reykjavík þegar hann 13 ára gamall lenti í slysi á Akureyri. Hann datt á milli hæða, hafnaði á grindverki og var fluttur á spítala tilfinningalaus í fótum og gat ekki hreyft þá. Það hafði eitthvað skemmst í bakinu þó að mátturinn kæmi til baka stuttu seinna. Afleiðingarnar voru miklar bólgur í baki og ef hann labbaði í hálftíma varð hann haltur. Meðan hann tók út vöxt á unglingsárum fylgdu því svakalegir verkir sem höfðu bæði andlegar- og líkamlegar afleiðingar.

Nú tekur Andri við: Ég sætti mig ekki við raunveruleikann og var alltaf að leita að einhverju eða einhverjum til að greina mig og lækna. Ég fór til ótal lækna og það voru teknar ótal myndir. Í eitt skiptið sagði læknirinn: ,,Ég þarf að skoða þetta betur og gá hvort þú sért með MS“. Leit mín hélt áfram og endaði á Grensási þar sem fram fóru alls konar próf sem leiddu í ljós skemmd í mænutaglinu. Þá komu lyfin til sögunnar, mér voru gefin lyf og meiri lyf sem virtust hjálpa mér eitthvað, en andlegt og líkamlegt ástand mitt versnaði og eftir því sem árin liðu mynduðust bólgur í þvagrásinni þannig að sársauki við þræðingu þvagleggsins varð svo óbærilegur að það leið yfir mig. Þegar ég rankaði við mér nokkru seinna með gat á hausnum hugsaði ég: ,,Ég nenni þessu ekki lengur, skoðaði líftrygginguna og ákvað að deyja“.

En innrirödd sagði: Skoðaðu þessa ákvörðun betur.
Ég fór inn á netið til að leita að einhverjum töfralausnum og rak þá augun í: ,,Ef þú ert með mænuskaða farðu þá að hreyfa þig, gerðu ekki of mikið en gerðu alls konar litlar æfingar“. Læknirinn sem skrifaði greinina bætti við: ,,Hættið þessu væli”. Ég varð reiður þegar ég sá þetta og hugsaði þú veist ekkert um mína verki. En las samt áfram skilaboð hans: ,,Ég sem læknir ásamt öðrum sem eru að hjálpa, verðum að horfa á þetta heildstætt. Þó þig vanti hönd eða fót eða eitthvað annað þá verður þú að nota allan líkamann af því annars færir þú álagið á næstu vöðva og lendir í vítahring”.

Það var einmitt vítahringurinn sem ég var í. Við slysið gaf ég frá mér möguleikann á að lækna mig sjálfur og hélt að eitthvað annað myndi gera það. Takmörk mín voru þau sem ég setti sjálfur og nú ákvað ég að breyta því. Leitaði á netinu og fann þriggja mánaða hreyfinámskeið sem átti að byrja eftir hálftíma. Ég skráði mig í flýti og brunaði af stað. Þegar á námskeiðið kom sá ég að þar voru allir mjög fitt og í góðu líkamlegu standi. Það var annað að sjá mig sem tók inn 12 mismunandi lyf og viktaði 105 kíló. Æfingarnar voru einhverjar apahreyfingar og ég hugsaði ,, O í hvað er ég búinn að koma mér“. En hjá mér varð hugarfarsbreyting og ég fór að mæta hálftíma á undan hinu fólkinu til að gera æfingar og henti út öllum lyfjunum.

Ha. Hættir þú að taka öll lyfin í einu? Já og á eftir komu tvær erfiðustu vikur lífs míns. Í lok seinni vikunnar heyrði ég tvo stráka tala um Ísmanninn Wim Hof, sem ég hafði séð vídeó um. Ég vék mér að þeim og sagði: ,,Eru þið að tala um þennan klikkaða, snarruglaða sem er alltaf á nærbuxunum að synda í frostnu vatni”? Þeir horfðu á mig undrandi og sögðu: ,,Hvað ert þú að væla, veistu eitthvað um þetta maður, ertu ekki hérna til að laga þig”? Ég svaraði sneyptur: ,,Nei, ég sagði bara svona“. Fór síðan heim til að leitaði á netinu og fann þar 10 vikna námskeið hjá Wim Hof sem fjallaði um hugarfarsbreytingu, öndunaræfingar og kulda til að vinna á alls konar kvillum, örva taugakerfið og tengja saman huga og líkama. Ég keypti námskeiðið og byrjaði strax að æfa mig.

Námskeiðið hjá Wim Hof snérist um að byggja upp kuldaþolið hægt og rólega og læra sérstaka öndunartækni. Lögð var rík áhersla á að fara nákvæmlega eftir námsefninu skref fyrir skref og ekki kíkja á næstu kafla. Þrátt fyrir þessi fyrirmæli hugsaði ég þegar ég var aðeins kominn af stað, búinn að temja mér öndunina og fara í kalda sturtu daglega: ,,Ég hef engan tíma í þetta og fór í síðasta kaflann“. Svo dembdi ég mér ofan í kar með ísköldu vatni. Reyndi nokkrum sinnum og barðist um í vatninu, svo gafst ég upp og þá breyttist allt. Það varð bara friður. Ég hafði aldrei á ævi minni upplifað slíkt. Þarna sat ég ofan í köldu vatninu og andaði varla, var algjörlega slakur. Á  þessari stundu hófst bati minn og ég áttaði mig á að hann fólst í því að ég gerði þetta sjálfur. 

Isba

Með æfingum hvern einasta dag í 7 til 8 mánuði léttist ég um 30 kíló. Á þremur fyrstu vikunum fóru 90 prósent af taugaverkjunum, þunglyndið hvarf, mígrenið fór, bólgurnar í líkamanum minnkuðu og orkan jókst. Ég losnaði við flest alla kvilla sem höfðu þjakað mig árum saman. Ég var ekki í neinum öðrum æfingum og breytti ekki um mataræði. Þarna var ég loksins búin að finna eitthvað fyrir mig. Í köldu vatni slappa ég af og sleppi tökunum. Oft varð ég að stilla klukku svo að ég gleymi ekki tímanum. Tvær mínútur í ísbaði segja vísindin að sé nóg til að njóta góðs af í 6 daga.

Mikill árangur á fjórum árum
Eins og hér hefur komið fram var Andri búinn að gefast upp á lífinu og fann ekki leið til bata. Hann tók inn 12 tegundir af lyfjum: taugalyf, verkjalyf, mígrenilyf og lyf vegna þvagblöðrunnar. Með ástundun kaldra baða, öndunaræfinga og breyttu hugarfari og er hann kominn í gott líkamlegt form og horfir bjartsýnn fram á veginn.

Andri og Tanit

Nú kennir Andri fólki aðferðarfræði Wim Hof ásamt konu sinni Tanit Karolys en þau erum bæði ,,Wim Hof certified Instructors ’’ þjálfarar með kennsluréttindi í Wim Hof aðferðafræði.  Þau reka fyrirtækið Andri Iceland og á námskeiðunum sem hann nefnir “Hættu að væla komdu að kæla“ og “Wim Hof Fundamentals grunnnámskeið” fer hann í gegn um allt sem hann notaði til þess að ná aftur stjórn á eigin heilsu. Hann segir við erum engar ofurhetjur, þetta er aðeins tækni og viljastyrkur. Það snýst ekki um að sjokkera líkamann heldur slökun.

Við ráðleggjum fólki sem er með einhverja kvilla að tala fyrst við lækni.

Streita og hugsanir. Í nýrri rannsókn sem gerð var af ,,Wayne State University“ var sýnt fram á hve hugurinn er magnaður og stjórnar öllu. Með stjórn hugans getur þú tengst inn á öll ópíóðin í heilanum, dópamín og serotónin. Önnur rannsókn gerð með krabbameinslyfi og lyfleysu (plasibó) sýndi að 30 prósent þeirra sem fengu lyf-leysuna misstu hárið af því að þeir trúðu að þeir væru að taka inn krabbameinslyf.

Ég gerði rannsókn á afleiðingum neikvæðra hugsana og setti á mig blóðþrýstingsmæli og mældi bæði efri og neðri mörk. Þegar ég byrjaði var blóðþrýstingurinn 100 prósent eðlilegur, síðan hugsaði ég nú ætla ég að búa til streitu. Sat kyrr og lokaði augunum og hugsaði um neikvæða hluti eins og: Ég er ekki nógu góður, ég er ómögulegur, þetta virkar ekki, ég verð lasinn og fleira í þessum dúr. Blóðþrýstigurinn rauk upp á augnabliki, efrimörkin í 135 en neðri mörkin í 94 og hjartslátturinn í 89. Ég ýtti aftur á takkann og hélt áfram að hugsa um neikvæða hluti og þá fóru efrimörkin í 145 og neðrimörkin í 100 og hjartslátturinn í 100. Svo ákvað ég að ná eðlilegum blóðþrýstingi aftur og hugsaði um jákvæða og ánægjulega hluti.

Andri 3 tilraun

Eftir einna eða tvær mínútur mældist blóðþýstingurinn eðlilegur aftur.  Sumir eru fastir í svona hugsunum í ár eða jafnvel mörg ár og eru sífellt að hugsa um einhvern sem gerði þeim eitthvað fyrir löngu síðan. Slíkt hugarástand veldur streitu og streita veldur bólgum í líkamanum. Spurningin er; hvað kýs maður að vera lengi í svona ástandi sem má breyta á augnabliki með jákvæðum hugsunum.

Öndunartæknin. Algengt er að fólk andi of mikið og of grunnt. Það getur valdið krónísku stressi. Iðkun öndunartækninnar eykur súrefnisupptöku og hækkar pH gildin í blóðinu, en með hærra pH gildi minnkar sýran í líkamanum. Með öndunaræfingunum endurræsast öll kerfi líkamanns og súrefni fer inn í frumurnar, ekki bara í blóðið. Það hefur verið sýnt með rannsóknum hvað þessi öndunartækni gerir.

„Ísmaðurinn“ Wim Hof, Hollendingurinn Wim Hof missti eiginkonu sína úr þunglyndi, hann stóð eftir einn með 4 börn, þunglyndi og depurð tók yfir en hann fann fyrir einhverjum krafti innra með. Hann byrjað að nota kuldann til að vakna aftur til lífsins. Nú er hann búinn að slá um 27 heimsmet. Til dæmis vera í 2 tíma í ísbaði, synda undir ís og gera aðra ótrúlega hluti. Allt í þágu vísindanna . Það var hlegið að honum þangað til fyrir 7 árum síðan þegar gerð var rannsókn í Hollandi á mörg hundruð manns. Fólkið var sprautað með dauðri ekolí bakteríu til að kanna hvernig fólkið brygðist við. Fólkinu var borgað fyrir þátttökuna. Án undantekningar urðu allir lasnir.

Wim Hof var sprautaður en varð ekki lasinn. Rannsakendurnir sögðu við hann: ,,þú ert bara svona frík, þetta er ekki marktækt. Við erum búnir að prófa þetta á fjölda manns og þú ert bara öðruvísi’’. Hann svaraði: ,,Nei ég get kennt hverjum sem er þetta’’. Læknarnir ákváðu að gefa honum tækifæri og spurðu: ,,Hvað þarftu mörg ár til að sanna þetta“?. Hann sagði: ,,Bara nokkrar vikur’’. Wim Hof fékk stóran hóp fólks til að þjálfa og á fjórða degi fór hann með hópinn í tveggja tíma göngu upp á fjall í Póllandi og þar enduðu þau í 20 stiga frosti. Hópurinn hélt áfram æfingum og viku seinna mættu þau á sjúkrahúsið þar sem allir í hópnum voru sprautaðir. Þeir sem voru í viðmiðunar hópi læknanna urðu allir veikir en enginn úr hópi Wim Hof. Þá breyttust vísindin og margir vísindamenn spurðu bara hvað er í gangi? Þetta er ekki hægt. Fleiri rannsóknir hafa verið gerðar til að kanna þetta.

World Health Organisation segja að um 80 prósent allra sjúkdóma tengist á einn eða annan hátt okkar lífsstíl. UN hefur skilgreint stress sem alþjóðlega heilsuvá 21.aldarinnar.  Við getum breytt þessu.

Slóðir:
https://www.wimhofmethod.com/
https://www.andriiceland.com/
https://www.youtube.com/
Wayne State University
https://www.who.int/
„The Psychobiology of Mind-Body Healing: New Concepts of Therapeutic Hypnosis“ written by Ernest Lawrence Rossi

Ingibjörg Sigfúsdóttir færði viðtalið í letur í júní 2019



Flokkar:Reynslusögur

Flokkar/Tögg

%d bloggers like this: