Gagnsemi stjörnuspeki í nútíma samfélagi

Stjörnuspeki er sennilega ein elstu fræði  vestrænnar menningar sem fjalla um manninn og mannlegt eðli. Sumir ganga svo langt og segja hana vera fyrstu eiginlegu sálfræði heimsins. Hún á sér rætur í menningu Babýlóníumanna á 16. öld fyrir krist.  Þá er talið að maðurinn hafi farið að forvitnast um himininn vegna þeirra áhrifa sem hann hafði á lífsskilyrði hans. Til þess að lifa af jörðinni  þurfti velvild sólar og hæfilega vætu en sú var auðvitað ekki alltaf raunin þar sem flóð, vindar og veðurofsar gátu verið afdrifarík fyrir þessi frumstæðu samfélög. Það lá því beinast við að leita aðferða til þess að vinna veðurguðina á sitt band. Upp úr því fóru þeir að gefa plánetunum nöfn og lofa þær líkt og guði.

Mennirnir urðu sífellt forvitnari um undur himinins og oft tóku prestar að sér að rannsaka hreyfingu plánetanna þegar kvölda tók enda stjörnubjartur himinninn laus við ljósmengun nútímans. Dag eftir dag sáu þeir Sólina rísa í austri að morgni og setjast að kvöldi í vestri. Þeir fylgdust með Tunglinu birtast í ljósaskiptunum  og  hringferð þess um Jörðina til þess að miða við þá atburði sem gerðust á jörðinni. Þeir færðu sífellt út kvíarnar þangað til þeir komu að endamörkum sólkerfisins.  Plánetan Satúrnus var síðasta plánetan sem frummennirnir gátu rannsakað með berum augum. Á fyrstu öld eftir krist var stjörnukortið eins og við þekkjum það í dag nokkurn veginn komið til sögunnar og áhrif Sólar,Tungls og plánetanna fimm á atburðarás jarðar orðin nokkuð ljós.

Stjörnuspekin átti sér afar farsælan feril allt fram á 17.öld eða þar til innreið vísindanna hófst. Fram að þeim tíma var stjörnuspekin virt og mikilsmetin fræði. Ekki var til sá konungur eða drottning sem hafði ekki stjörnuspeking í þjónustu sinni sér til ráðgjafar um allt mögulegt sem viðkom stjórnun ríkisins. Menn eins og Jóhannes Kepler, Galileo, Nostradamus og fleiri fræðingar voru allir vinsælir stjörnuspekingar sem þjónuðu valdamiklum fjölskyldum. Engin mörk voru milli stjörnuspeki og stjörnufræði  enda  upplifðu menn sig einfaldlega sem órjúfanlegan hluta náttúrunnar.  Það átti hins vegar eftir að breytast.

Það var mikið áfall þegar stjörnuspekinni var hafnað úr samfélagi mannanna með tilkomu reynsluvísindanna. Eðli mannsins var(er) einfaldlega of flókið fyrir vísindin. Stjörnuspeki stóðst ekki kröfur vísindanna  og var tekin út af námskrá  háskólanna sem leiddi til dauða hennar – eða næstum því. Átjánda- og nítjánda öldin eru stundum kallaðar hinar „dauðu“ aldir stjörnuspekinnar. Þar sem stjörnuspekin fjallar um upplag og innsta eðli einstaklingsins er erfitt að setja algilda mælistiku á hana, eins og hin nýju vísindi kröfðust, því hún fjallar um flókna þætti sem hafa margar birtingamyndir og ráðast af ýmsum þáttum s.s. umhverfi, aðstæðum og þroskastigi  einstaklingsins. Kröfur  um rannsóknir, tilraunir og mælanlegar niðurstöður varð normið, en í stjörnuspekinni er fjallað um svið sem erfitt er að mæla og staðla.

Í raun og veru skildu leiðir manns og náttúru sem leiddi til þess að hann fjarlægðist uppruna sinn smátt og smátt þangað til hann var komin svo langt frá lögmálum náttúrunnar að hann var byrjaður  að skaða hana og um leið sjálfan sig.  Maðurinn og náttúran eru einfaldlega eitt og hið sama. Stjörnuspekin byggir á þeirri forsendu að lífið sé ein heild og það smáa endurspeglist í því stóra. Vissulega eru til ýmsar kenningar um hvers vegna stjörnuspekin virki, en ein sú viðteknasta er að það sem gerist á himnum endurspeglist á jörðu. Þess vegna getum við speglað okkur í plánetunum! Þegar ég er spurð um leyndardóminn bak við stjörnuspekina svara ég stundum til “hún virkar bara“ en að baki því svari liggur hins vegar margra ára rannsókn á raunverulegu fólki.

Stjörnuspekin lifði þetta áfall af en hefur  aldrei jafnað sig almennilega og alltaf ákveðin tortryggni  og útskúfun ríkjandi í hennar garð. Bretland var eina landið í Evrópu sem stunduð var stjörnuspeki  á 18. og 19 öld. Með áræðni og dugnaði tókst manni að nafni Alan Leo, oft kallaður faðir stjörnuspekinnar, að halda lífi í henni með því að tengja  andlegar kenningar guðspekinnar  og stjörnuspekinnar saman.  Hann skrifaði fjölda bóka  og stofnaði þrjú félög til styrktar stjörnuspekinni. Í upphafi 20.aldar óx stjörnuspekinni fiskur um hrygg, þótt upprisan hafi falið í sér nýjan tón. Sú tegund stjörnuspeki sem kom henni upp á yfirborðið og vakt athygli fjöldans var stjörnuspekidálkar dagblaðanna.  Stjörnuspekin á að vissu leyti líf sitt henni að launa þótt um leið hafi það skaðað orðspor hennar þar sem um mjög takmarkaða og almenna tegund stjörnuspeki er að ræða.

Stjörnuspekin á sér djúpar rætur í mannlífinu öllu og kvíslast í margar áttir eins og önnur fræði enda fjallar hún um flest er viðkemur mannlegu lífi. Ég lærði  sálfræði – stjörnuspeki, en þar mætast sálfræði og stjörnuspeki í alveg einstaklega frjósömum jarðvegi. Hún á rætur sínar að rekja til Carls Gustafs Jung sem var lærisveinn Freuds um tíma, en leiðir þeirra skildu vegna áhuga Jungs á óhefðbundnum leiðum innan sálfræðinnar. Á þeim tíma var stjörnuspeki tabú meðal menntastéttarinnar enda talin lítið annað en hindurvitni. Eftir dágóða rannsókn á stjörnuspekinni komst Jung hins vegar að þeirri niðurstöðu að hún væri afar gagnleg í vinnu hans sem sálgreinir og taldi hana ekki aðeins gefa óvenju góða innsýn í persónuleika skjólstæðinga sinna – jafnvel hluti sem hann hefði annars aldrei skilið fyllilega – heldur sparaði hún honum dýrmætan tíma. Jung sagði að með því að skoða stjörnukort skjólstæðinga sinna á einni kvöldstund fengi hann meiri upplýsingar um  þá heldur en á tveimur árum. Stjörnuspeki er því afar gjöful með öðrum greinum sem fjalla um manninn.

Sálfræði stjörnuspeki gefur óvenju djúpa innsýn í persónuleikann og  þá möguleika sem búa innra með manneskjunni.   Með stjörnukorti hefur maður í höndunum kortlagningu og lykil að leyndardómi persónuleikans og öðlast  innsýn í eðli, sögu og mögulega þroskaleið einstaklingsins. Stjörnukort er líkt og fingrafar. Eftir lestur hundruða korta síðast liðin 25 ár og ráðgjöf henni tengdri  er ég enn undrandi á hversu gagnlegt tæki þetta er til þess að skilja fólk og hjálpa því að skilja sig sjálft, möguleika sína jafn sem erfiðleika. Með stjörnukorti er til dæmis hægt að greina lesblindu hjá börnum og orsakir annarra djúpstæðra vandamála sem tengjast skóla. Sú hlið sem snýr að börnum er gefandi og einstaklega ánægjulegt að sjá foreldra öðlast nýja sýn á börnin sín.

Börn lifa og hrærast meira og minna í heimi fullorðna sem hefur oft lítið með þeirra þarfir og áhugamál að gera. Stjörnukort getur hjálpað foreldrum að staldra við og skoða og upplifa heim barna sinna á mjög áhrifaríkan hátt. Börn segja ekki alltaf það sem þeim liggur á hjarta og hvers þau þarfnast enda hafa þau oft ekki orð yfir það. Meirihluti þeirra sem koma til stjörnuspekings eru enn að kljást við fortíðina, það sem foreldrarnir gerðu þeim eða gerðu ekki eða hreinlega vissu ekki að þeir þörfnuðust, jafnvel þótt þeir gerðu sitt besta. Stjörnuspeki er alveg frábært hjálpartæki fyrir fullorðna og enn áhrifaríkari við að greina þarfir barna, viðkvæma og brothætta strengi og sérstaka hæfileika þeirra sem nauðsynlegt er fyrir foreldra að vera meðvitaða  um í uppeldinu til þess að hlúa að og rækta það besta sem í börnunum býr.

Höfundur: Bjarndis Arnardóttir er sálfræði-stjörnuspekingur, D.psych.astrol. og lærði í skóla í London sem heitir „The Centre for Psychological Astrology“. Þar opnaðist Bjarndísi undraheimur stjörnuspekinnar, þótt hún hefði lengi áður haft áhuga á henni og skoðað mannlífið með sjálfri sér út frá þessari fornu speki. Í þessum góða skóla breyttust hins vegar öll áform framtíðarinnar og hún gerði stjörnuspekina að starfi sínu.

Netfang:
bjarndisa@hotmail.com Sími: 6993691.



Flokkar:Fjölskylda og börn, Greinar

Flokkar/Tögg, , , , , , ,